Spjallað á netinu
Seinustu árin hefur Netið sífellt orðið stærri þáttur í daglegu lífi Íslendinga. Að flestra mati er það fyrir lifandis löngu orðinn ómissandi þáttur í verkum hvunndagsins. Sjálfur hef ég notað Netið með mjög öflugum hætti allt frá því að ég fékk mér fyrst tölvu. Ég hef alltaf hrifist af þessari tækni og verið virkur á þessu sviði. Ég hef verið með heimasíður á netinu í rúm fjögur ár og skrifað þar með mjög virkum hætti. Fyrst og fremst hef ég haft gaman af þessu og notið þess að rita þar pælingar mínar - kynna skoðanir mínar fyrir öðrum. Fullt af fólki hefur áhuga á að skoða og ekki kvarta ég yfir því að fólk vill kynnast skoðunum mínum. Þessi skrif hafa skipt mig miklu máli og ég hef í gegnum þessa þátttöku, bæði með beinni þátttöku í stjórnmálum og með skrifum um stjórnmál kynnst miklum fjölda fólks. Þau samskipti eru mikils virði.
Þeir sem hafa bloggsíður kynnast því hversu hratt netið vinnur og hversu auðvelt er þar hægt að tjá sig af krafti um málefni samtímans og skipta máli með því að tjá sig. Þetta er lifandi vettvangur sem margir nýta sér af krafti - er það vel að mínu mati. Einn þáttur þessa hefur birst í blómlegri þjóðmálaumræðu á flokkspólitískum vefsíðum og ennfremur fleiri stöðum þar sem málin eru rædd skorinort, af fólki sem vill tjá skoðanir sínar á málefnalegan hátt og tjá skoðanir sínar undir nafni. Spjallvefir hafa ennfremur orðið stór þáttur netsamskipta um helstu hitamál samtímans. Með þeim hefur oft skapast málefnaleg og góð umræða, t.d. um pólitík. Enginn vafi er á því að spjallvefir eru almennt skemmtilegt og nokkuð áhugavert tjáningarform þar sem gefinn er kostur á að tjá skoðanir og jafnframt ræða þær við annað fólk sem hefur ekki síður eitthvað til málanna að leggja.
Spjallvefir hafa verið að eflast mjög í gegnum seinustu fimm til sjö árin. Lengi vel var Innherjavefur Vísis aðalvettvangur þeirra sem vilja ræða um málefni samtímans en frá árinu 2003 hefur vefurinn málefnin.com verið þeirra vinsælastur. Þar safnast daglega saman fleiri tugir fólks til að ræða um allt frá harðri pólitík til slúðurs um fólk úti í bæ. Ekkert mannlegt virðist vera spjallvefunum og þátttakendum þar óviðkomandi. Meginpartur þeirra sem skrifa á þessum spjallvefum er nafnlaust fólk - fólk sem vill ekki láta nafns síns getið en skrifar undir dulnefni sem enginn getur rakið nema mögulega eigandi vefsins. Að undanförnu hafa spjallvefir þó fengið á sig sífellt neikvæðari merkingu. Nafnleyndin er í mörgum tilfellum skiljanleg að mínu mati - vilji fólk ekki þekkjast einhverra hluta vegna en jafnframt tjáð skoðanir sínar á málefnalegan hátt er það ekki óeðlilegt hlutskipti að velja sér.
En að mínu mati vill þó oft nafnleyndin snúast upp í að fólk noti hana til að vega að nafngreindu fólki með skítkasti og ómerkilegheitum og skrifa á ómálefnalegan hátt. Slíkur verknaður er eitthvað sem aldrei á að gera á opinberum vettvangi. Alveg sama hvort fólk skrifar undir nafnleynd eða kemur hreint fram undir eigin nafni skal standa vörð um málefnaleika og heiðarleg skrif í hvívetna. Leitt er frá því að segja að svo er það ekki alltaf, mýmörg dæmi eru fyrir því að fólk noti nafnleyndina til að vega úr launsátri að fólki og snúa umræðunni upp í hreina þvælu. Sjálfur hef ég haft gaman af að tjá mig á spjallvefum. Ég byrjaði á innherjavefnum árið 1999 og hef síðan verið mjög virkur að skrifa á spjallvefum. Hef ég þar ekki verið feiminn við að leggja nafn mitt við mínar skoðanir, enda þykir mér eðlilegt að ræða við annað fólk og koma með mitt sjónarhorn á helstu hitamál samtímans.
Hef ég fylgst með spjallvefum í öll þessi ár og því bæði verið virkur áhorfandi og beinn þátttakandi þar að. Hef ég á þessum tíma kynnst bæði góðu fólki sem vill tjá sig málefnalega hvort sem er undir nafnleynd eða undir nafni og hinsvegar öðru fólki sem misnotar nafnleyndina með allómerkilegum hætti. Hef ég óskað eftir málefnalegum umræðum og reynt eftir fremsta megni að sýna öllum sem þarna skrifa þá lágmarksvirðingu sem ég krefst að aðrir sýni mér. Eitt er að vera ósammála um málin en annað er að geta rætt málin með virðingu fyrir hvor öðrum og á málefnalegum forsendum. Því miður vill oft nokkuð mikið skorta á málefnalegar forsendur þessara spjallvefa og skítkast milli fólks vill oft ganga ansi langt. Þarf ég vart að benda daglegum áhorfendum þessara vefa á þetta allt, enda hafa þeir sem eitthvað hafa fylgst með séð mörg dæmi slíks að fólk gangi alltof langt í skítkastinu undir nafnleynd.
Að mínu mati er nafnleyndin verulega oft misnotuð á nokkuð áberandi hátt á slíkum spjallvefum og sumir geta ekki rætt málefnalega á þeim forsendum að vera nafnlausir. Svo einfalt er það. Óneitanlega er gaman af því að fylgjast með stjórnmálum, sjálfur hef ég skrifað á svona vefi og rabbað við aðra vegna þess áhuga. En það er skuggahlið á þessum efnum og á það verður að benda. Nafnleyndin er oft misnotuð með áberandi hætti og með því fellur skuggi líka á þá sem eru þar á heiðarlegum forsendum jafnt sem þá sem óorðinu valda. Því miður eru vefirnir alltof mikið dæmdir eftir svörtu sauðunum sem þarna dvelja. Er það miður. Seinustu daga höfum við tekið eftir nýjustu umræðunni um Málefnavefinn. Eigandinn treysti sér ekki til að verja það efni sem einn setti inn og lokaði vefnum vegna þess. Hann vildi ekki bera hina lagalegu ábyrgð.
Ég tel að alltof lengi hafi vafi leikið á því hver taki ábyrgð á skrifum nafnleysingja. Það sjá allir að sumt nafnlaust fólk sem birtir skoðanir á vefunum gerir það til að þekkjast ekki og notar það tækifæri til að vega að öðru fólki á ómerkilegan hátt. Það þarf að komast á hreint endanlega hver ber hina endanlegu ábyrgð á skrifum þeirra sem þannig haga sér. Jafn nauðsynleg og beinskeytt þjóðmálaumræða er á Netinu, er sorglegt að sjá suma notendur þessara vefa sem ráða ekki við ábyrgðina sem fylgir tjáningarforminu. Annað er að tjá sig undir nafni og taka fulla ábyrgð á skoðunum sínum og hinsvegar það að beina spjótum í allar áttir með níðskrif um annað fólk undir nafnleynd. Það á að vera sjálfsögð krafa að fólk með skoðanir tjái þær undir nafni eða leggi á þær áherslu með þeim hætti. Nafnleyndin vill oft verða skref til að vega að öðrum og sumir ganga of langt.
Það er einfaldlega hámark aumingjaskaparins að níða skóinn af samborgurum sínum með ómálefnalegum hætti undir nafnleynd á þessum vefum og þarf að komast á hreint hvar ábyrgð á slíku liggur.
Saga dagsins
1700 Tugir fiskibáta fórust í gríðarlegu stormviðri við Reykjanesskaga - alls 136 manns drukknuðu.
1843 Alþingi Íslendinga var formlega endurreist með tilskipun konungs - kom saman 1. júlí 1845.
1868 Jón Thoroddsen sýslumaður og skáld lést, 49 ára að aldri - hann varð þekktur fyrir skáldsögur og kvæði. Jón ritaði fyrstu skáldsögu Íslendinga, Piltur og stúlka, sem þykir meistaraverk enn í dag.
1975 Kvikmyndaleikstjórinn George Stevens lést, sjötugur að aldri - Stevens var einn af svipmestu kvikmyndaleikstjórum 20. aldarinnar í Bandaríkjunum og gerði margar af eftirminnilegustu kvikmyndunum í gullaldarsögu Hollywood. Stevens hlaut óskarsverðlaun fyrir leikstjórn sína í stórmyndinni ódauðlegu Giant árið 1956.
1983 Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna, kallar Sovétríkin veldi hins illa í víðfrægri ræðu í Flórída.
Snjallyrðið
Look at a day when you are supremely satisfied at the end. It's not a day when you lounge around doing nothing; its when you had everything to do, and you've done it.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)
<< Heim