Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 apríl 2006

Fyrsta páskapredikun Benedikts XVI

Benedikt XVI páfi

Um þessar mundir er ár liðið frá því að Joseph Ratzinger var kjörinn páfi. Hann tók sér páfaheitið Benedikt og er sá sextándi í röðinni. Í dag var komið að fyrstu predikun páfa á páskum. Um síðustu páska í mars 2005 fylgdist öll heimsbyggðin með veikindastríði forvera hans, en hann lést tæpri viku eftir páska. Nú var komið að því að eftirmaður hans talaði til mannfjöldans. Engum að óvörum heldur hann í hefðir og skoðanir forverans. Hann er friðarins maður og talar fyrir alheimsfriði með sama krafti og Jóhannes Páll II páfi. Í páskapredikuninni kallaði páfinn eftir friðsamlegri lausn á deilunni um kjarnorkuáætlun Írans. Hvatti hann alþjóðasamfélagið til að vinna að stofnun sjálfstæðs og fullvalda ríkis Palestínumanna en varði líka tilverurétt Ísraelsríkis. Var ánægjulegt að heyra heilsteyptan og góðan friðarboðskap páfans.

Benedikt XVI tók við páfaembætti af einum litríkasta trúarleiðtoga 20. aldarinnar, Jóhannesi Páli II páfa. Hann sat á páfastóli í tæp 27 ár, var kjörinn til páfasetu þann 16. október 1978 og tók við embætti af Jóhannesi Páli I sem aðeins sat á páfastóli í rúman mánuð, 33 daga. Jóhannes Páll páfi II sat lengst allra páfa á 20. öld og einungis tveir páfar sátu lengur á páfastóli en hann, Pius IX og St. Peter. Hann gaf út fleiri grundvallaryfirlýsingar og tilskipanir innan kirkjunnar en áður hafði þekkst og tók 482 menn í dýrlingatölu sem er meira en allir forverar hans hafa gert í 400 ár. Hann hafði því gríðarleg áhrif í sögu kaþólsku kirkjunnar og var einn svipmesti trúarleiðtogi síðustu aldar. Segja má með sanni að hann hafi líka verið fyrsti "fjölmiðlapáfinn".

Benedikt er eitt af vinsælustu páfaheitunum. Síðasti páfinn með þessu nafni, Benedikt XV, sat á páfastóli 1914-1922. Hann var mjög frjálslyndur og því þótti mörgum valið koma á óvart í tilfelli Ratzinger sem þekktur hefur verið fyrir að vera mjög íhaldssamur. Á það ber þó að minnast að fyrsti páfinn með nafninu var mjög íhaldssamur ennfremur. Er talið að með nafnavalinu hafi Ratzinger verið að skírskota til hins fyrsta Benedikts umfram allt. Benedikt XVI er 265. páfinn í sögu kirkjunnar og er sá fyrsti sem hlýtur kjör í embættið á hinu þriðja árþúsundi. Nærri því þúsund ár eru liðin frá því að kirkjan hafði síðast þýskan mann sem sinn æðsta trúarlega leiðtoga. Það var Viktor II sem sat á páfastóli 1055-1057. Forveri Benedikts XVI var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var Ítali. Það kom þægilega á óvart að eftirmaður hans hafi ekki heldur verið Ítali, heldur hafi Þjóðverji orðið páfi í fyrsta skipti í tæp 1000 ár.

Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með því hvernig að Benedikt XVI hefur höndlað embættið og þróað það í takt við sjálfan sig - en hefur samt sem áður verið fyrirsjáanlegt. Hann heldur í hefðir og venjur forvera hans. Hann situr í skugga hans. Jóhannes Páll II var einn öflugasti trúarleiðtogi kaþólikka - víðförull og áberandi páfi, sennilega fyrsti fjölmiðlapáfinn. Er greinilegt að nýjum páfa er annt um að eiga góð samskipti við fjölmiðla og hefur hann nokkrum sinnum boðið þeim til sín í Páfagarð og haldið blaðamannafund og messað með sama opinbera hættinum og forverinn í kastljósi fjölmiðlanna. Er ljóst að hann fetar mjög í fótspor forverans, sem þótti mjög fjölmiðlavænn páfi. Hefur hann staðið vörð um arfleifð hans sem trúarleiðtoga og mikils höfðingja kaþólsku kirkjunnar. Hefur hann nú hafið ferlið fyrir því að hann verði tekinn í tölu heilagra manna og svarað þar með kalli fjöldans er Jóhannes Páll II lést.

Jóhannes Páll II var einn af helstu merkismönnum 20. aldarinnar. Hann var boðberi friðar, ötull talsmaður friðarboðskapar og hans framlag skipti sköpum er kom að endalokum kommúnismans og grimmilegs einræðis sem predikað var í nafni hans. Forysta hans í friðarmálum var mikils metin - rödd hans var öflug á því sviði og það leikur enginn vafi á því að hann hafði mikil áhrif. Hann var sannkallaður áhrifamaður á samtíð sína og alla framtíð, bæði kristinnar trúar og þess embættis sem hann gegndi af trúmennsku og mikilli samviskusemi í þrjá áratugi.

Alltaf varð ljóst að eftirmaður hans myndi glíma við það að sitja í skugga forverans. Það má fullyrða að svo hafi verið í tilfelli Benedikts XVI og ennfremur að sá sem tekur við af honum taki við öðruvísi embætti en Joseph Ratzinger tók við í apríl 2005 er Jóhannes Páll II skildi við eftir litríkan og langan feril. Það sést vel að Benedikt XVI páfi heldur í hefðir og skoðanir forverans með áberandi hætti.

SFS fjallar um Benedikt XVI páfa - 14. janúar 2006