Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 apríl 2006

Á páskadegi

Akureyrarkirkja

Það er ekki laust við að pólitíkin sé fjarri okkur öllum á þessum helga degi, einum helgasta degi kristinna manna. Páskadagur er í mínum huga heilagur dagur og tími íhugunar um ýmis málefni. Páskahelgin og hátíðin sem henni fylgir er sá tími ársins sem er hvað bestur til að slappa af og íhuga málin og hafa það gott og sinna sínum innri manni. Það var falleg birta yfir Eyjafirðinum og bænum okkar þegar ég fór á fætur í morgun og hélt í göngutúr um bæinn og naut kyrrðarinnar á þessum helga degi. Það var mikil ró og fallegur blær úti. Samkvæmt venju fór ég í messu í Akureyrarkirkju á páskadagsmorgni. Var athöfnin falleg og talaði sr. Óskar Hafsteinn mjög fallega um styrk hátíðarinnar og upprisu Krists og ekki síður um stöðu þjóðkirkjunnar í mannlífinu.

Voru við messuna fluttir fallegir hátíðarsálmar sr. Bjarna Þorsteinssonar sem alltaf eiga vel við og setja sterkan svip á hátíðina. Kór Akureyrarkirkju leiddi sönginn og ennfremur söng Björg Þórhallsdóttir fallega og af miklum krafti. Björg er stórfengleg söngkona, en hún er dóttir séra Þórhalls Höskuldssonar, sem var sóknarprestur hér í kirkjunni allt frá 1982 þar til að hann varð bráðkvaddur, langt fyrir aldur fram, haustið 1995. Þetta var notaleg stund í kirkjunni okkar, eins og venjulega á páskadagsmorgni. Mín fjölskylda hefur alla tíð verið mjög trúuð og ég hef sótt styrk í trúnni. Kristin trú hefur alla tíð verið í mínum huga eitthvað sem hverri manneskju er nauðsynleg. Það hefur alla tíð verið mín sannfæring að trúin hafi oft hjálpað mínu fólki og haft mikið að segja.

Það er reyndar svo að sumir sem ég þekkja mig urðu nokkuð hissa þegar að ég ákvað að gefa kost á mér til stjórnarsetu í SARK, Samtökum um aðskilnað ríkis og kirkju, og náði kjöri þar í stjórn. Mín skoðun hefur þó lengi verið sú að rjúfa skuli á tengslin milli ríkis og kirkju. Það er ekki sagt vegna þess að ég sé trúlaus eða hafi ekki tekið þátt í starfi kirkjunnar eða sýnt því áhugaleysi - öðru nær. Það er hverri manneskju að ég tel mikilvægt að vera trúuð og sækja kirkju og taka þátt í kristnu starfi. En það er þó ekki þarmeð sagt að ríkið eigi að reka kirkju eða taka þátt í þessu með þeim hætti sem verið hefur. Það er mikilvægt að skilja þarna á milli.

Þó svo færi að breytingar yrðu á kirkjunni með þeim hætti sem um ræðir, halda landsmenn fast við sína trú og fara í kirkju til að heyra guðsorð eða taka þátt í starfi innan sinnar trúhreyfingar. Þrátt fyrir að ég sé kristinn er það mín sannfæring að mikilvægt sé að öll trúfélög standi jöfn að þessu leyti. Það er á okkar dögum gríðarlega mikilvægt. Með því er í mínum huga hægt að vinna að því að efla enn frekar trúna og trúarbrögð í nafni þeirrar trúar sem viðkomandi einstaklingu velur sér. Það ætti að mínu mati að vera forgangsverkefni kirkjunnar að taka á þessum málum og leita eftir því við ríkið að hafinn verði undirbúningur að þessum breytingum og uppstokkun með viðeigandi hætti.

Kristin trú getur alveg staðið jafnfætis öðrum trúarbrögðum og engin þörf á að ríkið sé áfram í þessu með þessum hætti. Það er enda öllum mikilvægt að mínu mati að sækja kirkju og taka þátt í kristnu starfi. Það er bæði styrkur og afl á erfiðum tímum og ekki síður ánægjulegum í lífi manns.

Ég vil óska lesendum öllum gleðilegra páska og vona að þeir hafi það gott um hátíðirnar!