Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

15 apríl 2006

Mikilvægi netskrifa - höfðað til ungs fólks

Unnið á lappa
Það er margsannað að rödd eins manns sem berst eftir slóðum Internetsins á bloggvefi og heimasíðu geti orðið áhrifameiri en þess sem stendur í þingsal. Fjölmiðlun er orðin svo fersk og áleitin að Netið er orðinn ráðandi aðili á markaðnum. Prentmiðlarnir eru hægt og rólega að hverfa sjónum, enda er Netið svo margfalt öflugra og skilvirkara en það sem stendur á prenti í blöðum. Það hefur enda sannast vel að lestur á dagblöðum minnkar sífellt. Yngri kynslóðir fara í gegnum daginn með því að sækja sér fréttir á netinu og skrifar um fréttirnar sjálft á netinu, heima eða í vinnu.

Þessi tilvera er orðin svo ljúf og létt að hver og einn getur nefnilega skipt máli í umræðunni með því að láta rödd sína heyrast á þessum vettvangi. Fólk les dagblöð í æ minna mæli. Það er enda svo að prentmiðill getur aldrei keppt við netmiðil um ferskleika og áhrifamátt. Að mörgu leyti getur fólk orðið áhrifameira í pólitík með því að tala af krafti um pólitík á eigin forsendum á eigin vef heldur en að standa í pólitísku þjarki sjálft. Það er enda svo að vel við haldin heimasíða getur verið lífleg og kraftmikil og markað sér mikil áhrif. Ég tel að yngra fólk geti skipt máli með slíkum skrifum.

Þetta þekki ég vel sjálfur. Ég hef notað mér netið sjálfur í þónokkur ár og skrifað þar af áhuga og með metnað að leiðarljósi, metnað um að sýna að ég hafi áhuga á málefnum samtímans og áhuga á því að tala um þau af miklum krafti. Ég hef bæði verið á fullu í pólitísku starfi innan stjórnmálaflokks og verið á fullu á netinu og skrifað þar af áhuga og ástríðu. Pólitík er eitthvað sem ég hef notið að fjalla um lengi. Ég gaman af að kryfja málin með mínum hætti og skrifa á eigin forsendum um það sem ég vil tala um. Það jafnast ekkert á við það að eiga einn vettvang algjörlega einn og ráða honum sjálfum.

Þegar að ég er spurður almennt um það hvernig framboð geti höfðað til ungs fólks verður svar mitt að því verði að treysta til verka - því verði að treysta til áhrifa. Finni ungt fólk fyrir höfnun og því að verk þeirra og skoðanir séu ekki virtar sortnar fljótt yfir að mínu mati. Ungt fólk er ekki heimskt fólk sem bítur á hvaða öngul sem er. Það verður bæði að finna sig á vettvangnum og meta það andrúmsloft sem blasir við. Það þýðir ekkert að eyða fullt af peningum fyrir kosningar til að höfða til ungs fólks ef valtað er yfir skoðanir þeirra.

Það er og hefur alla tíð verið mitt mat. Ein leiðin til að ná árangri og vera virkt í að taka af skarið er að skrifa á eigin vefi - tala óhikað um skoðanir sínar. Þar getur ungt fólk skipt máli og verið það sjálft. Það er mín reynsla að slík skrif séu lykilatriði í að skipta máli. Starf innan flokka er líka mjög gott en andrúmsloftið sem mætir því ræður úrslitum um hvernig fólki gengur að höfða til ungs fólks.