Vandræðagangur Samfylkingarinnar í Reykjavík
Það er öllum ljóst að 12 ára valdatíð R-listans lýkur í vor en menn deila um hvað taki við að kosningum loknum. Ef marka má kannanir mælist Sjálfstæðisflokkurinn með meirihlutafylgi og rokkar á milli þess að hafa átta og níu borgarfulltrúa. Samfylking mælist svo næsthæst en samstarfsflokkar hennar innan R-listans skrapa botninn: VG mælist þó inni á meðan að Framsókn virðist heillum horfin. Það hljóta að vera vonbrigði fyrir VG og Framsókn hversu dræmt þau mælast eftir samstarfið við Samfylkinguna sem virðist hafa tekið meginþorra gamla R-listafylgisins, sem þó virðist á allnokkru flökti. Það blasir við öllum sem sjá kannanir í borginni að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur yfirburða. Haldi sjálfstæðismenn í borginni rétt á málum og vinni baráttuna af krafti næstu átta vikurnar sem framundan eru til kosninga munu þeir uppskera vel. Það er enginn vafi að það háir vinstriframboðunum að hafa skugga R-listans á eftir sér.
R-listinn hefur runnið sitt skeið og það hafa líka margir úreltir stjórnmálamenn sem þar enn sitja í nafni listans og eru að verja erfið mál. Enginn vafi er á því að lóðaklúðrið við Úlfarsvatn hefur skaðað vinstriflokkana. Það var enda besta dæmi klúðursins að Dagur B. Eggertsson vildi ekki ræða málið í debatt á sjónvarpsstöðvum við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson leiðtoga D-listans. Það hefur svo verið merkilegt að sjá Samfylkinguna eftir prófkjör flokksins í febrúar. Þar sigraði Dagur B. sem verið hafði óháður borgarfulltrúi á R-listanum þau Steinunni Valdísi Óskarsdóttur borgarstjóra, og Stefán Jón Hafstein leiðtoga Samfylkingarinnar innan R-listans með yfirburðum. Ekki komu þó femínistarnir í Samfylkingunni með rauðsokkuna Ingibjörgu Sólrúnu í fararbroddi hlaupandi fram býsnandi sér yfir því að konu á borgarstjóraferli yrði hafnað með þessum hætti. O nei þær voru víst margar hverjar, konurnar í kringum ISG, að styðja Dag gegn Steinunni. Já, það er víst margt skondið í henni veröld.
Sá eini sem virtist reiður en brosti í gegnum tárin var Stefán Jón sem tapaði leiðtogastólnum og varð þriðji - gremja hans varð öllum sýnileg sem með fréttum fylgdust. Til að kóróna yfirtöku óháðra á Samfylkingunni varð Björk Vilhelmsdóttir, flóttakona frá VG, í fjórða sætinu. Segja má því að framboð Samfylkingarinnar í vor verði einskonar smotterísútgáfa af R-listanum sáluga - enda þarna fulltrúar ólíkra villuráfandi stjórnmálamanna sem flýja sökkvandi skip R-listans sem geispaði golunni í fyrrasumar. Eins og flestir vita er R-listinn nú talinn minnst aðlaðandi pólitíska vörumerkið um þessar mundir. Er það ekki furða í ljósi þess hversu viðskilnaður R-listans sáluga við borgina er, nú þegar valdaferlinum er að ljúka. Þar er allt í kaldakoli og látið reka á reiðanum. Reyndar er nú sú sérkennilega staða komin upp að borgarstjórinn í Reykjavík hefur verið pólitískt aftengd. Hún mun vissulega sitja til vors og gegna sínum störfum út kjörtímabilið en auðvitað ekki lengur.
Eins og allir vita sem fylgst hafa með borgarmálum hefur R-listinn dregið lappirnar hvað varðar Sundabraut. Talað hefur verið út og suður og í allar aðrar mögulegar áttir um brautina og hvar hún eigi að vera staðsett. Virðist enn vera á reiki hvað þessi villuráfandi meirihluti vill gera. Reyndar var það nú svo að nokkuð löngu áður en Ingibjörgu Sólrúnu var sparkað af borgarstjórastóli að hún talaði fyrir því að Sundabraut yrði komin í markvisst ferli fljótlega. Ingibjörg Sólrún er svo sannarlega löngu farin af borgarstjórastóli og tveir komið í hennar stað og ekkert vitað með stöðu mála nema þá það að meirihlutaflokkarnir eru ósammála. Það er svo sannarlega með ólíkindum að sjá nú seinustu vikurnar Samfylkinguna gera Sundabrautina að kosningamáli nú undir forystu Dags B. á þeim forsendum að hún verði tvær akreinar en ekki fjórar eins og allir viti bornir menn hafa talið. Virðist þetta tal Dags falla lítt í kramið innan samstarfsmanna hjá R-listanum sáluga.
Það er með ólíkindum að heyra stefnuflöktið í Degi B. Eggertssyni hvað varðar Sundabrautina. Er hann nú að reyna allt til að koma standandi frá því tali sínu að hafa hana með tveim akstursbrautum en ekki fjórum eins og almennt hefur verið talað um. Það var t.d. mjög kostulegt að sjá hann boða til borgarafundar til að reyna að útskýra sínar hugmyndir, eins og það var orðað. Sýnt var frá fundinum í beinni á NFS-fréttastöðinni og greinilegt á öllu að þar átti að tala og tala með fagurgalabrag til að reyna að koma standandi frá klúðrinu. Fulltrúar íbúasamtaka komu fram með ályktun af sinni hálfu sem voru sem köld vatnsgusa framan í formann skipulagsnefndarinnar. Það er ekki furða að Samfylkingin reyni allt sem hún geti þessa dagana að bjarga sér frá þessu klúðri leiðtoga síns. Merkilegt hefur verið að hvorki borgarstjórinn í Reykjavík eða fráfarandi leiðtogi Samfylkingarinnar hafa tjáð sig með neinum hætti um tal Dags.
Það er engin furða miðað við þetta stefnuflökt Samfylkingarinnar að sjá í könnunum að borgarbúar hafa fengið nóg af vinstristjórn í borginni. Er það vel. Það er vonandi að borgarbúar tjái þá andstöðu af krafti þann 27. maí nk. Ef marka má nýjustu kannanir verður sigur Sjálfstæðisflokksins staðreynd í lok næsta mánaðar - þá fær borgin loksins sterka og samhenta stjórn - stjórn sem tekur á málum eftir ráðleysi vinstrimanna seinustu árin. Í grunninn séð verður enda kosið um það í Reykjavík hvort að borgarbúar vilja marka nýja sýn til framtíðar og kjósa öfluga forystu í borgarmálunum - fá betri borg - eftir veiklulega forystu hins fallna R-lista. Grunnpunktur sjálfstæðismanna verður að benda á ferska sýn til framtíðar og öflugt fólk sem sé tilbúið til að leiða af krafti þau mál sem setið hafa á hakanum hjá R-listanum.
Ef marka má kannanir vilja borgarbúar þá breytingu. Það er auðvitað mikið fagnaðarefni. Nú er mikilvægt að tryggt verði að sigur Sjálfstæðisflokksins í lok næsta mánaðar verði eins glæsilegur og mögulegt má vera - með því verður vinstriöflunum sem ráðið hafa í borginni í tólf ár komið frá völdum með myndarlegum og öflugum hætti.
Saga dagsins
1882 Bergur Thorberg landshöfðingi, tilkynnir um stofnun sameiginlegrar geymslu fyrir skjalasöfn æðstu embætti Íslendinga. Með þessari ákvörðun var lagður grunnurinn að Þjóðskjalasafni Íslands.
1975 Bobby Fischer heimsmeistari í skák, sviptur titlinum í kjölfar þess að hann tilkynnti að hann myndi ekki keppa um hann við Anatoly Karpov á forsendum FIDE - Fischer varð heimsmeistari árið 1972 í kjölfar sögulegs skákeinvígis við Boris Spassky í Reykjavík. Fischer sneri aftur og keppti við Spassky í Júgóslavíu 1992 til að minnast hins sögulega einvígis í Reykjavík. Með því að keppa þar braut Fischer gegn viðskiptabanni Bandaríkjanna á hendur Júgóslavíu og var hann á flótta undan bandarískum yfirvöldum í 12 ár. Hann var handtekinn í Japan árið 2004, vegna þess að hann hafði ekki gild skilríki. Íslensk stjórnvöld björguðu Fischer úr vandræðum sínum með því að gera hann að íslenskum ríkisborgara í mars 2005. Kom hann til landsins eftir langa ferð frá Japan þann 24. mars 2005 og hefur síðan búið hér á Íslandi.
1978 Leikkonan Diane Keaton hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Annie Hall í samnefndri kvikmynd meistara Woody Allen - Keaton er ein af bestu leikkonum sinnar kynslóðar og hefur hún átt margar góðar leikframmistöður á ferlinum og þykir jafnvíg á bæði dramatísk og gamansöm hlutverk.
1984 Hundahald leyft að nýju í Reykjavíkurborg með ströngum skilyrðum.
2001 Grænmetisskýrslan kynnt - innflytjendur grænmetis og ávaxta voru sektaðir um 105 milljónir króna fyrir samráð um verðlagningu.
Snjallyrðið
When freedom does not have a purpose, when it does not wish to know anything about the rule of law engraved in the hearts of men and women, when it does not listen to the voice of conscience, it turns against humanity and society.
Jóhannes Páll II páfi trúarleiðtogi kaþólskra (1920-2005)
<< Heim