Beðið eftir Siv
Eftir tíu daga verður nýr formaður Framsóknarflokksins kjörinn á flokksþingi á Hótel Loftleiðum í Reykjavík. Þá lýkur tólf ára litríkum formannsferli Halldórs Ásgrímssonar, sem hefur setið á Alþingi í yfir þrjá áratugi, var ráðherra nær samfellt í tvo áratugi og hefur verið formaður eða varaformaður flokksins í 26 ár. Litríkum stjórnmálaferli er að ljúka en við Framsóknarflokknum blasir ný framtíð undir forystu þess sem verður kjörinn í stað Halldórs Ásgrímssonar. Eins og ég greindi frá á vef mínum fyrir nokkrum dögum hefur aðeins Jón Sigurðsson, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, boðað alvöru formannsframboð og eins og horfir nú tíu dögum fyrir flokksþingið virðist hann hafa mjög góða stöðu. En mjög deildar skoðanir virðast uppi um Jón og margir hafa undrast gamaldags framkomu hans í sjónvarpsviðtölum seinustu vikurnar.
Í sumarbyrjun hefði fáum órað fyrir eða látið sér detta í hug að segja það opinberlega að seðlabankastjórinn Jón Sigurðsson yrði jafnvel eftirmaður Halldórs á formannsstóli og eða að hann yrði ráðherra í ríkisstjórn Íslands. En sú varð raunin og nú stefnir allt í að hann verði formaður þessa gamalgróna stjórnmálaflokks sem fagnar 90 ára afmæli sínu á þessu ári. Enn bíða stjórnmálaáhugamenn eftir ákvörðun Sivjar Friðleifsdóttur. Núna þegar að örfáir dagar eru til formannskjörs hefur hún ekki tekið endanlega ákvörðun um hvert hún stefni. Ákvörðun hennar mun hafa lykiláhrif á það í hvaða átt stjórnmálaferill hennar mun þróast. Hún hefur leitast eftir því að vera í forystu jafnréttisumræðu flokksins og hlýtur að vilja marka sér sess sem lykilforystukona flokksins við þau forystuskipti sem við blasa nú.
Í dag ritar Óskar Bergsson, varaborgarfulltrúi, grein í Fréttablaðið. Þar skorar hann á Siv Friðleifsdóttur að gefa kost á sér til formennsku í Framsóknarflokknum og rekur feril hennar og afrek í stjórnmálum. Athygli vekur að hann lýsir þeim tímapunkti að hún missti ráðherrastól sinn í ráðherrahrókeringum haustið 2004 er Halldór Ásgrímsson varð forsætisráðherra sem örlagaatburði í þeirri óheillasögu sem yfir flokkinn hefur dunið. Með því er varaborgarfulltrúinn ennfremur að segja að Halldór hafi keypt forsætisráðherrastólinn dýru verði og ein mestu pólitísku mistök flokksformannsins og forsætisráðherrans fyrrverandi hafi verið að skipta Siv Friðleifsdóttur út af taflborði flokksins í ríkisstjórn. Það eru merkileg orð og jafnvel eru þau sögð að sönnu, enda hefur flokkurinn verið í öldudal alla tíð síðan.
Nú bíða framsóknarmenn eftir því hvort alvöru átök verði um formennsku Framsóknarflokksins við þau þáttaskil að Halldór Ásgrímsson yfirgefur hið pólitíska svið. Siv Friðleifsdóttir er sú eina sem úr þessu getur veitt Jóni Sigurðssyni einhverja alvöru keppni um formannsstólinn. Siv hefur verið ráðherra nær samfellt frá árinu 1999 og verið alþingismaður af hálfu hans frá árinu 1995. Ef marka má þessa grein er mikið þrýst á Siv að fara í framboð og væntanlega er líklegra en ekki að hún láti slag standa.
Fari svo að Siv skelli sér í formannsframboð verður alvörubarátta um það hver muni leiða Framsóknarflokkinn inn í væntanlegan kosningavetur og í þá kosningabaráttu sem framundan er, en í þeirri baráttu gætu örlög flokksins ráðist og hvort honum tekst að rífa sig upp úr þeirri lægð sem hann hefur verið mjög lengi.
<< Heim