Atvinnumótmælendur grípa í síðustu hálmstráin
Það hefur varla farið framhjá neinum að undanfarnar vikur hafa umhverfissinnaðir atvinnumótmælendur verið við Kárahnjúka á Austurlandi og mótmælt þar væntanlegri virkjun á Kárahnjúkum og álveri við Reyðarfjörð. Framan af voru þessi mótmæli friðsamleg og gengu eðlilega fyrir sig. Fólk kom vissulega á framfæri skoðunum sínum og það með hófsömum hætti að mestu leyti. Það er eðli þjóðmálaumræðu að uppi séu ólíkar skoðanir og ólík sýn meðal fólks á hitamál samtímans - eins og flestir vita er þetta eitt mesta hitamál hérlendis á seinustu árum. En fullyrða má að vinnubrögð atvinnumótmælendanna seinustu daga hafi farið yfir strikið. Mótmælendur hafa að undanförnu hlekkjað sig við vinnuvélar, málað ókvæðisorð á vélar, skilti og á ýmsa hluti á svæðinu og ennfremur verið með óásættanlega framkomu við starfsfólk þarna.
Lögreglan greip í kjölfar þessara síendurtekinna afskipta af framkvæmdum til sinna ráða og lét fjarlægja búðir mótmælenda. Minnir staðan að þessu sinni hjá mótmælendunum á það sem gerðist á sömu slóðum fyrir ári. Um það og tengd mál skrifaði ég ítarlegan pistil á vefritið íhald.is fyrir nákvæmlega ári. Þær skoðanir sem ég lét þar í ljósi eru óbreyttar og ég er sama sinnis um þessi mótmæli, sem áttu að vera friðsamleg en gengu að lokum yfir allt sem eðlilegt telst. Eftir stendur enn og aftur sú staðreynd að lögregla á að grípa til sinna ráða þegar að mótmælendur vaða sífellt og æ ofan í æ inn í þá stöðu að atvinnumótmælendur haldi í algjöru leyfisleysi inn á vinnusvæði og hindri með því störf þeirra einstaklinga sem bæði eru í fullum rétti við að vinna sína vinnu og eru þar aðeins í þeim tilgangi að starfa við löglegar framkvæmdir.
Eins og fyrr segir eru framkvæmdir við virkjun og álver á Austurlandi umdeildar. Eftir stendur þó sú veigamikla staðreynd að þær eru fullkomlega löglegar og hafa hlotið sína staðfestingu. Alþingi Íslendinga samþykkti með afgerandi meirihluta allar framkvæmdir sem þar eiga sér stað og þær eru fullkomlega löglegar eins og fyrr segir. Lýðræðislega kjörinn meirihluti þjóðþingsins okkar staðfesti allt ferlið og það er því mjög ankanalegt að sjá mótmælendur að reyna að koma í veg fyrir framkvæmdirnar. Andstæðingar álvers og virkjunar fyrir austan hafa verið mjög áberandi við að tjá skoðanir sínar og hafa bæði fengið tækifæri og lýðræðislegar leiðir til að tjá skoðanir sínar. Málið hefur hlotið endanlega staðfestingu og það er ekkert eftir að deila um - þeirra sjónarmið urðu undir. Þessar framkvæmdir eru staðreynd sem engu fær breytt.
Ég lít svo á að lögreglan fyrir austan sé að vinna sína vinnu. Sýslumaður fyrirskipaði að búðirnar skyldu fjarlægðar og því var framfylgt á grundvelli 15. greinar lögreglulaga frá árinu 1996. Það er vonlaust fyrir okkur áhorfendur að ætla að úthrópa lögregluna fyrir að vinna sitt verk. Það fólk sem er að tjá þau sjónarmið sem fyrir löngu urðu undir bæði í samfélaginu og á Alþingi Íslendinga verða að sætta sig við stöðu mála. Löglegar framkvæmdir verða að hafa sinn gang. Það er mjög einfalt mál. Mér finnst kostulegt að fylgjast með því unga fólki sem mótmælir fyrir austan og spyr mig hreinlega að því hvort það hafi ekkert annað þarfara að gera en að reyna að hindra löglegar framkvæmdir. Kostulegast af öllu er þó að sjá Ragnar Aðalsteinsson reyna að gera sig breiðan í einhliða fjölmiðlablaðri byggt á orðum þeirra sem fyrir austan voru.
Það á ekki að vera líðandi að eignir fyrirtækja eða mannvirki á Austfjörðum verði fyrir skemmdum, ráðist sé að þeim sem þarna vinna og ráðist að lífsafkomu verktaka sem aðeins eru að vinna sína vinnu. Um er að ræða löglegar framkvæmdir fyrirtækjanna sem eru að vinna að þessu verkefni fyrir austan og taka verður á því með hörku ef mótmælendurnir fara yfir strikið. Kostulegast af öllu er að þetta fólk sé að mótmæla orðnum hlut og framkvæmdum sem hafa staðið í þrjú ár. En já það er margt undarlegra í henni veröld en hvað annað.
<< Heim