Fólksfjöldamet slegið á Akureyri
Fólksfjöldamet á Akureyri hefur verið slegið nú um helgina á útihátíðinni Ein með öllu, sem haldin er hér í bænum nú um verslunarmannahelgina. Það er alveg óhætt að segja að mikið fjör hafi verið hér um helgina og við varla séð annað eins. Tæplega 17.000 manns búa hér á Akureyri en vel rúmlega sá fjöldi hefur verið hér um helgina að auki og því hefur fjöldinn í bænum rúmlega tvöfaldast. Óhjákvæmilegt er að slíkum fjölda á þessari helgi fylgi óregla, drykkja og villilíferni. Finnst mér reyndar það meira þetta árið en sum hin fyrri. Það er enda alveg augljóst að erfitt er að hafa stjórn á öllum þessum fjölda og varla hlaupið að því. Mun staða mála eftir helgina leiða til þess að menn fara yfir hátíðina og endurskilgreina hana og ekki veitti af því að stokka upp ýmsa gjaldaliði hennar eitthvað.
Utan fyllerís og frétta af þeirri óreglu allri er allt gott að frétta héðan. Allt virðist hafa að mestu farið vel fram ef litið er framhjá unglingadrykkju og líkamsárásum. Ég var í bænum allt föstudagskvöldið og skemmti mér langt fram á nótt. Var mikil stemmning á miðbæjarsvæðinu og man ég ekki annan eins mannfjölda og þá var saman kominn á svæðinu milli Sjallans og Hótels KEA. Hitti ég mikinn fjölda af góðu fólki og hingað heim hefur komið mikill fjöldi ættingja og vina. Þetta hefur því hvað mig varðar verið virkilega góð helgi og kvarta ég ekki beint en eins og fyrr segir er eflaust orðið rétt að spá í sumum hliðum hátíðarinnar og sníða suma vankanta af sem hafa nú komið í ljós. Við getum annars verið glöð með að fólk hafi valið það að koma hingað norður til að skemmta sér.
Enn eitt árið er Akureyri vinsælasta útihátíð verslunarmannahelgarinnar - það sýnir sig og sannar að hingað vill fólk koma þessa helgina og virðumst við vera með tvöfalt fleiri gesti en næstvinsælasta hátíðin. Það styrkir stöðu bæjarins að mörgu leyti og veitingamenn og aðrir aðilar geta varla annað en verið ánægðir, enda hefur verið biðröð á veitingastaði og verslanir bæjarins þessa helgina. Í gær fór ég t.d. í 10-11 í Kaupangi og þar þurfti ég að standa í nokkurra mínútna röð sem hefur aldrei gerst áður. Annars hefur þetta verið fín helgi og sérstaklega hlakkar mér til kvöldsins en þá munum við syngja saman á fullu í brekkusöng og svo verður flott flugeldasýning í kjölfar þess.
Þar sem ég bý rétt hjá íþróttavellinum munum við í fjölskyldunni koma saman hér fyrir og eftir sönginn og skemmta okkur vel. Þetta er alltaf skemmtileg helgi og það er auðvitað gleðiefni að Akureyri sé vinsælasti áfangastaðurinn fyrir fólk víðsvegar um land enn eina verslunarmannahelgina.
<< Heim