Styttist í pólitíska kveðjustund Halldórs
Tveir mánuðir eru nú liðnir síðan að Halldór Ásgrímsson tilkynnti um þá ákvörðun sína í kvöldsólinni við embættisbústað forsætisráðuneytisins á Þingvöllum að hætta þátttöku í stjórnmálum og láta af embætti forsætisráðherra. Undir lok næstu viku mun Halldór formlega láta af formennsku í Framsóknarflokknum og kveðja stjórnmálin með yfirlitsræðu sinni. Má búast við kraftmikilli og öflugri ræðu, enda er þetta síðasta verk Halldórs í stjórnmálum og kveðja hans til þess flokks sem hann hefur starfað fyrir til fjölda ára, en Halldór hefur verið annaðhvort formaður eða varaformaður Framsóknarflokksins frá árinu 1980. Frá því að Halldór lét af embætti forsætisráðherra hefur lítið farið fyrir honum og hann ekki veitt nein viðtöl og hefur verið á hringferð um landið til að kveðja formlega trúnaðarmenn Framsóknarflokksins.
Enn sem komið er telst Jón Sigurðsson eini aðilinn sem gefið hefur kost á sér til formennsku Framsóknarflokksins sem telst eiga raunhæfa möguleika. Fáum blandast reyndar hugur um að hann hefur stuðning flokksmanna um allt land og hefur líka breiðan stuðning úr báðum fylkingum flokksins að því er virðist. Reyndar hafa tveir menn að auki, Lúðvík Gizurarson og Haukur Haraldsson, tilkynnt um framboð sín ennfremur. Fáir taka þó framboð þeirra trúanleg og litið á þau sem grín umfram allt. Sérstaklega er fyrrnefndur Haukur skondinn en hann virðist í framboðinu af alvöru þó að það læðist að manni sú hugsun að hann sé ekki alveg með hlutina á hreinu innan flokksins. En það er gaman af honum þrátt fyrir allt og ekki veitir nú framsóknarmönnum af að hafa eitthvað til að hlæja af.
Mörgum að óvörum ákvað Guðni Ágústsson, varaformaður, að fara ekki í formannsframboð og gefa áfram kost á sér sem varaformaður. Flestir höfðu áður talið að hann myndi skella sér í slaginn og standa og falla með niðurstöðunni. Enn bíða menn hinsvegar þess hvað Siv Friðleifsdóttir hyggst gera og hlýtur yfirlýsing hennar að koma í þessari viku, enda nú aðeins ellefu dagar til stefnu. Hún fer í framboð, það sjá allir, en fólk hlýtur að spyrja sig að því á hvað hún muni stefna. Enginn vafi er á því að Jónína Bjartmarz er á fullu í sínu varaformannsframboði. Hún og vinkona hennar, Anna Kristinsdóttir, voru staddar hér við fyrstu skóflustungu menningarhússins og blandaðist engum hugur um hversvegna þær stöllur voru staddar þar á nákvæmlega þeirri stundu.
Þó að aðeins 11 dagar séu þar til að flokksþing Framsóknarflokksins hefjist er erfitt í raun að spá um stöðuna. Ég tel þó orðið nánast öruggt að Jón Sigurðsson verður næsti formaður Framsóknarflokksins og að Guðni vinni Jónínu í varaformannskjöri. Jónína var fljót á sér að skella sér í slaginn og hefði sennilega ekki lagt í hann nema að telja sig vera að slást um lausan stól. Ákvörðun Guðna breytti mörgu fyrir hana og hún þarf að sækja í Guðna og fella hann, sem verður erfitt verkefni. Hún gæti þó unað sæl við stöðuna ef hún tapar naumt. Verði ósigurinn mikill mun hún eiga erfitt uppdráttar í kosningum að vori með annað afgerandi tapið í varaformannskjöri á bakinu. Guðni græðir svo auðvitað á því að vera kandidat utan af landi og með skýr tengsl í landbúnaðarkjarnann.
Það eru margar spennandi pælingar í þessu þrátt fyrir allt og ein pælingin er sú að Siv sækist áfram eftir ritaranum og bíði á hliðarlínunni eftir því að sinn tími komi. Önnur pælingin er að hún sæki í Jón og reyni að sjá hvar styrkur hennar liggur og hvernig staða hennar er innan flokksins. Hvort svo sem verður ofan á má fullyrða að fróðlegt verði að fylgjast með eftirmanni Halldórs Ásgrímssonar á formannsstóli flokksins á kosningavetri. Sérstaklega mun ég fylgjast vel með kveðjuræðu Halldórs, en hún verður væntanlega yfirgripsmikið uppgjör hans við langan stjórnmálaferil sinn en Halldór Ásgrímsson hefur verið í innsta hring íslenskra stjórnmála í yfir tvo áratugi og var lengi lykilmaður í forystu þjóðmálanna.
<< Heim