Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

03 ágúst 2006

Rjómablíða á gömlu góðu Akureyri

Akureyri

Það hefur verið alveg unaðslegt að vera lítið fyrir framan tölvuna seinustu dagana og njóta sumarsins í hitabylgjunni sem nú er hér á gömlu góðu Akureyri. Það var svo gott veðrið hér í gær að leitun er að öðru eins seinustu árin hreinlega sagt. Í dag var hitinn litlu minni - svo fór að ég sólbrann í dag og þurfti í fyrsta skiptið til fjölda ára að grípa til sólvarnar eftir að hafa fengið mér tveggja tíma göngutúr í bænum fyrir og eftir hádegið.

Þetta var alveg frábær dagur og við erum öll í sæluvímu hér. Þegar er fjöldi fólks tekinn að streyma til Akureyrar til að vera á fjölskylduhátíðinni Ein með öllu sem stendur alla helgina. Góð dagskrá framundan og besta veðrið verður að sjálfsögðu hér. Var reyndar að koma heim eftir göngutúrinn og hitti þegar fjölda vina og kunningja að sóla sig í bænum og við kaffihúsin að fá sér hressingu.

Ekki til mörg lýsingarorð svosem til að lýsa veðrinu og stemmningunni hér. Ætli ég láti meistara Bubba ekki það eftir en lagið hans Fallegur dagur frá árinu 2004 er unaðslega gott og hittir í hjartastað. Flottur texti - skothelt lag.

Veit ekki hvað vakti mig
vill liggja um stund
togar í mig tær birtan
lýsir mína lund

Þessi fallegi dagur
þessi fallegi dagur

Íslenskt sumar og sólin
syngja þér sitt lag
þú gengur glöð út í hitann
inn í draumbláan dag

Þessi fallegi dagur ...

Mávahvítt ský dormar dofið
inn í draum vindsins er það ofið
hreyfist vart úr stað
konurnar blómstra brosandi sælar
sumarkjólar háir hælar
kvöldið vill komast að

Þessi fallegi dagur ...