Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 desember 2002

Gestabókin mín
Um þessar mundir eru 10 mánuðir liðnir frá því að ég opnaði heimasíðu á Netinu og tæpir tveir mánuðir frá því að þessi síða opnaði. Ég hef lengi haft mikinn áhuga á stjórnmálum og hef gaman af því að tjá skoðanir mínar og skrifa á þessar síður og það er mér mikið ánægjuefni að öðrum líka þessi skrif og heimsækja síðuna. Mér finnst því vel viðeigandi að opna gestabók þar sem þeir sem líta geta skrifað nokkrar línur. Ég hvet alla gesti síðunnar til að skrifa í gestabókina mína.

Elín Hirst ráðin fréttastjóri Sjónvarpsins
Í morgun var tilkynnt að Markús Örn Antonsson hefði ráðið Elínu Hirst í embætti fréttastjóra Sjónvarpsins. Sú ráðning kemur ekki á óvart, enda naut Elín stuðnings flestra fréttamanna hjá fréttastofu Sjónvarps, fráfarandi fréttastjóra og ýmissa yfirmanna innan RÚV. Í útvarpsráði hlaut hún hinsvegar minnihluta atkvæða, vegna þess að nokkrum flokkshestum í ráðinu hugnaðist ekki að hún hlyti starfið vegna þess að hún hefur verið orðuð við Sjálfstæðisflokkinn. Reynsla hennar og störf í fréttamennsku voru þar ekki metin að verðleikum. Hún hefur verið stjórnandi á þrem fréttastofum og á að baki langan fréttamannsferil. Það er gott að útvarpsstjóri lætur staðnað pólitískt ráð sem útvarpsráð er óneitanlega, ekki hafa áhrif á ákvörðun sína og ræður þann umsækjandann sem mesta reynsluna á að baki. Elín var að mínu mati sú rétta í þessa stöðu og ég fagna því að hún hafi nú hlotið starfið. Hún á eftir að standa sig vel sem fréttastjóri. Ég sendi henni mínar bestu hamingjuóskir, vona að henni farnist vel á stóli fréttastjóra.

Jarðgöng boðin út
Í dag var tilkynnt að samgönguráðherra hefði falið Vegagerðinni að bjóða út jarðgöng á Austurlandi og Norðurlandi nú í vetur. Útboðin verða í tvennu lagi, samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneytinu. Útboðsgögn fyrir jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar verða send til þeirra verktaka sem hafa verið valdir til þátttöku eftir forval í næstu viku. Þá sagði Sigríður Ingvarsdóttir alþingismaður, í svæðisfréttum Norðurlands í kvöld að vinna við gögn vegna jarðganga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar væri langt komin og útboðsgögnin yrðu send verktökum í lok febrúar, eftir að tilboð í fyrri göngin hafa verið opnuð. Reiknað er með að vinna við jarðgöng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar geti hafist seint í apríl árið 2003, eftir yfirferð tilboða, samninga við verktaka og undirbúning á verkstað. Áætlað er að gangagröfturinn taki u.þ.b. eitt og hálft ár og að honum verði lokið fyrir árslok 2004. Gert er ráð fyrir að göngin verði síðan tilbúin um ári síðar, eða síðla árs 2005. Heildarkostnaður við verkið er áætlaður um 3, 8 milljarðar á núgildandi verðlagi. Þá er miðað við að vinna við gerð jarðganga milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar hefjist árið 2004, um svipað leyti og gangagreftri lýkur fyrir austan en áætlað er að göngin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar verði tilbúin árið 2008 og að heildarkostnaður við þau verði um 6,8 milljarðar á núgildandi verðlagi. Ég fagna því að þetta sé komið á hreint og að það styttist óðum í göng um Héðinsfjörð, við sem búum hér við Eyjafjörð höfum beðið eftir þessum samgöngubótum í áratugi, gott er að þeirri bið lýkur á næstu árum.