Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 apríl 2003

Dylgjur og rógburður í Borgarnesi
Fyrir rúmum tveim mánuðum hóf fyrrverandi borgarstjóri kosningabaráttu sína sem talsmaður Samfylkingarinnar með því að ráðast á forsætisráðherrann með rógburði og dylgjum. Var einkennilegt að forystumanneskja í pólitík mætti í landsmálin stefnulaus og greinilega full af persónulegu hatri í garð forsætisráðherrans. Greinilegt var þá að prímus mótor hennar í baráttunni myndi verða andstyggð hennar á Sjálfstæðisflokknum og leiðtoga hans. Málefnafátæktin var algjör. Engu líkara var en að borgarfulltrúinn sprytti fram í febrúar sem einhverskonar málsvari nokkurra fyrirtækja og eigenda þeirra. Henni var enda tíðrætt í ræðu sinni þá um að viss fyrirtæki hafi verið beitt ofsóknum af hálfu forsætisráðherrans og í því skyni hafi lögreglu og skattyfirvöldum verið beitt gegn þeim. Þessar ásakanir voru með öllu órökstuddar og settar fram sem einskonar gróusögur. Þessi gagnrýni hennar missti marks og hóf hún þá í örvæntingu sinni að ræða málefni kosningabaráttunnar og hefur síðan misst bæði fylgi og trúverðugleika enda hefur hún jafnan komið illa út úr málefnlegri umræðu, t.d. um skattamálin á Stöð 2 og RÚV fyrir rúmri viku, þar sem t.d. forsætis- og utanríkisráðherra fræddu hana um skattamálin. Því var ákveðið að dusta rykið af Gróu á Leiti og hún hélt aftur upp í Borgarnes og tók til við að breiða út dylgjurnar og róginn á ný. Eitthvað þurfti greinilega til bragðs að taka til að ráðast að forsætisráðherra og Sjálfstæðisflokknum. Það er með ólíkindum að forystumanneskja í pólitík sem vilji láta taka sig alvarlega mæti á vettvang landsmála með gróusögur sem helsta bakgrunn boðskaps síns. Það er helst að skilja á ræðum hennar í Borgarnesi að málefnaleg staða hennar sé mjög veik og þar séu engin málefni til að tala um. Það er kannski skiljanlegt ef litið er á stöðu mála. Það eru engar forsendur fyrir breytingum.

Borgarnesskandallinn hinn seinni (vonandi verða þeir ekki fleiri) er byggður á því mati talsmanns SamfylkingarinnarSjálfstæðisflokkurinn og formaður hans ráði hér lögum og lofum og misbeiti valdi sínu og ráðist að æðstu mönnum þjóðar og kirkjunnar ef þeir tala ekki máli þeirra. Ummæli talsmannsins eru í senn bæði ósvífin og lýsa persónu talsmannsins. Hún getur ekki á nokkurn hátt rökstudd mál sitt, enn og aftur er byggt á dylgjum, getsökum og rógi. Þegar fréttamenn biðja um rökstuðning er bara sagt; "Það sjá þetta allir". Síðan hvenær er talsmaður Samfylkingarinnar orðin samviska þjóðarinnar, hún er náttúrulega bara að breiða þessa þvælu út sér til framdráttar og til að reyna að skaða andstæðinga sína á ómerkilegan hátt. Er þetta kosningabarátta Samfylkingarinnar að hefja rógsherferð gegn forsætisráðherra og forðast það að ræða málin á málefnalegan hátt. Það mætti halda að svo væri. Sú barátta þeirra er lítt geðsleg og gott af forsætisráðherra að forðast að taka þátt í umræðu á þessu lága plani sem talsmaðurinn er á. Augljóst er að forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar er pirruð þessa dagana og iðkar í raun alla þá lesti sem hún sér í annars ranni. Óskandi er að kosningabaráttan komist fljótlega á hærra plan og að talsmaður Samfylkingarinnar sjái að sér og fari að ræða málefni baráttunnar á ný. Jafnvel þó svo að hún hafi gengið sneypt frá þeirri umræðu um daginn er það vilji fólksins að baráttan verði málefnaleg og heiðarleg, ekki háð á svona lágu plani. Það er ekki vilji sjálfstæðismanna að færa kosningabaráttuna á þetta lága plan sem leiðtogaefni Samfylkingarinnar fór með hana á. Það er mikilvægt að okkar mati að umræðan verði málefnaleg og rætt verði á heiðarlegan hátt um stöðu þjóðarinnar nú. Sjálfstæðisflokkurinn mun nú sem ávallt áður taka þátt í heiðarlegri kosningabaráttu og er óhræddur við að ræða málefni baráttunnar, ólíkt Samfylkingunni og talsmanni þeirra.

Flutningar
Flutti í vikunni um set milli hverfa á Akureyri, flutti upp á Brekku. Mjög sáttur við mig á nýja staðnum, gott að vera í Þórunnarstrætinu. Bjó reyndar ofar í götunni (nr. 118) frá fæðingu 1977 til 1981 þegar fjölskyldan flutti upp í Norðurbyggð, er því kominn á gamlar slóðir í nr. 136. Er kominn í hringiðuna í bænum, stutt að labba niður í miðbæ og eins á Glerártorg. Þannig að þetta er stutt frá öllu og mjög miðsvæðis. Kjörinn staður til að fara í göngutúra um bæinn. Nú um páskana er gott að geta slappað af og notið lífsins, eftir helgina fer maður svo á fullt í kosningabaráttuna í kjördæminu. Rúmar þrjár vikur eru til kosninga og snarpur lokasprettur framundan.