Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

25 apríl 2003

Fjölmenni í vöfflukaffi á Kaffi Akureyri
Í gær, sumardaginn fyrsta, fögnuðum við stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi sumarkomu eins og allir Íslendingar með okkar hætti. Vorum við með sumarkaffi á Kaffi Akureyri og skemmtum okkur saman, hittumst og ræddum málin. Pólitíkin var eins og gefur að skilja mikið rædd og greinilegt að við erum komin í kosningagírinn og mikil stemmning hjá okkur. Bökuðu frambjóðendur vöfflur og þáði mikið fjölmenni vöfflur með sultu og rjóma. Var vel á þriðja hundrað manns sem leit á Kaffi Akureyri og mikið af ungu fólki sem spurði frambjóðendur mikið um t.d. menntamál. Var einnig greinilegt að fólk sem var á göngutúr um bæinn leit við með börnin sín og þetta því sannkölluð fjölskylduskemmtun á góðum sumardegi í miðbænum. Framundan er lokaspretturinn í baráttunni og framundan ýmsar uppákomur og skemmtanir sem fylgja kosningunum fyrir fólk á öllum aldri. Við sem tökum þátt í kosningabaráttunni í kjördæminu erum bjartsýn á gott gengi og vorum t.d. mjög ánægð með velheppnað vöfflukaffi og hlökkum til sumarsins og vonumst til að kjósendur hér líti yfir verk okkar fólks í gömlu kjördæmunum og sjái að það er traustsins vert eftir að hafa unnið að hag þessa svæðis og íbúanna hér. X-D

Þeir vilja komast létt út úr því!!!
Í dag fer Jón í Grófinni fer enn og aftur á kostum á Íslendingi: "Ýmsum sögum fer af skoðunum (eða skoðanaleysi) tvímenningannna Kristjáns L. Möllers og Einars Más Sigurðarsonar í kvótamálum. Í lengstu lög reyna þeir að komast hjá því að blanda sér í slíkar umræður eða svara út úr eins og Kristján L. Möller í Aksjón um daginn. Á sama tíma og þingmenn Samfylkingarinnar í öðrum kjördæmum kalla fiskveiðistjórnina "mesta ranglæti sögunnar" grípa þeir til tækni sinnar í umræðustjórnmálum og segja, að ekki eigi að taka stefnu Samfylkingarinnar of hátíðlega. Þess vegna sé óhætt að kjósa Samfylkinguna! Þessi ótti þeirra við eigin stefnu er ekki að ástæðulausu. Hún gengur einfaldlega út á að færa veiðiheimildirnar frá þeim, sem nú hafa þær, til annarra. Frá Eyjafirði og Austurlandi í aðra fjórðunga. Og skiljanlega varast þeir að víkja að þeim þætti fiskveiðistjórnunar sem lýtur að öryggi fiskverkafólks og gæðastjórnun. Það væri fróðlegt að þeir kæmu út úr pokanum og skýrðu, hvaða áhrif það hefur á atvinnuöryggi og byggð í Norðausturkjördæmi að taka 10% af fiskveiðiheimildum fyrirtækja eignarnámi og bjóða þær síðan út á leigumarkaði til fimm eða sex ára. Sérstaklega væri fróðlegt að fá skoðun Kristjáns L. Möllers á því, hvaða áhrif slík eignatilfærsla hefði á rækjuvinnsluna á Siglufirði. Hann vill telja sig vera sérstakan þingmann Siglfirðinga, svo að hann hlýtur að hafa áhyggjur af því, - eða hvað?"

Sumarkveðja
Óska lesendum síðunnar, vinum og kunningjum gleðilegs sumars og þakka fyrir góða vináttu í vetur og þeim sem ég hef kynnst í vetur fyrir skemmtileg kynni. Framundan er spennandi og gott sumar - vonandi eigum við samleið í sumar. Gleðilegt sumar !!