Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

16 apríl 2003

Vitlaust plagg!
Eins og menn vita er Kristján L. Möller maður eins máls og talar um þungaskatt og flutningskostnað hvar sem hann fer. Nú er þetta ekki annað en það sem þingmenn landsbyggðarinnar hafa gert svo áratugum skiptir að velta því fyrir sér og berjast fyrir því, að hægt sé að lækka flutningskostnaðinn. Þess vegna var hann á sínum tíma undanþeginn söluskatti, sem fór óskaplega í taugarnar á Alþýðuflokknum og sérstaklega Jóni Baldvin. Síðan var ákveðið að sérstakur afsláttur yrði veittur af þungaskatti, sem nýttist flutningabílum utan af landsbyggðinni. Þetta var kært fyrir Samkeppnisyfirvöldum sem kváðu upp þann úrskurð, að afslátturinn yrði afnuminn, sem óhjákvæmilegt var að fallast á. Á síðasta kjörtímabili hefur þungaskatturinn lækkað um 2%. Þessu til viðbótar hafa verið innleiddar nýjar reglur um hvíldartíma ökumanna samkvæmt reglum Evrópusambandsins sem leiddu til hækkunar flutningskostnaðar. Þar á móti hafa komið miklar vegaframkvæmdir og stytting leiða, sem auðvitað eru til lækkunar á flutningskostnaðinum. Á sameiginlega fundinum á Húsavík í vikunni, fór Kristján L. Möller enn að tala um þungaskattinn og sagði að Samfylkingin myndi sérstaklega beita sér fyrir lækkun hans úti á landi. Hafði hann plagg í höndunum meðan hann sagði þetta. Halldór Blöndal tók þá upp kosningastefnu Samfylkingarinnar eins og hún var samþykkt á vorþinginu og sagði: Þetta er ekki hér, - sýndu mér hvar þetta stendur, sagði hann og rétti Kristjáni plaggið. Kristján gat ekki fundið orðum sínum stað. Í kosningastefnu Samfylkingarinnar var ekkert um þungaskattinn að finna. Halldór veifaði þá kosningastefnu Samfylkingarinnar framan í fundarmenn og sagði: Það er ekkert um þungaskattinn hér. Kristján sagði þá: Þetta er vitlaust plagg!

Annar Borgarnesskandallinn
Í dag skrifar Jón í Grófinni á Íslending um mál málanna, þvæluna í talsmanni Samfylkingarinnar. Orðrétt segir hann: "Það er einkennilegt með þessi umræðustjórnmál Ingibjargar Sólrúnar, hún iðkar þau ævinlega sjálf eins og hún sakar andstæðinga sínum um að gera. Eftir fyrsta Borgarnesskandalann varð hún ber að ósannindum og dylgjum en þar gaf hún berlega í skyn að forsætisráðherrann hefði sigað lögreglunni á fyrirtæki sem honum væri illa við. Þegar hún var spurð um heimildir fyrir þessu varð fátt um svör, þetta reyndust bara dylgjur, getsakir og rógur. Nú varð annar Borgarnesskandallinn í gær. Þar sagði forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar orðrétt: "Í krafti stærðar sinnar ræður Sjálfstæðisflokkurinn lögum og lofum í íslensku samfélagi. Því fylgir mikil ábyrgð sem forystan umgengst ekki af virðingu. Hún hamast á fólki sem ekki vill lúta þeirra pólitísku forsjá og valdi. Þannig hafa þeir alltaf hamast á forsetanum og biskupnum ef þessir æðstu menn þjóðar og kirkju tala ekki eins og forystunni er þóknanlegt, þeir neyta aflsmunar gagnvart fjölmiðlamönnum sem ekki eru eins og þeim finnst þeir eigi að vera - og ef fjölmiðlamenn þyrðu að segja frá værum við margs fróðari." Þetta eru ótrúlega ósvífin ummæli og því ekki óeðlilegt að fréttamenn hafi spurt ráðherraefnið um rök, á hverju byggðust staðhæfingarnar. Einu svörin sem fengust eins og fyrr voru þau að fjölmiðlamenn þyrðu ekki að tala, ekkert dæmi nefnt um hamaganginn. Enn og aftur sama aðferðin, dylgjur getsakir og rógur. Forsætisráðherrann orðaði það einu sinni opinberlega að hann væri ekki sammála biskupi um eitt tiltekið mál. Núverandi forseti hefur sjálfur átt frumkvæði að því að ræða um stjórnmál við opinber tilefni og þarf engum að koma á óvart að forsætisráðherra sé ekki sammála honum og láti þess getið. Fréttamenn hafa ekki haft í frammi hávaða vegna þess að forsætisráðherra hafi gert á þeirra hlut. Hver er hamagangurinn? Í þessari sömu ræðu setti Ingibjörg Sólrún fram þá skoðun að "pólitísku aðalatriði vorsins snérust um sýn á samfélagið, sýn á framtíð þess." Það er ástæða til að taka eftir því að innihaldið í sýn hennar á hin pólitísku aðalatriði er að ganga inn í hlutverk Gróu á Leiti, persónulegar dylgjur og rógur. Það eru umræðustjórnmál í lagi. Forsætisráðherraefnið talar eins og pirruð piparjónka sem iðkar alla þá lesti sem hún sér í annars ranni. Furðar nokkurn að Davíð Oddsson hafi ekki áhuga á að taka þátt í umræðustjórnmálunum? Má ég þá heldur biðja um átakastjórnmál og ákvarðanastjórnmál."