Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 desember 2003

Brim - ÚAHeitast í umræðunni
Eins og fram hefur komið seinustu daga hefur stjórn Eimskips ákveðið að selja Brim, sjávarútvegsfyrirtæki sitt, annaðhvort í heilu lagi eða í hlutum. Í eigu Brims eru sjávarútvegsfyrirtækin Útgerðarfélag Akureyringa, Skagstrendingur og Haraldur Böðvarsson. Nú hefur Kaupfélag Eyfirðinga rætt við fjárfestingarfélagið Afl um að kaupa í félagi við það Útgerðarfélag Akureyringa. Aðaleigandi Afls er Þorsteinn Vilhelmsson, einn stofnenda Samherja árið 1983. Bróðir hans Kristján og frændi Þorsteinn Már eru stjórnendur Samherja enn í dag. Landsbankinn á stóran hlut í Afli. Eigið fé þess er metið á fjórða milljarð króna og á félagið t.d. hlutabréf í Granda. Fram hefur komið í fréttum að Andri Teitsson kaupfélagsstjóri KEA, hafi rætt við fulltrúa Landsbankans um hugsanleg kaup á ÚA. Stjórn Eimskipafélagsins hefur falið Landsbankanum að kanna möguleika á að selja Brim. Heimamenn á Akureyri, Akranesi og á Skagaströnd hafa lýst yfir miklum áhuga á að kaupa fyrirtækin á viðkomandi stað. Áhugi KEA beinist ekki að Brimi sem heild, heldur eingöngu að ÚA. Eigið fé KEA er rúmlega 2 miljarðar króna og því er nokkuð ljóst að félagið þarf að fá fleiri fjárfesta með sér til að fjármagna kaupin á Útgerðarfélagi Akureyringa. Fram hefur komið að sérfræðingur meti ÚA á 8-9 milljarða króna. Brim er skv. sama mati talið vera 18-20 milljarða króna virði. Landsbankinn á nokkuð stóran hlut í Afli en aðaleigandinn er Þorsteinn Vilhelmsson, sem er einn af stofnendum Samherja á Akureyri. Eigið fé Afls er á fjórða miljarð króna og á félagið m.a. hlutabréf í Granda.

Davíð OddssonDavíð Oddsson forsætisráðherra, segist í viðtali við tímaritið Vísbendingu, ekki vera viss um að samkeppnisyfirvöld virki sem skyldi. Sektir sem lagðar væru á fyrirtæki komi í raun í bakið á almenningi í formi verðhækkana á þjónustu eða vöru fyrirtækjanna. Kom fram í viðtalinu að Davíð telur matvörumarkaðinn vera að frjósa saman í eina heild. Samkeppnisyfirvöld sýni því hinsvegar engan áhuga, sem vekji furðu sína. Georg Ólafsson, forstjóri Samkeppnisstofnunar, segir við ummælum ráðherrans að hann gangi gegn viðurkenndum hugmyndum um samkeppnismál. Sýnt hafi verið fram á að sektir gegni mikilvægu hlutverki í að fæla fyrirtæki frá ólöglegu samráði. Davíð fjallar á athyglisverðan hátt í viðtalinu um að neytendur borgi sektirnar allar að lokum. Hann tekur dæmi af rannsókn samkeppnisyfirvalda á samráði á grænmetismarkaði. Grænmetiskarlarnir í Öskjuhlíðinni hafi verið sektaðir en þeir haldi áfram að starfa á markaðnum. Í raun þýði sektin því einungis að kálið sem hann kaupi verði aðeins dýrara. Hann hafi ekki gert neitt af sér. Þetta sé því á röngum forsendum og þurfi að hugsa upp á nýtt. Tek ég undir þessi ummæli hans.

ESSÓOg enn meira um Samkeppnisstofnun. Olíufélögin eru nú í sáttaviðræðum við stofnunina vegna lokaskýrslu um ólöglegt samráð á olíuverði eins og frægt er. Áður hefur verið reynt að leita sátta í málinu en upp úr því slitnaði i mars, enda reyndist verulega mikill mismunur á milli hugmynda Samkeppnisstofnunar og Olíufélaganna um viðeigandi sektir í málinu. Samkvæmt samkeppnislögum geta sektir verið allt frá 50.000 krónum upp í 40 milljónir eða semsagt allt að 10% af veltu fyrirtækjanna á einu ári. Nú liggja báðar frumskýrslur málsins fyrir en félögin hafa þó frest fram í miðjan febrúarmánuð nk. til að skila athugasemdum sínum vegna þess. Þau hafa farið fram á lengri frest en ekki er ljóst hvort orðið verður við þeim óskum. Ætli sektirnar verði ekki borgaðar með því að slengja hækkun á hinn almenna bíleiganda.

Haukur Þór HaukssonSvona er frelsið í dag
Í dag skrifar Haukur Þór mjög góðan pistil um þá skoðun ungra sjálfstæðismanna til fjölda ára að heimila skuli sölu áfengis í matvöruverslunum. Hefur þetta verið lengi mikið baráttumál okkar eins og Haukur bendir á. Minnist hann á að vissulega séu ekki allir fylgjandi því en þeim fari fjölgandi sem eru þessarar skoðunar. Orðrétt segir Haukur: "Þegar Ríkið seldi allt annað áfengi en bjór þá var það gert á þeim rökum að ef Íslendingum yrði seldur bjór þá myndu þeir bara þamba hann eins og gos daginn út og daginn inn. Bjórinn væri drykkur hins illa. Húsmæður í vesturbænum myndu missa sig og skenkja bjór í saumaklúbbum, fermingum og barnaafmælum. Menn hættu almennt að vinna, börn yrðu vanhirt og fólk myndi hrasa um hvort annað í ölæði hversdagsins. Dómsdagsræðurnar fjölluðu semsagt um það hve íslenskt þjóðfélag færi á annan endann ef heimilt yrði að selja bjór. Eins og áður sagði þá var hann talinn drykkur hins illa, þó hinir útvöldu kynnu auðvitað með drykkinn að fara - flugmenn og flugfreyjur! En réttlætið sigraði að lokum, heimilað var að selja bjór og íslenskt þjóðfélag fór ekki á annan endann, líkt og bölsýnismennirnir höfðu fullyrt." Og að lokum segir hann: "Nú þegar alvarleg umræða er farin í gang um hvort heimila eigi sölu áfengis í matvöruverslunum þá setja margir mörkin við bjór og léttvín, þar verði víglínan dregin - annað komi ekki til mála. Sterku drykkina verði Ríkið ennþá að selja annars fari allt í bál og brand." Magnaður pistill!

Lord of the RingsKvikmyndir
Í kvöld fer ég í bíó og horfi á Lord of the Rings: Return of the King, seinasta hluta trílógíunnar um Hringadróttinssögu. Er ég mjög mikill aðdáandi myndanna og hef ávallt farið á forsýningar þeirra um miðjan desember, enda erfitt að bíða mikið lengur þegar maður er mikill kvikmyndaáhugamaður. Ákvað ég að horfa á báðar fyrri myndirnar í gærkvöld til að búa mig undir veisluna, að sjá seinustu myndina. Hef ég heyrt af mörgum að þetta sé besta myndin sem framundan er. Hringadróttinssaga eftir J.R.R. Tolkien er sennilega einhver rómaðasta skáldsaga allra tíma og hún er snilldarlega færð í glæsilegan kvikmyndabúning af Peter Jackson og útkoman jafnast á við það allra besta í kvikmyndagerð samtímans. Hringadróttinssaga gerist í Miðgarði þar sem allt úir og grúir af skrítnum verum sem margar hverjar búa yfir sínum eigin sérstæðu hæfileikum. Ferðalag Frodo og félaga hans hefur verið viðburðaríkt og á leið þeirra mætt þeim margar hættur og sífelldar áskoranir. Leikstjórn og öll umgjörð myndanna er í hæsta gæðaflokki og leikurinn er magnaður. Skrifa meira um þetta á morgun. Að lokum má ég þó til með að óska Samma systursyni mínum til hamingju með daginn, en hann er 12 ára í dag.

SjónvarpiðDægurmálaspjallið
Horfði í gær á ruv.is á Kastljósþátt mánudagsins. Þar var forsætisráðherra gestur Sigmars og Kristjáns. Komst Davíð vel frá þættinum og átti ekki erfitt með að svara spurningum þeirra. Kom mér þó mjög á óvart hversu æstir þeir félagar voru í viðtalinu. En þetta var létt hjá forsætisráðherranum, enda vanur að fást við fjölmiðlamenn á löngum stjórnmálaferli. Í gærkvöldi ræddi Svansí við Davíð Þór Jónsson um gott grínefni. Í Íslandi í dag var flottur bíll prufukeyrður, flottir bílar sem Svali sýnir þarna á þriðjudögum.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég öllum á huga.is, sem samkvæmt vefmælingum var mest heimsótti vefur seinasta mánaðar. Var það í fyrsta sinn sem mbl.is hefur ekki þann titil frá upphafi vefmælinga. Á huga er fjöldinn allur af góðu og spennandi efni.

Snjallyrði dagsins
Sá er munur á snillingum og heimskingjum, að snilldin er takmörkuð.
Th. Gablin