Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 janúar 2004

Anna Lindh (1957-2003)Heitast í umræðunni
Í morgun hófust í Stokkhólmi réttarhöld yfir Mijailo Mijailovic sem hefur viðurkennt að hafa ráðist að Önnu Lindh utanríkisráðherra Svíþjóðar, með hnífi í NK-verslunarmiðstöðinni í Stokkhólmi 10. september 2003. Hún lést af sárum sínum um nóttina. Mijailovic vildi lengi vel ekki viðurkenna að hafa myrt ráðherrann, en gekkst við ábyrgð sinni skömmu fyrir árslok, að því er flestir telja til að fá mildari dóm. Saksóknari reynir að fá Mijailovic dæmdan fyrir morð að yfirlögðu ráði. Sakborningurinn neitar að hafa skipulagt árásina, segir hana hafa verið stundarbrjálæði. Komið hefur nú í ljós af myndum teknum í öryggismyndavélum að sakborningurinn elti ráðherrann í tæplega korter um verslunarmiðstöðina, áður en hann réðist að henni. Það hvort tekst að sanna að um morð að yfirlögðu ráði sé að ræða skiptir miklu máli. Enginn vafi leikur á að Mijailovic verður sakfelldur, en hann mun hljóta lífstíðarfangelsi ef morð af yfirlögðu ráði verður sannað á hann, en gæti ella sloppið með mun vægari dóm. Mun sakborningurinn bera vitni í dag. Útvarpað er frá réttarhöldunum.

BrimGengið var í nótt frá sölu Eimskipafélagsins á tveim af þrem sjávarútvegsfyrirtækjum sem mynda Brim í nótt, ÚA og Haraldi Böðvarssyni. Söluverð beggja fyrirtækjanna er 16,8 milljarðar króna. Hagnaður Eimskips af sölunni nemur tveimur og hálfum milljarði króna. Samningarnir munu þegar hafa verið samþykktir í stjórn Eimskipafélags Íslands. Grandi keypti Harald Böðvarsson á tæpa átta milljarða króna, samhliða þessu keyptu Tryggingamiðstöðin og HB fjölskyldan á Akranesi, 9,9 prósenta hlut í Granda. Fram hefur komið í fréttum RÚV að gengið hafi verið frá fjármögnun kaupanna, munu þau vera fjármögnuð með 2,6 milljörðum í reiðufé og afgangurinn með lánum frá Landsbankanum. Feðgarnir Kristján Guðmundsson, Guðmundur Kristjánsson og Hjálmar Kristjánsson, útgerðarmenn frá Rifi, undirrituðu ennfremur samning við Eimskip um kaup á ÚA fyrir 9 milljarða króna. Undanskilið þar er Boyd Line í Bretlandi.

ÚAEru þessir feðgar að því er sagan segir þekktastir af litlu fyrir að reka útgerðarfélagið Tjald. Koma þessi tíðindi í kjölfar samningaviðræðna Eimskips við KEA ásamt Afli um kaup á ÚA. Kemur á óvart að samið hafi verið við feðgana meðan hinar viðræðurnar stóðu. Hefur KEA sent frá sér harðorða yfirlýsingu vegna málsins. Hér hef ég oft seinasta mánuðinn lýst þeirri skoðun að ÚA komist að nýju í eigu heimamanna. Þessi ákvörðun Eimskips fellur því frekar í grýttan jarðveg, enda um að ræða menn sem eru þekktastir fyrir að hafa keypt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Vestfjarða og höggvið það í spað. Tel ég að Akureyringar séu lítt ánægðir með lok þessa máls. Tel ég þær áhyggjur ná til bæjaryfirvalda og forystumanna í stjórnmálum. Ástæða er til að mótmæla harðlega óábyrgum vinnubrögðum Landsbankans og Eimskips.

Kiddi og Stebbi Fr.Svona er frelsið í dag
Í dag birtist á frelsinu 2. pistill okkar Kidda um nefndirnar. Að þessu sinni förum við yfir hvert ráðuneyti, nefndir þess og hvað betur megi fara og birtum jafnframt heildarlista yfir allar nefndir ríkisvaldsins, sannkallað nefndafargan. Um menntamálaráðuneytið sem hefur langflestar nefndir á að skipa, rúmlega 260 segir svo: "Fjöldi nefndanna er óheyrilegur og sömuleiðis þau afskipti af daglegu lífi einstaklinganna sem þeim eru ætlað að skipuleggja eða framfylgja. Undirritaðir skilja mætavel ef Þorgerði Katrínu, nýskipuðum menntamálaráðherra, fallist hendur frammi fyrir þessu fargani sem í ráðuneyti hennar er að finna en vonast jafnframt til þess að hún taki til hendinni og sópi út bróðurpartnum. Augljóst er að fækka megi nefndum verulega. Það er margar nefndir sem hafa lítinn sem engan tilgang og gætu vel fallið undir verksvið annarra nefnda. Það hefur of lengi verið árátta að fjölga nefndum og blasir við að öll ráðuneyti hafi þanist út meira en góðu hafi gegnir. Mikilvægt er að taka til hendinni og stokka kerfið upp. Markaðurinn er bestur og á að vera vinsæll." Vonum við Kiddi að lestur nefndalistans sem telur rúmlega 850 misþarfar nefndir valdi ekki lesendum vefsins ónotum. Mikilvægt og þarft verk er að fjalla um þetta nefndafargan og höfum við Kiddi átt góða samvinnu um þetta verkefni. Bendi ennfremur á umfjöllun um óskiljanlega tillögu sjálfstæðismanna í borgarráði.

Sigmar, Svanhildur og KristjánDægurmálaspjallið
Mikið af áhugaverðu dægurmálaspjalli í dægurmálaþáttunum í gærkvöldi. Í Íslandi í dag ræddu alþingismennirnir Drífa Hjartardóttir varaformaður heilbrigðisnefndar Alþingis og Margrét Frímannsdóttir sem situr í nefndinni að hálfu Samfylkingarinnar, málefni starfsemi neyðarmóttöku vegna nauðgana í Fossvogi sem verður stokkað í kjölfar sparnaðarhugmynda. Var yfirlækni í 20% starfi sagt upp og breytingar verða á deildinni í hagræðingarskyni. Tókust þær hraustlega um málið. Í Kastljósinu voru gestir þau Pétur Blöndal og Elsa B. Friðfinnsdóttir formaður félags hjúkrunarfræðinga og fyrrum aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, og tókust á um sparnað í heilbrigðiskerfinu. Ekki voru þau sammála um hann eins og mátti búast við. Pétur fór sem fyrr á kostum í rökræðum en Elsa átti marga góða punkta. Skemmtilegar deilur um heilbrigðismál, góð umfjöllun á báðum stöðvum.

On the WaterfrontKvikmyndir
Í gærkvöldi horfði ég enn einu sinni á meistaraverk Elia Kazan, On the Waterfront. Segir frá spilltu verkalýðsfélagi hafnarverkamanna sem lendir í rannsókn yfirvalda. Til að forða félaginu frá skaða ráða verkalýðsleiðtogarnir einum verkamanninum, Joey Doyle, bana. Meðal þeirra sem standa að baki því er félagi hans, Terry Malloy. Verkalýðsleiðtoginn Johnny Friendly stendur að baki glæpaveldinu við höfnina og meðal samverkamanna hans er bróðir Terrys, Charley. Eftir morðið á Joey verður Terry hrifinn af systur hans, Edie, og fer Terry að fá samviskubit vegna þess sem gert var. Með hjálp hennar og sr. Barry bætir Terry fyrir mistök fortíðarinnar og leggur til atlögu við glæpaveldið við höfnina. Marlon Brando, Rod Steiger, Lee J. Cobb, Karl Malden og Eva Marie Saint fara á kostum í hlutverkum sínum. Stórfengleg mynd sem hlaut átta óskarsverðlaun árið 1954, þ.á m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn Elia Kazan og magnaðan leik Brando og Saint. Ein af eftirminnilegustu kvikmyndum sjötta áratugarins, með bestu myndum Elia Kazan. Eldist virkilega vel og á boðskapurinn jafnt við árið 2004 og hann var fyrir hálfri öld, 1954, er myndin var gerð.

Vefur dagsins
Í dag bendi ég á heimasíðu nýjustu kvikmyndar leikstjórans Tim Burton, Big Fish. Hlakka til að sjá þessa mynd, enda mikill aðdáandi mynda leikstjórans.

Snjallyrði dagsins
Svartsýnn maður sér vanda í hverju tækifæri; bjartsýnn maður sér tækifæri í hverjum vanda.
Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands (1874-1965)