Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

11 mars 2004

Hryðjuverk á SpániHeitast í umræðunni
Minnst þrjár sprengjur í bakpokum sprungu í lest er hún var að koma inn á Atocha-lestarstöðina í miðborg Madrid á Spáni uppúr klukkan hálfátta að staðartíma í morgun. Þessi stöð er ein mikilvægasta samgöngumiðstöð borgarinnar og tengir m.a. saman grannlestakerfi ríkisjárnbrautanna og jarðlestakerfi borgarinnar. Á þessum tíma er stöðin iðandi af fólki á leið til vinnu eða í skóla, úr útborgum og grannbæjum. Aðrar tvær sprengjur sprungu í lestum á öðrum tveimur stöðvum á sömu lestaleiðinni. Þær heita Santa Eugenia og El Pozo og eru í úthverfum, austanmegin í borginni. Sjá mátti sundurtætta lestarvagna, lík og líkamsleifar í vögnunum, á pöllum eða teinum, særða og ósára streyma í skelfingu útúr lestunum. Algjört umferðaröngþveiti varð í borginni. Í fyrstu bárust böndin að basknesku aðskilnaðar- og ógnarverkahreyfingunni ETA. Innanríkisráðherra Spánar taldi t.a.m. engan vafa leika á því í yfirlýsingum í morgun. Ríkissaksóknari Spánar tók í sama streng. Ef ETA var að verki er þetta án vafa alversta ódæði samtakanna sem segjast berjast fyrir sjálfstæði Baskalands á Spáni og í Frakklandi. Þjóðarsorg ríkir á Spáni vegna hryðjuverkanna. Þingkosningar verða á Spáni á sunnudaginn og hefur kosningabaráttu formlega verið hætt. Íslenskir forystumenn hafa vottað spænsku þjóðinni samúð sína. Utanríkisráðherra hefur ásamt öðrum erlendum leiðtogum fordæmt þennan voðaverknað.

Juan Carlos Spánarkonungur ávarpaði spænsku þjóðinaJóhann Karl Spánarkonungur, ávarpaði spænsku þjóðina eftir hádegið að staðartíma. Var það í fyrsta skipti í yfir 20 ár sem hann flytur ræðu til almennings í beinni sjónvarpsútsendingu. Skömmu síðar flutti José Maria Aznar forsætisráðherra, ávarp í sjónvarpi. Aznar forsætisráðherra, mun láta af embætti eftir þingkosningar sem fram eiga að fara um helgina. Hann gefur ekki kost á sér til endurkjörs á spænska þingið, en hann hefur verið forsætisráðherra í 8 ár. Viðbrögð forystumanna á alþjóðavettvangi hafa eins og fyrr segir öll verið með sama móti. Allir lýsa þeir yfir hryggð vegna hryðjuverkanna og stuðningi við spænsku þjóðina. Davíð Oddsson forsætisráðherra, og Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, hafa sent spænsku þjóðinni samúðarkveðjur íslensku þjóðarinnar. Forsetinn biður þess í kveðju sinni til Spánarkonungs að bænir og stuðningur fólks um heim allan veiti fjölskyldum þeirra sem fórust styrk til að takast á við sorgina. Hann segir einnig brýna nauðsyn að þjóðir heims taki höndum saman í baráttunni gegn ógn hryðjuverka. Ferðaskrifstofan Úrval-Útsýn hefur aflýst þriggja daga hópferð með 200 Íslendinga til Madrid á morgun. Hætt er við ferðina í ljósi hryðjuverkaárásanna.

SamherjiÖllum aðgerðum til björgunar Baldvins Þorsteinssonar EA-10, á strandstað í Skarðsfjöru er frestað þar til norskt sérbúið dráttarskip kemur frá Noregi á morgun. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja, sagði í fjölmiðlum í dag að fram að þeim tímapunkti væri verið að undbúa björgun með því að smíða hluti og útvega fyrir morgundaginn. Fulltrúi dráttarskipsins er kominn til landsins og fundaði með Samherja og Landhelgisgæslunni. Ennfremur fór Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra, á strandstað í dag og kynnti sér aðstæður. Vonandi er að þetta fari allt vel og skipið náist af strandstað heilt sem fyrst.

Ósk ÓskarsdóttirSvona er frelsið í dag
Í góðum pistli á frelsinu í dag fjallar Ósk um heilbrigða skynsemi og heilsuspillandi málfrelsi. Orðrétt segir hún: "Jörðin virðist hafa gleypt alla umræðu um málfrelssiskerðingu þá er lögfest var með 7. gr. laga nr. 6/2002 um tóbaksvarnir. Vill svo oft verða um vandræðaleg mál. Þó umræðan sé í lágmarki er engin ástæða til þess að leggja árar í bát. Nú er kominn tími til að þingmenn sjái að sér og endurskoði þessi klúðurslegu lög og væru þeir menn að meiru fyrir vikið." Að auki birtist góð Moggagrein Tobbu um málefni Orkuveitu Reykjavíkur, en hún situr í stjórn fyrirtækisins. Í greininni segir svo: "Tetra Ísland er gjaldþrota rekstrarlega og sú staða breytist ekki fyrr en að R-listinn tekur pólitíska ákvörðun um að annað hvort lýsa fyrirtækið gjaldþrota eða setja töluvert meira fjármagn inn í rekstur þess. Fimmtíu milljóna króna hlutafjáraukning Orkuveitunnar til Tetra Ísland dugir ekki til að reksturinn gangi upp. Fyrirtækið getur ekki staðið við gerða samninga um tvö ólík fjarskiptakerfi, greitt niður áhvílandi lán og greitt starfsmönnum laun til framtíðar nema að eigendur fyrirtækisins leggi fyrirtækinu til verulegar upphæðir, sem skipta hundruðum milljóna króna. Núverandi lánadrottnar þurfa að sjá ástæðu til að breyta lánum sínum í hlutafé til að réttlæta fjárfestingu sína áfram. Orkuveita Reykjavíkur hefur nú þegar lagt um 3500 milljónir til fjarskiptareksturs og þarf að ákveða hvort þeirri stefnu skuli haldið áfram eða hvort Tetra Ísland verði gjaldþrota. Látalæti Alfreðs Þorsteinssonar í fjölmiðlum stækkar vandamálið og þyrlar ryki í augu skattgreiðenda í Reykjavík."

AkureyrarkirkjaKvöldstund í Akureyrarkirkju - viðtal við Björn
Í gærkvöldi fórum við í Akureyrarkirkju, kirkjuna okkar, og áttum góða stund. Fórum á föstuvöku, en hún er partur af kirkjuviku sem nú stendur yfir í kirkjunni. Var þetta létt og góð kvöldstund. Ómar Ragnarsson fréttamaður, var ræðumaður á föstuvökunni að þessu sinni. Kór Akureyrarkirkju söng ásamt einsöngvurunum Sigrúnu Örnu Arngrímsdóttur og Þórhildi Örvarsdóttur. Stjórnandi var Björn Steinar Sólbergsson organisti. Í ræðu sinni fjallaði Ómar um trúarreynslu sína á yngri árum og kynni af kirkjustarfi. Var hann venju samkvæmt líflegur og sagði margar skemmtilegar gamansögur og hermdi eftir frægum mönnum sem hann hefur orðið samferða á lífsleiðinni. Góð ræða og víða farið yfir. Ennfremur fjallaði hann um ferð sína í fyrra til Eþíópíu og Mósambík, en hann gerði þátt um þá ferð sem sýndur verður í Sjónvarpinu um páskana. Eftir þessa ljúfu stund átti ég spjall við Ómar og fórum við yfir ýmsa hluti. Virkilega gaman að spjalla við hann, einkum þegar kom að virkjunarmálum og um fegurð Eyjafjarðar. Komum heim fimmtán mínútur yfir tíu. Var þá farið í að líta á spjallþáttinn Pressukvöld hjá RÚV. Að þessu sinni var Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, gestur fréttamannanna. Var víða farið yfir og um margt rætt. Kom Björn mjög vel út úr þættinum. Eftir að hafa litið á þáttinn ræddi ég við nokkra vini á MSN um verkefnin framundan.

Dagurinn í dag
* 1941 Þýskur kafbátur gerði árás á línuveiðarann Fróða, rétt við Vestmannaeyjar - fimm fórust
* 1971 Lög um lán ríkissjóðs til vegagerðar og brúargerðar á Skeiðarársandi samþykkt
* 1984 Guðlaugur Friðþórsson synti í land um 5 km þegar vélbátnum Hellisey hvolfdi og sökk
* 1985 Mikhail Gorbachev tekur við völdum í Sovétríkjunum - varð valdalaus við fall SV 1991
* 1990 Litháen lýsir yfir sjálfstæði sínu - upphaf endaloka Sovétríkjanna, liðu undir lok ári síðar

Snjallyrði dagsins
After all... tomorrow is another day.
Scarlett O'Hara í Gone with the Wind