Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 mars 2004

Kosningar á SpániHeitast í umræðunni
Tæplega 35 milljónir Spánverja ganga að kjörborðinu í dag í kosningum til þings Spánar. Kosningarnar eru haldnar við aðstæður án nokkurs fordæmis síðan lýðræði var endurreist árið 1977 á Spáni, í skugga tilræðis þar sem rúmlega 200 manns létust og yfir þúsund manns særðust. Reiði og óvissa ríkir á Spáni um niðurstöður kosninganna. Óljóst er hvort og þá hvaða áhrif hryðjuverkin hafa á úrslit þeirra. Seinustu skoðanakannanir, sem birtust fyrir hryðjuverkaárásirnar, gerðu ráð fyrir sigri Þjóðarflokksins, sem leitt hefur stjórn landsins frá árinu 1996, í kosningunum. José Maria Aznar forsætisráðherra, gefur ekki kost á sér til endurkjörs og lætur nú af embætti. Mariano Rajoy fyrrum innanríkisráðherra, leiðir Þjóðarflokkinn í þessum kosningum, en mótherji hans er Sósíalistaflokkurinn undir forystu José Luis Rodriguez Zapatero. Reyna sósíalistar nú að komast til valda eftir að hafa verið valdalausir í áratug. Fregnir um játningar Al Qaeda á myndbandsupptöku vofir yfir Spánverjum er þeir ganga að kjörborðinu. Rajoy minnti á, er hann kaus í morgun að mikilvægt væri að þegar fólk greiddi atkvæði minntist það verka Þjóðarflokksins í 8 ára valdatíð sinni og þess sem vel hefði verið gert. Kosningarnar á Spáni í dag munu skipta miklu máli og vonandi er að áframhaldandi forysta verði í spænskum stjórnmálum. 176 þingsæti þarf til að ná hreinum meirihluta á þingi.

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um hryðjuverkaárásirnar á Spáni á fimmtudag þar sem rúmlega 200 manns létu lífið og velti fyrir mér hvort þær muni hafa áhrif á útkomu spænsku þingkosninganna í dag. Ennfremur bendi ég á mikilvægi þess að tillögur stjórnarflokkanna í skattamálum í kosningabaráttunni 2003 verði að lögum á vorþinginu. Ekki er eftir neinu að bíða með að ganga frá þessum málum og óskiljanlegt ef bíða á með að ganga frá hinni endanlegu afgreiðslu málsins. Í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar 10. maí 2003, gáfu stjórnarflokkarnir afdráttarlaus loforð í skattamálum. Það blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn hefur um nokkurn tíma viljað ganga hreint til verks í að efna þau loforð sem gefin voru í seinustu kosningum. Það er óviðunandi að framsóknarmenn ætli að tefja það að loforð um skattalækkanir verði efnt fyrir vorið og ekki ásættanlegt. Að lokum fjalla ég um góðar tillögur menntamálahóps Heimdallar sem afhentar voru menntamálaráðherra í vikunni í formi dagatals út árið 2004.

HafiðSjónvarpsgláp - kvikmyndir
Eftir kvöldfréttirnar var venju samkvæmt horft á Laugardagskvöld með Gísla Marteini og Spaugstofuna. Að því loknu var horft á kvikmynd Baltasar Kormáks, Hafið. Hér er sagt frá útgerðarmanninum Þórði Ágústssyni sem hefur í gegnum árin ríkt yfir bæ sínum, hann er guðfaðir kaupstaðarins og rekur langstærsta fyrirtækið í bænum. Er myndin hefst er komið að kaflaskiptum í lífi hans, hann er orðinn gamall maður og heilsa hans farin að bila. Hann vill því hitta fjölskyldu sína og gera hreint fyrir sínum dyrum. Elsti sonurinn Haraldur rekur útgerðarfyrirtækið og á í miklum erfiðleikum á heimavelli, dóttirin Ragnheiður er misheppnaður kvikmyndaframleiðandi sem á ýmislegt óútkljáð við föður sinn, og eftirlæti gamla mannsins Ágúst er í námi erlendis en þorir ekki að segja gamla manninum frá því að hann er í tónlistarnámi en nemur ekki lengur viðskiptafræði, en Þórður vill að hann taki við rekstri fyrirtækisins af eldri bróðurnum. Inn í söguna blandast hin tannhvassa Kata hin aldna móðir Þórðar, Kristín sambýliskona Þórðar og móðursystir systkinanna, Áslaug hin bitra eiginkona Haraldar og María dóttir Kristínar. Framundan er eftirminnilegt uppgjör fjölskyldunnar í smábænum á norðurhjara - þar sem allt getur gerst. Hafið er án nokkurs vafa ein áhrifamesta og besta kvikmynd Íslendinga til fjölda ára. Meistaralega gerð á allan hátt. Úrvalsmynd eins og þær gerast bestar.

Dagurinn í dag
* 1911 Kristján Jónsson varð ráðherra Íslands - sat í embætti í sextán mánuði
* 1950 Ríkisstjórn Steingríms Steinþórssonar tók við völdum - sat í rúm þrjú ár
* 1969 Fiðlarinn á þakinu var frumsýndur í Þjóðleikhúsinu - sýnd samfellt í þrjú ár
* 1987 Þyrla Landhelgisgæslunnar bjargaði níu manna áhöfn Barðans við Dritvík
* 1994 Markús Örn Antonsson biðst lausnar sem borgarstjóri Reykjavíkur eftir þriggja ára setu

Snjallyrði dagsins
Whoever saves one life, saves the world entire.
Itzhak Stern í Schindler's List