Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 september 2004

George W. Bush og John KerryHeitast í umræðunni
George W. Bush forseti Bandaríkjanna, hefur 11-13% forskot á John Kerry forsetaframbjóðanda demókrata, í skoðanakönnunum sem gerðar voru eftir flokksþing Repúblikanaflokksins, sem haldið var í New York í seinustu viku. Fylgissveiflan til forsetans er ein sú mesta sem komið hefur eftir flokksþing hin seinni ár og jafnast í reynd á við þá uppsveiflu sem sást í fylgi Bill Clinton eftir flokksþing demókrata í New York árið 1992. Hann hélt því forskoti allt fram til kosninganna og vann sannfærandi sigur í þeim kosningum. Auðvitað bera kannanirnar þess merki að repúblikanar hafa verið í sviðsljósinu vegna flokksþingsins. Það er þó merkileg staðreynd að nú þegar hin fræga tímaviðmiðun við Labor Day, 6. september, rennur upp (oft talið að sá sem leiði þá vinni slaginn) er allur vindur úr demókrötum og forsetaefni þeirra, og forsetinn stendur með pálmann í höndunum. Á sama tímapunkti árið 2000 voru Gore og Bush með svo til jafnmikið fylgi sem hélst allt til kosninga. Mikið forskot Bush er því verulegt áhyggjuefni fyrir demókrata. Er hræðsla komin í herbúðir Kerrys, enda er þar stokkað upp forystusveitinni og sérfræðingum sem leiða slaginn af hans hálfu. Hafa margir forystumenn flokksins, t.d. Bob Graham öldungadeildarþingmaður í Flórída, sagt óhikað að Kerry verði að bæta sig, barátta hans hafi frá flokksþinginu í júlí verið fremur litlaus og kraftlítil. Í viðtölum hafa leiðandi demókratar, þar á meðal ríkisstjórar, öldungadeildarþingmenn, fjáröflunaraðilar og fleiri, sagt að þeir hvetji skipuleggjendur kosningabaráttu flokksins nú til þess að beina sjónum næstum eingöngu að því að gagnrýna stefnu Bush í málum innan Bandaríkjanna. Vilja þeir semsagt taka u-beygju frá flokksþinginu sem snerist að mestu um öryggis- og varnarmálin. Ber þetta þess vitni að demókratar skynji að Bush sé of sterkur í þessum málaflokki til að hafa hann undir í honum. Er Kerry nú að mestu farinn að fókusera sig á efnahagsmálin. Framundan eru kappræður frambjóðenda og má samkvæmt stöðunni nú telja það seinasta möguleika Kerrys að snúa taflinu sér í vil.

Stefán Friðrik Stefánsson, Elín Granz og Arnar Þór Stefánsson að vinna í stjórn utanríkismálanefndar um helginaSjálfstæðisflokkurinn tekur við stjórn utanríkisráðuneytisins í næstu viku. Á málefnaþingi SUS um helgina samþykkti utanríkismálanefnd að leggja áherslu á að hvetja til niðurskurðar í utanríkisþjónustunni, einkum með fækkun sendiráða. Er þetta mál mér mjög hugleikið og hefur þetta verið mikið baráttumál mitt, það var því ánægjuefni að fá þetta svo skýrt í gegn sem raun ber vitni í ályktun nefndarinnar. Hef ég oft farið yfir skoðanir mínar á þessum málum og bendi sérstaklega á ræðu sem ég flutti á fundi utanríkismálanefndar SUS, 27. febrúar 2004, þar sem ég fer yfir helstu atriðin sem verðandi utanríkisráðherra skal hafa í huga. Ennfremur var mjög ánægjulegt að ítrekuð er afstaða okkar til Evrópusambandsins, við höfnum aðild að sambandinu og minnum á að við erum andsnúin umsókn Íslands að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Nú sem fyrr þykir ungum sjálfstæðismönnum skorta á að sýnt sé með skýrum hætti fram á hvaða ávinningur hlýst af setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Í ljósi mikillar útgjaldaaukningar í utanríkisþjónustunni undanfarin ár er það afdráttarlaus skoðun ungra sjálfstæðismanna að leggja áherslu á að þegar Sjálfstæðisflokkurinn taki við stjórn málaflokksins nú í mánuðinum verði tækifærið nýtt til þess að skera niður og hagræða í rekstri sendiráða. Eyðsla fjármuna skattpeninga með þeim hætti sem ríkisreikningur gefur til kynna er ekki verjandi. Taka verður til endurskoðunar og stokka upp utanríkisþjónustuna og leita leiða til að hagræða þar. Annað er ekki viðunandi. Samþykktum við að senda Davíð Oddssyni verðandi utanríkisráðherra, lista yfir brýnustu verkefnin í ráðuneytinu að okkar mati, sem byggist á ályktun okkar.

SUSStjórnmálaályktun SUS-þings á Selfossi 2004
Samband ungra sjálfstæðismanna leggur áherslu á einstaklingsfrelsi og frjálst framtak. Fólk á sig sjálft og er ekki til fyrir ríkið. Aðeins með litlum ríkisafskiptum og hófsamri skattheimtu verður velferð fólksins hámörkuð.

Samband ungra sjálfstæðismanna telur það eitt brýnasta verkefni Sjálfstæðisflokksins á næstu misserum að beita sér fyrir lækkun ríkisútgjalda og búa þar með í haginn fyrir umtalsverðar skattalækkanir, enda fara einstaklingar betur með eigin peninga en ríkisvaldið. Flatur 7% skattur ætti að vera markmiðið til lengri tíma hvað varðar bæði einstaklinga og fyrirtæki. Fjármagnstekjuskatt ber að afnema. Ungir Sjálfstæðismenn telja að stefna beri að almennri lækkun virðisaukaskatts í 7%. Þá leggst SUS gegn hugmyndum um skatta sem ætlað er að hafa áhrif á neysluvenjur fólks, s.s. sykurskatt. Jafnframt skyldu tollar og aðrar viðskipahindranir verða afnumdar. Samhliða skattalækkunum telur SUS rétt að skorið sé niður í ríkiskerfinu og stofnanir lagðar niður eða einkavæddar eftir því sem við á, svo sem Ríkisútvarpið, Byggðarstofnun, Hafrannsóknarstofnun, Þjóðleikhúsið, Ferðamálaráð, Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlit ríkisins.

Hugmyndafræði skiptir máli á vettvangi sveitarstjórna ólíkt því sem stundum er haldið fram og hugmyndir ungra sjálfstæðismanna um einstaklingsframtak og hófsama skattheimtu eiga brýnt erindi á þessu sviði. Sveitarfélögum ber skylda til að færa ekki starfsemi sína út fyrir lögbundið verksvið sitt. Umsvifamikil sveitarfélög þrengja að athafnafrelsi íbúanna og stuðla að skuldasöfnun og þyngri álögum. Sveitarfélög eiga að draga sig út úr rekstri fyrirtækja og stofnana á samkeppnismarkaði að fullu. Ungir sjálfstæðismenn telja nauðsynlegt að leita nýrra leiða til þess að bæta þá þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að sinna og er ljóst að mörg þeirra verkefna sem nú eru í höndum sveitarfélaga yrðu betur leyst af einkaaðilum.

SUS leggur til að hið opinbera leggi aukna áherslu á einkaframkvæmd í heilbrigðis- og menntakerfinu. Fjármagnið mun áfram koma frá hinu opinbera þótt reksturinn sé færður í hendur einkaaðila. Með því má ná fram mikilli hagræðingu. SUS telur að hefja skuli undirbúning að einkarekstri Háskóla Íslands sem og annarra ríkisrekinna háskóla, ásamt því sem ungir sjálfstæðismenn hvetja ríki og sveitarfélög til þess að einkareka aðra þá skólaþjónustu sem boðið er upp á. Þannig má ekki aðeins draga úr kostnaði heldur einnig bæta nám. Heimila skal ríkisreknum háskólum að innheimta skólagjöld enda verði skólagjöld lánshæf. Námsgagnastofnun ber að leggja niður og rétt er að færa starfsemi LÍN til almennra útlánastofnanna. SUS telur jafnframt að fyrirsjáanlegt verkfall kennara sé engum til heilla. Börnin greiða ekki laun kennaranna heldur hið opinbera og er óþarft fyrir kennara að beita börnunum fyrir sig í kjarabaráttu sinni.

Meginhlutverk hins opinbera í umhverfismálum er að skera úr um og vernda eignarrétt einstaklinga og lögaðila yfir náttúruauðlindum. Tryggari eignaréttarvernd og yfirfærsla eignarréttarverndar til sviða þar sem hennar hefur ekki gætt er best til þess fallin að vernda náttúruna.

Ungir sjálfstæðismenn leggja áherslu að á Íslandi vaxi og dafni sem frjálst og opið samfélag. Íslendingar eiga að taka þátt í alþjóðlegum samskiptum ríkja sem málsvari viðskiptafrelsis og mannréttinda í samstarfi við lýðræðisríki. Samband ungra Sjálfstæðismanna ítrekar andstöðu sína við þær hugmyndir að Ísland gangi í Evrópusambandið. Í ljósi mikillar útgjaldaaukningar í utanríkisþjónustunni undanfarin ár leggur SUS áherslu á að Sjálfstæðisflokkurinn skeri niður og hagræði við rekstur sendiráða. Mikilvægasta hlutverk ríkisvaldsins er að bera ábyrgð á því að öryggi og frelsi þeirra sem dvelja á Íslandi sé varið. Aðild Íslands að Norður Atlantshafsbandalaginu leikur sem fyrr lykilhlutverk í vörnum landsins ásamt því að vera mikilvægur samstarfsvettvangur í alþjóðamálum.

Dagurinn í dag
1943 Íslandsklukkan eftir Halldór Laxness, kom út - varð ein vinsælasta bók landsins á 20. öld
1948 Júlíana Hollandsdrottning, tekur við embætti - hún var drottning til 1980. Lést árið 2004
1972 Allir 9 gíslarnir sem haldið var föngnum á Ólympíuleikunum í Þýskalandi, létust
1997 Díana prinsessa af Wales, jarðsungin í Westminster Abbey dómkirkjunni í London. Milljónir manna um allan heim fylgdust með afhöfninni, sem var mjög tilfinningamikil og hjartnæm. Díana prinsessa, var jarðsett á eyju á miðri landareign fjölskyldu sinnar, Althorp, í Northamptonskíri
1998 Japanski kvikmyndaleikstjórinn Akira Kurosawa lést í Tokyo í Japan, 88 ára að aldri

Snjallyrði dagsins
Ég sakna þín í birtingu að hafa þig ekki við hlið mér
og ég sakna þín á daginn þegar sólin brosir við mér.
Og ég sakna þín á kvöldin þegar dimman dettur á.
En ég sakna þín mest á nóttunni er svipirnir fara á stjá.
Megas (Tvær stjörnur)