Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

29 apríl 2005

Michael Howard og Tony BlairHeitast í umræðunni
Aðeins sex sólarhringar eru í þingkosningar á Bretlandseyjum. Baráttan harðnar sífellt og leiðtogar stóru flokkanna nota hvert tækifæri sem þeim gefst til að kasta á milli sín árásarflaugum. Í gærkvöldi voru leiðtogarnir þrír, þeir Tony Blair leiðtogi Verkamannaflokksins, Michael Howard leiðtogi Íhaldsflokksins, og Charles Kennedy leiðtogi frjálslyndra demókrata, gestir í viðtalsþættinum Question Time á BBC. Er þetta í eina skiptið í kosningabaráttunni sem þeir koma fram og svara spurningum fréttamanna með þessum hætti. Athygli vakti þó að þeir sátu ekki samtímis fyrir svörum, heldur hófst þetta með hálftímayfirheyrslu á Kennedy, svo Howard og að lokum Blair. Kom svosem fátt nýtt fram þarna. Þó reyndi Blair með miklum herkjum að svara spurningum um Íraksmálið og nýjum uppljóstrunum tengdu því. Sögðu gárungarnir að Blair hefði svitnað eins og Nixon við að verja stöðu sína, enda segir einn lesandi á fréttavef BBC er umræðurnar eru ræddar að hann hefði átt að þurrka svitablettinn fyrir ofan vörina oftar.

Í ítarlegum pistli á vef Heimdallar í dag fer ég yfir kosningabaráttuna og kem með ýmsa mikilvæga punkta í umræðuna. Nóg er um að fjalla þegar kemur að breskum stjórnmálum og pælingum í umræðunni þar þessa dagana í kosningaslagnum. Ég hef alla tíð haft mjög mikinn áhuga á breskum stjórnmálum. Man ég vel eftir seinustu valdaárum Margaret Thatcher sem sat á forsætisráðherrastóli árin 1979-1990 og gleymi aldrei atburðarásinni að morgni 22. nóvember 1990 er spurðist út að hún væri að segja af sér embætti. Það var söguleg stund óneitanlega. Man ég vel eftir kosninganóttinni í apríl 1992 er John Major tókst þvert á allar skoðanakannanir að halda völdum og tryggja með því fjórða sigur Íhaldsflokksins í röð. Það var sögulegur sigur á skoðanakönnunum, eins og frægt varð. Kosninganóttin 1997 er svo auðvitað ógleymanleg, en þá unnu kratar og Blair sögulegan sigur á hægriblokkinni og Major féll af valdastóli. Það voru söguleg úrslit, enda varð Blair yngsti forsætisráðherrann frá árinu 1827 og var það fyrsti kosningasigur kratanna eftir óslitna 18 ára valdatíð hægrimanna. 2001 voru kosningarnar óspennandi með eindæmum og staðan breyttist lítið. Nú gæti stefnt í spennandi kosningar, allavega vonar maður það, svona sem áhugamaður um málin. Enginn vafi leikur á að íhaldsmenn hafa verið sterkari seinustu vikur en jafnan áður og Verkamannaflokkurinn á undir högg að sækja. Svo virðist þó vera nú að stjórnin haldi velli og að Blair haldi forsætisráðherrastólnum enn um sinn. En klukkan tifar já í kjördag og þrátt fyrir spennu á þessum kafla slagsins bendir þó flest til þess að úrslitin sem slík séu ráðin. En við spyrjum að leikslokum.

Davíð Oddsson utanríkisráðherraDavíð Oddsson utanríkisráðherra, flutti á Alþingi í morgun skýrslu sína um utanríkismál. Þar tjáði hann þá skoðun sína að áleitnar spurningar hefðu komið upp í hans huga varðandi kostnað við framboð Íslands til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, til setu þar árin 2009 og 2010. Í ræðunni sagði hann orðrétt: "Ljóst er að á brattann verður að sækja gegn keppinautunum, en auk Íslands eru Austurríki og Tyrkland í framboði til þeirra tveggja sæta sem tilheyra Vesturlandahópnum svonefnda. Það er óneitanlega miður að honum skuli ekki hafa tekist að komast að samkomulagi um að einungis tvö ríki væru í framboði þannig að smærri aðildarríkjum gæfist kostur á að taka þátt í störfum öryggisráðsins án þess að þurfa að leggja í dýra og erfiða kosningabaráttu. Í utanríkisráðuneytinu var gerð kostnaðaráætlun upp á rúmar 600 milljónir króna vegna kosningabaráttunnar og setunnar í ráðinu. Gera verður ráð fyrir að þegar líði á kosningabaráttuna aukist harkan í henni enn frekar en orðið er og þar með kostnaðurinn. Af þessum ástæðum öllum hefur framboð Íslands verið til skoðunar, sem lýkur á næstu vikum. Ef halda á framboðinu áfram má ekki bíða mikið lengur með að hefja kosningabaráttuna af fullum krafti".

Er ánægjulegt að Davíð tjái sig með þessum hætti. Hef ég alla tíð verið mjög andvígur því að Ísland myndi sækja um þessa aðild, enda um að ræða mjög kostnaðarsama kosningabaráttu sem taki bæði langan tíma og alls óvíst sé um árangur í því. Eins og sést hefur er nauðsynlegt, ef heyja á baráttu um sætið af einhverri alvöru, að eyða í það stórpeningum án þess að nokkuð sé um það öruggt að Ísland muni vinna sætið. Er að mínu mati rétt að staldra aðeins við og hugsa málið betur. Á það ber að minnast að meirihluti þeirra mála sem tekinn er fyrir af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna eru málefni sem Íslendingar hafa hingað til lítið sem ekkert beitt sér í. Eins og fram hefur komið að hálfu okkar í stjórn og utanríkismálanefnd Sambands ungra sjálfstæðismanna, og ítrekað í stjórnmálaályktunum sambandsþings í Borgarnesi 2003 og málefnaþings á Selfossi 2004, þykir ungum sjálfstæðismönnum skorta á að sýnt sé með skýrum hætti fram á hvaða ávinningur hlýst af setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Kostnaðurinn er það mikill að fá þarf betur fram hver ávinningurinn sé, eigi að halda áfram á þessari braut. Með ræðu sinni nú hefur Davíð að mínu mati opnað svo ekki verði um villst á það að slá málið út af borðinu. Tel ég einsýnt að það muni brátt gerast af krafti að umræðan um þetta mál deyji út og málið slegið af, þegar tímasetning hentar.

Punktar dagsins
Akureyri

Boðað er til þögullar mótmælastöðu gegn ofbeldi á Akureyri klukkan 17:00 í dag á Ráðhústorgi. Það er ómögulegt fyrir okkur Akureyringa í ljósi nýlegra atburða hér í bænum að horfa þegjandi á það sem hefur gerst. Það er komið að okkur, bæjarbúum öllum, að rísa upp og mótmæla og taka á þessum málum. Svona ógeðslegheit og ómenningarbragur á enga samleið með þeirri stefnu sem við í bæjarstjórnarmeirihlutanum höfum markað okkur með fjölskyldustefnu bæjarins. Akureyri á að vera þekkt fyrir að vera fjölskylduvænt sveitarfélag: fjölskyldu- og skólabær. Það er sú stefna sem við höfum markað og við getum því ekki setið þegjandi hjá og horft upp á þessa þróun að misyndismenn vegi að rótum bæjarins og okkar mannlífsbrag. Unnið hefur verið af krafti af því að marka bænum þann sess að hann sé vettvangur heilbrigðs fjölskyldulífs en ekki vettvangur misyndismanna og villimennskuaumingja sem vega að heilbrigðum rótum mannlífs. En já, í dag fáum við bæjarbúar færi á að segja okkar skoðun. Það eru því eindregin tilmæli mín til Akureyringa allra að koma á Ráðhústorg í dag klukkan fimm og taka þátt í að mótmæla. Þar munum við halda á lofti rauðu dómaraspjaldi og tjá okkar hug með því. Burtu með þennan fjárans ósóma og nú verða menn að taka til hendinni, það er ekkert sem heitir með það! Látum í okkur heyra!

RÚV

Menningarmálanefnd SUS hélt í gærkvöldi opinn fund um nýtt frumvarp um Ríkisútvarpið, sem hefur verið lagt fram á þingi og er nú í vinnslu þar. Á fundinum sátu fyrir svörum þingmennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Kolbrún Halldórsdóttir fluttu framsöguerindi á fundinum og sátu að því loknu fyrir svörum ásamt Hafsteini Þór Haukssyni formanni SUS. Ef marka má umfjöllun á netinu var um að ræða fjölsóttan og öflugan fund. Er það mjög ánægjulegt, enda um að ræða málefni sem þörf er að taka vel fyrir og ræða. Mun Kolbrún hafa lýst því yfir á fundinum að ef velja þyrfti á milli þess að breyta RÚV í hlutafélag eða sameignarfélag, þá væri hún frekar hlynntari hlutafélagaleiðinni. Kom fram af hálfu Guðlaugs Þórs að hægri- og vinstrimenn gætu væntanlega náð saman um að einskorða hlutverk RÚV við svið íslenskrar menningar. Eins og fram kom í sunnudagspistli mínum þann 20. mars tel ég sem hægrisinnaður einstaklingur þetta frumvarp afleitt. Ég tel að það styrki RÚV um of og undirstöður þess með undarlegum hætti. Ég hef styrkst sífellt meir í þeirri skoðun minni seinustu vikurnar um að Ríkisútvarpið verður að einkavæða og klippa á tengingu fjölmiðla við ríkið. Það er ótrúlegt að Sjálfstæðisflokkurinn sé nú að leggja fram frumvarp á sínum vegum sem styrkir enn frekar grundvöll RÚV og það sem það byggir á. En ég hvet fólk til að lesa þau skrif mín um málið.

Jón Baldvin og Bryndís

Árið 2002 er ég varð 25 ára, fékk ég athyglisverða afmælisgjöf frá einum vina minna. Hann vissi auðvitað hvar ég var staddur í pólitík og ákvað að eigin sögn að gera mér þann óleik að gefa mér í gjöf viðtalsþáttinn Prívat þar sem Hans Kristján Árnason fjölmiðlamaður, ræddi við Jón Baldvin Hannibalsson sendiherra og fyrrum ráðherra og formann Alþýðuflokksins. Viðtalið sem gefið var út á myndbandsspólu árið 2001 og var á dagskrá Stöðvar 2 fyrr sama ár er mjög fróðlegt og gagnlegt og áhugavert á að horfa. Hrekkurinn hjá þessum mæta vini mínum, sem er vinstrimaður og krati frá æskuárum, gekk ekki upp enda tilkynnti ég honum er ég opnaði gjöfina að ég hefði lengi borið talsverða virðingu fyrir Jóni Baldvini og hefði haft álit á honum sem stjórnmálamanni, þrátt fyrir að vera stundum mjög ósammála honum, en það er önnur saga. Ég hef nokkrum sinnum horft á þetta ítarlega viðtal og alltaf haft gaman af, seinast í gærkvöldi. Einn af helstu kostum Jóns Baldvins er skemmtilegur frásagnarhæfileikinn og það er engu líkt að hlusta á hann fjalla um málefni Eystrasaltsríkjanna, EES málið og fleiri hitamál stjórnmálaferils hans. Hvet ég alla til að fá sér þessa spólu ef möguleiki er á og lesa ennfremur fyrra bindi góðrar ævisögu hans, en hún heitir Tilhugalíf og kom út á árinu 2002.

Reyðarfjörður

Ferðinni er heitið austur um helgina. Er eitt og annað þar á seyði sem gaman verður að taka þátt í. Fór ég síðast austur undir lok janúarmánaðar. Var það mjög ánægjuleg og góð ferð. Sérstaklega var gaman að kynna sér stöðu mála á Reyðarfirði vegna álversframkvæmdanna. Þar var allt komið á fullt þá og er enn meiri kraftur kominn í dæmið núna. Verður fróðlegt að líta á málin þar og framkvæmdirnar. Þar hefur nýlega verið vígð vegleg verslunarmiðstöð og svo eru þar nokkrar deilur um væntanlegt íþróttahús þar, sem er í stíl við Bogann, hér á Akureyri. Ekki vantar því málefnin þar og nóg að líta á þar. Ætla ég að kynna mér þetta allt um helgina ásamt fleiru. Það leikur enginn vafi á því að Fjarðarbyggð er orðinn miðpunktur Austurlands og er það ánægjuefni. Sérstaklega er gleðilegt að sjá hversu mjög Reyðarfjörður hefur styrkst. Verður fínt að eiga stund og líta á hvað er að gerast þarna og kynna sér málin vel. Það er því svo sannarlega skemmtileg helgi framundan austur á fjörðum.

Saga dagsins
1106 Jón Ögmundsson var vígður sem fyrsti biskupinn að Hólum í Hjaltadal - hann lést á árinu 1121
1958 Söngleikurinn víðfrægi, My Fair Lady var frumsýndur í London - varð kvikmyndaður árið 1964
1986 Wallis Warfield Simpson hertogaynja af Windsor, jarðsungin við látlausa athöfn - ástarsamband hennar og Edward VIII konungs Englands, leiddi til þess að hann afsalaði sér bresku krúnunni 1936. Giftust árið eftir og bjuggu eftir það í Frakklandi. Edward lést 1972. Þau hvíla hlið við hlið í Windsor
1992 Fjöldaóeirðir í Los Angeles í kjölfar sýknudóms yfir þeim sem réðust á Rodney King árið áður
1994 Steingrímur Hermannsson skipaður seðlabankastjóri - þá baðst hann lausnar sem formaður Framsóknarflokksins og alþingismaður Framsóknarflokksins. Hann hafði þá setið á þingi frá árinu 1971 og verið ráðherra nær samfellt árin 1978-1991. Steingrímur var dóms- og landbúnaðarráðherra 1978-1979, sjávarútvegs- og samgönguráðherra 1980-1983, forsætisráðherra 1983-1987 og 1988-1991 og utanríkisráðherra 1987-1988. Hann hafði verið formaður flokksins frá 1979. Eftirmaður hans á formannsstóli Framsóknarflokksins var Halldór Ásgrímsson, sem verið hafði varaformaður frá 1980

Saga morgundagsins
1945 Adolf Hitler sviptir sig lífi ásamt Evu Braun eiginkonu sinni í neðanjarðarbyrgi í Berlín - Hitler hafði þá tapað stríðinu. Hann ríkti yfir Þýskalandi allt frá 1933, en tók sér einræðisvald á árinu 1936
1973 Richard Nixon forseti, tekur ábyrgð á Watergate málinu en hafnar persónulegri aðild að því - málið jókst sífellt að vöxtum og eftir því sem á leið varð ljóst að Nixon hafði verið tengdur því. Hann sagði af sér fyrstur forseta Bandaríkjanna í ágúst 1974, enda blasti við að þingið myndi ákæra hann
1975 Víetnamstríðinu langa lýkur formlega er Saigon stjórnin tilkynnir uppgjöf sína fyrir Vietcong
1991 Davíð Oddsson verður forsætisráðherra er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks tók við völdum - stjórnin sat til 1995 en Davíð sat á forsætisráðherrastóli samfellt til 15. september 2004
1993 Ein fremsta tennisstjarna heims, Monica Seles, var stungin í bakið - náði ekki aftur fyrri stöðu

Snjallyrðið
The best minds are not in government. If any were, business would steal them away.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)

28 apríl 2005

Ásdís Halla BragadóttirHeitast í umræðunni
Tilkynnt var um fimmleytið í dag að Ásdís Halla Bragadóttir bæjarstjóri í Garðabæ, hefði verið ráðin forstjóri BYKO. Þessi tíðindi komu mér í opna skjöldu og eiginlega eru þau tíðindi pólitískt sem mér hefur brugðið mest við að heyra seinustu árin. Það eru alltaf tíðindi þegar pólitískir forystumenn færa sig til með þessum hætti og takast á hendur önnur verkefni. Það hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með pólitískri forystu Ásdísar Höllu í Garðabæ. Þau fimm ár sem hún var bæjarstjóri þar hefur Garðabær eflst og hefur náð mikilli forystu á mörgum sviðum varðandi málefni sveitarfélaga almenns eðlis.

Sérstaklega hefur verið gaman að kynna sér stefnu Garðabæjar í skóla- og menntamálum og þátt Ásdísar Höllu í þeirri stefnu sem þar hefur verið mörkuð með mjög farsælum hætti. Þriðja hvert barn á leikskólaaldri í Garðabæ er í einkareknum leikskóla og árið 2006 þegar nýr skóli opnar í Sjálandshverfi mun þetta hlutfall hækka í annað hvert barn. Með verkum sínum í Garðabænum hefur Ásdís Halla horft til framtíðar í þessum málaflokki og ennfremur farið nýjar og markvissar leiðir og starfað vel eftir skoðunum og áherslum okkar SUS-ara í menntamálum.

Ásdísi hefur tekist að umbylta skólakerfi bæjarins með glæsilegum hætti og stokka það upp og gera það að fyrirmyndarkerfi í íslenskum menntamálum: kerfi sem aðrir hafa hug á að taka upp og þróa í þá átt að fylgja frumkvæði sjálfstæðismanna þar. Athygli hefur alla tíð vakið hversu hljóðlega þessi mikla breyting, eða ætti maður ekki miklu frekar að segja bylting, í skólamálum hefur gengið yfir. Er það eflaust til marks um hversu vel hún hefur gengið. Á fleiri sviðum hefur Ásdís Halla að standa sig vel. Sérstaklega er gaman að kynna sér málefni nýs vefs bæjarins. Nýi vefurinn boðar alger tímamót í rafrænum samskiptum sveitarfélags við íbúa sína. Allir Garðbæingar geta fengið lykilorð að vefnum og gert eigin útgáfu af vefnum, tekið þátt í umræðum og ákvarðanatöku almennt. Meðal þess sem hægt er að skoða á vefnum er staða gjalda svo sem fasteigna- og leikskólagjalda. Hægt er að senda formleg bréf til bæjarstjórnar og senda inn athugasemdir við auglýst skipulag.

Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með því hvernig unnið hefur verið í málum þarna. Eins og fyrr segir hefur Ásdís Halla unnið af krafti og er mjög ánægjulegt að kynna sér stöðu mála í sveitarfélaginu og öflugt starf hennar og annarra forystumanna flokksins þar. Þar hefur verið unnið með kraft að leiðarljósi á nær öllum sviðum. Garðabær undir forystu Ásdísar Höllu hefur verið bær tækifæranna, sveitarfélag sem er í fararbroddi og hún hefur verið virt fyrir störf sín þvert á stjórnmálalínur. Það er besti vitnisburðurinn um verk hennar að hún hefur leitt farsæl mál með glæsilegum hætti. Það er mér mjög mikil vonbrigði að hún víki úr sveitarstjórnarpólitík og feti annan stíg. Að mínu mati er hún einn frambærilegasti stjórnmálamaður sinnar kynslóðar. Að henni er svo sannarlega eftirsjá, það er alveg óhætt að fullyrða það. Ég óska henni góðs gengis og farsældar á nýjum vettvangi, en lýsi yfir hryggð minni á brotthvarfi hennar úr stjórnmálum. Það hefur verið ánægjulegt að kynnast forystu hennar innan flokksins og vonandi kemur hún aftur síðar.

Jón Baldvin Hannibalsson sendiherraÞað er merkilegt að fylgjast með formannsslagnum í Samfylkingunni. Formannsefnin, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson, hika ekki við að skjóta hvort á annað, þó pent sé og baráttan er hörð. Það sést best á málum seinustu daga sem sannar hversu gríðarleg smölun var í flokkinn undir lokin. Þar var þroskaheft fólk á sambýlum og unglingar á sextánda ári í grunnskóla engin undantekning frá öðrum. Klögumálin ganga víða og kjörnefndin hefur haft í nógu að snúast við að leiðrétta allnokkrar skráningar. Nú hafa gamlir kratahöfðingjar sem sitja á friðarstóli í opinberum störfum eftir pólitíska þátttöku til fjölda ára látið til sín taka í slagnum. Nýlega birtist á stuðningsmannavef Össurar stuðningsgrein við hann eftir Sighvat Björgvinsson framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og fyrrum viðskiptaráðherra og formann Alþýðuflokksins. Þar telur hann upp staðreyndir sem hann telur grunn þess að Össur eigi að vera áfram á formannsstóli.

Í dag birtist á stuðningsmannavef Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson þar sem hann svarar skrifum Sighvats. Skrifum hans verður vart tekið öðruvísi á þessum vef en sem svo að hann styðji Ingibjörgu Sólrúnu til formannsembættisins. Hvergi í greininni lýsir hann þó yfir beinum stuðningi við formannsframboð hennar. En það svona liggur í línunum hvar stuðningur hans liggur. Það er merkilegt að fylgjast með þessum tveim höfðingjum kratapólitíkurinnar skrifast á með þessum hætti. Sérstaklega í ljósi þess að Jón Baldvin studdi Sighvat til formannsembættisins er hann hætti árið 1996 og þeir voru samherjar á þeim tíma. Nú reyndar hafa formannskandidatarnir á þeim tíma þeir Sighvatur og Guðmundur Árni sameinast að baki Össuri. Fylkingarnar í þessum formannsslag eru því ansi merkilegar og virðast ekki fara eftir gömlum flokksböndum. En eftirtektarverðast er að tveir menn með sendiherraígildi skrifist á með svona opinberum hætti um pólitík. Sighvatur er sem framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar með sendiherraígildi og Jón Baldvin er sendiherra í Finnlandi, eins og kunnugt er. Fyrir nokkrum mánuðum töldu vissir Samfylkingarmenn óviðeigandi að sendiherra okkar í Danmörku tjáði sig um pólitík með setu í stjórnarskrárnefnd en nú virðast engin bönd gilda um kratahöfðingjana tvo er þeir koma aftur á sviðið.

Punktar dagsins
Michael Howard og Tony Blair

Vika er til þingkosninganna í Bretlandi. Harkan í slagnum er meiri nú en nokkru sinni að margra mati. Mjög hart er fram gengið í að tjá skilaboð flokkanna og persónuskítkastið milli helstu leiðtoganna ber keim þess sem var í bandarísku forsetakosningunum fyrir nokkrum mánuðum. Ekkert virðist til sparað. Jafnast hefur mjög saman með flokkunum og er munurinn nú orðinn innan skekkjumarka. Annars virðast fylgissviptingarnar vera miklar milli daga, annan daginn er Verkamannaflokkurinn með nokkuð forskot en hinn eru flokkarnir stóru svo til jafnir. En það er alveg ljóst að Íhaldsflokkurinn á enn séns í stöðunni. Allnokkur sæti kratanna eru í hættu og gætu fallið á hvern veg sem er í mörgum af einmenningskjördæmunum. Merkilegt er að fylgjast með rimmunni milli þeirra Tony Blair og Michael Howard. Þar er sko ekkert slegið af. Howard hefur gengið fram af miklum krafti og sakað forsætisráðherrann um ósannindi og hafa svikið þjóðina.

Segja má að hann hafi fengið uppreisn æru þegar áliti ríkislögmanns Bretlands um Íraksstríðið, sem efaðist um lögmæti innrásarinnar í Írak kæmi ekki til önnur ályktun frá Sameinuðu þjóðunum, var lekið í BBC. Þetta lagaálit var aldrei birt þá og því er ljóst að Blair hefur hagrætt sannleikanum er hann sagði að önnur lagaálit hefðu ekki komið til á sínum tíma. Þetta er auðvitað vatn á myllu íhaldsmanna þessa dagana, enda virðast ummæli þeirra og frjálslyndra um Blair hafa verið rétt seinustu vikurnar. Nú hefur svo forsætisráðuneytið birt lagaálitið á vef sínum, til að sporna við gagnrýninni. En eftir stendur auðvitað að forsætisráðherrann hefur orðið missaga um málið og hefur haft lagaálit ríkislögmannsins algjörlega að vettugi. Hvað sem Blair segir eða gerir breytir ekki þeim staðreyndum. Þetta óneitanlega kemur sér illa fyrir hann að fá þetta upplýst aðeins sjö dögum fyrir kosningar. En hvort og þá hvaða áhrif þetta muni hafa ræðst auðvitað í kosningabaráttu næstu daga. En harkan eykst sífellt.

Laura Welch Bush og Jay Leno

Laura Welch Bush forsetafrú Bandaríkjanna, var gestur spjallþáttastjórnandans Jay Leno í þætti hans í vikunni. Þar var hann aðallega að ræða við hana um lífið í Hvíta húsinu og störf hennar seinustu vikur. Er þetta í fjórða skipti sem hún kemur til Leno frá forsetakosningunum í fyrra. Forsetafrúin hefur vakið athygli að undanförnu fyrir að fara ferðir án eiginmannsins, t.d. til Íraks og Afganistans. Hefur hún verið mun meira áberandi það sem af er þessu kjörtímabili en var á hinu seinasta. Enginn vafi leikur á því að Bush-hjónin bæði eru mun meira áberandi og koma fram með mun afgerandi hætti en var á fyrra kjörtímabilinu. Þau þurfa enda ekki að óttast aðrar kosningar. Stjórnmálaferli forsetans lýkur er kjörtímabilinu lýkur í janúar 2009. Þau munu þá setjast að í Texas og sinna rólegheitalífi. Leno spurði reyndar forsetafrúna hvort hún stefndi á framboð sjálf er kjörtímabilinu lyki. Er varla undarlegt svosem að sú spurning vakni í ljósi þess að samkvæmt skoðanakönnunum er forsetafrúin vinsælli en forsetinn. Hún svaraði spurningunni neitandi, enda sagðist hún varla geta beðið þess að opinberum störfum eiginmannsins lyki, svo þau gætu þá vikið úr opinberu lífi. Það er alveg ljóst þegar skoðanakannanir eru skoðaðar að framganga forsetafrúarinnar hefur styrkt mjög persónufylgi forsetans í gegnum tíðina. Til dæmis blasir við að hann hefði átt mun erfiðara með að ná endurkjöri í nóvember 2004 án hennar.

A Streetcar Named Desire

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina A Streetcar Named Desire sem er byggð á samnefndri sögu eftir Tennessee Williams, sem var ein þekktasta skáldsaga 20. aldarinnar. Árið 1947 færði kvikmyndaleikstjórinn Elia Kazan söguna á svið á Broadway og hlaut mikið lof fyrir. Fjórum árum síðar gerði hann myndina. Útkoman var ein eftirminnilegasta kvikmynd 20. aldarinnar. Mögnuð saga sem segir frá fegurðardísinni Blanche sem kemur í heimsókn til systur sinnar Stellu og mannsins hennar, Stanley. Smám saman komast þau að raun um að Blanche segir ekki alltaf satt. Hver er munurinn á sjálfsblekkingu og draumaveröld? Lánleysið blasir allsstaðar við og það eina sem hægt er að binda vonir við, eru þráin, girndin og ástin. Í aðalhlutverkum voru Vivien Leigh, Kim Hunter, Karl Malden og nýstirnið Marlon Brando, sem hafði slegið í gegn, 23 ára gamall, í hlutverki Stanley á Broadway í sýningunni 1947. Brando átti leiksigur í hlutverki Stanley Kowalski og varð stórstjarna í kvikmyndaheiminum á einni nóttu og einn frægasti leikari 20. aldarinnar. Vivien Leigh, Kim Hunter og Karl Malden fengu öll óskarinn fyrir leik sinn og Kazan var tilnefndur fyrir leikstjórn og Brando fyrir magnaðan leik sinn. Ég hvet alla kvikmyndaunnendur til að sjá þetta magnaða meistaraverk ef þeir eiga tök á því, betri mynd er vart hægt að sjá.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn mælist langstærsti flokkur landsins í nýrri skoðanakönnun sem Frjáls verslun hefur gert fyrir vefinn heimur.is, sem er viðskiptavefur blaðsins. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 38% fylgi, Samfylkingin hlýtur rúmlega 31%, Vinstrihreyfingin - grænt framboð mælist með 14%, Framsóknarflokkur hefur tæp 11% og Frjálslyndir hljóta 5%. Samkvæmt þessu hlyti Sjálfstæðisflokkur 24 þingsæti, Samfylkingin 20, Vinstri grænir 9, Framsókn 7 og Frjálslyndir 3. Könnunin var framkvæmd í þessari viku, dagana 25. - 27. apríl. Vissulega ber að taka allar skoðanakannanir með vara, en þessi mæling er engu að síður mjög í takt við könnun Gallups í marsmánuði. Það er alltaf gott fyrir okkur í flokknum að fá góða mælingu. Það er allavega mjög hvetjandi að sjá svona tölur, þó alltaf séu skoðanakannanir bara vísbendingar, ekkert meira.

Saga dagsins
1237 Bardagi háður að Bæ í Borgarfirði - það féllu fleiri en 30 manns alls í þessum mikla bardaga
1819 Tukthúsið í Reykjavík gert að embættisbústað - þar er nú skrifstofa forsætisráðherra Íslands
1945 Benito Mussolini fyrrum einræðisherra Ítalíu, tekinn af lífi á flótta ásamt ástkonu sinni, Clöru Petacci - hann var við völd á Ítalíu frá 1922, en tók sér alræðisvald 1928 en svo steypt af stóli 1943
1969 Charles De Gaulle forseti Frakklands, biðst lausnar eftir ósigur í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem kosið var um breytingar á stjórnarskrá landsins. De Gaulle hafði þá setið á forsetastóli í 11 ár
1986 Sovétstjórnin viðurkennir loks tilvist kjarnorkuslyssins í Chernobyl-kjarnorkuverinu í Úkraínu

Snjallyrðið
The greatness comes not when things go always good for you. But the greatness comes when you're really tested, when you take some knocks, some disappointments, when sadness comes. Because only if you've been in the deepest valley can you ever know how magnificent it is to be on the highest mountain.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)

26 apríl 2005

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Þingflokkur Framsóknarflokksins birti formlega í dag upplýsingar um eignir þingmanna flokksins. Er þar um að ræða eignir þeirra í fasteignum, fyrirtækjum, sjóðum og prívateignir sem gera þarf upp almennt. Ennfremur eru talin upp laun fyrir störf utan þingsins, boðsferðir og gjafir almenns eðlis. Fór ég í dag ítarlega yfir listann með upplýsingunum og tel þetta mjög gott framtak hjá Framsóknarflokknum. Reyndar má telja líklegt að þetta leiði til þess að forsætisnefnd setji reglur um slíkt almenns eðlis hvað varðar alla þingmenn. Að mínu mati er sjálfsagt að þingmenn gefi slíkt upp, enda eiga þingmenn að vera með hreinan skjöld gagnvart umbjóðendum sínum. Að mínu mati eiga allir þingmenn nú að feta í þessi fótspor og taka upp þennan hátt á.

Undanfarnar vikur og mánuði hefur mikið verið talað um eignatengsl þingmanna Framsóknarflokksins við hin og þessi öfl í landinu og fyrirtæki af ýmsu tagi og margar dylgjur gengið í þinginu um það. Sérstaklega hafa þingmenn Samfylkingarinnar haft hátt um það og talað af krafti, að því er virðist að mestu til að reyna að dekka innri ólguna í eigin flokki og starta umræðu á annarlegum forsendum um málin. Segja má að ummæli Samfylkingarþingmanna hafi jaðrað við dylgjur og árásir á undarlegum forsendum. Það sjá allir sem fara yfir þennan lista að þingmennirnir eru margir hverjir ekki með neinn eignarhlut í fyrirtækjum en sumir þingmenn og makar þeirra eiga eitthvað í fyrirtækjum en þó verulega smávægilega hluti.

Það sannast þegar litið er yfir listann að þingmenn Samfylkingarinnar fóru offari í þingumræðum fyrr á árinu þegar dylgjað var um vissa þingmenn Framsóknarflokksins. En eftir stendur að Samfylkingin og flokkarnir á undan þeim vinstra megin, Þjóðvaki og hvað þeir heita allir, hafa talað og talað um þessi mál í rúman áratug, undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur. Það mætti þó segja mér að Jóhanna blessunin sé fúl yfir að þurfa frumkvæði framsóknarmanna til að birta tölur fyrir sinn flokk. Jóhanna hefur prívat og persónulega aldrei lagt í það sjálf að birta svona tölur opinberlega. Ekki það að ég telji hana stóreignamanneskju eða eitthvað stórhættulega í þessum efnum. En málið er það að þau hefðu getað tekið frumkvæðið en misstu það til Framsóknarflokks. Ég hef heyrt á mörgum seinustu daga sem ég þekki innan Samfylkingarinnar að fólki þar finnist blóðugt að frumkvæðið í þessu verði framsóknarmanna. En umræðustjórnmálin eru víst svona í réttinni hennar Ingibjargar Sólrúnar, menn tala þar til frumkvæðið færist annað. En hvað ætli Samfylkingin druslist ekki til núna eftir baráttu í áratug og verði eftirbátur Framsóknarflokksins í þeim efnum. Það hefur verið mál þeirra síðan 1995 allavega að taka þetta system upp en missa svo frumkvæðið til Framsóknar af öllum flokkum. Þetta er ansi kómískt, ekki satt lesandi góður?

Ingibjörg Sólrún og Össur í KastljósinuFormannsefnin í Samfylkingunni, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson, áttust við í Kastljósinu í gærkvöldi. Heldur settlegra var yfir þarna en í Íslandi í dag í síðustu viku. Engum duldist þó sem á horfði að þau eru að berjast um allt eða ekkert í pólitík hvað varðar forystu í landsmálapólitík. Þrátt fyrir loforð um að bæði haldi áfram í stjórnmálum tapi þau slagnum liggur í loftinu að það þeirra semt tapi víki úr forystusveitinni og láti hinu eftir sviðið að mestu leyti. Össur sem formaður flokksins í fimm ár og leiðtogi í kjördæmi að hálfu flokksins í síðustu kosningum getur varla með góðri samvisku verið undirmaður ISG á skútunni ef hann tapar og ISG sjálf mun eiga erfitt með að koma inn á þing í haust og taka sess í þinginu hafi hún tapað formannsslagnum fyrir Össuri og þar með fyrstu einstaklingskosningu sinni í pólitík.

Voru nokkur lúmsk skot sem flugu á milli en greinilega mjög settleg. Bakvið tjöldin eru þau ekki eins settleg. Sögur eru um að fólk í öðrum flokkum hafi verið skráð í flokkinn og fengið atkvæðaseðla vegna formannskjörsins án þess að það hafi gengið í flokkinn sér vitanlega. Svo kom skondnasta dæmið í gærkvöldi þar sem voru nokkrir tíundu bekkingar í borginni sem skráðu sig í flokkinn í röðum. Það er vissulega ánægjulegt ef ungt fólk hefur skoðun í pólitík en einhvernveginn ber skráning þeirra merki smölunar fyrir annan frambjóðandann. Það er merkilegt að fylgjast með þeirri örvæntingu ISG-liða í umræðunni að ætla Sjálfstæðisflokknum það að stjórna kjörinu. Það er eitthvað nýtt að Ingibjörg og sveitin hennar opinberi hræðslu sína við Sjálfstæðisflokkinn, en það er nú einu sinni svo, lesandi góður, að öll hennar valdabarátta seinustu árin hefur einkennst af því að magna upp samstöðu gegn Sjálfstæðisflokknum. Það er skondnara en allt annað í stjórnmálaumræðunni þessa dagana að fylgjast með ISG og innstu hjörð hennar reyna að nota Sjálfstæðisflokkinn og flokksbundið fólk þar sem grýlu innan eigin raða til að reyna að fá hinn almenna flokksmann til að styðja sig þegar við blasir að engan veginn er öruggt lengur að hún nái kjöri og jafnvel gæti stefnt í að þessi forna vonarstjarna vinstrimanna tapi fyrstu einstaklingskosningu sinni.

Punktar dagsins
Charles Kennedy, Tony Blair og Michael Howard

Nú þegar níu sólarhringar eru í að kjörstaðir opni á Bretlandseyjum er kosningabaráttan að taka á sig enn harðari og óvægnari mynd en verið hefur. Ljóst er af lokasprettinum að enginn tekur neina sénsa. Þrátt fyrir gott gengi í skoðanakönnunum tefla kratarnir á engin vöð og leggja allt í slaginn, meiri kraft tel ég en 1997 og 2001. Helgast það auðvitað af því að staðan er brothættari nú en þá, þó vissulega sé fylgismunurinn nokkur miðað við skekkjumörkin. Var greinilegt að settlegt yfirbragð var yfir flokksleiðtogunum er þeir komu fram saman opinberlega í dag við afhjúpun minnismerkis um lögreglumenn í London, en heldur betur þótti kalt yfirbragð á þeim. Myndin hér að ofan segir meira en mörg orð. Harkan í slagnum er mikil og settlegheitin megna ekki að hylja kuldalegheitin milli allra þriggja helstu flokksleiðtoganna innbyrðis. Í dag sakaði Michael Howard forsætisráðherrann um að hafa sagt þjóðinni ósatt vegna Íraksmálsins æ ofan í æ. Jafnframt sagðist hann enn trúa því að íhaldsmenn gætu unnið kosningarnar, það væri enginn leikur búinn fyrr en hefði verið flautað af. Í dag urðu kratar fyrir áfalli, enda sagði þingmaðurinn Brian Sedgemore sig úr flokknum og fór yfir til frjálslyndra. Segja má að rólegt hafi verið yfir Charles Kennedy leiðtoga frjálslyndra. Flokkur hans er þó að bæta við sig í könnunum og virðist græða að hafa einn flokka verið á móti Íraksstríðinu. En klukkan tifar í kjördag og kosningabaráttan harðnar.

Diane Keaton og Woody Allen í Annie Hall

Fór í gærkvöldi á stefnumótunarfund í Borgir. Gekk mjög vel og var mjög notalegt og gott spjall um málaflokkinn sem við tókum fyrir. Hann er reyndar stór og mikill, en það var notalegast af öllu við að fara yfir hann hvað okkur hefur gengið vel í honum. Nóg samt um að spjalla og fara yfir. Áttum við mjög góða stund þarna og ræddum málin fram og til baka. Sérstaklega var gaman að spjalla við Þóru, en hún hafði margar sögur af segja af blakmótinu, en þar landaði hún og hennar lið Íslandsmeistaratitli, glæsilegt hjá Þóru. Eftir fundinn leit ég í heimsókn til Hönnu systur. Tvíburadætur hennar, Andrea og Berglind, eru algjörar fótboltagellur og æfa og keppa bolta alveg á fullu í Boganum þessar vikurnar. Þær eru að fara í ferð til Danmerkur í júníbyrjun með liðinu. Er þar um að ræða kynnis- og æfingaferð. Þær eru alveg á fullu þessa dagana að safna sér inn fyrir ferðinni. Það vantar ekki ættardugnaðinn í stelpurnar. Dáist alveg að þeim, þær eru sko á fullu og gera þetta af sál og krafti. Eru að selja brauð, harðfisk, eldhúsrúllur og ég veit ekki hvað og hvað. Nóg um að vera. Keypti af þeim brauð og slatta af harðfiski. Það er um að gera að leggja hönd á plóginn hjá þessum upprennandi Danmerkurförum. :)

Er heim kom horfði ég á Annie Hall, hina stórfenglegu kvikmynd meistara Woody Allen. Er þetta frábær mynd, hiklaust ein af mínum uppáhaldsmyndum. Í henni eru góðir kómískir þættir en einnig má finna fyrir alvarlegum undirtón og skemmtilegri sýn á nútímaástarsamband þess tíma. Er í raun sjálfsævisöguleg úttekt á sambandi Allens og Diane Keaton en þau eru bæði tvö hreint ómótstæðileg í myndinni. Hér er nóg af hinum venjulegu en alltaf óvæntu Allenbröndurum og pælingum um ástina en líka dýpri og innilegri íhuganir, enda er Annie Hall persónulegasta mynd Allens fyrr og síðar, gerð af einstakri hlýju og miklum skilningi og ógleymanlegum húmor. Fjallar um stormasamt ástarsamband grínista og söngkonu sem á sér háleit markmið í lífinu og mikla drauma. Inn á milli fljóta hressilegir brandarar og snjallar athugasemdir um lífið og tilveruna að hætti Woody Allen. Diane Keaton hlaut óskarinn fyrir leik sinn og myndin var valin besta kvikmynd ársins og Allen hlaut leikstjóraóskarinn. Klassísk kvikmynd sem verður sífellt meira meistaraverk með hverju áhorfi. Frábær mynd sem ég horfi reglulega á. Ávallt viðeigandi - alltaf ljúf.

Vinir (Friends)

Nú í vikunni var ég að kaupa restina af hinum frábæru Friends-þáttum á DVD. Um þessar mundir er ár liðið síðan að þessi einn vinsælasti sjónvarpsþáttur seinasta áratugar, og óneitanlega ein af helstu táknmyndum tíunda áratugarins, leið undir lok er lokaþátturinn var sýndur í Bandaríkjunum. Til marks um vinsældir þáttanna horfðu rúmlega 50 milljón manns á lokaþáttinn í Bandaríkjunum, er hann var sýndur þann 6. maí 2004. Þættirnir um Vini nutu alla tíð mikilla vinsælda, frá því fyrsti þátturinn var sýndur í Bandaríkjunum þann 22. september 1994. Þættirnir voru á þessum áratug sýndir í rúmlega 100 löndum. Aðalleikarar þáttanna: Courtney Cox Arquette, Matthew Perry, Jennifer Aniston, David Schwimmer, Lisa Kudrow og Matt Le Blanc (sem voru öll nær óþekkt við upphaf sýninga þáttanna), fengu við lok framleiðslu þeirra, alls eina milljón dollara, um 73 milljónir íslenskra króna, fyrir hvern þátt. Mikil leynd ríkti yfir sögulokum þáttarins í fyrra og t.d. voru mörg atriði lokaþáttarins tekin upp leynilega án áhorfenda í upptökusal og leikendur og aðrir sem unnu að gerð þáttanna voru látnir sverja þagnareið. Fylgdist ég með þáttunum um Vini allt frá byrjun fyrir 10 árum og alltaf haft mjög gaman að þeim. En já, það er gott að það verður hægt um langa hríð að ylja sér við hinar góðu minningar um Vinina á DVD.

Eskifjörður

Ég er að fara austur um helgina. Það er alltaf gaman að fara austur, eiginlega fer maður þangað alltof sjaldan. Austfirðirnir skipa sérstakan sess í hjarta mínu, enda á ég þar marga ættingja og vini. Mamma er frá Eskifirði og þangað er því alltaf gaman að koma í heimsókn. Afi minn, Friðrik Árnason, bjó þar alla tíð, allt til dánardags árið 1990. Hann var hreppstjóri þar til fjölda ára og varð fyrsti heiðursborgari Eskifjarðarbæjar. Amma mín, Sigurlín Kristmundsdóttir, fluttist austur árið 1923 með foreldrum sínum og bræðrum og bjó þar allt til ársins 1974 er hún fluttist með mömmu og fjölskyldu minni norður. Pabbi er að norðan og fór svo að mamma fluttist norður með honum þá. Ég bjó því aldrei fyrir austan sjálfur. Amma var jarðsett fyrir austan er hún lést fyrir fimm árum, en hún bjó í Eyjafirði seinustu 26 árin. Á laugardaginn ætla ég mér að fara í kirkjugarðinn á Eskifirði og eiga þar stund með sjálfum mér við legstað ömmu og afa. Það er alltaf gott að helga þeim sem eru farnir stund í huga sér. Á ljósmyndavef Helga Garðarssonar á Eskifirði er að finna fjöldann allan af gömlum og góðum myndum. Er viðeigandi að benda á nokkrar myndir hér sem mamma hefur nýlega sent Helga úr ljósmyndasafni fjölskyldunnar.

Lína amma - Friðrik afi - mamma - Afi og Frissi - langafi og langamma - mamma og Hjalli frændi

Saga dagsins
1834 Tvö skip og fjórtán bátar fórust í gríðarlegu ofsaveðri á Faxaflóa og með þeim fórust 42 menn
1923 Albert Bretaprins (síðar George VI konungur) kvænist Elizabeth Bowes-Lyon - varð konungur Englands árið 1936 og ríkti allt til dauðadags árið 1952. Elizabeth lifði George í hálfa öld og lést 2002
1986 Kjarnorkuslys verður í kjarnorkuverinu í Chernobyl í Úkraínu - hið mesta í mannkynssögunni
1991 Davíð Oddsson þáv. borgarstjóri, tók í notkun móttöku- og flökkunaraðstöðu Sorpu í Gufunesi
1993 Niðursveiflu í efnahagsmálum á Englandi lýkur formlega - þrátt fyrir að staða efnahagsmála bættist til mikilla muna árin á eftir tapaði Íhaldsflokkurinn þingkosningunum í landinu á árinu 1997

Snjallyrðið
Freedom consists not in doing what we like, but in having the right to do what we ought.
Jóhannes Páll II páfi (1920-2005)

25 apríl 2005

AkureyriHeitast í umræðunni
Óhætt er að fullyrða að okkur íbúum Akureyrar hafi brugðið mjög í síðustu viku, rétt eins og eflaust öllum landsmönnum, vegna atburða sem átti sér stað er 17 ára strákur hér í bænum var keyrður upp á Vaðlaheiði og skotið á hann úr loftbyssu. Enginn vafi er á því að þar var um að ræða aðför að stráknum af hálfu handrukkara sem voru að innheimta fíkniefnaskuld. Ég verð að segja það fyrir mig alveg hreint út að ég varð orðlaus yfir þessum fréttum og hef ekki talið rétt að skrifa hér vegna þessa máls fyrr en nú.

Satt best að segja átti ég ekki von á að skuggahliðarnar væru orðnar svona áberandi í bæjarlífinu og mér er einfaldlega brugðið. Það er ljóst að dópdraugurinn er kominn hingað af enn meiri krafti en okkur hafði órað fyrir og menn verða að horfast í augu við stöðu mála og það sem meira er að leggja til atlögu gegn vágestinum af krafti nú. Samkvæmt fréttum þessa dagana munu mennirnir tveir sem áttu hlut að máli í árásinni að stráknum ganga nú lausir en þeir voru þó báðir á skilorði. Er engin furða þó reiði bæjarbúa kraumi undir af enn meiri krafti vegna þess.

Mér er ofboðið vegna þessa máls, sem og flestum bæjarbúum. Nú er komið að því að við segjum hingað og ekki lengra! Nú verða menn að taka til hendinni og leggja til atlögu. Svona ógeðslegheit og ómenningarbragur á enga samleið með þeirri stefnu sem við í bæjarstjórnarmeirihlutanum höfum markað okkur með fjölskyldustefnu bæjarins. Akureyri á að vera þekkt fyrir að vera fjölskylduvænt sveitarfélag: fjölskyldu- og skólabær. Það er sú stefna sem við höfum markað og við getum því ekki setið þegjandi hjá og horft upp á þessa þróun að misyndismenn vegi að rótum bæjarins og okkar mannlífsbrag. Unnið hefur verið af krafti af því að marka bænum þann sess að hann sé vettvangur heilbrigðs fjölskyldulífs en ekki vettvangur misyndismanna og villimennskuaumingja sem vega að heilbrigðum rótum mannlífs.

Það er ómögulegt að horfa þegjandi á það sem hefur gerst hér seinustu daga. Það er komið að okkur, bæjarbúum öllum, að rísa upp og mótmæla og taka á þessum málum. Ég og fleiri bæjarbúar undir forystu Ragnars Hólms Ragnarssonar höfum ákveðið að standa fyrir mótmælum hér í bænum á föstudag og tjá skoðun okkar á þessari ómenningu og lýsa yfir eindreginni andstyggð okkar á þessum verknaði og dópmenningunni yfir höfuð sem virðist verða æ meira áberandi hér. Á þeim fundi fáum við bæjarbúar færi á að segja okkar skoðun. Það eru því eindregin tilmæli mín til Akureyringa allra að koma á Ráðhústorg klukkan fimm á föstudag og taka þátt í að mótmæla. Þar munum við halda á lofti rauðu dómaraspjaldi og tjá okkar hug með því. Burtu með þennan fjárans ósóma og nú verða menn að taka til hendinni, það er ekkert sem heitir með það! Látum í okkur heyra!

Gordon Brown og Tony Blair10 dagar eru til þingkosninga á Bretlandi. Kannanir sýna öruggt forskot Verkamannaflokksins á Íhaldsflokkinn. Að óbreyttu munu þeir því halda velli og Tony Blair halda forsætisráðherrastólnum enn um sinn og ná að landa sögulegum áfanga á ferli sínum: að leiða kratana til þriðja kosningasigurs síns í röð. Fram til þessa hefur aðeins Margaret Thatcher tekist í breskri pólitík að vinna þrisvar í röð. Svo virðist vera að þrátt fyrir að Íraksmálið brenni á fólki og mörgum kjósendum blöskri forysta Blairs í því máli og vinnubrögð hans muni honum verða falin forystan áfram. Allar kannanir það sem af er gefa það eindregið til kynna. Svo virðist vera sem að sú yfirlýsing hans um að þetta verði síðasta kosningabarátta hans hafi gert það að verkum að það slagorð gangi að það sé allt í lagi að kjósa Blair áfram því hann sé að fara að hætta og menn vilji hrósa honum að einhverju leyti. The Sun sem hefur lýst yfir stuðningi við kratana hefur sagt að það sé í lagi að kjósa Blair enn einu sinni, en nefnir engar málefnalegar ástæður fyrir því.

Eins og sjá má af meðfylgjandi mynd er Gordon Brown eins og skugginn á eftir Blair þessa dagana. Hvert sem Blair fer, fer Brown líka. Er þetta til marks um það að Brown er orðinn meginsegull flokksins á kjósendur. Nýleg könnun sýndi að flokkurinn myndi hljóta 48% fylgi ef Brown væri leiðtogi hans. Er enginn vafi lengur á því að Brown er orðinn sá sem flestir telja að taki við af Blair. Segja má að svo hafi þetta verið allt frá því Blair varð leiðtogi flokksins árið 1994 og forsætisráðherra árið 1997. Er enn talað mjög um leynisamning þeirra um skiptingu valda við andlát John Smith fyrir 11 árum. Segja margir að Blair hafi svikið þann samning, en sé nauðsynlegt nú að fá Brown með sér í kosningaferðir til að styrkja sig. Hefur hann talað um að hann muni sitja út næsta kjörtímabil. Er þó ólíklegt að hann muni gera það, ef marka má vilja Brown til að hljóta embættið. Þessa dagana er harkan sífellt að aukast í slagnum. Í dag sökuðu kratarnir hægrimenn um að svíkja stefnu Thatcher í efnahagsmálum með tillögunum og sögðu að henni hlyti að bregða við stefnu flokks síns. Á móti svaraði Michael Howard því til að kratarnir væru að reyna að hlaupa undan því að svara fyrir afglöp sín í Íraksmálinu. Skotin ganga á milli og baráttan harðnar, dag frá degi, þó flest bendi til að úrslitin sem slík séu ráðin.

Punktar dagsins
Ronald Reagan (1911-2004)

Í ferð minni til Washington DC fyrir hálfu ári keypti ég fjöldann allan af bókum um bandarísk stjórnmál og ævisögur þekktra stjórnmálamanna. Er ég var staddur í bókaverslun Barnes and Noble í Georgetown stóðst ég sérstaklega ekki mátið og ákvað að kaupa ævisögu Lou Gannon um Ronald Reagan 40. forseta Bandaríkjanna. Átti ég smárit byggt á bókinni en lengi viljað eignast allt ritið, sem eru tvær þykkar bækur í veglegri öskju. Þarna var bókin og ég gat ekki hugsað mér að fara án þess að kaupa kassann með bókunum tveim. Eftir að ég kom heim fór ég að lesa bækurnar og er óhætt að fullyrða að um er að ræða mjög vandaða umfjöllun um ævi forsetans og verk hans. Hef ég lesið margar bækur um ævi hans og verð í sannleika sagt að telja þessa þá bestu og jafnframt ítarlegustu. Er þetta gríðarlega vönduð samantekt og sennilega ein sú besta í bókarformi um forsetaferil Reagans og ekki síður um verk hans sem ríkisstjóra í Kaliforníu. Gannon fylgdist sem blaðamaður með ríkisstjórakosningunum 1966 þegar Ronald Reagan tók fyrst þátt í stjórnmálum og síðar í forsetakosningunum 1980, er Reagan náði kjöri til forsetaembættis, og hefur mikið skrifað um stjórnmálaferil hans.

Segir Gannon á leiftrandi hátt frá persónu Reagans og stefnumálum hans á valdastóli. Reagan var fyrsti forseti Bandaríkjanna sem beitti sér ákveðið gegn auknum ríkisútgjöldum og afskiptasemi ríkisins. Ásamt Margaret Thatcher færði hann hægrimönnum um allan heim þá trú að hægt væri að vinda ofan af gríðarlegum ríkisafskiptum. Afskipti ríkisins af viðskiptum og fleiri ráðandi þáttum samfélagsins var alla tíð sem eitur í beinum hans. Kraftmikil trú hans á einstaklinginn og mátt einkaframtaksins var grundvallarstef í öllum orðum og gerðum hans sem stjórnmálamanns og æðsta manns heims í 8 ára valdatíð sinni. Hann leiddi Kalda stríðið til lykta, tryggði endalok kommúnismans og trygga forystu Bandaríkjamanna á vettvangi heimsmálanna. Ronald Reagan setti sem forseti Bandaríkjanna mark sitt á söguna með baráttu sinni fyrir lýðræði og ekki síður með því að fylgja sannfæringu sinni í hvívetna og vera trúr lífshugsjónum sínum. Það er því mikil lífslexía fyrir alla hægrimenn að lesa þessa vönduðu ævisögu forsetans og hvet ég alla til þess að gera það. Um er að ræða góða og vel gerða bók með lifandi lýsingu um ógleymanlegan mann í sögunni.

Lawrence of Arabia

Ein er sú kvikmynd sem almennt er talin skyldueign fyrir hvern kvikmyndaáhugamann og er því eitt af meistaraverkum kvikmyndasögunnar. Ég horfði á þessa mynd í gærkvöldi. Í Lawrence of Arabia er rakin saga hins goðsagnakennda landkönnuðar T.E. Lawrence, sem lést árið 1935. Hann hélt út í eyðimörkina í fyrri heimsstyrjöldinni sem breskur hermaður og náði að sameina Araba í stríðinu gegn Tyrkjum. Þetta stórglæsilega kvikmyndaverk David Lean er ævintýralegt í jafnt umgjörð sem innihaldi, frábærlega kvikmynduð, klippt, skrifuð og leikin og nýtur sín hvergi betur en á breiðtjaldi. Sögulegur stórmyndastíll leikstjórans er varla tilþrifameiri en í þessu verki, það er mjög listilega spunnið við hið smáa mannlega. Leikaraliðið er ekki af verri endanum með Peter O'Toole í sínu frægasta og langbesta hlutverki, en hann fer á kostum í hlutverki Lawrence og vann sinn stærsta leiksigur í þessu hlutverki. Myndin var tilnefnd til 10 óskarsverðlauna en hlaut sjö, þ.á m. sem besta kvikmynd ársins, fyrir leikstjórn Lean, magnaða tónlist Maurice Jarré og kvikmyndatöku Freddie Young, sem enn er jafn stórfengleg nú og árið 1962. Ég hvet alla kvikmyndaunnendur til að sjá þetta magnaða meistaraverk ef þeir eiga tök á því, betri mynd er vart hægt að sjá. Ráðlegg ég að horft sé á lengstu útgáfu sem mögulegt er að sjá, því lengri sem myndin er, því betra og heilsteyptara meistaraverk sérðu.

Strákarnir á Stöð 2

Óhætt er að segja að mikið hafi verið deilt um þáttinn Strákana á Stöð 2 seinustu vikur og mánuði, eða allt frá því þeir hófu göngu sína á stöðinni í febrúar. Áður voru Auddi, Sveppi og Pétur með þáttinn 70 mínútur á PoppTíví sem sló í gegn en óhætt er að segja að þeir félagar hafi vakið athygli þar og verið alls óhræddir við að gera allt milli himins og jarðar. Þátturinn var sýndur á PoppTíví milli 22:00 og 23:10 og því var áhorfendahópurinn eldri en þeir sem horfa á Strákana milli 20:00 og 20:30 öll virk kvöld nema föstudaga. Ég verð að viðurkenna að ég hef oft lúmskt gaman af að horfa á þáttinn og lít reglulega á hann. En deila má vissulega um hvort um sé að ræða þroskandi efni fyrir krakka, enda er margt sprellið og hugdetturnar langt yfir velsæmismörk. En sumt er aðallega fyndið og saklaust. Nú hefur Ingibjörg Rafnar umboðsmaður barna, sent yfirmönnum Stöðvar 2 bréf og hvatt þá til að færa þáttinn lengra inn í kvölddagskrána, til að yngstu áhorfendurnir sjái ekki þáttinn. Er ég satt best að segja ekki sammála umboðsmanninum. Við megum ekki gleyma að börnin eru ekki sjálfs sín herrar á heimilinu. Það eru foreldrarnir sem ráða því auðvitað hvort þau fái að horfa á þáttinn. Það á að vera þeirra að bera ábyrgð á börnum sínum og ráða hvort og hvenær þau sjá þessa þætti, en ekki yfirmanna Stöðvar 2. Það er alveg einfalt mál.

Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar

Líflegt var yfir bænum um helgina. Telja má öruggt að vel á þriðja þúsund manns hafi verið hér í bænum vegna öldungamóts Blaksambands Íslands og Andrésar andar leikanna á skíðum. Íþróttalífið hér er alltaf blómlegt og sérstaklega skemmtilegt að sjá hversu margir hafa komið til bæjarins víðsvegar að af landinu. Um þarsíðustu helgi var líka hér talsverður fjöldi vegna söngkeppni framhaldsskólanna, sem gekk mjög vel og var skemmtilegt á að horfa. En mótin hér um helgina voru víst mjög vel heppnuð og ánægjuleg, ef marka má það sem ég hef heyrt. Annars varð vinkona mín, Þóra Ákadóttir forseti bæjarstjórnar, og lið hennar Íslandsmeistari í sínum flokki í blakinu á mótinu. Ég vil óska Þóru innilega til hamingju með þann glæsilega árangur.

Saga dagsins
1915 Hótel Reykjavík og ellefu önnur hús við Austurstræti í Reykjavík, brunnu í miklum eldsvoða
1944 Fyrsta alíslenska óperan, Í álögum, eftir Sigurð Þórðarson, var frumflutt í leikhúsi LR í Iðnó
1991 Bifreið var ekið í fyrsta skipti upp á tindinn á Hvannadalshnjúk, sem er hæsti tindur landsins
1999 Haldið var upp á Dag umhverfisins í fyrsta skipti hérlendis - leiddi til meiri umræðu um málin
2002 Tveir táningsbræður voru sýknaðir af því að hafa myrt hinn 10 ára gamla Damilola Taylor, sem var myrtur í Peckham í London í nóvember 2000. Með þessu fór rannsóknin að mestu á byrjunarreit

Snjallyrðið
The greatest honor history can bestow is that of peacemaker.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)

24 apríl 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um 10 ára afmæli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Að loknum þingkosningum 1995 var staðan með þeim hætti að stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks var brostið. Kom þar tvennt til: málefnalegur ágreiningur hafði verið milli flokkanna í kosningabaráttunni, einkum hvað varðar Evrópusambandið, og ennfremur var meirihluti stjórnarinnar naumur, aðeins eitt sæti. Deilur höfðu verið innan stjórnarinnar fyrir kosningarnar og kvarnast af þingmeirihlutanum við klofning innan Alþýðuflokksins og sólómennsku sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Það var hárrétt ákvörðun hjá Davíð að slíta stjórnarsamstarfinu við kratana og leita eftir samstarfi við Framsóknarflokkinn. Hefur það samstarf skilað stjórnmálalegum stöðugleika og tryggt öflugt og gott þjóðfélag sem er vel stjórnað. Þrátt fyrir að flokkarnir hafi fengið á sitt borð mörg stór og erfið mál hefur flokkunum auðnast undir tryggri forystu formanna þeirra að leysa þau og vinna saman með samhentum hætti að því að vinna að þeim málum sem skipta okkur öll máli. Ávöxtur verka stjórnarinnar seinustu tíu árin blasa allsstaðar við eins og fyrr segir og leikur enginn vafi á að blómlegt er um að lítast. Allt í kringum okkur sjáum við hversu vel hefur til tekist.

- í öðru lagi fjalla ég um kjör Benedikts XVI á páfastól. Fer ég yfir ævi hans og feril í umfjöllun minni og fjalla um þennan umdeilda trúarleiðtoga sem tryggði sér páfastólinn með skjótum hætti í páfakjörinu. Kjör hans markar ekki mikil þáttaskil hjá rómversk - kaþólsku kirkjunni. Hinn nýkjörni páfi er 78 ára að aldri. Hann er því tveimur áratugum eldri en Jóhannes Páll II var þegar hann varð páfi árið 1978. Að svo gamall maður skuli verða fyrir valinu þykir vera vísbending um þrennt: yfirlýsing um að íhaldssöm stefna páfatíðar Jóhannesar Páls II haldist óbreytt og meginstef hennar verði áfram við lýði, að kardinálarnir hafi talið óæskilegt að velja of ungan mann til embættisins og með því auðvitað að nýr páfi verði ekki lengi við völd og síðast en ekki síst að hér hafi menn sæst á málamiðlun. Þegar eftir kjörið heyrðust margar óánægjuraddir. Einkum hafa mannréttinda- og kvenréttindahópar gagnrýnt harkalega kjör Ratzingers. Um er að ræða mann sem hefur vakið athygli fyrir íhaldssamar skoðanir og áherslur. Hann hefur hafnað öllum hugmyndum um nútímavæðingu kirkjunnar og er harður andstæðingur frjálslyndari stefnu og áherslna. Ég vona að honum farnist vel í embætti og muni verða jafnöflugur boðberi kristinnar trúar og friðarboðskapar og forveri hans.

- í þriðja lagi fjalla ég um formannsslaginn í Samfylkingunni sem sífellt harðnar og átakalínurnar þar og umræðu vissra aðila þess efnis að sjálfstæðismenn komi að formannskjöri flokksins. Þegar ég lít á þennan slag sé ég augljós sóknarfæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn í sigri beggja þessara formannsefna. Augljós niðurstaða er að ISG sé betri kostur fyrir okkur sjálfstæðismenn því hún mun að mínu mati minnka Samfylkinguna og stækka Sjálfstæðisflokkinn. Hinsvegar yrði að mínu mati ómögulegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að mynda ríkisstjórn með ISG. Hún hefur talað þannig að í raun hefur hún útilokað Sjálfstæðisflokkinn. Össur er líklegri til að halda Sjálfstæðisflokknum niðri í fylgi og Samfylkingunni stærri. Hann er hinsvegar líklegri til að vilja og geta starfað með Sjálfstæðisflokknum. Í þessu tvennu eru því sóknarfæri fyrir sjálfstæðismenn úr að vinna.

Punktar dagsins
Angelo Sodano kardináli kyssir á hönd Benedikts XVI páfa

Benedikt XVI páfi var formlega settur í embætti við útimessu á Péturstorginu í Róm í morgun að viðstaddri um hálfri milljón pílagríma. Við það tækifæri tók páfi við táknum páfavaldsins, fiskimannshringnum margfræga, sem eitt sinn var notaður til að innsigla postulabréf, og sjali úr ull af lambi. Með messunni hófst formlega embættisferill páfans og flutti hann predikun við þetta tækifæri þar sem hann ítrekaði að hann myndi halda uppi merkjum og stefnu forvera síns. Sagði hann að hugur sinn væri hjá öllum konum og körlum, vantrúuðum jafnt sem trúuðum. Benedikt XVI sagði að forveri hans væri nú kominn heim meðal dýrlinganna í himnaríki, en gekk þó ekki svo langt að segja að Jóhannes Páll skyldi tekinn í dýrlingatölu. Sú umræða er nú mjög uppi um að Jóhannes Páll II verði tekinn í dýrlingatölu. Vissulega er það eftirmanns hans að taka það til skoðunar og ráða ferlinu. Reyndar má minna á það að eftir að hann var kjörinn til embættisins á þriðjudag nefndi páfi forvera sinn sem hinn mikla. Það eru vissulega skilaboð um það hvort páfi verði tekinn í heilagra manna tölu. Er greinilegt að nýjum páfa er annt um að eiga góð samskipti við fjölmiðla og bauð þeim t.d. til sín í Páfagarð í gær og hélt einskonar blaðamannafund. Er ljóst að hann fetar mjög í fótspor forverans, sem þótti mjög fjölmiðlavænn páfi.

Der Untergang

Seinnipartinn í gær fór ég í Borgarbíó og sá þýsku úrvalsmyndina Der Untergang eða The Downfall. Myndin er gerð eftir sjálfsævisögu Traudl Junge, einkaritara Adolfs Hitlers, og gerist á síðustu 10 dögunum fyrir fall þriðja ríkisins í apríl 1945. Rauði herinn nálgast Berlín og meðan riðar veldi Hitlers til falls. Hann og nánustu samverkamenn neyðast til að hírast í byrgi sínu og bíða þess óumflýjanlega; endalokanna. Myndin hefur vakið athygli vegna þess að hún sýnir Hitler sem manneskju en ekki skrímsli. Las ég bók Junge um jólin og hafði beðið eftir myndinni, enda með mikinn áhuga á pólitík almennt. Óhætt er að segja að myndin sé góð og áhrifamikil. Myndin kemur til skila til áhorfandans með ljóslegum hætti bæði sturluninni og örvæntingunni sem ríkti í borginni þessa daga er veldi Hitlers er komið að leiðarlokum. Á þessum dögum sem myndin lýsir er Þýskaland nasistaríkis Hitlers í dauðateygjunum, og tími uppgjörsins, sem blasað hefur við að er handan við hornið, er framundan. Það er mjög erfitt að lýsa myndinni í mörgum orðum. Í þessu tilfelli er svo sannarlega sjón sögu ríkari. Myndin er full af upplifunum tímabils sem einhvernveginn flestir telja stóran hluta 20. aldarinnar en enginn vill í raun kannast við. Stórbrotin og ógleymanleg mynd sem ég varð mjög hugsi yfir. Hvet alla til að sjá hana. Þetta er mynd sem enginn má missa nokkru sinni af.

Björn Bjarnason flytur ræðu sína

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, ávarpaði í gær ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um baráttu gegn glæpum og opinbert réttarfar, sem haldin er þessa dagana í Bangkok, höfuðborg Thailands, dagana 18. til 25. apríl. Í ræðu sinni vék Björn að þáttum sem setja svip sinn á yfirlýsinguna, sem gefin verður út í lok ráðstefnunnar. Nefndi hann fjóra þætti: í fyrsta lagi mikilvægi þess, að einstök ríki yrðu, innan alþjóðareglna og eigin laga, að finna hinn gullna meðalveg til þess að tryggja öryggi borgaranna án þess að ganga um of gegn friðhelgi einstaklingsins. Allar aðgerðir og lagabreytingar sem gerðar væru til þess að berjast við skipulagða glæpastarfsemi, yrðu að taka mið af mannréttindareglum og flóttamannasamningum. Í öðru lagi nauðsyn þess að virkja hinn almenna borgara til samstarfs við þær opinberar stofnanir, lögreglu og aðra, sem gæta almannaöryggis. Í þriðja lagi að hindra misnotkun á nýrri tölvu- og fjarskiptatækni í þágu glæpastarfsemi. Lagði hann áherslu á að lögregla yrði að hafa nauðsynlegar heimildir til að sinna verkefnum sínum, án þess að tækniframfarir veittu brotamönnum nýtt eða aukið skjól. Í fjórða og síðasta lagi er það svo að forðast að nýta ný úrræði í réttarkerfinu. Var fróðlegt að lesa ræðu Björns og hvet ég lesendur vefsins til að líta á hana.

Sir John Mills (1908-2005)

Breski óskarsverðlaunaleikarinn Sir John Mills lést á heimili sínu í Buckinghamshire í gær, 97 ára að aldri. Mills var ein af goðsögnum breskrar leiklistar á 20. öld. Segja má hann hafi verið sá seinasti sem kvaddi af gömlu kynslóðinni sem setti mest mark sitt á kvikmyndaheim landsins og leikhúsmenninguna. Hann var einstaklega fjölhæfur og góður leikari. Mills hóf leikferil sinn á sviði í London en hann stundaði nám í konunglega listaháskólanum þar. Síðar hélt hann til Hollywood og lék þar í fjölda kvikmynda. Hann lék í rúmlega 100 kvikmyndum á glæsilegum ferli, t.d. Great Expectations, War and Peace, Gandhi og Ryan´s Daughter. Fyrir síðastnefndu myndina hlaut Mills óskarinn árið 1971 fyrir leik í aukahlutverki. Túlkun hans í þeirri mynd á þorpshálfvitanum Michael í litla írska þorpinu er ógleymanleg. Eftirlifandi kona hans er leikskáldið Mary Hayley Bell, en þau kvæntust árið 1941. Lætur Mills eftir sig þrjú börn. Dóttir hans, Hayley Mills, var barnastjarna og lék í fjölda þekktra kvikmynda á fimmta og sjötta áratugnum. Túlkun hennar á Pollýönnu er ógleymanleg. Með Mills er fallinn í valinn einstakur leikari, sannkallaður snillingur í næmri túlkun á svipmiklum karakterum á hvíta tjaldinu.

Saga dagsins
1914 Dauðadómur var kveðinn upp á Íslandi í síðasta sinn - dómnum var breytt í ævilangt fangelsi
1970 90 námsmenn ruddust inn í skrifstofur menntamálaráðuneytisins við Hverfisgötu í Reykjavík til að lýsa yfir stuðningi við kröfur námsmanna erlendis. Settust þau í ganga en borin svo út af lögreglu
1977 Skákmaðurinn Vlastimil Hort setti heimsmet í fjöltefli á Seltjarnarnesi - tefldi við 550 manns
1993 Sprengjutilræði IRA, Írska lýðveldishersins, í City hverfinu í London - rúmlega 40 slösuðust
1996 Feðgarnir Arnór og Eiður Smári Guðjohnsen léku í landsleik gegn Eistlandi - Ísland sigraði 3:0

Snjallyrðið
Being president is like being a jackass in a hailstorm. There's nothing to do but to stand there and take it.
Lyndon B. Johnson forseti Bandaríkjanna (1908-1973)

23 apríl 2005

10 ára afmæli ríkisstjórnar
Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks


Ríkisstjórnin - 23. apríl 1995

Áratugur er í dag liðinn frá því að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hófst. Það var sunnudaginn 23. apríl 1995 sem ráðherraefni flokkanna komu saman á Bessastöðum á ríkisráðsfundi undir forsæti Vigdísar Finnbogadóttur þáverandi forseta Íslands, og tóku við embættum sínum. Stjórnin hafði verið mynduð eftir að upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem setið hafði að völdum í 4 ár, hafði slitnað með miklum hvelli. Í þingkosningunum sem fram höfðu farið þann 8. apríl 1995 hafði Sjálfstæðisflokkur misst eitt þingsæti frá þingkosningunum 1991, hlotið 25 í stað 26 en Alþýðuflokkurinn misst þrjá, farið úr 10 í 7. Meirihluti flokkanna var því naumur, aðeins 1 þingsæti. Flokkarnir höfðu 32 þingmenn en þáverandi stjórnarandstaða 31 þingsæti.

Munaði Alþýðuflokknum mjög um sérframboð Jóhönnu Sigurðardóttur fyrrum félagsmálaráðherra og varaformanns flokksins, sem hafði farið úr ríkisstjórn og klofið sig frá flokknum sumarið 1994, eftir að hafa tapað fyrir Jóni Baldvin Hannibalssyni þáverandi utanríkisráðherra, í harðvítugu formannskjöri á flokksþingi Alþýðuflokksins. Með því voru gerðar upp valdaerjur þeirra sem staðið höfðu í nokkur ár. Stofnaði hún flokkinn Þjóðvaka sem bauð fram í öllum kjördæmum í kosningunum 1995 en hlaut mun minna fylgi en búist hafði verið við. Segja má að klofningurinn hafi verið afdrifaríkur þegar á hólminn fyrir bæði Jón Baldvin og Jóhönnu. Bæði misstu þau með honum ráðherrastóla sína og pólitísk áhrif í ríkisstjórn. Tími Jóhönnu sem hún skírskotaði til í frægri ræðu sinni við tapið 1994 hefur ekki enn komið. Klofningur Alþýðuflokksins skaðaði bæði Jón Baldvin og Jóhönnu og þau misstu valdasess sinn.

Í kjölfar kosninganna 1995 tóku við stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Fljótt varð ljóst að grunnurinn var brostinn og meirihlutinn of naumur til að leggja í ferðalag til fjögurra ára með aðeins eins sætis meirihluta. Sjálfstæðisflokkurinn sleit því viðræðunum um páskahelgina 1995 og Davíð sagði af sér fyrir hönd stjórnarinnar þriðjudaginn 18. apríl 1995. Við tóku stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, og Halldór Ásgrímsson formaður Framsóknarflokksins, hittust sömu helgi og handsöluðu samkomulag um stjórnarmyndunarviðræður. Eftir nokkurra daga viðræður var samkomulag flokkanna um samstarf staðfest af æðstu stofnunum þeirra. Að því loknu voru ráðherrar flokkanna valdir og tóku þeir við embættum sínum á fyrrnefndum fundi að Bessastöðum á þessum apríldegi í vorsólinni á Álftanesi.

Allir þekkja söguna sem fylgir í kjölfarið. Samstarfið stendur enn og er það til marks um hversu farsællega ríkisstjórn flokkanna hefur starfað og leitt farsæl mál til lykta með mikla samstöðu og kraft að leiðarljósi. Í Íslandssögunni hefur aðeins viðreisnarstjórnin svokallaða, ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, setið lengur. Hún sat í 12 ár, á tímabilinu 1959-1971. Það er því ljóst að starfi stjórnin til loka kjörtímabilsins, í maí 2007, mun hún slá met viðreisnarinnar. Upphaflega var fjöldi ráðherra í stjórninni 10. Að loknum þingkosningunum 1999 var ákveðið að fjölga ráðherrunum í 12 og hefur svo verið síðan. Á þessum áratug hafa 22 setið í stjórninni, 12 frá Sjálfstæðisflokki en 10 frá Framsóknarflokki. Formenn stjórnarflokkanna eru þeir einu sem setið hafa í stjórninni allan tímann. Björn Bjarnason var menntamálaráðherra 1995-2002 en kom svo aftur í stjórnina ári síðar og hefur setið þar síðan.

Stjórnin hefur gengið í gegnum tvennar kosningar, árin 1999 og 2003, og hefur þingmeirihluti stjórnarinnar veikst í báðum kosningunum. Við stofnun hafði stjórnin 40 þingsæti af 63. Sjálfstæðisflokkur hafði 25 þingsæti en Framsóknarflokkurinn 15. Eftir þingkosningarnar 1999 tapaði stjórnin tveim þingsætum í heildina. Framsóknarflokkur missti þrjú þingsæti, hlaut 12 en Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig einum þingmanni og hlaut 26 í stað 25 áður. Í þingkosningunum 2003 veiktist þingmeirihlutinn nokkuð. Þá missti Sjálfstæðisflokkurinn 4 þingsæti, hlaut 22 í stað 26, en Framsóknarflokkurinn hélt sínum 12. Því er staðan nú eftir 10 ára samstarf flokkanna að ríkisstjórnin hefur 34 þingsæti en stjórnarandstaðan 29. Flokkarnir hafa í báðum kosningunum gengið óbundnir til kosninga en framlengt samstarfið og litið á samstarf sem besta kostinn.

Davíð Oddsson hafði verið forsætisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks og var það áfram við upphaf samstarfs flokkanna vorið 1995. Hann sat á forsætisráðherrastóli allt til 15. september 2004. Sömdu flokkarnir um það við upphaf núverandi kjörtímabils að forsætisráðuneytið færðist þá formlega yfir til Halldórs en þess í stað myndi Sjálfstæðisflokkurinn hljóta 7 ráðherra af 12. Davíð varð utanríkisráðherra er Halldór varð forsætisráðherra. Við þessar hrókeringar á síðasta ári hafði Davíð setið lengur í forsæti ríkisstjórnar landsins en nokkur annar, þrem árum lengur en sá sem næstlengst sat, Hermann Jónasson. Davíð sat í embætti forsætisráðherra í 13 ár, 4 mánuði og 16 daga. Hann sat á þessum tíma í forsæti fjögurra ríkisstjórna og stýrði á sama tíma alls 960 ríkisstjórnarfundum. Ferill hans er því stórglæsilegur.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á þessum áratug eru eftirtaldir:

Sjálfstæðisflokkur
Davíð Oddsson (frá 1991)
Björn Bjarnason (1995-2002 og frá 2003)
Friðrik Sophusson (1991-1998)
Halldór Blöndal (1991-1999)
Þorsteinn Pálsson (1991-1999)
Geir H. Haarde (frá 1998)
Árni M. Mathiesen (frá 1999)
Sturla Böðvarsson (frá 1999)
Sólveig Pétursdóttir (1999-2003)
Tómas Ingi Olrich (2002-2003)
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (frá 2003)
Sigríður Anna Þórðardóttir (frá 2004)

Framsóknarflokkur
Halldór Ásgrímsson (frá 1995)
Páll Pétursson (1995-2003)
Ingibjörg Pálmadóttir (1995-2001)
Finnur Ingólfsson (1995-1999)
Guðmundur Bjarnason (1995-1999)
Guðni Ágústsson (frá 1999)
Valgerður Sverrisdóttir (frá 1999)
Siv Friðleifsdóttir (1999-2004)
Jón Kristjánsson (frá 2001)
Árni Magnússon (frá 2003)

Ríkisstjórnin - 31. desember 2004

Áratugur er ekki langur tími í sögu íslensku þjóðarinnar: segja má að sá tími sé eins og örskotsstund á langri vegferð. Hinsvegar leikur enginn vafi á því að það er sögulegt og mikil tíðindi að tveir flokkar hafi setið í forystu ríkisstjórnar landsins svo lengi sem raun ber vitni og unnið saman að forystu stjórnmála landsins. Þegar saga ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forystu Davíðs og Halldórs verður gerð upp í sögubókum framtíðarinnar mun þeirra verða minnst fyrst og fremst fyrir glæsilegan árangur á vettvangi efnahagsmála. Í tíð ríkisstjórna þessara tveggja flokka, á þessu tímabili, unnu þeir að því að tryggja glæsilegan grundvöll að margvíslegum framfaramálum á flestum sviðum þjóðlífsins. Styrk staða ríkisfjármála á þessu tímabili hefur leitt í senn til hagsældar einstaklinga og fjölskyldna og styrkt stoðir atvinnulífsins okkar.

Margt hefur áunnist og breytingar á þjóðfélaginu verið miklar á þessum tíma. Þessar breytingar hafa leitt til aukins frelsis handa viðskiptalífinu og almenningi, hagsældar og bættra lífskjara langt umfram það sem gerst hefur í nálægum löndum. Umgjörð atvinnulífsins er nú betri en áður, starfsskilyrði þess hagstæðari, skattar almennings og fyrirtækja lægri og svigrúm til athafna meira en áður. Tekist hefur að treysta forsendur velferðarkerfisins með öflugu atvinnulífi á grundvelli stöðugleika í efnahagsmálum. Tekist hefur að byggja upp traust og farsælt samfélag undir traustri forystu þessara tveggja flokka. Uppstokkun á fjármálamarkaði og innleiðing frjálsra fjármagnshreyfinga sköpuðu nauðsynlegar forsendur fyrir einkavæðingu banka- og fjármálakerfisins. Þessar breytingar, ásamt aðild að EES hafa verið veigamikill hluti þess að tekist hefur auka hagvöxt umfram það sem þekkist í nágrannaríkjum okkar.

Til fjölda ára höfðu íslensk stjórnvöld leitað eftir samstarfi við erlend fyrirtæki um uppbyggingu orkufreks iðnaðar hérlendis. Nú er staðan sú að erlend stórfyrirtæki í iðngeiranum bíða í röðum hreinlega eftir því að setja hér upp verksmiðjur sínar. Nú er unnið á Austurlandi að byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álveri við Reyðarfjörð. Undir farsælli forystu stjórnarflokkanna var málið leitt til lykta með farsælum hætti. Fyrir lok kjörtímabilsins mun álver Alcoa verða orðið að veruleika. Stjórnarflokkarnir unnu samhentir að því að tryggja það að þetta mætti verða að veruleika meðan stjórnarandstaðan var með mótbárur og reyndi með ýmsum hætti að bregða fæti fyrir verkefnið. Þegar það var orðið að veruleika skipti viss hluti stjórnarandstöðunnar, sem kenndur er við vindhana, um kúrs svo lítill sómi var að fyrir þá. En fólk á Austurlandi veit hver tryggði þessar framfarir og uppbyggingu fyrir austan - það voru stjórnarflokkarnir. Að lokum mun þetta skila sér í aukinni atvinnu- og verðmætasköpun hérlendis og auknum skatttekjum.

Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson

Skoðum nokkrar grunntölur málsins undir lokin:

* Hagvöxtur hefur aukist um 51%
* Kaupmáttur heimilanna hefur aukist um 55%
* Hreinar skuldir ríkissjóðs lækkað um meira en helming
- úr 330 milljörðum árið 1995 í 150 milljarða árið 2005
* Heildarverðmæti landsframleiðslu hefur meira en tvöfaldast
* Tekjuskattur verður tæp 22% árið 2008 en var 33% árið 1995
* Atvinnuleysi minnkað um helming, úr 5% árið 1995 í 2,5% 2005
* Afkoma ríkissjóðs farið úr 25 milljarða halla 1995 í 10 milljarða afgang 2005
* Sérstakur tekjuskattur mun verða afnuminn sem og allir eignaskattar til ríkisins

Það er því margt sem stjórnarflokkarnir geta verið stoltir af þegar saga ríkisstjórna flokkanna árin 1995-2005 og síðar verður skoðuð í sögulegu ljósi af komandi kynslóðum. Um er að ræða eitt mesta og áþreifanlegasta framfaraskeið í sögu íslensku þjóðarinnar, tímabil sem við öllum getum verið stolt af um ókomin ár. Um það verður vart deilt þegar þessi áratugur er gerður upp, og árangur hans er skoðaður í sögulegu ljósi, að samfélagið hefur bæði styrkst og þroskast mjög. Það samfélag sem við þekktum fyrir áratug hefur tekið miklum stakkaskiptum, til hins betra. Það sem er ánægjulegast er að tækifærin eru sífellt fleiri framundan og það eru sóknarfæri um allt. Með bjartsýni og gleði getum við farið yfir áratuginn okkar við stjórnvölinn og leyft okkur að horfa með enn meiri bjartsýni til framtíðarinnar sem framundan er.

Saga dagsins
1902 Halldór Kiljan Laxness skáld og rithöfundur, fæðist í Reykjavík. Hann gaf út fyrstu skáldsögu sína, Barn náttúrunnar, árið 1919. Hann nam erlendis, fyrst hjá Benediktsmunkum í Lúxemborg 1922-23 og síðan í Kristmunkaskóla í London 1923-24. Hann dvaldist langdvölum erlendis, en átti fast heimili að Gljúfrasteini í Mosfellssveit frá 1945. Halldór hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1955, en hlaut margar aðrar viðurkenningar og verðlaun. Eftir hann liggur mjög mikill fjöldi skáldverka og rita, auk þýðinga. Halldór lést þann 8. febrúar 1998. Minningarsafn um Laxness er staðsett að Gljúfrasteini
1903 Sigfús Blöndal hóf söfnun í orðabók sína - gefin út árið 1920 og hefur komið út þrisvar síðan
1995 Annað ráðuneyti undir forsæti Davíðs Oddssonar tók við völdum - sat til loka kjörtímabilsins 1999. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur setið samfellt við völd í heilan áratug
1997 Páll Skúlason heimspekiprófessor, kjörinn rektor Háskóla Íslands - mun láta af störfum í sumar
2001 Fréttablaðið kom út í fyrsta skipti - hefur á stuttum tíma orðið útbreiddasta dagblað landsins

Snjallyrðið
Good humor is the health of the soul, sadness is its poison.
Chesterfield lávarður skáld (1694-1773)

22 apríl 2005

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Óhætt er að segja að Framsóknarflokknum og Halldóri Ásgrímssyni forsætisráðherra, hafi tekist að slá öll vopn úr höndum andstæðinga sinna á þingi með því að taka vel á umræðu þeirra um að flokkurinn sé spilltur og táknmynd óheiðarleika. Sú ákvörðun flokksins að setja sér reglur um og ráðast í það að birta opinberlega upplýsingar um fjárhag og eignir og eftir atvikum eignarhlut þingmannanna í atvinnurekstri, þóknun fyrir önnur launuð störf, og aðild að hagsmunasamtökum og upplýsingar um gjafir, hlunnindi og boðsferðir er hárrétt. Um er að ræða gott fordæmi fyrir aðra flokka og ætti að hreinsa dægurþrasaumræðuna sem stjórnarandstaðan stendur fyrir í þinginu æ ofan í æ. Einkum er hún þó sett fram til að dekka yfir valdabaráttuheiftina innan Samfylkingarinnar, þar sem formaður og varaformaður flokksins eru í baráttu um allt eða ekkert í forystusveitinni. Tel ég það hárrétt hjá Framsóknarflokknum að beina því til forsætisnefndar þingsins að hún setji slíkar reglur sem Framsókn leggur til og hefur sett sjálfri sér nú.

Mun þetta vonandi taka á umræðunni. Er reyndar stórmerkilegt að fulltrúar stjórnarandstöðunnar sem hvað hæst hafa galað um að stjórnarflokkarnir séu spilltir og sé með lokað bókhald hreinsi ekki til hjá sjálfri sér eða hafi sett sjálfri sér slíkar vinnureglur sem Framsóknarflokkurinn hefur sett fram. Er það þá þeim væntanlega ánægjuefni að geta hætt að karpa og opnað eigin híbýli og sýnt landsmönnum stöðuna hjá þeim sjálfum fyrst málið er komið í þennan farveg. Það þarf þá varla að karpa endalaust um sömu hlutina æ ofan í æ. Ekki er ég mikill pólitískur stuðningsmaður forsætisráðherrans og Framsóknarflokksins - hinsvegar hefur mér gramist að sjá aðför vissra þingmanna aftur og aftur að forsætisráðherranum og væna hann um að vera peð fyrirtækja og sjávarútvegsgreifa vegna eignarhlutar hans í Skinney-Þinganesi á Hornafirði. Hefur nú verið upplýst að forsætisráðherra á heil 2,2% í því fyrirtæki, sem hann erfði eftir foreldra sína. Það er nú allt og sumt, smávægilegur hlutur sem ekkert segir í raun. Enda virðist mér að menn séu nú hættir að fimbulfamba um að forsætisráðherra sé kvótagreifi. Það eru æði margir kvótasægreifar ef þeir sem eiga 2,2% í sjávarútvegsfyrirtæki eru það. Eða ég get ekki betur séð. En menn taka nú á umræðunni og tel ég þetta skref Framsóknarflokksins mjög jákvætt. Reyndar fannst mér svo Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra, taka vel á umræðu vissra afla gegn einkavæðingarferlinu í hreint frábærum pistli sem ég hvet alla til að lesa. En hvað gerir stjórnarandstaðan nú? Nú er það þeirra að gera slíkt hið sama, ella er allur málflutningur þeirra eins og spangól í holri tunnu.

Paul Martin séð með augum skopmyndateiknaraPaul Martin forsætisráðherra Kanada, hefur nú formlega beðið kanadísku þjóðina afsökunar vegna spillingar sem upplýst var í flokki hans, Frjálslynda flokknum, sem stjórnað hefur landinu allt frá árinu 1993. Hann ávarpaði þjóðina í því markmiði að reyna að bjarga stjórninni og flokknum frá stjórnmálakrísu. Peningaþvætti og fjárspilling er meðal þeirra þátta sem Frjálslyndi flokkurinn hefur verið sakaður um. Martin hét því í sjónvarpsávarpi sínu í gærkvöldi að allir í flokknum myndu gangast undir rannsókn, hann eins og allir aðrir forystumenn hans og þingmenn. Hann hét því í ávarpinu að efna til nýrra þingkosninga um leið og rannsókn málsins hefur verið lokið. Enginn vafi leikur á því að kosningar nú muni leiða til falls ríkisstjórnarinnar. Almenningur í Kanada virðist hafa misst alla trú á forystu flokksins og þeir sem hafa trúað honum, þrátt fyrir umræðuna, hafa misst trúna á forystu Martin, eftir að sannanirnar voru afhjúpaðar um tengsl flokksins vegna spillingarmálanna.

Enginn vafi leikur á því að stjórnarandstaðan muni nota þetta mál til að klekkja á forsætisráðherranum og flokki hans. Martin er sérlega tengdur málinu enda var hann fjármálaráðherra þegar spillingin á að hafa átt sér stað árið 2002. Í kosningunum í fyrra munaði hársbreidd að stjórnin félli en Martin hefur ríkt síðan í minnihlutastjórn, sem hefur verið varin vantrausti af smærri flokkum. Nú er staðan orðin þannig að þeir eru orðnir tvístígandi og stjórnin riðar til falls. Er enginn vafi á því að með þessu sjónvarpsávarpi er Martin að spinna atburðarás til að friða kjósendur og reyna, þrátt fyrir loforð um annað, að koma í veg fyrir þingkosningar síðar á árinu og friða með þessu smáflokkana. Vandséð er að það muni takast. Við blasir að mikil valdþreyta er komin í frjálslynda og þetta mál sligar þá mjög, enda hafa lög að öllum líkindum verið brotin. Martin hefur verið forsætisráðherra frá 12. desember 2003, er forveri hans, Jean Chretien, lét af embætti eftir 10 ára forsætisráðherraferil. Skv. skoðanakönnunum í Kanada myndu frjálslyndir missa tæplega 2/3 þingmanna sinna ef kosið væri nú. Íhaldsflokkurinn mælist nú með rúm 40% fylgi og hefur ekki mælst hærri síðan á níunda áratugnum er hann var leiddur af Brian Mulroney sem þá var forsætisráðherra landsins. Að óbreyttu stefnir því í hægristjórn bráðlega í Kanada.

Punktar dagsins
Minjasafnskirkjan - mynd Jóns M.

Það var alveg yndislegt að vakna snemma í gærmorgun hér á Akureyri. Sólin var björt og fögur er hún skein inn um eldhúsgluggann meðan ég fékk mér kaffi og ristað brauð og vorblærinn yfir öllu. Ég fór snemma í góðan hjóltúr út í þorp og svo inn í Kjarnaskóg og fékk mér þar góðan göngutúr í góða veðrinu. Fátt er eins gott til að slappa virkilega af að fá sér góðan hjóltúr og svo fínt labb í Kjarnaskógi. Gulls ígildi hreint út sagt. Í hádeginu fór ég í hádegismat til Hönnu ömmu. Þar var eins og venjulega yndislega góður matur, hún amma er snilldarkokkur. Eftir það fórum við amma inn í kirkjugarð og vorum þar aðeins að dytta að, en amma setur jafnan sumarblóm á leiði ættingja sinna. Vorum við þar dágóða stund í blíðunni. Um þrjúleytið fórum við saman í Minjasafnið. Þar var yndisleg fjölskyldustemmning og skemmtilegt andrúmsloft. Ilmur af lummum og heitu súkkulaði fyllti þar loftið í bland við kátínu og gleði. Hallgrímur Gíslason flutti stutta ræðu um sumardaginn fyrsta og gamlar hefðir tengdar honum. Var það fróðlegt og gott erindi. Ennfremur flutti Guðrún Kristinsdóttir safnvörður, ræðu um dagskrá safnsins í sumar og til ársloka og það sem gert hefði verið þar það sem af er árinu.

Að því loknu var boðið upp á lummur og soðbrauð. Með brauðinu var svo boðið upp á ekta-gott og heitt súkkulaði og Svala fyrir börnin. Var þetta virkilega gaman og það er vissulega alltaf ánægjulegt að líta á þetta góða safn okkar allra. Samhliða þessu var í safninu ljósmyndasýning Ragnars Axelssonar, Framandi heimur. Þar getur að líta mannlífsmyndir teknar á ferðum Ragnars víða um heim. Þetta er í fyrsta skipti sem myndir Ragnars eru til sýnis á Akureyri. Mikill fjöldi lagði leið sína á safnið og munu á fjórða hundrað manns hafa þegið þar veitingar og litið á sýninguna. Er það svo sannarlega ánægjulegt, allavega var skemmtileg stemmning á safninu. Hittum við þarna Önnu, konu Mugga föðurbróður míns, og Hönnu Þóreyju dóttur þeirra og fjölskyldu hennar, og var því um margt rætt. Á fimmta tímanum var svo fjöldasöngur í gömlu Minjasafnskirkjunni og sungum við þar ekta sumarlög, sem alltaf eiga við í sumar og sól eins og var í gær. Benni frændi og Andri leiddu sönginn og tók ég þátt í þessu með þeim. Svo skemmtilega vildi til að í gær voru einmitt 27 ár síðan ég var skírður í kirkjunni. Var þetta skemmtilegur dagur á safninu. Í gærkvöldi fórum við Benni svo í bíó og sáum kvikmyndina, Sahara, sem er alveg ágæt.

Þórgnýr Dýrfjörð menningarfulltrúi Akureyrarbæjar, Hlynur Hallsson, Þórkatla Sigurbjörnsdóttir, Erlingur Sigurðarson, Lilja Hallgrímsdóttir, Guðmundur Jónsson, Bogi Pétursson, Alma Dís Kristinsdóttir og Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður menningarmálanefndar

Menningarmálanefnd Akureyrarbæjar hélt síðdegis í gær í Amtsbókasafninu sína árlegu Vorkomu á sumardeginum fyrsta. Veitti Sigrún Björk Jakobsdóttir formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar, við það tækifæri hinar ýmsu viðurkenningar frá nefndinni. Meðal þess voru starfslaun listamanna til sex mánaða. Þau hlutu að þessu sinni þeir Hlynur Hallsson fyrir myndlist og Erlingur Sigurðarson fyrir ritstörf. Hlynur hefur farið ótroðnar slóðir í listsköpun sinni og vakið athygli utan landsteinanna. Erlingur er rithöfundur og einn helsti fræðimaður þjóðarinnar í rannsóknum á Davíð Stefánssyni skáldi frá Fagraskógi. Nýsköpunarverðlaunin hlaut að þessu sinni Alma Dís Kristinsdóttir, Guðmundur Jónsson hlaut viðurkenningu fyrir byggingarlist, viðurkenning húsverndarsjóðs var veitt til minningar um Kristján Pétursson húsasmíðameistara og Lilja Hallgrímsdóttir var heiðruð fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á Akureyri. Síðast en ekki síst hlaut Bogi Pétursson, oftast kenndur við Ástjörn, viðurkenningu fyrir framlag sitt til menningar- og félagsmála. Mikið innilega á Bogi það skilið. Ég fór til hans í sumarbúðirnar á Ástjörn þrenn sumur í röð, 1986-1988, og kynntist því vel hversu yndislegur og gefandi persónuleiki Bogi er. Það var heilsteypt og góð mótandi reynsla að dvelja þar. Alla tíð hefur Bogi verið gulls ígildi í mínum huga.

Tony Blair og Gordon Brown

13 dagar eru nú til þingkosninganna á Bretlandi. Baráttan hefur harðnað mjög seinustu daga og hefur hún einkennst af hnútuköstum leiðtoga stóru flokkanna um ágæti flokkanna og grunnstefnumála sinna. Greinilegt er að LP háir baráttu sína á öðrum grunnpunktum en áður undir forystu Blair. Hann er aðeins meira til vinstri núna, er minna í tískuklisjum og spunamennskunni en leitar þess þá meira í velferðarpólitík að takti norrænna jafnaðarmanna. Einn stærsti kostur LP að þessu sinni er vel unnin stefnuskrá. Það má líka segja um grunnstefnu CP, þar er vel talað og hreint út og hnitmiðað. Báðar stefnuskrár eru vel unnar útfrá átakapunktum beggja flokka í baráttunni nú og gagnast þeim á þeirra átakalínum gegn hinum flokknum. Íhaldsflokkurinn hefur mjög talað um innflytjendamálin í kosningunum og leitt þar umræðuna. Nú hefur Blair farið inn á þá braut líka og komið með sína punkta í umræðuna. Velferðar- og innflytjendamál verða að öllum líkindum meginmál kosningabaráttunnar.

Svo er Howard að koma með spennandi skattatillögur í umræðuna. Hann er að lofa að niðurgreiða einkalífeyrissparnað einstaklinga með því að leggja til að ríkisstjórnin leggi til 10 pund fyrir hver 100 sem sett eru í slíkan sparnaðarkost. Spennandi tillaga. Kannanir eru að sýna þá stöðu að allt geti gerst en þó virðist halla að sigri LP, þriðju kosningarnar í röð. En það er spurt að leikslokum. Vakið hefur mikla athygli að fylgi breska Verkamannaflokksins hefur aukist eftir að Blair fór að hampa Brown meira en áður. Í stað þess að staða hans innan stjórnarinnar væri ótrygg eftir kosningarnar er hann orðinn lífakkeri Blair til áframhaldandi valda. Honum er flaggað eins mikið og mögulegt má vera. Þetta er alveg kostulegt. Enginn vafi er á að staða forsætisráðherrans hefur veikst. Meirihluti þjóðarinnar, rúmur helmingur hennar, treystir honum ekki til að segja satt lengur, en fyrri tvö skiptin sem hann hefur leitt flokkinn hefur hann verið langt innan slíkra marka. Greinilegt er að dagar Blairs eru svo til liðnir og hvernig sem þessar kosningar fari taki Brown brátt við.

Reykjavíkurflugvöllur

Í dag birtist ítarlegur pistill minn um málefni Reykjavíkurflugvallar á íhald.is. Mín skoðun á málefnum vallarins er alveg skýr - ég vil að hann verði áfram á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir það fyrsta í mínum huga snýst þetta mál um þá ábyrgð og þær skyldur sem höfuðborgin okkar þarf að bera gagnvart öllum landsmönnum öllum. Þar er allt í senn miðpunktur stjórnsýslunnar og þar á viðskipta- og menningarlíf landsins sínar höfuðstöðvar. Það er mjög einfalt í mínum huga að greiðar samgöngur allra landsmanna, til og frá Reykjavík, eru forsenda þess að höfuðborgin geti sinnt sínu hlutverki með eðlilegum hætti. Fari völlurinn hlýtur hlutverk svæðisins þarna að breytast, eða ég tel það augljóst. Grunnpunktur af minni hálfu er að völlurinn sé á höfuðborgarsvæðinu. Það er innri ákvörðun yfirvalda í sveitarfélaginu hvar hann sé ætli Reykjavík og svæðið þar í kring að standa undir nafni sem höfuðborg og vera áfram sá miðpunktur sem hann hefur verið til fjölda ára. En ég hvet áhugasama til að lesa pistilinn.

Saga dagsins
1917 Jón Helgason, 51 árs guðfræðiprófessor, kjörinn biskup - hann gegndi embættinu allt til 1938
1942 Bandaríkjamenn tóku við yfirstjórn alls heraflans á Íslandi af Bretum, er hernámu landið 1940
1950 Leikritið Íslandsklukkan, er byggt var á þekktri skáldsögu Halldórs Kiljans Laxness, í leikgerð Lárusar Pálssonar, frumsýnt í Þjóðleikhúsinu - var í fyrsta skipti sem verkið var sett upp á leiksvið
1971 Francois Duvalier einræðisherra Haiti, er nefndur var Papa Doc, lést, 64 ára að aldri. Duvalier var forseti Haiti frá 1957 til dauðadags en stjórnaði við algjört einræði frá 1964. Sonur hans, Jean-Claude Duvalier, er nefndur var Baby Doc, tók við völdum en var steypt af stóli í uppreisn árið 1986
1994 Richard Nixon fyrrum forseti Bandaríkjanna, lést, í New York, 81 árs að aldri. Nixon var einn af umdeildustu stjórnmálamönnum Bandaríkjanna á 20. öld. Hann varð fulltrúadeildarþingmaður árið 1947, öldungardeildarþingmaður árið 1950 og varaforseti Bandaríkjanna, fertugur að aldri, árið 1953. Hann bauð sig fram til forseta árið 1960 en tapaði fyrir John F. Kennedy. Honum tókst að ná kjöri á forsetastól árið 1968. Hann varð að segja af sér forsetaembætti 1974, vegna Watergate-hneykslisins

Snjallyrðið
Nothing is a waste of time if you use the experience wisely.
Auguste Rodin myndhöggvari (1840-1917)