Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

28 apríl 2005

Ásdís Halla BragadóttirHeitast í umræðunni
Tilkynnt var um fimmleytið í dag að Ásdís Halla Bragadóttir bæjarstjóri í Garðabæ, hefði verið ráðin forstjóri BYKO. Þessi tíðindi komu mér í opna skjöldu og eiginlega eru þau tíðindi pólitískt sem mér hefur brugðið mest við að heyra seinustu árin. Það eru alltaf tíðindi þegar pólitískir forystumenn færa sig til með þessum hætti og takast á hendur önnur verkefni. Það hefur verið mjög ánægjulegt að fylgjast með pólitískri forystu Ásdísar Höllu í Garðabæ. Þau fimm ár sem hún var bæjarstjóri þar hefur Garðabær eflst og hefur náð mikilli forystu á mörgum sviðum varðandi málefni sveitarfélaga almenns eðlis.

Sérstaklega hefur verið gaman að kynna sér stefnu Garðabæjar í skóla- og menntamálum og þátt Ásdísar Höllu í þeirri stefnu sem þar hefur verið mörkuð með mjög farsælum hætti. Þriðja hvert barn á leikskólaaldri í Garðabæ er í einkareknum leikskóla og árið 2006 þegar nýr skóli opnar í Sjálandshverfi mun þetta hlutfall hækka í annað hvert barn. Með verkum sínum í Garðabænum hefur Ásdís Halla horft til framtíðar í þessum málaflokki og ennfremur farið nýjar og markvissar leiðir og starfað vel eftir skoðunum og áherslum okkar SUS-ara í menntamálum.

Ásdísi hefur tekist að umbylta skólakerfi bæjarins með glæsilegum hætti og stokka það upp og gera það að fyrirmyndarkerfi í íslenskum menntamálum: kerfi sem aðrir hafa hug á að taka upp og þróa í þá átt að fylgja frumkvæði sjálfstæðismanna þar. Athygli hefur alla tíð vakið hversu hljóðlega þessi mikla breyting, eða ætti maður ekki miklu frekar að segja bylting, í skólamálum hefur gengið yfir. Er það eflaust til marks um hversu vel hún hefur gengið. Á fleiri sviðum hefur Ásdís Halla að standa sig vel. Sérstaklega er gaman að kynna sér málefni nýs vefs bæjarins. Nýi vefurinn boðar alger tímamót í rafrænum samskiptum sveitarfélags við íbúa sína. Allir Garðbæingar geta fengið lykilorð að vefnum og gert eigin útgáfu af vefnum, tekið þátt í umræðum og ákvarðanatöku almennt. Meðal þess sem hægt er að skoða á vefnum er staða gjalda svo sem fasteigna- og leikskólagjalda. Hægt er að senda formleg bréf til bæjarstjórnar og senda inn athugasemdir við auglýst skipulag.

Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með því hvernig unnið hefur verið í málum þarna. Eins og fyrr segir hefur Ásdís Halla unnið af krafti og er mjög ánægjulegt að kynna sér stöðu mála í sveitarfélaginu og öflugt starf hennar og annarra forystumanna flokksins þar. Þar hefur verið unnið með kraft að leiðarljósi á nær öllum sviðum. Garðabær undir forystu Ásdísar Höllu hefur verið bær tækifæranna, sveitarfélag sem er í fararbroddi og hún hefur verið virt fyrir störf sín þvert á stjórnmálalínur. Það er besti vitnisburðurinn um verk hennar að hún hefur leitt farsæl mál með glæsilegum hætti. Það er mér mjög mikil vonbrigði að hún víki úr sveitarstjórnarpólitík og feti annan stíg. Að mínu mati er hún einn frambærilegasti stjórnmálamaður sinnar kynslóðar. Að henni er svo sannarlega eftirsjá, það er alveg óhætt að fullyrða það. Ég óska henni góðs gengis og farsældar á nýjum vettvangi, en lýsi yfir hryggð minni á brotthvarfi hennar úr stjórnmálum. Það hefur verið ánægjulegt að kynnast forystu hennar innan flokksins og vonandi kemur hún aftur síðar.

Jón Baldvin Hannibalsson sendiherraÞað er merkilegt að fylgjast með formannsslagnum í Samfylkingunni. Formannsefnin, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson, hika ekki við að skjóta hvort á annað, þó pent sé og baráttan er hörð. Það sést best á málum seinustu daga sem sannar hversu gríðarleg smölun var í flokkinn undir lokin. Þar var þroskaheft fólk á sambýlum og unglingar á sextánda ári í grunnskóla engin undantekning frá öðrum. Klögumálin ganga víða og kjörnefndin hefur haft í nógu að snúast við að leiðrétta allnokkrar skráningar. Nú hafa gamlir kratahöfðingjar sem sitja á friðarstóli í opinberum störfum eftir pólitíska þátttöku til fjölda ára látið til sín taka í slagnum. Nýlega birtist á stuðningsmannavef Össurar stuðningsgrein við hann eftir Sighvat Björgvinsson framkvæmdastjóra Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og fyrrum viðskiptaráðherra og formann Alþýðuflokksins. Þar telur hann upp staðreyndir sem hann telur grunn þess að Össur eigi að vera áfram á formannsstóli.

Í dag birtist á stuðningsmannavef Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson þar sem hann svarar skrifum Sighvats. Skrifum hans verður vart tekið öðruvísi á þessum vef en sem svo að hann styðji Ingibjörgu Sólrúnu til formannsembættisins. Hvergi í greininni lýsir hann þó yfir beinum stuðningi við formannsframboð hennar. En það svona liggur í línunum hvar stuðningur hans liggur. Það er merkilegt að fylgjast með þessum tveim höfðingjum kratapólitíkurinnar skrifast á með þessum hætti. Sérstaklega í ljósi þess að Jón Baldvin studdi Sighvat til formannsembættisins er hann hætti árið 1996 og þeir voru samherjar á þeim tíma. Nú reyndar hafa formannskandidatarnir á þeim tíma þeir Sighvatur og Guðmundur Árni sameinast að baki Össuri. Fylkingarnar í þessum formannsslag eru því ansi merkilegar og virðast ekki fara eftir gömlum flokksböndum. En eftirtektarverðast er að tveir menn með sendiherraígildi skrifist á með svona opinberum hætti um pólitík. Sighvatur er sem framkvæmdastjóri Þróunarsamvinnustofnunar með sendiherraígildi og Jón Baldvin er sendiherra í Finnlandi, eins og kunnugt er. Fyrir nokkrum mánuðum töldu vissir Samfylkingarmenn óviðeigandi að sendiherra okkar í Danmörku tjáði sig um pólitík með setu í stjórnarskrárnefnd en nú virðast engin bönd gilda um kratahöfðingjana tvo er þeir koma aftur á sviðið.

Punktar dagsins
Michael Howard og Tony Blair

Vika er til þingkosninganna í Bretlandi. Harkan í slagnum er meiri nú en nokkru sinni að margra mati. Mjög hart er fram gengið í að tjá skilaboð flokkanna og persónuskítkastið milli helstu leiðtoganna ber keim þess sem var í bandarísku forsetakosningunum fyrir nokkrum mánuðum. Ekkert virðist til sparað. Jafnast hefur mjög saman með flokkunum og er munurinn nú orðinn innan skekkjumarka. Annars virðast fylgissviptingarnar vera miklar milli daga, annan daginn er Verkamannaflokkurinn með nokkuð forskot en hinn eru flokkarnir stóru svo til jafnir. En það er alveg ljóst að Íhaldsflokkurinn á enn séns í stöðunni. Allnokkur sæti kratanna eru í hættu og gætu fallið á hvern veg sem er í mörgum af einmenningskjördæmunum. Merkilegt er að fylgjast með rimmunni milli þeirra Tony Blair og Michael Howard. Þar er sko ekkert slegið af. Howard hefur gengið fram af miklum krafti og sakað forsætisráðherrann um ósannindi og hafa svikið þjóðina.

Segja má að hann hafi fengið uppreisn æru þegar áliti ríkislögmanns Bretlands um Íraksstríðið, sem efaðist um lögmæti innrásarinnar í Írak kæmi ekki til önnur ályktun frá Sameinuðu þjóðunum, var lekið í BBC. Þetta lagaálit var aldrei birt þá og því er ljóst að Blair hefur hagrætt sannleikanum er hann sagði að önnur lagaálit hefðu ekki komið til á sínum tíma. Þetta er auðvitað vatn á myllu íhaldsmanna þessa dagana, enda virðast ummæli þeirra og frjálslyndra um Blair hafa verið rétt seinustu vikurnar. Nú hefur svo forsætisráðuneytið birt lagaálitið á vef sínum, til að sporna við gagnrýninni. En eftir stendur auðvitað að forsætisráðherrann hefur orðið missaga um málið og hefur haft lagaálit ríkislögmannsins algjörlega að vettugi. Hvað sem Blair segir eða gerir breytir ekki þeim staðreyndum. Þetta óneitanlega kemur sér illa fyrir hann að fá þetta upplýst aðeins sjö dögum fyrir kosningar. En hvort og þá hvaða áhrif þetta muni hafa ræðst auðvitað í kosningabaráttu næstu daga. En harkan eykst sífellt.

Laura Welch Bush og Jay Leno

Laura Welch Bush forsetafrú Bandaríkjanna, var gestur spjallþáttastjórnandans Jay Leno í þætti hans í vikunni. Þar var hann aðallega að ræða við hana um lífið í Hvíta húsinu og störf hennar seinustu vikur. Er þetta í fjórða skipti sem hún kemur til Leno frá forsetakosningunum í fyrra. Forsetafrúin hefur vakið athygli að undanförnu fyrir að fara ferðir án eiginmannsins, t.d. til Íraks og Afganistans. Hefur hún verið mun meira áberandi það sem af er þessu kjörtímabili en var á hinu seinasta. Enginn vafi leikur á því að Bush-hjónin bæði eru mun meira áberandi og koma fram með mun afgerandi hætti en var á fyrra kjörtímabilinu. Þau þurfa enda ekki að óttast aðrar kosningar. Stjórnmálaferli forsetans lýkur er kjörtímabilinu lýkur í janúar 2009. Þau munu þá setjast að í Texas og sinna rólegheitalífi. Leno spurði reyndar forsetafrúna hvort hún stefndi á framboð sjálf er kjörtímabilinu lyki. Er varla undarlegt svosem að sú spurning vakni í ljósi þess að samkvæmt skoðanakönnunum er forsetafrúin vinsælli en forsetinn. Hún svaraði spurningunni neitandi, enda sagðist hún varla geta beðið þess að opinberum störfum eiginmannsins lyki, svo þau gætu þá vikið úr opinberu lífi. Það er alveg ljóst þegar skoðanakannanir eru skoðaðar að framganga forsetafrúarinnar hefur styrkt mjög persónufylgi forsetans í gegnum tíðina. Til dæmis blasir við að hann hefði átt mun erfiðara með að ná endurkjöri í nóvember 2004 án hennar.

A Streetcar Named Desire

Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina A Streetcar Named Desire sem er byggð á samnefndri sögu eftir Tennessee Williams, sem var ein þekktasta skáldsaga 20. aldarinnar. Árið 1947 færði kvikmyndaleikstjórinn Elia Kazan söguna á svið á Broadway og hlaut mikið lof fyrir. Fjórum árum síðar gerði hann myndina. Útkoman var ein eftirminnilegasta kvikmynd 20. aldarinnar. Mögnuð saga sem segir frá fegurðardísinni Blanche sem kemur í heimsókn til systur sinnar Stellu og mannsins hennar, Stanley. Smám saman komast þau að raun um að Blanche segir ekki alltaf satt. Hver er munurinn á sjálfsblekkingu og draumaveröld? Lánleysið blasir allsstaðar við og það eina sem hægt er að binda vonir við, eru þráin, girndin og ástin. Í aðalhlutverkum voru Vivien Leigh, Kim Hunter, Karl Malden og nýstirnið Marlon Brando, sem hafði slegið í gegn, 23 ára gamall, í hlutverki Stanley á Broadway í sýningunni 1947. Brando átti leiksigur í hlutverki Stanley Kowalski og varð stórstjarna í kvikmyndaheiminum á einni nóttu og einn frægasti leikari 20. aldarinnar. Vivien Leigh, Kim Hunter og Karl Malden fengu öll óskarinn fyrir leik sinn og Kazan var tilnefndur fyrir leikstjórn og Brando fyrir magnaðan leik sinn. Ég hvet alla kvikmyndaunnendur til að sjá þetta magnaða meistaraverk ef þeir eiga tök á því, betri mynd er vart hægt að sjá.

Sjálfstæðisflokkurinn

Sjálfstæðisflokkurinn mælist langstærsti flokkur landsins í nýrri skoðanakönnun sem Frjáls verslun hefur gert fyrir vefinn heimur.is, sem er viðskiptavefur blaðsins. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 38% fylgi, Samfylkingin hlýtur rúmlega 31%, Vinstrihreyfingin - grænt framboð mælist með 14%, Framsóknarflokkur hefur tæp 11% og Frjálslyndir hljóta 5%. Samkvæmt þessu hlyti Sjálfstæðisflokkur 24 þingsæti, Samfylkingin 20, Vinstri grænir 9, Framsókn 7 og Frjálslyndir 3. Könnunin var framkvæmd í þessari viku, dagana 25. - 27. apríl. Vissulega ber að taka allar skoðanakannanir með vara, en þessi mæling er engu að síður mjög í takt við könnun Gallups í marsmánuði. Það er alltaf gott fyrir okkur í flokknum að fá góða mælingu. Það er allavega mjög hvetjandi að sjá svona tölur, þó alltaf séu skoðanakannanir bara vísbendingar, ekkert meira.

Saga dagsins
1237 Bardagi háður að Bæ í Borgarfirði - það féllu fleiri en 30 manns alls í þessum mikla bardaga
1819 Tukthúsið í Reykjavík gert að embættisbústað - þar er nú skrifstofa forsætisráðherra Íslands
1945 Benito Mussolini fyrrum einræðisherra Ítalíu, tekinn af lífi á flótta ásamt ástkonu sinni, Clöru Petacci - hann var við völd á Ítalíu frá 1922, en tók sér alræðisvald 1928 en svo steypt af stóli 1943
1969 Charles De Gaulle forseti Frakklands, biðst lausnar eftir ósigur í þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem kosið var um breytingar á stjórnarskrá landsins. De Gaulle hafði þá setið á forsetastóli í 11 ár
1986 Sovétstjórnin viðurkennir loks tilvist kjarnorkuslyssins í Chernobyl-kjarnorkuverinu í Úkraínu

Snjallyrðið
The greatness comes not when things go always good for you. But the greatness comes when you're really tested, when you take some knocks, some disappointments, when sadness comes. Because only if you've been in the deepest valley can you ever know how magnificent it is to be on the highest mountain.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)