Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 apríl 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um harðvítuga valdabaráttu í Samfylkingunni í væntanlegu formannskjöri þar sem Össur og Ingibjörg Sólrún takast á með sífellt beinskeyttari hætti. Fer ég yfir umræðuna um svokallaða framtíðarnefnd flokksins og vinnubrögð hennar og vendingar vissra Samfylkingarmanna í þá átt að sjálfstæðismenn taki afstöðu í kjörinu og beiti sér beint til stuðnings Össuri. Hversvegna ættu sjálfstæðismenn að skipta sér af innbyrðis væringum Ingibjargar og Össurar um formennsku flokksins? Ég bara spyr? Það er varla undrunarefni að Birni Bjarnasyni sé varla vel við Ingibjörgu Sólrúnu og hennar verk, t.d. á vettvangi borgarmálanna. Þau hafa verið andstæðingar þar til fjölda ára og sjálfstæðismenn í borginni eru engir stuðningsmenn stjórnunarstíls hennar og óráðsíu í borginni. En ég get ekki heldur séð að sjálfstæðismenn séu neitt sérstakir stuðningsmenn Össurar beint. Hinsvegar er það óneitanlega svo að Ingibjörg Sólrún er umdeildari stjórnmálamaður en Össur. Hún hefur átt erfitt með að fá fulltrúa annarra flokka til að treysta sér og er besta dæmið um það hvernig hún hefur haft það pólitískt seinustu tvö árin. Hún hefur alveg verið á ís pólitískt. Össur hefur allt annan bakgrunn og gæti alveg unnið með öðrum flokkum á breiðari grundvelli en Ingibjörg Sólrún.

- í öðru lagi fjalla ég um málefni Héðinsfjarðarganga og minni á mikilvægi þess að pólitísk loforð forystumanna stjórnarflokkanna vegna framkvæmdanna standi. Fer ég yfir skoðun mína á málinu almennt. Við blasir að Gunnar Birgisson ætli nú að leggja fram breytingatillögur á þingi sem markast af því að taka þessi göng út af samgönguáætlun og gera út af við samgönguumbætur á landsbyggðinni almennt. Slík ósvinnuefnistök eru með ólíkindum. Í umræðu sem gengur í samfélaginu er vegið að okkur hér fyrir að vilja efla byggðirnar. Þar erum við kölluð kjördæmapotarar því við viljum efla byggðirnar og styrkja heildirnar. En engum fjölmiðlamanninum eða spekingnum í umræðunni fyrir sunnan dettur auðvitað í hug að kalla Gunnar Birgisson kjördæmapotara. Þeir sem kalla Halldór Blöndal, Arnbjörgu Sveinsdóttur og Birki Jón Jónsson kjördæmapotara fyrir að berjast að þessu hljóta þá að færa þann stimpil á Gunnar með því að krefjast þess að peningar fari utan af landi í hans kjördæmi og til höfuðborgarinnar. En svo er ekki gert? Hversvegna er það svo? Þessi tvískinnungur er með ólíkindum. Það vilja allir styrkja sínar byggðir og bæta. En vinnubrögð Gunnars eru með þeim hætti að slátra beinlínis þeirri framkvæmd sem var lofað hér í kosningum og okkar kosningabarátta byggðist á. Vonandi tekst sú barátta hans ekki.

- í þriðja lagi fjalla ég um þá ákvörðun Halldórs Blöndals forseta Alþingis að víta þingmann Samfylkingarinnar vegna skorts á almennum mannasiðum á Alþingi. Ákvörðun Halldórs verður þingmönnum vonandi umhugsunarefni og þeir læri þá gullnu reglu að þingmenn sýni hvor öðrum tilhlýðilega virðingu og virði fundarstjórn forseta og a.m.k. grípi ekki fram í fyrir honum þegar hann er að tala.

Punktar dagsins
Össur og ISG á fundi á Akureyri

Formannsslagurinn í Samfylkingunni er hafinn af fullum krafti, nú þegar rúmur mánuður er til landsfundarins. Skráningu í flokkinn fyrir landsfundinn er lokið og því getur hin formlega kosningabarátta hafist af fullum krafti. Bæði hafa nýtt sér vel tæknina í baráttunni. Össur opnaði fyrr á árinu öflugan bloggvef, leggur hann mikla rækt við hann og vinnur af krafti, hann tjáir þar skoðanir sínar og vinnur öflugur í baráttunni. Nú hafa stuðningsmenn hans opnað vef um framboð Össurar. Líst vel á hann, er hann byggður utan um málefni og árangur og það sem meira er jákvæð komment um næstu tvö ár. Vefur ISG er óttalegur halelújavefur án innihalds. Það er einfalt mál. Hann er eiginlega að drukkna í oflofi og einhverri yfirtrúarstemmningu. Segja má einnig að hann sé afskaplega sterílíseraður og ópersónulegur. Össur er mun öflugri í að skrifa beint til lesandans, talar um heitustu málin og er nær lesandanum í pælingum. Hann þorir að hafa skoðanir og tjá sig, en Ingibjörg notar ekki vefinn sem samskiptaleið til fólks með skrifum þar inn sjálf, nema ef frá er talið stöku sinnum nokkrir punktar. En svona er þetta bara. Þessi slagur harðnar sífellt. Er gott að Össur víkur ekki fyrir Ingibjörgu sjálfviljugur. Er mitt mat að hann hafi styrkst seinustu daga og vikur. Það er vissulega þeim báðum gott að fá mælingu á stöðu sinni í flokkskjarnanum.

Gordon Brown og Tony Blair

Baráttan fyrir þingkosningarnar í Bretlandi þann 5. maí er á fullu og leiðtogar flokkanna á fullu um allt land að kynna stefnu sína og boðskap fyrir kjósendum. Eftir að Verkamannaflokkurinn bætti við sig aftur um miðja vikuna og sundur dró milli flokkanna hefur nú aftur færst saman og aftur munar nær engu á stóru flokkunum. Staðan er orðin með sama hætti og var í kringum þá tímasetningu er boðað var til kosninganna. Stefnir allt í jafnar og tiltölulega spennandi slag. Athygli vekur að Tony Blair er nú farinn að flagga Gordon Brown mun meir en hefur verið. Í upphafi ársins gat Blair ekki á blaðamannafundi einu sinni lofað að Brown yrði ráðherra eftir kosningarnar en nú er annað hljóð komið í strokkinn. Nú er Brown flaggað sem mest má vera og hann er kominn í þungamiðju kosningaslagsins. Það er alveg ljóst að hvernig sem þessar kosningar fara er Brown að fara að taka við Verkamannaflokknum, það er bara spurning um hvenær. Blasir þetta við. Reyndar segja fróðir að tímasett hafi þegar verið hvenær valdaskiptin verði ef LP heldur völdum. Blair hefur laskast og hvernig sem fer er Brown orðinn þungamiðja flokksins, meginsegullinn á almenning, og hans tími er að renna upp. Þarf engan sérstakan sérfræðing til að sjá að Blair er orðinn þreyttur og útbrenndur og sést á könnunum að persónufylgi hans er dapurt og Brown er orðinn aðalstjarnan og tekur brátt við valdataumunum ef flokkurinn heldur velli.

Reykjavíkurflugvöllur

Annað kvöld kl. 20:00 verða haldnar kappræður um Reykjavíkurflugvöll í Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Frummælendur á fundinum verða Egill Helgason sjónvarpsmaður og Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair. Fundurinn er haldinn á vegum Heimdallar og sjálfstæðisfélaganna í Nes- og Melahverfi, Vestur- og Miðbæjarhverfi, Hlíða- og Holtahverfi, Austurbæ og Norðurmýri. Hljómar spennandi fundur. Ekki veitir af umræðu um þessi mál. En mín skoðun á málefnum vallarins er alveg skýr - ég vil að hann verði áfram á höfuðborgarsvæðinu.

Geir H. Haarde fjármálaráðherra

Í gær voru liðin sjö ár síðan Geir H. Haarde tók við embætti fjármálaráðherra af Friðriki Sophussyni. Enginn hefur nú setið lengur á stóli fjármálaráðherra en Geir. Á þessum tímamótum vil ég senda bestu kveðjur til Geirs og óska honum góðs í störfum sínum og forystu í ráðuneytinu á komandi árum. Óhætt er að segja að Geir hafi á þessum sjö árum haldið vel utan um ríkiskassann og sérstaklega er ég glaður með skattatillögur hans undir lok seinasta árs og að hafa leitt þau mál farsællega og vel til lykta.

Saga dagsins
1913 Járnbraut, sú fyrsta og eina hérlendis, var tekin í notkun - hún var notuð allt til ársins 1928
1939 Ríkisstjórn Hermanns Jónassonar, Þjóðstjórnin, tók formlega við völdum - hún sat í þrjú ár
1961 Leikstjórinn Billy Wilder hlaut leikstjóraóskarinn fyrir hina stórfenglegu kvikmynd sína, The Apartment. Wilder telst einn af mestu snillingum bandaríska kvikmyndaheimsins á 20. öld. Fáir innflytjendur sem flutt hafa til Bandaríkjanna hafa náð betur að fanga ameríska mannlífsmenningu eða notað tungumálið jafn listilega í kvikmyndahandritum sínum og hann. Wilder var sannkallaður meistari í að tjá mannlíf og koma með húmorinn á rétta staði í handrit og gæða þau einstöku lífi. Hlaut fyrri leikstjóraóskar sinn fyrir hina frábæru The Lost Weekend árið 1945. Wilder lést árið 2002
1984 Lögreglukonan Yvonne Fletcher var myrt í óeirðum við sendiráð Líbýu í London - leiddi dauði hennar til harkalegra deilna milli landanna sem voru leyst með heimsókn Tony Blair til Líbýu 2004
1994 Listasafn Kópavogs, Gerðarsafn, var opnað - var kennt við Gerði Helgadóttur myndhöggvara

Snjallyrðið
A person without a sense of humor is like a wagon without springs. It's jolted by every pebble on the road.
Henry Ward Beecher rithöfundur (1813-1887)