Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

24 apríl 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um 10 ára afmæli ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Að loknum þingkosningum 1995 var staðan með þeim hætti að stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks var brostið. Kom þar tvennt til: málefnalegur ágreiningur hafði verið milli flokkanna í kosningabaráttunni, einkum hvað varðar Evrópusambandið, og ennfremur var meirihluti stjórnarinnar naumur, aðeins eitt sæti. Deilur höfðu verið innan stjórnarinnar fyrir kosningarnar og kvarnast af þingmeirihlutanum við klofning innan Alþýðuflokksins og sólómennsku sumra þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Það var hárrétt ákvörðun hjá Davíð að slíta stjórnarsamstarfinu við kratana og leita eftir samstarfi við Framsóknarflokkinn. Hefur það samstarf skilað stjórnmálalegum stöðugleika og tryggt öflugt og gott þjóðfélag sem er vel stjórnað. Þrátt fyrir að flokkarnir hafi fengið á sitt borð mörg stór og erfið mál hefur flokkunum auðnast undir tryggri forystu formanna þeirra að leysa þau og vinna saman með samhentum hætti að því að vinna að þeim málum sem skipta okkur öll máli. Ávöxtur verka stjórnarinnar seinustu tíu árin blasa allsstaðar við eins og fyrr segir og leikur enginn vafi á að blómlegt er um að lítast. Allt í kringum okkur sjáum við hversu vel hefur til tekist.

- í öðru lagi fjalla ég um kjör Benedikts XVI á páfastól. Fer ég yfir ævi hans og feril í umfjöllun minni og fjalla um þennan umdeilda trúarleiðtoga sem tryggði sér páfastólinn með skjótum hætti í páfakjörinu. Kjör hans markar ekki mikil þáttaskil hjá rómversk - kaþólsku kirkjunni. Hinn nýkjörni páfi er 78 ára að aldri. Hann er því tveimur áratugum eldri en Jóhannes Páll II var þegar hann varð páfi árið 1978. Að svo gamall maður skuli verða fyrir valinu þykir vera vísbending um þrennt: yfirlýsing um að íhaldssöm stefna páfatíðar Jóhannesar Páls II haldist óbreytt og meginstef hennar verði áfram við lýði, að kardinálarnir hafi talið óæskilegt að velja of ungan mann til embættisins og með því auðvitað að nýr páfi verði ekki lengi við völd og síðast en ekki síst að hér hafi menn sæst á málamiðlun. Þegar eftir kjörið heyrðust margar óánægjuraddir. Einkum hafa mannréttinda- og kvenréttindahópar gagnrýnt harkalega kjör Ratzingers. Um er að ræða mann sem hefur vakið athygli fyrir íhaldssamar skoðanir og áherslur. Hann hefur hafnað öllum hugmyndum um nútímavæðingu kirkjunnar og er harður andstæðingur frjálslyndari stefnu og áherslna. Ég vona að honum farnist vel í embætti og muni verða jafnöflugur boðberi kristinnar trúar og friðarboðskapar og forveri hans.

- í þriðja lagi fjalla ég um formannsslaginn í Samfylkingunni sem sífellt harðnar og átakalínurnar þar og umræðu vissra aðila þess efnis að sjálfstæðismenn komi að formannskjöri flokksins. Þegar ég lít á þennan slag sé ég augljós sóknarfæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn í sigri beggja þessara formannsefna. Augljós niðurstaða er að ISG sé betri kostur fyrir okkur sjálfstæðismenn því hún mun að mínu mati minnka Samfylkinguna og stækka Sjálfstæðisflokkinn. Hinsvegar yrði að mínu mati ómögulegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að mynda ríkisstjórn með ISG. Hún hefur talað þannig að í raun hefur hún útilokað Sjálfstæðisflokkinn. Össur er líklegri til að halda Sjálfstæðisflokknum niðri í fylgi og Samfylkingunni stærri. Hann er hinsvegar líklegri til að vilja og geta starfað með Sjálfstæðisflokknum. Í þessu tvennu eru því sóknarfæri fyrir sjálfstæðismenn úr að vinna.

Punktar dagsins
Angelo Sodano kardináli kyssir á hönd Benedikts XVI páfa

Benedikt XVI páfi var formlega settur í embætti við útimessu á Péturstorginu í Róm í morgun að viðstaddri um hálfri milljón pílagríma. Við það tækifæri tók páfi við táknum páfavaldsins, fiskimannshringnum margfræga, sem eitt sinn var notaður til að innsigla postulabréf, og sjali úr ull af lambi. Með messunni hófst formlega embættisferill páfans og flutti hann predikun við þetta tækifæri þar sem hann ítrekaði að hann myndi halda uppi merkjum og stefnu forvera síns. Sagði hann að hugur sinn væri hjá öllum konum og körlum, vantrúuðum jafnt sem trúuðum. Benedikt XVI sagði að forveri hans væri nú kominn heim meðal dýrlinganna í himnaríki, en gekk þó ekki svo langt að segja að Jóhannes Páll skyldi tekinn í dýrlingatölu. Sú umræða er nú mjög uppi um að Jóhannes Páll II verði tekinn í dýrlingatölu. Vissulega er það eftirmanns hans að taka það til skoðunar og ráða ferlinu. Reyndar má minna á það að eftir að hann var kjörinn til embættisins á þriðjudag nefndi páfi forvera sinn sem hinn mikla. Það eru vissulega skilaboð um það hvort páfi verði tekinn í heilagra manna tölu. Er greinilegt að nýjum páfa er annt um að eiga góð samskipti við fjölmiðla og bauð þeim t.d. til sín í Páfagarð í gær og hélt einskonar blaðamannafund. Er ljóst að hann fetar mjög í fótspor forverans, sem þótti mjög fjölmiðlavænn páfi.

Der Untergang

Seinnipartinn í gær fór ég í Borgarbíó og sá þýsku úrvalsmyndina Der Untergang eða The Downfall. Myndin er gerð eftir sjálfsævisögu Traudl Junge, einkaritara Adolfs Hitlers, og gerist á síðustu 10 dögunum fyrir fall þriðja ríkisins í apríl 1945. Rauði herinn nálgast Berlín og meðan riðar veldi Hitlers til falls. Hann og nánustu samverkamenn neyðast til að hírast í byrgi sínu og bíða þess óumflýjanlega; endalokanna. Myndin hefur vakið athygli vegna þess að hún sýnir Hitler sem manneskju en ekki skrímsli. Las ég bók Junge um jólin og hafði beðið eftir myndinni, enda með mikinn áhuga á pólitík almennt. Óhætt er að segja að myndin sé góð og áhrifamikil. Myndin kemur til skila til áhorfandans með ljóslegum hætti bæði sturluninni og örvæntingunni sem ríkti í borginni þessa daga er veldi Hitlers er komið að leiðarlokum. Á þessum dögum sem myndin lýsir er Þýskaland nasistaríkis Hitlers í dauðateygjunum, og tími uppgjörsins, sem blasað hefur við að er handan við hornið, er framundan. Það er mjög erfitt að lýsa myndinni í mörgum orðum. Í þessu tilfelli er svo sannarlega sjón sögu ríkari. Myndin er full af upplifunum tímabils sem einhvernveginn flestir telja stóran hluta 20. aldarinnar en enginn vill í raun kannast við. Stórbrotin og ógleymanleg mynd sem ég varð mjög hugsi yfir. Hvet alla til að sjá hana. Þetta er mynd sem enginn má missa nokkru sinni af.

Björn Bjarnason flytur ræðu sína

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, ávarpaði í gær ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um baráttu gegn glæpum og opinbert réttarfar, sem haldin er þessa dagana í Bangkok, höfuðborg Thailands, dagana 18. til 25. apríl. Í ræðu sinni vék Björn að þáttum sem setja svip sinn á yfirlýsinguna, sem gefin verður út í lok ráðstefnunnar. Nefndi hann fjóra þætti: í fyrsta lagi mikilvægi þess, að einstök ríki yrðu, innan alþjóðareglna og eigin laga, að finna hinn gullna meðalveg til þess að tryggja öryggi borgaranna án þess að ganga um of gegn friðhelgi einstaklingsins. Allar aðgerðir og lagabreytingar sem gerðar væru til þess að berjast við skipulagða glæpastarfsemi, yrðu að taka mið af mannréttindareglum og flóttamannasamningum. Í öðru lagi nauðsyn þess að virkja hinn almenna borgara til samstarfs við þær opinberar stofnanir, lögreglu og aðra, sem gæta almannaöryggis. Í þriðja lagi að hindra misnotkun á nýrri tölvu- og fjarskiptatækni í þágu glæpastarfsemi. Lagði hann áherslu á að lögregla yrði að hafa nauðsynlegar heimildir til að sinna verkefnum sínum, án þess að tækniframfarir veittu brotamönnum nýtt eða aukið skjól. Í fjórða og síðasta lagi er það svo að forðast að nýta ný úrræði í réttarkerfinu. Var fróðlegt að lesa ræðu Björns og hvet ég lesendur vefsins til að líta á hana.

Sir John Mills (1908-2005)

Breski óskarsverðlaunaleikarinn Sir John Mills lést á heimili sínu í Buckinghamshire í gær, 97 ára að aldri. Mills var ein af goðsögnum breskrar leiklistar á 20. öld. Segja má hann hafi verið sá seinasti sem kvaddi af gömlu kynslóðinni sem setti mest mark sitt á kvikmyndaheim landsins og leikhúsmenninguna. Hann var einstaklega fjölhæfur og góður leikari. Mills hóf leikferil sinn á sviði í London en hann stundaði nám í konunglega listaháskólanum þar. Síðar hélt hann til Hollywood og lék þar í fjölda kvikmynda. Hann lék í rúmlega 100 kvikmyndum á glæsilegum ferli, t.d. Great Expectations, War and Peace, Gandhi og Ryan´s Daughter. Fyrir síðastnefndu myndina hlaut Mills óskarinn árið 1971 fyrir leik í aukahlutverki. Túlkun hans í þeirri mynd á þorpshálfvitanum Michael í litla írska þorpinu er ógleymanleg. Eftirlifandi kona hans er leikskáldið Mary Hayley Bell, en þau kvæntust árið 1941. Lætur Mills eftir sig þrjú börn. Dóttir hans, Hayley Mills, var barnastjarna og lék í fjölda þekktra kvikmynda á fimmta og sjötta áratugnum. Túlkun hennar á Pollýönnu er ógleymanleg. Með Mills er fallinn í valinn einstakur leikari, sannkallaður snillingur í næmri túlkun á svipmiklum karakterum á hvíta tjaldinu.

Saga dagsins
1914 Dauðadómur var kveðinn upp á Íslandi í síðasta sinn - dómnum var breytt í ævilangt fangelsi
1970 90 námsmenn ruddust inn í skrifstofur menntamálaráðuneytisins við Hverfisgötu í Reykjavík til að lýsa yfir stuðningi við kröfur námsmanna erlendis. Settust þau í ganga en borin svo út af lögreglu
1977 Skákmaðurinn Vlastimil Hort setti heimsmet í fjöltefli á Seltjarnarnesi - tefldi við 550 manns
1993 Sprengjutilræði IRA, Írska lýðveldishersins, í City hverfinu í London - rúmlega 40 slösuðust
1996 Feðgarnir Arnór og Eiður Smári Guðjohnsen léku í landsleik gegn Eistlandi - Ísland sigraði 3:0

Snjallyrðið
Being president is like being a jackass in a hailstorm. There's nothing to do but to stand there and take it.
Lyndon B. Johnson forseti Bandaríkjanna (1908-1973)