Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 apríl 2005

Þjóðvegur 1Heitast í umræðunni
Lengi hef ég verið mikill talsmaður þess að hafa öfluga umfjöllun um umferðarmál og minna fólk sífellt á mikilvægi þess að keyra varlega og varast slys. Umferðarslys eru sorgleg og tíðni þeirra hérlendis er alltof mikil. Umferðarslys breyta lífi fólks að eilífu. Ekkert verður samt eftir þau. Þeir vita það best sem misst hafa náinn ættingja eða vin í slíku slysi hversu þung byrði það er að lifa eftir þau sorglegu umskipti og sárin sem fylgja slíku dauðsfalli gróa seint eða aldrei. Það er sorgleg staðreynd að árlega er fjöldi fjölskyldna í sárum vegna dauðsfalls af völdum umferðarslyss. Síðustu ár hafa Umferðarráð og síðar Umferðarstofa staðið sig vel í að tjá sig um þessi mál og koma boðskapnum sem einfaldast og best til skila. Sérstaklega fannst mér þetta heppnast best í auglýsingaherferð á síðasta ári þar sem hljómaði tónverk Jóns Ásgeirssonar við Vísur Vatnsenda Rósu og á meðan voru sýndar myndir af vegum og myndir látinna kristölluðust þar. Það er dæmi um auglýsingaherferð sem heppnast, látlaus en þó áhrifamikil og kemur mikilvægum boðskap til skila.

Það er þó mitt mat að Umferðarstofu hafi brugðist hrikalega bogalistin seinustu vikurnar. Mér hefur blöskrað nýlegar auglýsingaherferðir Umferðarstofu, það er alveg einfalt mál og lái mér hver sem vill. Þær skjóta hátt í efnistökum en það er skotið svo langt yfir markið að vart hefur sést annað eins lengi. Birst hafa auglýsingar sem eru Umferðarstofu til skammar. Sérstaklega ein þeirra sem sýndi barn detta fram af svölum. Sjálfsagt er að fá fram umræðu og vekja fólk til lífs um þessi mál og tryggja umferðaröryggi. En þarna er alltof langt gengið. Verst fannst mér að sjá börn notuð í þessu skyni með þessum grófa hætti þar sem farið er langt yfir strikið. Er það ekki Umferðarstofu til framdráttar að auglýsa með þessum hætti og taldi ég að þessi lágkúrulega framsetning myndi fá menn á þeim bænum til að hugsa sinn gang. Sú varð nú ekki aldeilis raunin. Nú seinustu daga hefur birst okkur herferð þar sem smákrakkar á leikskóla ausa út úr sér fúkyrðunum og sjást svo í lokin fara heim með foreldrunum sem ausa þar fúkyrðum yfir næsta ökumann. Þessar auglýsingar missa marks og eru ekki til neins. Nema þá að Umferðarstofa sé orðin að málverndarráði allt í einu! Umferðarstofa á að beita sér fyrir auglýsingum í takt við það sem hefur birst seinustu árin, mun frekar en feta sig á þessa braut. Mega auglýsingar um stórmál sem þarf að vekja fólk til umhugsunar um ekki ganga of langt og þurfa aðilar að passa sig, enda auðvelt að feta sig út af brautinni og misstíga sig hrapalega.

Til Umferðarstofu eru skilaboðin frá mér einföld: það þarf ekki að skjóta hátt til að hitta í mark. Einfaldur og beinskeyttur boðskapur með mannlegu yfirbragði virkar best. Einfalt mál! Bestar af auglýsingum Umferðarstofu seinustu mánuðina eru sérstaklega tvær einfaldar auglýsingar en mjög einbeittar í tjáningu án ofsa eða hvassleika. Um er að ræða auglýsingar sem bera heitið Dáinn og Hægðu á þér.

SíminnSöluferli Símans er hafið. Er ánægjulegt að selja eigi Símann, hefði það átt að hafa gerst fyrir löngu. En söluferlið núna orkar tvímælis, sitt sýnist hverjum um það. Sjálfur hef ég tjáð þá afstöðu að ég skilji það ekki til fulls, það er mjög undarlegt, allt að því fishy eins og kanarnir myndu segja. Nú er talað um að þessum og hinum framsóknaraðlinum í samfélaginu hafi verið lofað hnossinu. Ekki get ég fullyrt neitt um það, en þetta eru gróusögurnar sem ganga. Merkilegast af öllu er að Gróa frá Leiti er orðin helsta meginstoð Samfylkingarinnar í þingumræðum. Er ótrúlegt að fylgjast með frumhlaupi Samfylkingarþingmanns að taka slíkt tal upp áður en vitað er hver býður í hlutinn og með hvaða hætti. Er greinilegt að Samfylkingarþingmenn eru að nota þingið til dægurþrasumræðu til að dekka yfir ólguna í eigin röðum, þar sem allt logar á milli í hnútuköstum og óeirðum.

Í gær skrifaði Agnes Bragadóttir fréttastjóri viðskiptafrétta Moggans, góða grein í blaðið og tjáði þar andstöðu sína við skipulag sölunnar og vildi að landsmenn tækju sig saman í málinu og byðu í saman. Frábær grein hjá Agnesi, svo sannarlega orð í tíma töluð og skemmtileg vangavelta um þetta mál. Viðbrögðin munu hafa verið svo góð að Agnes hefur nú tekið sér launalaust leyfi frá Morgunblaðinu og vinnur nú ásamt Orra Vigfússyni að því að safna tilboðum og bjóða svo saman í fyrirtækið. Er nú komið á fjórða þúsund tilboða í sarpinn hjá þeim og öðrum aðila sem er að safna. Gott mál, mjög svo. Mikilvægt að margir bjóði í og ferlið sé galopið, það er ótækt að eitthvað sé eyrnamerkt einhverjum og því rétt að koma með voldugt tilboð af þessu tagi. Öll munum við eftir því hvernig farið var að við söluna á Búnaðarbankanum til hins svokallaða S-hóps árið 2002. Sú sala og vinnubrögð eru vítaverð og mikilvægt að koma í veg fyrir þau. Það er algjörlega ótækt ef á að fara að rétta Símann fyrirfram ákveðnum aðila. Taka verður ferlið allt með opnum og gegnsæjum hætti. Vonandi verður það svo. Ég fagna frumkvæði fólks til að fá almenning til að bjóða í. Hið besta mál - þetta er hið rétta ferli og gott ef sem flestir bjóða í hlutinn.

Punktar dagsins
Gröf Jóhannesar Páls II páfa

Aðgangur var í dag leyfður að gröf Jóhannesar Páls páfa II í grafhýsi Péturskirkjunnar í Róm. Fimm dagar eru nú liðnir frá því að hann var jarðsettur þar að lokinni glæsilegri kveðjuathöfn, fjölmennustu útför mannkynssögunnar, eins og vel hefur komið fram. Flestir pílagrímarnir sem vottuðu honum virðingu sína eftir andlátið og við útförina hefur haldið nú heim á leið og rólegt er yfir miðborg Rómar, miðað við það ástand sem skapaðist þar fyrir viku, dagana eftir andlátið og fyrir útförina. Nokkur hundruð manns fóru að gröf páfa í dag og vottuðu honum virðingu sína. Sorgartímabili kaþólskra vegna andláts páfa, Novemdialis, lýkur á sunnudag. Á mánudag koma kardinálarnir saman í Róm og kjósa nýjan páfa. Í ítarlegum pistli sínum á vef SUS í dag fjallar vinur minn og nafni, Stefán Einar Stefánsson, um ferlið sem fylgir páfakjöri og kemur með sínar vangaveltur á andlát páfa og það sem við tekur er eftirmaður hans verður kjörinn í næstu viku. Er þessa dagana ferlið vegna kjörsins í undirbúningi, verið er að koma húsgögnum og tilheyrandi hlutum fyrir í Sixtínsku kapellunni í Róm og þessa dagana keppast skraddararnir, á klæðskeraverkstæðinu sem saumar fyrir Vatíkanið, við að sauma á nýjan páfa og þar sem auðvitað er ekki vitað hver hann verður er allur viðhafnarklæðnaður saumaður í þrem stærðum, svo öruggt sé að hann passi á nýjan páfa, sem verður auðvitað að koma fram strax eftir kjörið í viðeigandi klæðum og taka við embættinu.

Grace Kelly og Cary Grant í To Catch a Thief

Horfði í gærkvöldi á enn eina úrvalsmyndina. Að þessu sinni var litið á To Catch a Thief, kvikmynd meistara Sir Alfred Hitchcock. Jafnan er spennan í hámarki og hárfínn húmor fylgir með sem aukahlutur í myndum Hitchcocks. Að þessu sinni er blandan með öðrum hætti og húmorinn meira yfirgnæfandi - spennumyndin er því með áberandi gamansömu ívafi. Fjallar þessi yndislega kvikmynd um dementarán á frönsku ríveríunni og tilraunir þekkts demantaræningja, John Robie, sem er saklaus til að reyna að finna hinn seka en hann er undir grun og flestir telja hann hinn seka. Góð ráð eru því dýr fyrir hann. Í aðalhlutverkum eru Cary Grant og Grace Kelly og fara þau á kostum í hlutverkum Robie og Frances Stevens, en hún flækist inn í atburðarásina sem dóttir einnar af þeim konum sem lendir í klóm demantaræningjans. Grace, sem að mínu mati er fallegasta kona sögunnar, glansar í hlutverki Frances. Hún var aldrei meira heillandi á sínum ferli en í þessari mynd og enginn vafi á því í mínum huga að hún slær út náttúrufegurð ríveríunnar og gott betur en það. Leikstjórinn var heillaður af Grace og harmaði mjög þegar hún tók þá ákvörðun um miðjan sjötta áratuginn að hætta kvikmyndaleik og giftast Rainier fursta af Mónakó, sem hún kynntist við tökur á myndinni. Grace fórst í bílslysi í hæðunum fyrir ofan Monte Carlo 14. september 1982, 52 ára að aldri. Kaldhæðnislegt var að slysið átti sér stað á sömu slóðum og hið hið fræga bílaatriði Grace og Cary Grant í myndinni. Myndin stendur alltaf fyrir sínu, sannkallað augnakonfekt og ávallt gleðigjafi.

Tony Blair

Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Verkamannaflokksins, kynnti í dag kosningastefnuskrá Verkamannaflokksins fyrir komandi kosningar. Staðfesti hann ennfremur í dag að þetta yrði hans seinasta kosningabarátta. Hann hefur í hyggju, að láta af embætti á kjörtímabilinu, ef hann heldur velli í kosningunum. Það er því ljóst að óháð kosningaúrslitunum leitar Blair nú í síðasta skipti eftir endurkjöri. Merkilegt er að lesa kosningastefnuskrá Verkamannaflokksins. Hún er full af fyrirheitum og loforðum. Vaknar sú spurning hvað Blair og kratarnir hafa verið að gera seinustu átta árin, eftir langan valdaferil. Blair hefur að fáu að státa eftir þessi átta ár og því merkilegt að lesa stefnuskrána. Greinilegt er þó núna að Blair og Gordon Brown fjármálaráðherra, hafa samið um frið og koma nú fram við hvert tækifæri til að sýna fram á að stríðsöxin milli þeirra hafi verið grafin. Er ekki laust við að sú hugdetta komi upp að þeir hafi samið um hvenær Blair láti af embætti ef flokkurinn heldur völdum og hvernig völdum verði skipt við brotthvarf Blairs. Ljóst er þó að kosningabaráttan er komin á fullt. Stóru flokkarnir tveir hafa kynnt stefnu sína og á morgun munu Frjálslyndir gera slíkt hið sama. Spennandi lokasprettur er því framundan í Bretlandi: barátta um persónur og beitt málefni á næstu vikum.

Kosningastefnuskrá Íhaldsflokksins 2005
Kosningastefnuskrá Verkamannaflokksins 2005

Margrét og Heiðar í Allt í drasli

Seinustu vikur hefur þátturinn Allt í drasli verið á dagskrá Skjás 1. Í þeim þætti fara Heiðar Jónsson snyrtir, og Margrét Sigfúsdóttir skólastjóri Hússtjórnarskólans, heim til fólks og bjóðast til að taka þar til með aðstoð fyrirtækis sem annast þrif og veita aðstoð og ráðleggingar til fólksins. Hefur verið með ólíkindum að sjá útganginn á heimili fólksins sem verið hefur í þáttunum. Draslið og óhirðan hefur farið yfir öll eðlileg mörk. Þar sem ég þyki mjög þrifinn og svona þess háttar einstaklingur að þrífa vel í kringum mig hefur mér blöskrað að sjá sum heimilin, reyndar öll ef út í það er farið. Það er óskiljanlegt að fólk safni upp drasli og óþverra um alla íbúð og láta þrif sitja á hakanum að svona miklu leyti. Hefur verið fyndið að fylgjast með Heiðari snyrti á heimilum þessa fólks, en hann á ekki beinlínis að venjast svona trakteringum. Svo fer Hjálmar alveg á kostum sem þulurinn í þáttunum, kemur með alveg bráðfyndin komment á sóðaskapinn. En þetta eru kostulegir þættir og þeir sýna okkur kostulega hlið á samfélaginu og vonandi hafa þau áhrif að þeir sem safna draslinu fari að þrífa og haldi í því horfinu. Það er jú fátt betra en að vera á hreinu og góðu heimili.

Saga dagsins
1961 Guðmundur Arason, var nefndur hinn góði, vígður biskup að Hólum - sat á þeim stóli í 34 ár
1844 Jón Sigurðsson kjörinn á Alþingi - hann var lengi forseti þingsins og sat þar til æviloka 1879
1964 Leikarinn Sidney Poitier hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á Homer Smith í myndinni Lilies of the Field - hann varð fyrsti þeldökki leikarinn er hlaut óskarinn fyrir leik í aðalhlutverki. Í kjölfarið hafa þrír aðrir hlotið slík verðlaun: Denzel Washington og Halle Berry árið 2002 og Jamie Foxx árið 2005. Poitier braut blað í sögu þeldökkra leikara og verðlaunanna og er án vafa einn af eftirminnilegustu karlleikurum 20. aldarinnar og hefur farið á kostum í mörgum litríkum hlutverkum
1972 Listmálarinn Jóhannes Sveinsson Kjarval, einn besti málari í sögu landsins, lést, 86 ára að aldri. Hann ánafnaði Reykjavíkurborg listaverkum sínum og var því listasafn borgarinnar nefnt eftir honum
1998 Allir bankastjórar Landsbanka Íslands: Björgvin Vilmundarson, Halldór Guðbjarnarson og Sverrir Hermannsson, sögðu af sér embættum sínum vegna hneykslismála. Deilt var harkalega á bankann og bankastjórana vegna spillingar í t.d. laxveiði- og listaverkakaupum. Í kjölfarið var ákveðið að aðeins yrði ráðinn einn bankastjóri í staðinn og hlaut Halldór J. Kristjánsson ráðuneytisstjóri, starfið þá

Snjallyrðið
I've always found that the speed of the boss is the speed of the team.
Lee Iacocca viðskiptamógúll (1924)