75 ára
Frú Vigdís Finnbogadóttir fjórði forseti Íslenska lýðveldisins, er 75 ára í dag. Vigdís hefur markað sér sess í sögunni með verkum sínum og forystu, bæði á alþjóðavettvangi og sem þjóðhöfðingi Íslands. Alla tíð hef ég borið mikla virðingu fyrir Vigdísi og framlagi hennar til bæði jafnréttismála og ekki síður sextán ára dyggri þjónustu sinni við landsmenn alla á forsetaferli sínum. Kjör Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands í júní 1980 vakti mikla og verðskuldaða athygli um allan heim. Hún var fyrsta konan sem kjörin var þjóðhöfðingi heimalands síns í almennum kosningum. Kjör hennar markaði því mikil og jákvæð þáttaskil fyrir konur um heim allan. Forsetaferill hennar var mjög farsæll og einkenndist af sterkum og órjúfanlegum samskiptum hennar við almenning. Hún var sannkallað sameiningartákn allra landsmanna, manneskja sem landsmenn treystu og báru virðingu fyrir, hvar svo sem þeir voru í flokki eða hvaða stjórnmálaskoðanir þeir höfðu. Hún var samnefnari alls þess sem máli skipti. Sést það best í því að hún var kjörin í embættið með rúmlega 30% greiddra atkvæða en náði að ávinna sér traust þeirra sem ekki kusu hana. Það er bæði helsti styrkleiki Vigdísar og besti vitnisburðurinn um verk hennar.
Frú Vigdís Finnbogadóttir fæddist í Reykjavík, 15. apríl 1930. Hún er dóttir Finnboga Þorvaldssonar prófessors, og Sigríðar Eiríksdóttur hjúkrunarfræðings, sem var formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í 36 ár. Vigdís útskrifaðist frá MR árið 1949 og hélt ári síðar í nám til Sorbonne í Frakklandi þar sem hún nam frönsku og leikhúsfræði. Hún fór síðar til Parísar og hélt námi sínu þar áfram. Við heimkomuna til Íslands að loknu námi hóf hún störf hjá Þjóðleikhúsinu og vann þar í nokkur ár við ritun leikskrár og faglega stjórnun leikhússins. Undir miðjan sjöunda áratuginn hélt hún til Kaupmannahafnar í framhaldsnám í leikhúsfræðum. Við heimkomuna eftir námið í upphafi áttunda áratugarins heillaði hún landsmenn er hún kenndi frönsku í Ríkissjónvarpinu. Árið 1972 var Vigdís ráðin leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur. Lagði megináherslu þar á íslensk leikverk og frægt varð hvernig hún vakti athygli á leiklistarhöfundum og lagði rækt við nýja kynslóð höfunda, leikara og leikstjóra. Árið 1980 gaf hún kost á sér til embættis forseta Íslands, eftir að á hana hafði verið skorað af fjölda fólks úr öllum stjórnmálaflokkum. Hún háði markvissa baráttu ásamt þrem meðframbjóðendum og sigraði í kosningunum sem haldnar voru 29. júní 1980. Vigdís sat á forsetastóli í 16 ár og vann hug og hjörtu íslensku þjóðarinnar.
Þegar litið er yfir ævi Vigdísar og verk hennar á forsetastóli vekur helst athygli hversu vel hún náði til almennings. Hún varð ein af fólkinu, látlaus en glæsilegur fulltrúi allra landsmanna. Í forsetatíð sinni ferðaðist hún mikið um landið og náði virðingu jafnt íslensks alþýðufólks sem konungborinna í Evrópu. Hún hefur ótrúlegan sjarma og nær sambandi við hvern þann sem hún hittir með ótrúlegum hætti. Hvert sem hún fór, hvort sem það var fámenn byggð á Íslandi eða höfuðborg fjarlægs ríkis, vakti hún verðskulda athygli. Hún bar með sér bæði ferska vinda og heillandi andrúmsloft. Einkum þess vegna náði hún svo vel til allra, hún var samnefnari svo margs sem íslensk þjóð telur skipta máli og í henni sá fólk traustan fulltrúa sem hægt var að ná samstöðu um. Þar skiptir að mínu mati sköpum að hún kunni þá list að skilja að forsetaembættið og dægurþras stjórnmálanna. Hún var yfir dægurþrasið hafin og náði að vera traustverðugur fulltrúi allra. Það er umfram allt lykillinn að því hversu farsæl forsetatíð hennar og verk almennt í þágu allra landsmanna eru, bæði þegar litið er yfir forsetaferilinn og ekki síður þegar tjáð sig er um persónu hennar. Verk hennar og forysta í embættinu sameinuðu þjóðina að baki heilsteyptri manneskju.
Hjartans mál Vigdísar á ferli hennar hafa verið náttúruvernd og málvernd. Í þessu tvennu geta allir landsmenn sameinast. Hún valdi sér baráttumál sem sameinuðu þjóðina. Barátta hennar fyrir verndun menningararfsins og íslenskrar tungu, sem er heilagast af öllu sem við eigum, hefur skipt sköpum. Man ég fyrst eftir Vigdísi er hún kom hingað til Akureyrar í opinbera heimsókn árið 1981. Hún vakti þá sem ávallt síðar í mínum huga mikla athygli fyrir það hversu alþýðleg og blátt áfram hún var í öllum sínum verkum. Þá sem síðar á forsetaferlinum gróðursetti hún tré og minnti með því að hvert tré skiptir máli og að náttúran skiptir máli. Forysta hennar í þeim efnum hefur sérstaklega verið farsæl og var það eitt jákvæðasta baráttumál hennar að hvert sem hún fór um landið gróðursetti hún alltaf tvö tré: eitt fyrir strákana á staðnum og eitt fyrir stelpurnar eins og hún sagði jafnan. Tvö tré fyrir framtíðina. Á henni byggist jú allt lífið. Jákvæð og mannleg barátta hennar fyrir mannréttindum og mannlegum gildum hafa alla tíð heillað mig, jafnt sem smákrakka á Akureyri fyrir 24 árum sem nú í dag, löngu eftir að forsetaferli hennar er lokið og jákvæð verk hennar standa eftir.
Það er það merkasta við hana að verk hennar lifa svo góðu lífi. Forysta hennar í embættinu í mikilvægum málum á enn vel við og skipti sköpum. Það er einfalt. Látlaus og hrífandi samskipti hennar við almenning hitti alla í hjartastað sem hana hafa hitt. Sérstaklega er mér þar eftirminnilegt þegar hún fór vestur á firði snjóflóðaárið mikla 1995. Þá fór hún í minningarathöfn sem haldin var til minningar um fórnarlömb snjóflóðanna á Flateyri og Súðavík. Heillaði hún mig og alla sem á horfðu í sjónvarpi er hún gekk til aðstandenda, huggaði þá og styrkti, bæði með hlýleika sínum og ekki síst nærveru á þessum sorgartímum. Þá sem ávallt sannaði hún hversu sterk hún var, sterkur þjóðarleiðtogi en samt ein af landsmönnunum öllum. Hún var þjónn allra landsmanna og hlúði að þeim, á jákvæðan og mannlegan hátt. Hún þekkir líka mannlega reisn og hefur kynnst því af eigin raun að þurfa að berjast bæði fyrir lífinu og tilveru sinni. Ung missti hún einkabróður sinn í slysi og hefur jafnan sagt að harm sinn hafi hún alla tíð borið í hljóði. Barðist hún hetjulega við krabbamein áður en hún var kjörin á forsetastól og hafði sigur í þeirri baráttu. Vigdís þekkir því nístandi sársauka og lífsbaráttuna vel. Sársauki hennar hefur mótað persónu hennar og verk, enda leiftrar hún bæði af hlýju og glæsileika hvar sem hún er.
Ég var fyrir tæpu ári, í júní 2004, mitt í átökum um hennar gamla embætti, viðstaddur menningarhátíð á Dalvík þar sem hún flutti ræðu og kom fram sem fulltrúi allra landsmanna, þá tæpum áratug eftir að hún flutti frá Bessastöðum og skilaði af sér farsælu verki og heilsteyptu embætti. Á þeim tíma sem þá var liðinn hafði embætti hennar breyst úr sameiningartákni sem allir landsmenn gátu stutt til verka og verið stoltir af, í það að vera sundrungarafl á vettvangi landsmála. Var mjög ánægjulegt þar að ræða við hana, en skuggi átakanna sem þá voru um embætti hennar voru þá ofarlega í huga. Mikla athygli mína vakti þá að heyra það að allt sem hún hefði gert á forsetaferlinum hefði hún gert með heill landsmanna í huga og markað sér ákvarðanir og stefnumörkun með tilliti til þess hvað myndi styrkja heildina og efla samstöðu þjóðarinnar. Hún var farsæll leiðtogi og vann af krafti í embættinu þennan tíma, enda var hún sameiningartákn allra landsmanna. Heilsteypt verk hennar bera vitni persónunni og kostum hennar. Á afmæli hennar stendur efst í huga mér framlag hennar til eflingar náttúruvernd, íslensku máli og menningararfinum og síðast en ekki síst heilsteypt forysta hennar í málefnum alls þess sem skiptir okkur máli.
Ég óska Vigdísi innilega til hamingju með daginn og vil nota tækifærið til að þakka henni öll hennar farsælu verk og að vera jafn öflugt og jákvætt leiðarljós okkar landsmanna allra í gegnum tíðina. Framlag hennar og verk á opinberum vettvangi bera vitni heilsteyptri konu sem vann í þágu landsmanna allra. Gamalt kínverskt máltæki segir að það sé einkenni farsæls fólks að það stuðlar að farsæld annarra. Þetta gamla kínverska máltæki á vel við um Vigdísi forseta.
Halldór Blöndal forseti Alþingis, vítti á miðvikudag Lúðvík Bergvinsson fyrir ummæli hans í ræðustól Alþingis. Lúðvík réðist harkalega að forseta og sýndi honum dónaskap og vanvirðingu og braut klárlega þingsköpin. Lét hann eftirfarandi orð falla: "Forseti, ég hef orðið...". Með þessu var hann að vega að forseta og sýndi fádæma dónaskap og bar að víta hann fyrir. Alveg klárlega. Lúðvík hafði kvatt sér hljóðs á fundinum og kallaði eftir utandagskrárumræðu um störf einkavæðingarnefndar. Sló þá Halldór í bjöllu og sagðist óska eftir því að Lúðvík tæki skýringar og upplýsingar forseta Alþingis gildar. Þá greip hann frammí fyrir Halldóri og sýndi honum fádæma vanvirðingu. Hélt Lúðvík áfram: "Þú ert sífellt, sí og æ, að grípa frammí fyrir þingmönnum, sí og æ að grípa frammí fyrir þingmönnum, virðulegi forseti, þannig að þetta gengur ekki hér, hér er bara ritskoðun hér á hinu háa Alþingi, forseti sífellt berjandi í bjölluna, meðan háttvirtir þingmenn hafa orðið, og eiga í erfiðleikum með að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, vegna hávaða í hæstvirtum forseta. Hvernig á að halda hér uppi umræðum hér á hinu háa Alþingi, í hvert sinn sem einhver óþægileg umræða hefst, þá hefur forseti upp raust sína og lemur bjölluna endalaust."
Halldór sló þá í bjölluna og sagði: "Þau ummæli háttvirts þingmanns, forseti, ég hef hér orðið, eru vítaverð". Við svo sat. Lúðvík hefur síðar sagt að hann hafi ekki verið að rægja forseta eða ráðherra og bera þá röngum sökum eða sýnt þeim vanvirðingu. Eins og Halldór hefur bent á er það skylda þingmanna að sýna þinginu og forsetanum tilhlýðilega virðingu og hreyta ekki til þeirra ónotum. Nú hefur þingflokkur Samfylkingarinnar lýst yfir undrun sinni og mótmælt ákvörðun forseta um að ummæli Lúðvíks skyldu hafa verið vítt. Er með ólíkindum að þingflokkurinn leggi blessun sína yfir ruglið í Lúðvík. Það blasir við að hann sýndi þinginu og forsetanum vanvirðingu og víturnar því mjög eðlilegar. Er kjaftagangurinn í Lúðvík óverjandi og með ólíkindum að þingmaður á Alþingi hafi svo litla stjórn á sér sem raun ber vitni. Er svosem ekki nýtt að það opinberist að Lúðvík er óttalegur dóni og hefur ekki haft fyrir því að læra almennilega almenna mannasiði. Ákvörðun Halldórs verður þingmönnum vonandi umhugsunarefni og þeir læri þá gullnu reglu að þingmenn sýni hvor öðrum tilhlýðilega virðingu og virði fundarstjórn forseta og a.m.k. grípi ekki fram í fyrir honum þegar hann er að tala.
Rainier III fursti í Mónakó, var jarðsunginn í Monte Carlo í dag. Fjöldi konunga og drottninga auk þjóðarleiðtoga um allan heim vottuðu honum virðingu sína með því að vera við útför hans. Hann lést í síðustu viku, 81 árs að aldri, á sjúkrahúsi í Monte Carlo. Hann hafði legið þar seinustu vikurnar mikið veikur og var í dái undir lokin og því ljóst að hverju dró seinustu vikurnar og að hann lægi banaleguna. Hefur Albert sonur hans tekið við furstadæminu, en Albert hafði tekið við skyldustörfum föður síns nokkru áður en hann lést, enda þótti ljóst hver stefndi. Rainier fursti ríkti í Mónakó í 56 ár, eða allt frá árinu 1949. Er hann lést, var hann einn af þeim þjóðarleiðtogum heims, sem lengst höfðu ríkt. Rainier var af Grimaldi-ættinni, sem ráðið hefur ríkjum í Mónakó í rúmar sjö aldir. Hann tók við furstadæminu árið 1949, af afa sínum, Louis II. 19. apríl 1956 kvæntist Rainier fursti, bandarísku óskarsverðlaunaleikkonunni Grace Kelly. Þau eignuðust þrjú börn saman: Karólínu, Albert fursta og Stefaníu. Grace fórst í bílslysi í hæðunum fyrir ofan Monte Carlo 14. september 1982, 52 ára að aldri. Eftir lát hennar var Rainier mun minna í sviðsljósinu og lét börnum sínum það eftir að eiga sviðsljósið og athygli fjölmiðla. Seinustu árin sást hann sjaldan opinberlega. Rainier var jarðsettur í dómkirkju Monte Carlo við hlið eiginkonu sinnar.
Horfði í gærkvöldi á úrvalsmyndina The Insider. Hún er hvort tveggja í senn ádeila á tóbaksiðnaðinn bandaríska og þá ekki síst hinn ábyrgðarlausa fréttaflutning í Bandaríkjunum. Hér segir af Dr. Jeffrey Wigand sem rekinn er úr starfi sínu sem vísindamaður hjá Brown & Williamson, einu af stærstu tóbaksfyrirtækjum Bandaríkjanna, eftir að hafa reynt að benda yfirmönnum fyrirtækisins á hin heilsuspillandi áhrif tóbaksins. Hann sætir miklu harðræði frá fyrirtækinu eftir að þeim fer að gruna að hann muni jafnvel veita fjölmiðlum innanhússleyndarmál og upplýsingar sem gætu komið fyrirtækinu illa. Þeir skera á allar greiðslur til hans, hann fær líflátshótanir og það er njósnað um hann. Á svipuðum tíma fær fréttastjórnandi hjá hinum virta fréttaskýringaþætti CBS, 60 minutes, Lowell Bergman send vísindaleg gögn frá nafnlausum sendanda sem virðast veita innsýn í tóbaksheiminn. Sækist hann eftir aðstoð Jeffrey til að rýna í málið. Eftir miklar fortölur ákveður Jeffrey að tala við Bergman um hluta málsins. Skömmu seinna er Jeffrey ákærður fyrir samningsrof og allt er í framhaldi af honum tekið, húsið og sjúkratrygging hinnar astmasjúku dóttur hans.
Þar með eru góð ráð dýr fyrir Jeffrey, sem er nú svo sannarlega á flæðiskeri staddur, og ákveður hann að lokum að tjá sig um málið í þættinum vitandi það að ekki verður aftur snúið, hvorki fyrir sig né fjölskyldu sína. Hann tekur ákvörðun um að leysa frá skjóðunni og um leið að hleypa öllu í bál og brand, og greina frá hinum nöpru staðreyndum um hinn ógeðfellda tóbaksmarkað og spillinguna sem þar þrífst. Minnir að mörgu leyti á stórmyndina All the President´s Men, þar sem fjallað var um hvernig Watergate-hneykslið varð Richard Nixon að falli, svo að hann varð að segja af sér forsetaembætti. Óviðjafnanleg á öllum sviðum: meistaraleg leikstjórn Michael Mann er mjög fagmannleg, kvikmyndataka Dante Spinetti er afar góð og er gott dæmi um fagmannlega og um leið nýstárlega kvikmyndatöku. Russell Crowe vinnur leiksigur í hlutverki Wigand og Al Pacino er stórfenglegur sem Bergman og vinnur þar enn einn leiksigurinn. Frábær mynd, hæfir öllum þeim sem unna kvikmyndum með sannan og heilsteyptan boðskap sem er settur fram á hreint glæsilegan hátt. Í The Insider er rakin saga sem er táknmynd hins góða sem sigrast loks á hinu illa og gerspillta.
Mikil harka er komin í formannsslag Samfylkingarinnar eins og vel hefur sést seinustu daga í fjölmiðlum. Formannsefnin keppast við að vekja athygli á sér í fjölmiðlum og stuðningsmenn þeirra skrifa hverja greinina eftir aðra í Moggann og svara hvoru öðru með misjöfnu kappi og látum. Hefur verið reynt að grafa merkilegustu hluti upp í umræðunni og seinustu daga hefur mikið verið fjallað um að í fimmtugsafmæli Ingibjargar á gamlársdag hafi borgin lánað hjólbörur undir kampavín. ISG hefur svarið af sér öll tengsl að málinu og aðeins sagt að vinkonur hennar hafi staðið þarna að baki. Einn húmoristinn á netinu orti nett kvæði um þessa skondnu innsýn í siðferði ISG. Hún hljóðar svo:
er sú oft í langförum.
Konur einnig kerlu færðu,
kampavín í hjólbörum.
Saga dagsins
1785 Skálholtsskóli var lagður niður - ákveðið var að flytja biskupssetur frá Skálholti til Reykjavíkur
1930 Vigdís Finnbogadóttir fjórði forseti Íslenska lýðveldisins, fæddist í Reykjavík - hún varð fyrsta konan sem kjörin var þjóðhöfðingi í opnum kosningum. Vigdís sat á forsetastóli í 16 ár, 1980-1996
1971 Leikarinn George C. Scott hlaut óskarinn fyrir stórglæsilega túlkun sína á George S. Patton hershöfðingja í kvikmyndinni Patton - túlkun hans á Patton þykir með betri leikframmistöðum 20. aldarinnar, enda náði hann með undraverðum hætti að tjá persónuna og gæða hana lífi í þessari stórglæsilegu úrvalsmynd. Scott var einn af litríkustu leikurum sinnar kynslóðar. Hann lést árið 1999
1989 96 manns létust er þeir tróðust undir í skelfilegu slysi á fótboltaleikvanginum í Hillsborough
1990 Vigdís Finnbogadóttir forseti Íslands, fagnaði sextugsafmæli sínu - í tilefni afmælisins var gefið út afmælisrit til heiðurs henni, Yrkja - varð ritið grundvöllur Yrkjusjóðs sem vann að gróðursetningu
Snjallyrðið
Every time you don't follow your inner guidance, you feel a loss of energy, loss of power, a sense of spiritual deadness.
Shakti Gawain rithöfundur (1947)
<< Heim