Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

27 maí 2005

Jacques ChiracHeitast í umræðunni
Frakkar ganga að kjörborðinu á sunnudag og kjósa um stjórnarskrá Evrópusambandsins. Í gær gerði Jacques Chirac forseti Frakklands, úrslitatilraun til að sannfæra kjósendur um að samþykkja stjórnarskrána í ávarpi til þjóðarinnar frá forsetabústaðnum í Elysée-höll á besta sjónvarpstíma. Ef marka má skoðanakannanir í dag hefur ávarp forsetans lítil áhrif á kjósendur. Fjölda óákveðinna kjósenda hefur fækkað til muna seinustu dagana eftir því sem kosningabarátta já og nei-sinna í baráttunni hefur verið að ná hámarki. Flest bendir til þess nú að Frakkar muni hafna stjórnarskránni. Um tíma var munurinn mikill andstæðingum stjórnarskrárinnar í vil en svo náðu stuðningsmenn hennar forskoti um stundarsakir. Það hefur nú snúist við í seinustu skoðanakönnunum - í könnun t.d. Le Figaro í dag eru 45% Frakka hlynnt stjórnarskránni en 55% eru henni andvígir. Tap já-sinna virðist því vera handan við hornið.

Seinustu daga hafa allar kannanir ólíkra fjölmiðla verið að segja sömu söguna - stjórnarskránni verði hafnað og það jafnvel með nokkrum mun. Annars ber að taka könnunum með vara. Til dæmis spáðu flestir því árið 1992 að Maastricht-sáttmálinn yrði samþykktur með nokkrum mun en er á hólminn kom stóð hann mjög tæpt. Það munaði aðeins prósentustigi að Frakkar hefðu fellt hann og sett það ferli allt út af sporinu. Þá barðist forveri Chirac á forsetastóli, François Mitterrand, mjög fyrir Maastricht og náði með miklu harðfylgi að halda velli í málinu. En þrátt fyrir það veðja flestir nú á tap stjórnarskrársinna, sem muni leiða til pólitískrar uppstokkunar án vafa í Frakklandi. Tap á sunnudag yrði verulegt pólitískt áfall fyrir Chirac forseta, sem hefur barist af krafti fyrir málinu og lagt mikið í sölurnar. Hann hefur þó lagt mikla áherslu á að hann muni ekki segja af sér embætti, þó stjórnarskráin yrði felld í kosningunum. Fullyrða má að tapi hann verði hann lamaður í embætti verulega fram að bæði næstu þing- og forsetakosningum í landinu.

Ljóst er að stjórnarskráin stendur víðar veikt að velli. Framundan er svo næst kosning í næsta mánuði í Hollandi um hana. Við blasir að hún verði þar felld. Allar kannanir þar gera ráð fyrir að rúm 60% landsmanna muni hafna henni. Það stefnir því í mjög eindregna útkomu úr kosningunni þar. Frakkar og Hollendingar eru tvær af sex stofnþjóðum Efnahagsbandalags Evrópu, sem er forveri Evrópubandalagsins, sem varð að Evrópusambandinu árið 1994. Það er algjörlega ljóst að hafni þessar tvær þjóðir stjórnarskránni er stjórnarskráin ekkert nema pappírssnepill og einskis virði. Án samþykkis þessara tveggja landa tekur við flókið og erfitt ferli fyrir ESB að vinna og ekki síður pólitísk kreppa heima fyrir hjá ráðandi öflum. Eins og fyrr segir á Chirac mikið undir því hvort stjórnarskráin verði felld eður ei. Er það talið hafa úrslitaáhrif á um það hvort hann fari fram í forsetakosningunum eftir tvö ár, en hann hefur ekki enn viljað loka á þann möguleika. Þó er talið öruggt að tapist kosningarnar á sunnudag neyðist Jean-Pierre Raffarin forsætisráðherra, til að segja af sér, en hann hefur verið í því embætti frá árinu 2002. En nú er kosningabaráttunni lokið og málið í höndum Frakka. Verður fróðlegt að sjá hver niðurstaðan verði. Hver sem niðurstaðan verður mun hún hafa veruleg áhrif á því hvernig frönsk stjórnmál spilast á næstunni og hafa lykiláhrif á forsetaferil Chiracs.

Betri borg!Í dag er ár til sveitarstjórnarkosninga. Framundan er því ár framboðspælinga og kosningabaráttu - mikill vinnuvetur fyrir þá sem ætla að taka þátt í kosningaslagnum. Nú hafa sjálfstæðismenn í Reykjavík hafið kosningabaráttu sína af miklum krafti, enda mikilvægt að flokkurinn þar sæki fram af krafti og nái völdum að ári. Kynntu þeir á blaðamannafundi í gær framsækna og spennandi hugmynd í skipulagsmálum. Í glæsilegri og líflegri framsetningu leggja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að byggð verði ný hverfi á eyjunum við borgina: í Akurey, Engey og Örfirisey auk Geldinganess. Ennfremur vilja sjálfstæðismenn að til komi lítil og lágreist, vistvæn íbúðabyggð, í Viðey. Gera tillögurnar ráð fyrir því að eyjarnar muni verða tengdar með bæði jarðgöngum og brúm.

Þessar hugmyndir sjálfstæðismanna eru mjög í takt við athyglisverða hugmynd Hrafns Gunnlaugssonar, sem hann setti fram um byggð á eyjunum í heimildarmynd sinni, Reykjavík í nýju ljósi, árið 2001. Þar kynnti hann þetta ásamt fleiri framsæknum hugmyndum. Hrafn vakti mikla athygli þá með hugmyndum og hreyfði við mörgum og gerði hið besta í stöðunni, kom af stað líflegri umræðu um skipulagsmál í borginni. Segja má að lykilspurningin sem Hrafn kom með þá hafi verið hvort það sé rétt stefna að því að byggja upp í sveit endalaust og dreifa byggðinni í allar áttir, þegar nægt byggingarland blasir við t.d. á eyjunum við borgina. Þar eiga sóknarfærin að vera - það á að vera vinnuplanið. Lýsti ég mig sammála mati Hrafns í grein sem ég ritaði fyrir fjórum árum er myndin var gerð. Mun ég bráðlega setja þá grein á netið og gera hana aðgengilega, svo fólk geti kynnt sér skoðun mína á því þá. Það er við hæfi í ljósi þess að hugmyndin hefur nú að nýju öðlast líf. Hef ég lengi verið talsmaður þess að byggt verði á þessum eyjum, sérstaklega þá auðvitað Geldinganesinu, sem hefur auðvitað lengi verið baráttumál okkar sjálfstæðismanna í borgarmálunum.

Það er gott hjá sjálfstæðismönnum að opna umræðuna af krafti og koma með markvisst innlegg í þessa átt. Hið besta er einmitt að Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík lætur ekki hér við sitja og ætlar að vinna málið áfram af miklum krafti. Borgarstjórnarflokkurinn ætlar að gefa íbúum kost á að hafa áhrif á þessar hugmyndir með því að efna til íbúaþings í júní, funda í öllum hverfum borgarinnar og opna hugmyndabanka um skipulagsmál á vef sínum. Eftir stendur þó í annars spennandi og markvissum tillögum eitt stórt og mikið gap í skipulagsmálum borgarinnar. Það er auðvitað Vatnsmýrin, vettvangur innanlandsflugsins, meginátapunktur væntanlegra borgarstjórnarkosninga í skipulagsmálum að mínu mati. Það er mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn tjái stefnu sína af krafti í þeim málum. Eins og flestir vita (og ég lýsti í ítarlegum pistli þann 22. apríl sl.) vil ég að áfram verði flugvöllur innan borgarmarkanna. Ef fórna á Vatnsmýrarsvæðinu verða Reykvíkingar að standa undir hlutverki sínu og tryggja grundvöll innanlandsflugsins áfram á öðrum stað innan borgarmarkanna. Það er algjörlega einfalt í mínum huga.

Punktar dagsins
John Bolton

Allt frá því að George W. Bush forseti Bandaríkjanna, tilkynnti um útnefningu John Bolton aðstoðarutanríkisráðherra á sviði vopnaeftirlits, í embætti sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, á blaðamannafundi þann 7. mars sl. hefur verið tekist á af krafti um þá skipan mála. Hefur ferlið sífellt þyngst eftir því sem liðið hefur á. Deilt hefur verið um fortíð Bolton og orð hans og gjörðir á ýmsum sviðum. Dregin hefur verið upp dökk mynd af honum og á það minnt að hann hafi til fjölda ára bæði verið andvígur Sameinuðu þjóðunum og starfi þeirra. Það sem í upphafi byrjaði sem smávægileg gagnrýni hefur aukist jafnt og þétt. Öldungadeild Bandaríkjaþings verður að staðfesta skipan forsetans á Bolton í embættið og það stefnir í að það verði krappur dans að ná því í gegn. Svo gæti jafnvel farið að hann hljóti ekki náð fyrir augum þingmeirihlutans. Virðast repúblikanar ekki vera heilir í stuðningi við hann. Það sást best þann 12. maí þegar utanríkismálanefnd þingsins vísaði tilnefningu Boltons til öldungadeildarinnar án þess að mæla með honum. Þrátt fyrir að repúblikanar hafi afgerandi meirihluta í deildinni, 55 sæti á móti 45, er alls óvíst að hann fái samþykki. Vaxandi þrýstingur er nú á Bush að draga tilnefninguna til baka. Væntanlega verður kosið um Bolton í næstu viku og mun þá koma í ljós hvort skipan verði staðfest eða hafnað hreinlega.

Angela Merkel

Þingkosningar verða í Þýskalandi í september. Öflug kosningabarátta er því framundan þar. Í ítarlegum pistli mínum í dag á íhald.is fjalla ég um þýsk stjórnmál. Kosningarnar munu fara fram ári áður en kjörtímabil ríkisstjórnar Jafnaðarmannaflokksins og græningja átti að ljúka. Er Gerhard Schröder kanslari, tilneyddur til að rjúfa þing og boða kosningar eftir sögulegan ósigur jafnaðarmanna í sambandsþingkosningunum í Nordrhein-Westfalen um helgina. Með tapinu þar lauk fjögurra áratuga samfelldri valdasetu jafnaðarmanna í héraðinu. Ósigurinn þar var gríðarlegt pólitískt áfall fyrir Schröder. Eru fáir kostir góðir í stöðunni fyrir hann og hið eina rökrétta fyrir hann í stöðunni að leita til þjóðarinnar og biðja aftur um umboð landsmanna til pólitískrar forystu. Í kosningunum mun hann væntanlega mæta Angelu Merkel leiðtoga CDU. Margir sjá þýsku útgáfuna af Margaret Thatcher í henni og að hún verði leiðtogi hægrimanna í Evrópu með sama hætti og Thatcher náði sinni stöðu fyrir tæpum þrem áratugum. Merkel er töffari í þýskri pólitík og hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu í stjórnarandstöðu. Hún hefur verið áberandi í stjórnmálum allt frá níunda áratugnum og þykir vera pólitísk fósturdóttir Helmut Kohl. Hún er fimmtug, tvífráskilin og barnlaus og því týpa framakonunnar. En ég fer nánar yfir þessi mál í pistlinum og hvet fólk til að lesa hann.

Hillary Rodham Clinton og Ariel Sharon

Hillary Rodham Clinton öldungadeildarþingmaður, hefur nú hafið formlega kosningabaráttu sína fyrir endurkjöri í þingkosningunum í New York. Munu kosningarnar fara fram í nóvembermánuði 2006. Hefur Clinton setið á þingi frá sigri sínum á repúblikanum Rick Lazio í nóvember 2000. Tók hún við þingsætinu af Daniel Patrick Moynihan í janúar 2001. New York hefur jafnan verið mjög traust vígi demókrata hvað varðar þingkosningarnar. Öðru hefur gilt með ríkisstjórastólinn þar og borgarstjórastólinn í borginni. Nú hafa repúblikanar þau sæti bæði en demókratar bæði öldungadeildarsæti borgarinnar. Ef marka má nýjar skoðanakannanir í New York er Hillary ekki eins sterk og var á miðju kjörtímabilinu, er hún mældist með allt að 70% fylgi. Er hún með rúm 50% í nýrri könnun. Sóknarfæri repúblikana eru því til staðar fái þeir réttan og öflugan frambjóðanda. Nú hefur lögfræðingurinn Edward Cox tilkynnt framboð sitt þar fyrir repúblikana. Ekki eru margir sem kannast við nafnið, en Cox er þó vel tengdur inn í pólitík. Hann er eiginmaður Triciu Nixon Cox, dóttur Richard Nixon fyrrum forseta Bandaríkjanna. Er ekki vitað mikið um möguleika hans, en hann á án vafa mjög traustan grunnstuðning til framboðs. Er ljóst að Hillary mun leggja allt í sölurnar til að vinna kosningarnar í New York, enda er sigur þar algjör forsenda þess að hún geti boðið sig fram í forsetakjöri að þrem árum liðnum.

Hemmi Gunn

Hemmi Gunn hefur aldeilis hitt í mark með þætti sínum Það var lagið. Endurkoma Hemma á sjónvarpsskjáinn hefur vakið mikla athygli. Þjóðin virðist skemmta sér konunglega ef marka má nýjustu áhorfskannanir. Þættirnir hafa verið vel heppnaðir. Það er greinilega mikill áhugi á svona tónlistargetraunaþætti. Það sem er þó best að þetta sameinar þjóðina við tækin. Fólk sest saman fyrir skjáinn, syngur saman og á góða stund. Þetta er þéttur og góður pakki. Hemmi er konungur skemmtunar í sjónvarpi seinustu áratugina og ánægjuefni að hann sé kominn á skjáinn á ný. Allavega eru þetta skemmtileg föstudagskvöld með Hemma Gunn.

Saga dagsins
1883 Alexander III krýndur keisari Rússlands - Alexander sat á valdastóli allt til dánardags árið 1894. Sonur hans, Nikulás (er tók við völdum af honum) og fjölskylda hans voru drepin í byltingunni 1917
1937 Golden Gate-brúin í San Francisco vígð - brúin hefur alla tíð verið helsta tákn San Francisco
1964 Jawaharlal Nehru fyrsti forsætisráðherra Indlands, lést í Nýju Delhi, 74 ára að aldri - hafði verið forsætisráðherra frá stofnun Indlands 1948. Dóttir hans, Indira Gandhi, og dóttursonur, Rajiv Gandhi, urðu bæði forsætisráðherrar Indlands. Indira og Rajiv féllu bæði fyrir morðingjahendi
1983 Hús verslunarinnar formlega vígt - reist til að efla íslenska verslun og einingu samtaka þeirra
1999 Slobodan Milosevic þáv. forseti Serbíu, og fleiri leiðtogar landsins ákærðir fyrir stríðsglæpi í Haag - Milosevic missti völdin árið 2001 og var svo framseldur til Haag og bíður dóms fyrir glæpi sína

Snjallyrðið
Whatever else history may say about me when I'm gone, I hope it will record that I appealed to your best hopes, not your worst fears; to your confidence rather than your doubts. My dream is that you will travel the road ahead with liberty's lamp guiding your steps and opportunity's arm steadying your way.
Ronald Reagan forseti Bandaríkjanna (1911-2004)