Það er alveg óhætt að fullyrða að Íslendingar, sem margir áhugamenn um Eurovision um allan heim, hafi orðið orðlausir í gærkvöldi við að horfa á söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Eftir glæsilegan flutning sinn á laginu If I Had Your Love í forkeppninni í Eurovision í gærkvöldi féll Selma Björnsdóttir úr leik og náði ekki að verða meðal þeirra 10 sem tryggðu sér sæti úr forkeppninni í lokakeppnina á laugardagskvöldið. 25 lög voru leikin og að því loknu tók við símakosning um hver þeirra fengi sæti í úrslitunum. Eftir hléið voru tíu umslög opnuð með nöfnum þeirra landa sem höfðu komist áfram. Eins og fyrr segir var Ísland ekki þar á meðal. Þau lönd sem komust áfram voru: Ungverjaland, Rúmenía, Noregur, Moldavía, Ísrael, Danmörk, Makedónía, Króatía, Sviss og Lettland. Niðurstaðan var því mikil og sár vonbrigði. Sérstaklega sárnaði mér fyrir hönd Selmu og stelpnanna.
Atriðið okkar var þeim mjög til sóma. Þær slógu ekki feilnótu og unnu sitt verk mjög fagmannlega og skiluðu sínu með glæsilegum hætti. Selma Björnsdóttir getur farið stolt frá þessu verkefni, þrátt fyrir þessa niðurstöðu. Hún hefur sannað á seinustu árum hversu fjölhæf og glæsileg söngkona hún er. Selma varð í öðru sæti í keppninni fyrir sex árum, í Jerúsalem í Ísrael í maímánuði 1999, með lagi sínu og Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, All out of Luck. Lagið sem hún söng í keppninni nú var stórglæsilegt. Góð melódía og grípandi og mikið var vandað til þess og það var vel úr garði gert að öllu leyti. Útkoman að þessu sinni er því í senn óskiljanleg og sjokkerandi. Það er öllum ljóst, það sést vel ef skoðaðar eru aðdáendavefsíður, að það urðu margir mjög undrandi um allan heim á þessari útkomu og því að Selma Björnsdóttir kæmist ekki úr forkeppninni og á úrslitakvöldið með þetta flotta lag. Segja má að undrun sé meðal helstu sérfræðinga keppninnar með að íslenska lagið og það hollenska skyldi ekki hljóta brautargengi í úrslitakeppnina. Þegar litið er á hvaða lög komust áfram á kostnað Selmu Björnsdóttur vaknar óneitanlega spurning um tónlistarsmekk Evrópubúa. Ekki síður um fyrirkomulag keppninnar. Ég hallast að því að þetta fyrirkomulag sé okkur ekki mjög til góða. Þessi keppni og allt fyrirkomulag þessa vals og seinustu árin hefur leitt til þess að öll umgjörðin sé breytt.
Fyrir keppnina hafði Selma varað við of mikilli bjartsýni og sagt okkur að vera hóflega bjartsýn. Allan tímann tók ég eftir þessu. Reyndar er hún Selma mjög orðvör og raunsæ og sér stöðuna vel út. Hún sá er hún mætti til leiks í Kænugarði að útlit keppninnar og fyrirkomulag hennar var orðið gjörbreytt og landslagið í kringum dæmið hafði breyst mjög. Er eiginlega svo að mér var farið að gruna undir lokin að hún væri viss um að þetta yrði erfiður róður, vegna fjölda austantjaldsþjóðanna og pólitíkinni í valinu er á hólminn kemur. En svona er þetta víst, en spurningin vaknar hvort að við náum að hífa okkur upp af þessum botni síðar. Ég efast eiginlega stórlega um það. Efast um að við náum þeim krafti í keppninni til að ná okkur af þessum stalli sem við höfum náð. Það er þó betra að segja aldrei um hlutina. En óneitanlega vekur það manni ugg í brjósti að við náum ekki að hífa okkur í úrslitakeppnina með glæsilegum flutningi Selmu á þessu góða lagi. Hversu meira þarf en þetta til að komast áfram, er sú spurning sem situr eftir hjá mér, er ég lít yfir þessa forkeppni. En þetta er bara svona og breytist ekki úr þessu. En ég veit að Selma gerði sitt besta og hún lagði sig alla fram og rúmlega það. Hún getur verið stolt af sínu, þó ég viti að hún sé vonsvikin með árangurinn. Við erum öll með trega í hjarta yfir þessum örlögum hjá okkar góða hópi.
Formannskjörinu í Samfylkingunni er nú formlega lokið. Skilafrestur á atkvæðum í kjörinu rann út kl. 18:00 í gær. Er fresturinn rann út höfðu á tólfta þúsund atkvæði borist til kjörstjórnar. Er það aðeins rétt rúmlega helmingur atkvæða sem sendur var út vegna kjörsins. Í aðdraganda formannskjörsins sjálfs gengu nokkur þúsund manns í flokkinn til að kjósa. Það vekur óneitanlega athygli að þrátt fyrir þennan fjölda nýs fólks skili ekki fleiri seðlinum til baka en raun ber vitni. Það er þetta sem vekur mesta athygli. Hefði ég persónulega almennt átt von á að minnsta kosti 15.000 atkvæði myndu skila sér til baka. Landsfundur Samfylkingarinnar hefst svo formlega í dag. Mun fundurinn hefjast í Egilshöll kl. 13:00 með ávarpi Stefáns Jóns Hafsteins borgarfulltrúa og formanns framkvæmdastjórnar, en hann lætur af því embætti á landsfundinum.
Atkvæði í formannsslagnum verða talin á morgun og mun kjöri formanns verða lýst formlega kl. 12:01. Þá mun það ráðast hvort að Össur Skarphéðinsson eða Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verði formaður Samfylkingarinnar næstu tvö árin. Segja má að samfylkingarmenn séu að velja leiðtoga flokksins í næstu kosningum í þessu kjöri, en fullvíst má telja að það þeirra sem tapar formannsslagnum dragi sig mjög til hliðar fyrir hinu. Þegar og úrslit hafa verið kynnt í formannskjörinu og nýkjörinn formaður hefur ávarpað fundinn er komið að varaformannskjöri. Öruggt má telja að úrslit formannskjörsins hafi áhrif á þá kosningu en fundarmenn velja varaformanninn. Þegar hafa þingmennirnir Ágúst Ólafur Ágústsson og Lúðvík Bergvinsson lýst yfir framboði til varaformennskunnar og ekki útilokað að við muni jafnvel bætast á landsfundinum. Báðir tilheyra þeir yngri hluta þingflokks Samfylkingarinnar. Lúðvík hefur setið á þingi í áratug, en Ágúst Ólafur var kjörinn á þing í síðustu alþingiskosningum. Vissulega myndi kjör Ágústs Ólafs marka þáttaskil, en með því yrði hann fulltrúi nýrrar kynslóðar í fremstu víglínu flokks á Alþingi. Ágúst Ólafur er jafngamall mér og vissulega yrði ánægjulegt að sjá fulltrúa sinnar kynslóðar í forystu þessa stærsta flokks stjórnarandstöðunnar. Vissulega er Katrín Jakobsdóttir varaformaður VG, á sama aldri og við Ágúst Ólafur, en hún situr þó ekki á þingi. Verður fróðlegt að sjá hvor þeirra hljóti hnossið í kjörinu á morgun.
Paul Martin forsætisráðherra Kanada, og minnihlutastjórn Frjálslynda flokksins í landinu, tókst í gærkvöldi að halda völdum með því að sigra í vantraustskosningu á kanadísku þinginu. Ekki var sigurinn mikill, en einu atkvæði munaði hvort stjórnin félli eða héldi völdum. Tæpara mátti það því vart vera hjá Martin og stjórn hans. Eftir kosninguna í þinginu voru atkvæðin jöfn og fór þá svo að forseti þingsins greiddi oddaatkvæðið með stjórninni, enda er hann þingmaður Frjálslynda flokksins. Segja má að vendipunktur alls málsins hafi verið innganga Belindu Stronach þingmanns kanadíska Íhaldsflokksins, í Frjálslynda flokkinn fyrr í vikunni. Er hún nú orðin ráðherra í stjórn Martins og Frjálslynda flokksins. Það er því algjörlega ljóst að atkvæði hennar veitti Frjálslynda flokknum oddastuðning sem svo varð að eins sætis meirihluta með atkvæði þingforsetans. Það er því ljóst að stjórnin er hólpin fram á veturinn. Það er þó ljóst að staðan öll er mjög brothætt og má lítið út af bera hjá forsætisráðherranum. Bakgrunnur málsins er eins og ég hef rakið hér áður að Martin og stjórn hans hafa verið sökuð um spillingu. Er málið sérstaklega erfitt fyrir Martin, því um er að ræða mál frá fjármálaráðherratíð hans fyrir nokkrum árum. En það er greinilegt að staðan róast nú eftir þetta, en búast má við meiri öldugangi á stjórnina þegar vetrar.
Í ítarlegum pistli á íhald.is í dag fjalla ég um tilvistarkreppu breska Íhaldsflokksins á seinustu árum og stöðu hans eftir seinustu þingkosningar í Bretlandi, þann 5. maí sl. Ennfremur fer ég yfir mikilvæga punkta úr sögu Íhaldsflokksins seinustu tvo áratugina og það hvernig staða þeirra hefur verið frá brotthvarfi Margaret Thatcher. Í pistli fyrir hálfum mánuði á sama vettvangi hafði ég áður farið yfir kosningaúrslitin frá víðum grunni og þótti því viðeigandi að skrifa um þetta málefni nú. Nú er vissulega komið að krossgötum fyrir Íhaldsflokkinn í starfi sínu, samhliða því að Michael Howard víkur af leiðtogastóli flokksins síðar á þessu ári. Í flokknum þarf nú að fara fram mikil endurnýjun í forystuliði að mínu mati og ekki síður hugmyndafræðileg vinna við að bæði marka flokknum nýja tilveru og sóknarfæri. Breskum íhaldsmönnum vantar verulega á að hugmyndafræðilega heildin sé heil og menn hafa helst misreiknað sig í því að hafa ekki öfluga framtíðarsýn að boða. Það var helsti akkilesarhæll þeirra í annars góðri kosningabaráttu fyrir nokkrum vikum. Það kann aldrei góðri lukku að stýra að leiða kosningabaráttu án framtíðarsýnar og leiðsagnar til framtíðar um verkefni samtímans. Það verður verkefni næsta leiðtoga að taka við keflinu og halda verkinu áfram. En ég hvet lesendur til að líta á skrifin, þar fer ég nánar yfir þessi mál.
Í kvöld verður skellt sér í bíó að sjá þriðja hlutann í myndaröðinni um Stjörnustríð (Star Wars). Er þetta seinasti hlutinn að undanfaranum að trílógíunni frægu sem gerð var 1977-1983. Með þessu er því hringnum lokað og sagan verður að heild og forsaga seinni hluta sögunnar kemur fram að fullu og myndirnar sex ein heild. Er þessi mynd lokapunktur sögunnar af því hvernig Anakin Skywalker varð að hinum illa og myrka Svarthöfða (Darth Vader) sem við kynntumst fyrir grimmd sína og kuldalegheit í eldri myndunum. En það vantar enn stærsta púslið í heildina: sagan af því hvernig hann varð að þessu skrímsli, en hann hafði áður verið boðberi hins góða og verið þjálfaður af Obi Wan Kenobi til góðra verka. En einhversstaðar fór hann verulega út af sporinu og í þessari mynd kemur loks svarið við gátunni miklu. Er ekki ofsögum sagt að ég hafi mikinn áhuga á að fá þennan stóra bita í heildarmyndina, svo hún verði skýr og ein heild að lokum. Alla tíð hefur sagan um Stjörnustríð heillað mig mjög. Þegar ég var yngri voru gömlu myndir kvikmyndabálksins nær algjörlega í guðatölu hjá manni. Þessar myndir hef ég getað horft á hreinlega aftur og aftur. Það verður því gaman að fara í bíó í kvöld og ljúka loks hringnum í sögunni miklu.
Síðustu daga hefur stór og mikill borgarísjaki verið á reki um Eyjafjörð. Hann hefur undanfarna daga verið í kringum Hrísey og er kominn nokkuð nærri landi. Þetta er tignarleg sjón að sjá jakann og gerði ég mér ferð úteftir eitt kvöldið í vikunni eftir fund og leit á jakann. Hefur svona sjón ekki sést nokkuð lengi. Um aldamótin rak jaka að Hrólfsskeri og var það ekki síður tignarleg sjón. Er þessi þó mun glæsilegri og voldugri. Var hann mestur í umfangi hvítasunnudagana, er hann rak inn fjörðinn. Hann hefur rýrnað mjög seinustu daga, enda vinnur sólin á honum og hitinn er auðvitað meiri nær landi en utan við fjörðinn. Má búast við að hann hverfi á næstu vikum er hitna tekur enn meir. En þetta er vissulega merkilegt að sjá borgarísjaka svo nærri landi og sést ekki oft hér í firðinum. Seinustu daga hefur mikill straumur fólks verið úteftir til að líta á jakann, enda merkur viðburður sem um er að ræða. Þessi flotta mynd Kristins Árnasonar af jakanum talar sínu máli vel.
Saga gærdagsins
1536 Anne Boleyn, önnur eiginkona Henry VIII var afhöfðuð - var dæmd til dauða fyrir framhjáhald
1950 Farþegaskipið Gullfoss kom til landsins - skipið var notað í siglingum hingað til landsins til 1973
1974 Valéry Giscard d'Estaing kjörinn forseti Frakklands - hann sat á forsetastóli allt til ársins 1981
1990 Húsdýragarðurinn í Laugardal í Reykjavík, opnaður formlega af Davíð Oddssyni þv. borgarstjóra
1994 Jacqueline Bouvier Kennedy Onassis fyrrum forsetafrú Bandaríkjanna, deyr í New York, 64 ára að aldri - fyrri maður Jacqueline, John Fitzgerald Kennedy, var forseti Bandaríkjanna árin 1961-1963
Saga dagsins
1920 Vinna við Flóaáveituna hófst - þetta voru mestu áveituframkvæmdir hérlendis allt fram að því
1944 Þjóðaratkvæðagreiðsla um lýðveldisstofnunina hófst, en hún stóð alls í fjóra daga. Kjörsóknin varð 98,4%, sem mun vera einsdæmi hérlendis. 97,5% samþykktu sambandsslitin við Danmörku en 95% lýðveldisstjórnarskrána. Lýðveldi var svo formlega stofnað á Lögbergi á Þingvöllum þann 17. júní 1944
1979 Íslenskt mál, þáttur Gísla Jónssonar, birtist í fyrsta skipti í Morgunblaðinu. Þættir Gísla voru vikulega í Morgunblaðinu í 22 ár, eða allt þar til Gísli lést árið 2001. Þættir hans í blaðinu urðu 1138
1986 Sex af forráðamönnum Hafskips hf. voru handteknir og þeir úrskurðaðir í gæsluvarðhald meðan verið var að rannsaka meint brot þeirra. Fimm árum síðar voru flestir þeirra sýknaðir af sakargiftum
2000 Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, og kona hans, Cherie Blair, eignast soninn Leo - fæðing hans markaði tímamót, var í fyrsta skipti í 150 ár sem sitjandi forsætisráðherra Breta eignaðist barn
Snjallyrðið
At home, you always have to be a politician; when you're abroad, you almost feel yourself a statesman.
Harold Macmillan forsætisráðherra Bretlands (1894-1986)
<< Heim