Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 maí 2005

SelmaEurovision 2005
Stóra stundin er að renna upp í Kiev í Úkraínu. Eftir tvo sólarhringa verður þar haldin forkeppni Eurovision-söngvakeppninnar. Þetta er í fimmtugasta skiptið sem keppnin er haldin. Á fimmtudagskvöldið munu 25 lönd keppa um 10 laus sæti á úrslitakvöldinu sem verður að kvöldi laugardags. Þetta er í fyrsta skiptið sem Ísland þarf að fara í undankeppni til að komast í úrslitin. Á síðasta ári var fulltrúi okkar í keppninni, skólabróðir minn og æskufélagi, Jón Jósep Snæbjörnsson frá Akureyri, og söng hann lagið Heaven. Lagið lenti í 19. sæti og því var sæti á úrslitakvöldinu ekki tryggt og þurftum við að fara í forkeppnina að þessu sinni. Í fyrra var þetta fyrirkomulag fyrst notað, enda þátttökulöndin orðin þá mjög mörg og þótti þetta fyrirkomulag betra. Á laugardagskvöldið munu 24 lög keppa um sigur í keppninni. Fulltrúi Íslands í keppninni er Selma Björnsdóttir og flytur hún lag Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar og Vignis Snæs Vigfússonar við ljóð Lindu Thompson, If I Had Your Love.

Lagið er mjög gott og öflugt, grípandi melódía og litrík. Er ég ekki í vafa um að það eigi eftir að ná langt og reyndar hittir það alveg dúndur beint í mark að mínu mati. Selma flytur lagið af miklu öryggi og reyndar er þetta eitt af allra bestu lögum okkar í keppninni til þessa, að mínu mati. Selma er öllu vön þegar að Eurovision viðkemur eins og við vitum öll. Hún var fulltrúi Íslands í keppninni í Jerúsalem í Ísrael í maí 1999. Með lagi sínu og Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, All out of Luck, náði hún að lenda í öðru sæti. Lengi vel stigatalningarinnar var hún í fyrsta sæti og þótti mörgum súrt í broti að hún vann ekki keppnina þá. Að lokum munaði sautján stigum á Selmu og Charlotte Nilsson sem vann keppnina með laginu Take Me To Your Heaven. Enn situr í okkur Íslendingum að hafa tapað svo naumlega, enda var lag Selmu auðvitað mun betra að okkar mati. Við sem fylgdumst með keppninni fyrir sex árum, er Selma var hársbreidd frá sigri með frábært lag, vitum að hún á eftir að gera sitt besta að þessu sinni.

SelmaSelma og íslenski hópurinn hefur vakið verðskuldaða athygli í Kænugarði. Selma hefur slegið í gegn á blaðamannafundunum og heillað fjölmiðlamenn jafnt sem sérfræðinga keppninnar upp úr skónum. Selma nýtur þess auðvitað mjög að vera þekkt nafn í sögu keppninnar, hafa bæði keppt áður og ekki síður hafa verið svo nærri sigrinum eins og raunin varð. Hún er því sjóuð í að kynna sig og taka þátt í fjölmiðlaumstanginu og þekkir til verka. Það er auðvitað mjög góður kostur. Nú hefur íslenski hópurinn opnað glæsilegan bloggvef á netinu þar sem hann kynnir hvað þau gera og fara yfir ferðasöguna frá degi til dags og síðast en ekki síst færa Eurovision-andann í Kænugarði heim til okkar hér á Fróni. Selma skrifar þar reglulega færslur og Gísli Marteinn segir okkur frá stöðu mála og kemur með góðar og líflegar myndir. Þetta er góður vefur sem gaman er að skoða, þar er allt sem máli skiptir svo að við fáum puttann á púlsinn hvað varðar keppnina.

Grunnatriði Íslendinga næstu dagana í keppninni er að ná að komast úr undankeppninni og á úrslitakvöldið á laugardag. Það er þannig er litið er á veðbankana og netspárnar að okkur er nær undantekningalaust spáð góðu gengi. Sumir spá okkur jafnvel sigrinum. Tek ég undir með Selmu að það eru mjög háleitar spár vissulega. Við eigum að leggja allt kapp á að komast upp úr undankeppninni og fá farseðil á lokakvöldið. Það er það markmið sem þarf að nást til að pælingar um sigur og velgengni almennt geti ræst. Náist það markmið er ekki ólíklegt að sigur gæti unnist eða svipaður árangur og í Jerúsalem fyrir sex árum. Seinustu laugardagskvöld hef ég verið að fylgjast með hinum lögunum í keppninni og heyrt skemmtilegar lýsingar norrænu dómaranna á þeim. Fulltrúi Íslands í þáttunum var Eiríkur Hauksson söngvari, sem keppti fyrir Íslands hönd árið 1986 og svo fyrir Noreg, þar sem hann býr nú, árið 1991. Ennfremur var þar hin sænska Charlotte Nilsson Perelli, sem vann Selmu fyrir sex árum. Lögin eru mjög misjöfn núna en okkar lag er kraftmikið og öflugt, allavega betri en flest lögin að mínu mati. Vonandi er að því muni ganga vel og komist allavega úr forkeppninni.

Punktar dagsins
Ólafur Ragnar Grímsson og Dick Cheney

Á hvítasunnudag var Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, staddur hér á Akureyri og viðstaddur opnun sýningar í Listasafninu. Jafnframt fór hann svokallaðan listahring um landið með menntamálaráðherra og borgarstjóra til að fagna Listahátíð á Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi og Suðurlandi. Forsetinn var ekki fyrr kominn til Reykjavíkur en honum var ekið til Keflavíkur þar sem hann fór upp í flugvél til Peking, án Dorritar. Þar hófst svo síðdegis í dag opinber heimsókn hans til Kína. Óhætt er að fullyrða að forseti fari þar víða yfir. Er þetta í fyrsta skipti í áratug sem íslenskur forseti fer til landsins. Vigdís Finnbogadóttir forseti, fór í opinbera heimsókn til Kína haustið 1995. Fór hún þá á kvennaráðstefnu í landinu, sem vakti athygli vegna vel þekktra mannréttindabrota stjórnvalda þar. Sú för varð mjög umdeild og tekist á um mannréttindaáherslur Vigdísar. Leiddi sú ferð til harðrar gagnrýni hér heima á hana og sagði Vigdís síðar að það hefðu verið mestu vonbrigði forsetaferils síns að finna fyrir látunum hér heima.

Nú er Ólafur Ragnar í för með viðskiptajöfrum sem eru að nema þar lönd og íslenskum ferðamönnum sem eru að kynna sér landið. Í dag fer forsetinn í Höll alþýðunnar og mun hann hitta þar Hu Jintao forseta Kína. Auk þess að fara um Peking mun forsetinn halda til borganna Shanghai og Qingdao. Í Shanghai verður undirritaður samstarfssamningur milli Viðskiptaháskólans á Bifröst og Shanghai-háskóla. Í Qingdao mun forsetinn meðal annars heimsækja frystihús og hitta fulltrúa íslenskra fyrirtækja í borginni. Heimsóknin mun standa allt fram á sunnudag. Vonandi mun forsetinn á fundi með Jintao í dag tala mjög ítarlega um mannréttindamál og mannréttindabrot kínverskra stjórnvalda. Í senn má segja að saga kommúnistastjórnarinnar sé blóði drifin og ógeðfelld. Ekki þarf að fjölyrða mikið um stöðu mála þar. Algjört einræði og skoðanakúgun á sér stað í Kína og því við hæfi að einræðisöflunum þar sé mótmælt með táknrænum og afgerandi hætti. Ég vona að forsetinn þori að tala hreint út um mannréttindi í Kína við ráðamenn þar.

Michael Howard

Michael Howard leiðtogi breska Íhaldsflokksins, hefur tilkynnt að hann hafi í hyggju að láta af leiðtogembættinu fyrir lok ársins og lýst yfir því að hann telji rétt að víkja fljótlega til að nýr leiðtogi geti markað sér áherslur sínar og stefnu tímanlega fyrir næstu kosningar. Á sunnudagsmorgun var Howard í ítarlegu spjalli við Sir David Frost í morgunspjallþætti BBC. Þar talaði hann hreint út. Hann sagði að flokknum hefði mistekist með öllu að ná sambandi við kjósendur í þingkosningunum fyrr í mánuðinum. Telur hann flokkinn eiga erfitt verk fyrir höndum en langt í frá vonlaust. Það sé hægt að ná saman samhentum og öflugum flokki, en aðeins ef rétt verði á haldið og flokknum stýrt á nýjar brautir. Að mati hans þarf flokkurinn að vera öflugri í hægristefnu sinni og verða meiri málsvarar ferskra tækifæra í hægrimennsku nútímans. Flokkurinn þurfi í senn bæði að breyta áherslum í takt við það sem venjulegir Bretar vilja og takast að finna sömu bylgjulengd og kjósendur vilja. Jafnframt lýsti hann því yfir að breyta þyrfti reglum flokksins við leiðtogakjör en Howard vill að gamla kerfið verði tekið upp, þ.e. að þingmenn flokksins velji leiðtogann. Ljóst er að margir muni sækjast eftir leiðtogastöðunni og þar muni þingmenn til fjölda ára og nýjir þingmenn leitast eftir forystu flokksins: fulltrúar bæði gamla og nýja tímans. Að mínu mati er nauðsynlegt að menn fari nýjar áttir og velji fólk nýrra tíma til að leiða flokkinn einmitt inn í nýja tíma.

La Vita é Bella

Í gærkvöldi horfði ég enn einu sinni á hina yndislegu ítölsku kvikmynd, La Vita é Bella. Í myndinni segir af Guido Orefici, fátækum ungum manni sem hefur þann hæfileika að geta gert alla káta í kringum sig. Hann hittir draumadísina sína, Doru, oft og mörgum sinnum í gegnum eintómar tilviljanir en hún er trúlofuð hreint óþolandi leiðindaskarfi og á brátt að giftast honum. Honum tekst loks að vinna hjarta hennar og þau giftast. Þar með er farið yfir nokkur ár í lífi þeirra og næst er við sjáum þau hafa nokkur ár liðið og hafa þau þá eignast son. Þetta er undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar, og þar sem Guido er gyðingur er hann sendur ásamt syni sínum í útrýmingarbúðir nasista. Þessi litla en stórbrotna perla er hiklaust ein besta kvikmyndin sem gerð var á síðasta áratug. Ítalski grínistinn Roberto Benigni fer á kostum í hlutverki lífs síns, Guido, sem hann hlaut óskarinn fyrir, en hann leikstýrði myndinni líka. Myndin hlaut þrenn óskarsverðlaun; fyrir leik Benigni, bestu kvikmyndatónlistina (glæsileg tónlist Nicola Piovani) og sem besta erlenda kvikmyndin 1998. Þessi mynd er allt í senn fyndin, mannbætandi og jákvæð fyrir hjartað. Hún fær hjörtu okkar til að slá í takt við það sem hún boðar og fær okkur öll líka til að hlæja um leið og hjarta okkar, áhorfandans, finnur sársauka tímabilsins og þær hörmungar sem fólk þurfti að þola um allan heim á þessum tíma. Ég vona því að sem flestir geti notið boðskaparins sem hún boðar - það að lífið er tvímælalaust dásamlegt!

Össur og Ingibjörg Sólrún

Brátt dregur til tíðinda í formannsslag Samfylkingarinnar. Á laugardag verður tilkynnt hvort að Össur eða Ingibjörg Sólrún verði formaður flokksins næstu tvö árin. Eins og við má búast eru formannsefnin að tjá sig um málin og láta reglulega frá sér heyra á vefsvæðum sínum. Um helgina var Össur að rita um skákmót og för forsetans til Kína. Hann er venju samkvæmt að fjalla um helstu málefni samtímans. Um helgina sá ég á vef Ingibjargar Sólrúnar pistil eftir hana sem hún hafði ritað og bar heitið "Pólitík snýst um fólk". Titillinn segir margt um innihaldið. Ég er ekki sammála þessu mati, að mestu leyti finnst mér pólitík snúast um stefnu og áherslur. Hafi fólk í stjórnmálum ekki stefnu eða áherslur til starfa er það bitlaust eða allavega að litlu gagni. Eða það er mitt mat að fólk, þó ágætt sé, verði að hafa skýra grunnstefnu og markmið til að geta verið farsælir stjórnmálamenn. Stefna og hugsjónir eru grunnur þessa að mínu mati. Þarna er kannski kominn grundvallarmunur á ISG og mörgum öðrum í stjórnmálum sem telja stefnuna megingrunn stjórnmálastarfsins og þess að unnið sé að mikilvægum málum. Eða ætli það ekki bara? Ég held það.

Saga gærdagsins
1920 Benedikt XV tilkynnir opinberlega að Jóhanna af Örk hafi formlega verið tekin í dýrlingatölu
1929 Óskarsverðlaunin, verðlaun bandarísku kvikmyndaakademíunnar, afhent í fyrsta skipti í Los Angeles - verðlaunin voru fyrstu árin afhent í maí en svo lengst af verið afhend í febrúar eða mars
1942 Fyrsta ríkisstjórnin undir forsæti Ólafs Thors tekur við völdum - hún sat í sjö mánuði. Ólafur varð fimm sinnum forsætisráðherra á löngum stjórnmálaferli sínum, oftar en nokkrir aðrir leiðtogar
1952 Bandarísk flugvél fórst í miklu slysi í norðanverðum Eyjafjallajökli - með vélinni létust 5 manns
1966 Tískuverslunin Karnabær opnuð í Reykjavík - hún hafði mjög mikil áhrif á tískustrauma hérlendis

Saga dagsins
1724 Mývatnseldar hefjast - þeir stóðu í rúmlega 5 ár. Í þeim varð til gígurinn Víti sem er við Kröflu
1814 Noregur fær formlega stjórnarskrá - 17. maí hefur alla tíð síðan verið þjóðhátíðardagur landsins
1841 Tómas Sæmundsson prestur, lést 33 ára gamall - Tómas var einn hinna þekktu Fjölnismanna
1995 Jacques Chirac tekur við forsetaembætti í Frakklandi - hann var endurkjörinn í kosningum 2002
1997 Alþingi Íslendinga samþykkir ný lögræðislög - sjálfræðisaldur hækkaði með því úr 16 árum í 18

Snjallyrðið
Try not to become a man of success, but rather try to become a man of value.
Albert Einstein vísindamaður (1879-1955)