Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

30 september 2005

Punktar dagsins
Halldór Blöndal forseti Alþingis

Alþingi verður sett á morgun við hátíðlega athöfn í Alþingishúsinu eftir hefðbundna messu í Dómkirkjunni. Þáttaskil eru í þinginu nú þegar að það kemur saman á þessu hausti. Fjórir þingmenn hafa horfið á braut frá síðasta þingfundi, þau Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, Bryndís Hlöðversdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson og Gunnar I. Birgisson. Þrjú þau fyrstnefndu hafa tekið þá ákvörðun að skipta um starfsvettvang og hafa því sagt af sér þingmennsku en Gunnar hefur hinsvegar tekið sér ársleyfi frá störfum, enda orðinn bæjarstjóri í Kópavogi, fyrstur sjálfstæðismanna. Í stað þeirra taka nú sæti á þingi þau Ásta Möller, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Valdimar Leó Friðriksson og Sigurrós Þorgrímsdóttir. Mest þáttaskil fylgja óneitanlega brotthvarfi Davíðs úr stjórnmálum. Gríðarmikið skarð er við brotthvarf Davíðs að mínu mati. Valdaferill hans var gríðarlega öflugt tímabil í sögu þjóðarinnar og hann leiddi það af miklum krafti - var öflugur forystumaður þjóðar og stærsta flokks landsins á löngu tímabili, farsælu tímabili í sögu íslensku þjóðarinnar. Stjórnmálasagan mun meta hann að mínu mati mjög glæsilega. Þegar hann fer er eftir mikið skarð en í brotthvarfi hans felast þó mikil tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Tækifærin eru fólgin í því að standa vörð um arfleifð Davíðs Oddssonar í stjórnmálum og tryggja að flokkurinn okkar verði áfram jafnsterkur og kraftmikill.

Fleiri þáttaskil fylgja setningu þingsins á þessu hausti. Á fyrsta þingfundi verður Sólveig Pétursdóttir fyrrum ráðherra, kjörin forseti Alþingis í stað Halldórs Blöndals leiðtoga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Halldór hefur setið á þingi samfellt frá árinu 1979 og er sá í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem lengst hefur setið á þingi og er elstur þingmanna. Segja má að Halldór hafi verið tengdur þingstörfum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961. Hans reynsla er því mikil. Halldór var lengi þingfréttamaður, svo starfsmaður þingflokksins og síðar varaþingmaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hefur hann setið á þingi af hálfu flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1979-2003 og frá þeim tíma fyrir hið nýja Norðausturkjördæmi. Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999. Hann varð forseti Alþingis eftir alþingiskosningarnar 1999, sem sennilega mörkuðu sætasta pólitíska sigur stjórnmálaferils Halldórs. Í þeim kosningum tókst honum að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í Norðurlandskjördæmi eystra - flokkurinn hlaut flest atkvæði í kjördæminu og varð Halldór fyrsti þingmaður þess, fyrstur sjálfstæðismanna. Þessi kosningabarátta er í mínum huga og annarra sem tók þátt þá tengdar gleðilegum minningum. Hefur Halldór stjórnað þinginu af krafti og unnið vel á þessum sex árum.

Hef ég ekki farið leynt með þá skoðun mína að ég vildi að Halldór sæti áfram á forsetastóli Alþingis. Ég hefði talið mestan sóma að því fyrir þingið og flokkinn auðvitað að hann hefði setið til loka kjörtímabilsins. Allt frá því að ég fór að taka þátt í flokksstarfinu hér fyrir norðan fyrir rúmum áratug hef ég þekkt Halldór og metið mikils forystu hans í stjórnmálum. Halldór er mjög litríkur karakter og hefur leitt flokkinn hér af krafti í rúma tvo áratugi. Það hefur verið mikilvæg leiðsögn og farsæl sem hann hefur veitt okkur hér. Hann hefur unnið vel fyrir fólkið hér í kjördæminu, það er staðreynd sem ég vona að muni aldrei gleymast síðar meir, þó árin líði. Hans framlag hér hefur skipt sköpum og við getum verið gríðarlega stolt af forystu hans í stjórnmálum. Ég hef alltaf dáðst mjög af þekkingu hans á öllum þáttum tengdum kjördæminu. Hann er ótrúlega minnugur, hafsjór af fróðleik. Halldór er mikill öðlingur, vissulega oft á tíðum nokkuð íhaldssamur að sumra mati og fastheldinn á hefðir og venjur. Tel ég það mjög af hinu góða, t.d. tel ég að hann hafi stýrt þinginu af krafti og staðið vörð um það í gegnum þykkt og þunnt. Sérstaklega taldi ég varnarræðu hans eftir aðför forseta landsins að því í fyrra mjög öfluga og góða. Þá gengu sumir þingmenn úr sal því þeir þoldu ekki varnarræðu forseta fyrir þingið.

Segja má margt um Halldór Blöndal og verk hans, þau tala sínu máli. Þeir sem eru í kjördæmi hans vita hversu vel hann vinnur fyrir umbjóðendur sína. Það hafa fáir menn á vettvangi þingsins verið vinnusamari og ötulli við að vinna að baráttumálum til eflingar virðingu þingsins sem stofnunar en hann. Andstæðingar hans réðust óhikað að honum og fundu honum óvirðuleg orð vegna þess að hann dirfðist að tjá skoðanir sínar með þeim hætti sem hann gerði við þingsetningu fyrir ári, eins og fyrr segir. Þeir sem þekkja Halldór vita að hann tjáir sig um málin þegar hann hefur brennandi skoðanir á því. Það var til marks um ómerkilegheit stjórnarandstöðunnar að hún allt að því sakaði Halldór um að níða niður þingið með því að tjá skoðanir sínar í þingsetningarræðu sinni í fyrra. Að mínu mati er Alþingi hinn eini sanni vettvangur frjálsrar umræðu, þar sem allar skoðanir mega koma fram, af hálfu þeirra sem kjörnir eru þar til trúnaðarstarfa, hvort sem um er að ræða þá sem hljóta kjör til þeirra verka af hálfu þjóðarinnar sem þingmenn eða þeirra sem þingmenn kjósa til forystu á vettvangi þingsins sjálfs. Það er öllum frjálst að hafa skoðanir, tjá þær og verja ef einhverjir eru ósammála. Það er aldrei hægt að ætlast til að allir séu sammála um hitamál samtímans. Halldór stóð vörð um þetta á forsetastóli í þinginu.

Það er rétt sem Lárus Jónsson fyrrum alþingismaður, sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir nokkrum árum að stjórnmálin séu enginn hægindastóll. Það er alveg ljóst að sá stjórnmálamaður sem situr á stóli forseta Alþingis er ekki á pólitískum hægindastóli. Hann sækir sitt umboð til kjósenda, rétt eins og aðrir þingmenn, en hefur vissulega umboð sitt til forsetastarfa frá þingmönnum. Það hefur gustað oft um Halldór á ferli hans. Á þeim sex árum sem hann gegndi embætti forseta Alþingis voru þingmenn sumir hverjir misjafnlega vel sáttir við stjórn Halldórs sem forseta á þingfundum. En það er til marks um virðinguna sem þingmenn bera fyrir persónu Halldórs Blöndals hversu vel þeir kvöddu hann er hann stýrði sínum síðasta þingfundi í maímánuði, fyrir þinglok. Þar töluðu fulltrúar bæði stjórnar og stjórnarandstöðu af virðingu um störf hans og forystu af hálfu þingsins seinustu árin. Hann átti það enda vel skilið - þrátt fyrir snerrur manna á millum bera menn í ólíkum flokkum virðingu fyrir Halldóri. Þar fer öflugur og umfram allt litríkur maður sem hefur sett svip á stjórnmálin hér heima seinustu árin og áratugina. Það er aðeins til einn Halldór Blöndal - hvert sem hann fer setur hann svip á stemmninguna. Við sem þekkjum hann og höfum unnið með honum berum virðingu fyrir honum og pólitískri forystu hans.

Það er óhætt að segja að ég hafi mjög lengi borið mikla virðingu fyrir þessum mæta manni, þau ár sem ég hef tekið þátt í stjórnmálum hér fyrir norðan. Eins og flestir vita er ég formaður í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Einn forvera minna á þeim stóli er Halldór Blöndal leiðtogi okkar sjálfstæðismanna í kjördæminu. Á 75 ára afmæli Varðar fyrir tæpum tveim árum var Halldór gerður að heiðursfélaga í Verði. Átti Halldór þá nafnbót svo sannarlega vel skilið. Hefði hann reyndar átt að hafa hlotið hana fyrir margt löngu. Svo margt hefur hann gert gott fyrir okkur í þessu félagi og unnið að því að efla Eyjafjörð með verkum sínum að slíkan heiður átti hann skilið. Hann hefur unnið af krafti í öllum sínum stjórnmálastörfum og frægur er fyrir löngu orðinn metnaður hans í samgöngumálum og tillaga hans um Stórasandsveg er þar frægust og vonandi verður hún að veruleika, fyrr en síðar. Hann var formaður Varðar 1964-1965 - varð það upphafið á litríkum stjórnmálaferli hans og forystu fyrir norðlenska sjálfstæðismenn. Forysta hans og leiðsögn hefur verið okkur sjálfstæðismönnum hér farsæl og dýrmæt. Ég vil nota tækifærið og óska Halldóri góðs á þeim þáttaskilum er hann lætur af forsetaembættinu og tekur við formennsku í einni af mikilvægustu nefndum þingsins, utanríkismálanefnd.

Það er alveg ljóst að það verður gaman að fylgjast með þingstörfunum í vetur. Þó veturinn verði væntanlega kaldur verður funheitt í íslenskum stjórnmálum - á kosningavetri.

John G. Roberts sver embættiseið

Öldungadeild Bandaríkjaþings staðfesti í gær skipan John G. Roberts í embætti forseta hæstaréttar Bandaríkjanna. Hann hlaut 78 atkvæði þingmanna, 22 greiddu honum ekki atkvæði sitt. Allir 55 þingmenn repúblikana studdu Roberts og 23 þingmenn demókrata studdu hann í kjörinu. Roberts sór embættiseið sem 17. forseti réttarins við hátíðlega athöfn í Hvíta húsinu síðdegis í gær. Það kom mér mest á óvart hversu margir demókratar studdu Roberts. Taldi ég að þeir yrðu innan við 70 þingmennirnir sem myndu styðja hann. Staða hans er mjög sterk og var allan tímann, meðan á staðfestingarferlinu stóð og til enda. Bush tókst að skipa íhaldsmann til starfans, en svo gjörsamlega clean að hann rann alveg í gegn. Andstaðan varð er á hólminn kom næstum því engin. Staða hans er því sterk. Nú hefur Roberts tekið við valdataumunum í réttinum. Arfleifð hans mun verða gríðarlega merkileg. Hann er ungur af forseta að vera, aðeins fimmtugur, og getur mótað hæstarétt Bandaríkjanna til fjölda áratuga og sett ævarandi mark á þjóðfélagið. Það eru allavega nokkur þáttaskil sem verða nú er Roberts er orðinn leiðtogi þessa áhrifamikla réttar. Nú er komið að næstu skipan í réttinn. Þar verða að ég tel mun meiri átök um skipan eftirmanns Söndru Day O'Connor, sem lætur brátt af embætti.

Það var án nokkurs vafa ein merkasta arfleifð Ronald Reagan að tilnefna Söndru til setu í hæstarétti árið 1981. Hún varð ekki aðeins fyrsta konan sem tók sæti í réttinum, heldur einn áhrifamesti dómari í seinni tíma sögu landsins og t.d. haft áhrif í þýðingarmiklum málum og oft haft oddaatkvæðið milli ólíkra stefna innan réttarins, verið semsagt milli íhaldsmannanna og liberal-istanna. Það verður fróðlegt að sjá hvern Bush muni skipa í hennar stað. Þar verða átökin að mínu mati - enda um að ræða eftirmann hins klassíska swing vote í réttinum. En þáttaskil hafa orðið í réttinum og nýr leiðtogi tekinn þar við völdum. John G. Roberts er fæddur 27. janúar 1955 í Buffalo í New York-fylki. Eiginkona hans er Jane Sullivan Roberts og eiga þau tvö börn, Josephine og Jack. Roberts útskrifaðist frá Harvard árið 1979 og átti glæsilegan námsferil að baki þar. Hann var um tíma aðstoðarmaður forvera síns á forsetastóli hæstaréttar, William H. Rehnquist. Roberts starfaði um tíma í bandaríska dómsmálaráðuneytinu og Hvíta húsinu en hefur verið dómari við áfrýjunardómstólinn í Washington frá 2003. Ferill hans er glæsilegur og hann kemur víða nærri og hann á að baki glæsilegan fræðimannsferil og sem dómari og lagasérfræðingur. Það er hægt að slá því föstu að hann muni viðhalda þeim hægristimpli sem var á réttinum í forsetatíð Rehnquist.

Stykkishólmur

Þing Sambands ungra sjálfstæðismanna verður haldið í Stykkishólmi um helgina. Þingið mun hefjast með setningu á Hótel Stykkishólmi, seinnipartinn í dag. Hafsteinn Þór Hauksson fráfarandi formaður SUS, setur þingið og flytur skýrslu stjórnar. Björn Ásgeir Sumarliðason formaður Sifjar, f.u.s. í Stykkishólmi, mun flytja stutt ávarp að því loknu. Eftir það er farið yfir reikninga félagsins. Eftir það fer fram kosning þingforseta, fundarritara, kjörbréfanefndar og kjörnefndar. Kl. 20:15 verður fundur með ráðherrum Sjálfstæðisflokksins á hótelinu. Að því loknu fer fram móttaka í boði Sifjar á hótelinu. Í fyrramálið hefst vinna í málefnanefndum í grunnskólanum og afgreiðsla ályktana hefst seinnipartinn, eftir að lagabreytingar hafa verið teknar fyrir. Annaðkvöld verður hátíðarkvöldverður og dansleikur á hótelinu. Heiðursgestur verður Sturla Böðvarsson samgönguráðherra. Á sunnudag fer fram afgreiðsla ályktana og kosning formanns og stjórnar Sambands ungra sjálfstæðismanna. Þing SUS-ara eru jafnan mjög ánægjuleg. Ég hlakka til að hitta ungliða af öllu landinu um helgina, eiga við þá gott spjall og skemmtilega stund í Hólminum. Það jafnast ekkert á við að skemmta sér með góðum hópi ungs hægrifólks!

James Dean

Hálf öld er í dag liðin frá því að bandaríski leikarinn James Dean lést í bílslysi, 24 ára að aldri. Dean var góður leikari og lék á skömmum ferli í þrem meistaraverkum kvikmyndasögunnar: East of Eden, Rebel Without a Cause og Giant. James Dean varð ekki langlífur en setti mikið mark á samtíð sína og framtíð og varð átrúnaðargoð og goðsögn heillar kynslóðar um allan heim. Áhrif hans náðu yfir gröf og dauða. Í tilefni þess að hálf öld er nú liðin frá því að þessi ungi og heillandi leikari féll frá vil ég hvetja lesendur til að horfa á myndirnar þrjár sem skörtuðu honum í aðalhlutverki. Þær eru enn í dag stórfengleg heimild um þennan merka leikara.

Saga dagsins
1148 Bæjarbruni á Mýrum, Hítardalsbrenna - mannskæðasti bruni í sögu landsins. Rúm 70 fórust.
1946 Alþjóðlegur dómstóll í Nurnberg í Þýskalandi finnur 22 háttsetta nasista seka um stríðsglæpi.
1955 Leikarinn James Dean ferst í bílslysi í bænum Cholame í Kaliforníu, 24 ára að aldri. Dean lék á skömmum leikferli sínum í þrem stórmyndum: East of Eden, Rebel Without a Cause og Giant, sem
var frumsýnd skömmu eftir lát hans. Dean varð átrúnaðargoð og goðsögn heillar kynslóðar fólks um allan heim. Almennt talin hin eina sanna ímynd hins uppreisnargjarna og hugsjónasinnaða manns.
1966 Ríkissjónvarpið hóf útsendingar - dagskráin hófst formlega með ávarpi Vilhjálms Þ. Gíslasonar útvarpsstjóra. Fyrst í stað var sjónvarpað tvo kvöld í viku og þá tvær til þrjár klukkustundir í einu.
1996 Eldgos hófst í Vatnajökli, milli Bárðarbungu og Grímsvatna, sem stóð í rúman hálfan mánuð. Eldstöðin sem nefnd var Gjálp, bræddi mikið af ís og safnaðist vatn saman í Grímsvötn og hljóp þaðan mánuði síðar yfir Skeiðarársand og skemmdi mjög mannvirki. Er þetta talið fjórða stærsta gosið á tuttugustu öld. Einungis, Kötlugos 1918, Heklugos 1947 og Surtseyjargos 1963, voru stærri en gosið.

Snjallyrðið
Bláu augun þín blika djúp og skær,
lýsa leiðina mína líkt og stjörnur tvær.
Þó að liggi leið mín um langan veg
aldrei augnanna þinna eldi gleymi ég.

Þau minna á fjallavötnin fagurblá,
fegurð þá einn ég á.
Bláu augun þín blika djúp og skær,
lýsa leiðina mína líkt og stjörnur tvær.
Ólafur Gaukur Þórhallsson tónlistarmaður (Bláu augun þín)

Undurfagurt ljóð við eitt fallegasta dægurlag landsins á tuttugustu öld.

29 september 2005

Klukkið - fimm staðreyndir um SFS
Stefán Friðrik Stefánsson

Sá siður er nú algengur í bloggheimum að klukka hinn og þennan vin sinn eða félaga í netheimum og fá þá til að tjá sig á persónulegu nótunum. Þetta er í senn bæði undarlegur og stórskemmtilegur leikur sem þarna er um að ræða. Í gær gerðist það að Friðbjörn Orri Ketilsson klukkaði mig á sínum góða bloggvef. Tek ég að sjálfsögðu áskoruninni. Ég nefni því hér fimm atriði varðandi mig sem eru á sumra vitorði - en ekki allra.

1. Ég er ættaður að hluta til að austan. Fáir sem þekkja mig tengja mig þó við Austfirðina. Frá því að ég man eftir mér hefur mér verið mjög annt um Austfirðina og farið þangað oft og ræktað vina- og fjölskyldubönd þangað. Í sumar fór ég þangað oftar en nokkru sinni, bæði vegna flokksstarfa og persónulegra tengsla við góðan vin. Þá lærði ég þá list að slappa vel og innilega af í austfirsku fjallalofti og horfa á austfirska náttúrufegurð með öðrum augum en oft áður. Það er virkilega gaman að fara austur í sumarblíðunni og njóta kyrrðar og fegurðar svæðisins. Ekki er síðra að fara að vetrarlagi og horfa á vetrartóna austfirskra byggða speglast í sjónum. Þeir sem hafa ekki farið austur verða að skella sér. Ég ætla mér að fara þangað oft á næstu árum!

2. Ég er forfallinn kvikmyndaáhugamaður. Á fleiri hundruð kvikmynda og nýt þess í botn að horfa á yndislegar kvikmyndir - það er sannkölluð list. Sérstakan áhuga hef ég á gömlum perlum kvikmyndasögunnar. Þegar ég fór til Bandaríkjanna fyrir tæpu ári voru vinir mínir og kunningjar flestir að fara í búðir í verslunarmiðstöðum til að kaupa utan á sig föt eða spá í einhverjum slíkum hlutum. En ekki Stefán Friðrik Stefánsson, ónei - ég fór inn í aðal DVD-verslunina á staðnum og sökkti mér ofan í eðalmyndir, sem eru sumar hverjar ekki til hérna heima. Kom vel hlaðinn úrvalsmyndum út - ef eitthvað er ástríða mín eru það kvikmyndir og menningin á bakvið þær - frá a-ö. Sumir segja svo að það sé skemmtilegt að horfa á myndir með mér - veit ekkert um það, en vona það þó. :)

3. Ég er mikill áhugamaður um matseld. Hef mjög gaman af því að elda, þ.e.a.s. þegar ég fæ matargesti eða hef einhverja í kringum mig. Það er fátt leiðinlegra en að elda bara fyrir sjálfan sig, hreint út sagt. En þegar ég fæ gesti hef ég mjög gaman af að töfra fram eitthvað gott. Það er viss list að elda og njóta góðs matar - mesta listin er stemmningin á bakvið matreiðsluna. Uppáhaldsmaturinn minn er hiklaust kjöt og karrý - ég var mjög stoltur af sjálfum mér þegar að amma mín hafði kennt mér listina á bakvið þá matreiðslu fyrir margt löngu og enn stoltari sennilega þegar ég eldaði það í fyrsta skipti - algjörlega einn. Það er ekkert betra en góður matur. :) Enn betra er að geta eldað og bjargað sér sjálfur að því leyti og kunna eitthvað meira en bara að sjóða egg. :)

4. Margir ættingjar mínir segja að ég hafi erft persónulega eiginleika langafa míns, Stefáns Jónassonar skipstjóra og útgerðarmanns á Akureyri. Stærsti kosturinn er gamansemi og kaldhæðni. Ég get verið mjög gamansamur og maður brandaranna þegar svo ber undir - eins og langafi Stefán. Hann gat verið hrókur alls fagnaðar á góðum stundum og mér er sagt að ég geti verið mjög fyndinn þegar svo ber undir. Svo virðist ég líka hafa það frá honum að geta tekið miklar snerrur í skapköstum og svara oft fyrir mig með hvössum hætti ef að mér er sótt. Einhverjir kalla það galla - ég er ekki þeirrar skoðunar. Skap er gott þegar svo ber undir. Það er að mínu mati stór kostur að geta varið sig þegar að manni er sótt - af krafti. Svo hef ég það líka frá langafa að geta talað óendanlega mikið og vera mjög íhaldssamur - eru þetta ekki allt kostir? :)

5. Ég þarf varla að taka það fram að ég hreinlega elska Akureyri og allt sem tengist Eyjafirði - þeim stað sem ég hef búið á nærri alla mína ævi. Fáir vita hinsvegar að ég er mikill unnandi sólarlags í Eyjafirði. Það er ekkert skemmtilegra að vori en að fara út að Ólafsfjarðarmúla, gangamunanum í göngin milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur, og horfa þar á fagra tóna eyfirsks vors. Ég held hreinlega að það jafnist ekkert á við það að standa þar og horfa á sanna fegurð. Ja, nema þá að lesa um sanna eyfirska fegurð í ljóðanna töfrum meistara Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi - þess ljóðskálds sem ég met manna mest.

Miðnætursól í Eyjafirði - sumarið 2005

Hér að ofan er stemmningsmynd úr Eyjafirðinum sem tekin var í júlí 2005 - þetta er fallegt sjónarhorn. En að lokum þarf ég auðvitað að klukka nokkra aðila í bloggheimum sem ég vil heyra frá. Sennilega eru flestallir búnir að fá boð um að gera það. En wtf hvað með það - ég ætla að klukka Þorstein Magnússon, Gylfa Ólafsson og Hrafnkel A. Jónsson á Egilsstöðum.

Saga dagsins
1906 Landssími Íslands tók formlega til starfa - þá var sent fyrsta símskeyti milli Reykjavíkur og Kaupmannahafnar. Símalínan frá Seyðisfirði norður um land og til Reykjavíkur var 614 km löng.
1974 Auður Eir Vilhjálmsdóttir tók prestvígslu, fyrst íslenskra kvenna - Auður Eir vígðist fyrst til Staðarprestakalls á Súgandafirði. Auður Eir gaf kost á sér, fyrst kvenna, í biskupskjöri árið 1997.
1978 Tilkynnt formlega um lát Jóhannesar Páls I páfa. Hann var 65 ára er hann lést og hafði aðeins setið á páfastóli í 33 daga. Hann var kjörinn til setu á páfastóli í ágúst 1978 - lengi hefur verið uppi sá orðrómur um að páfanum hafi verið byrlað eitur. Eftirmaður hans tók sér nafn hans til minningar um hinn látna páfa og var kallaður Jóhannes Páll II páfi. Hann sat á páfastóli í 27 ár, árin 1978-2005.
1990 Nesjavallavirkjun í Grafningi var formlega gangsett af Davíð Oddssyni þáverandi borgarstjóra.
2000 Auðlindanefnd skilaði tillögum sínum. Nefndin lagði til í skýrslu sinni að sett yrðu ákvæði í stjórnarskrá um þjóðareign á náttúruauðlindum landsins og gjald skyldi tekið fyrir nýtingu þeirra.

Snjallyrðið
Mér finnst ég varla heill, né hálfur maður,
og heldur ósjálfbjarga, því er verr.
Ef þú værir hjá mér, vildi ég glaður
verða betri en ég er.

Eitt sinn verða allir menn að deyja
eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það, en samt ég verð að segja
að sumarið líður allt of fljótt.

Við gætum sungið, gengið um,
gleymt okkur hjá blómunum,
er rökkvar, ráðið stjörnumál,
gengið saman hönd í hönd,
hæglát farið niðrað strönd.
Fundið stað,
sameinað
beggja sál.

Horfið er nú sumarið og sólin
í sálu minni hefur gríma völd.
Í æsku léttu ís og myrkur jólin,
nú einn ég sit um vetrarkvöld.

Ég gái út um gluggann minn.
hvort gangir þú um hliðið inn.
Mér alltaf sýnist ég sjái þig.
Ég rýni út um rifurnar,
ég reyndar sé þig alls staðar,
þá napurt er.
Það næðir hér
og nístir mig.
Vilhjálmur Vilhjálmsson söngvari (1945-1978) (Söknuður)

Virkilega fallegt ljóð - það varð ódauðlegt í flutningi höfundar, skömmu áður en hann lést sviplega.

28 september 2005

Punktar dagsins
Ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar

Þáttaskil urðu í íslenskri stjórnmálasögu í gær þegar að Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, lét af ráðherraembætti og þingmennsku. Með því lauk í raun stjórnmálaferli Davíðs. Hann mun þó gegna formennsku í Sjálfstæðisflokknum fram að landsfundi um miðjan októbermánuð. Eftir að teknar höfðu verið hefðbundnar myndir af nýrri ríkisstjórn héldu nýjir ráðherrar á nýja vinnustaði sína og tóku þar við lyklavöldum. Davíð Oddsson tók á móti eftirmanni sínum í utanríkisráðuneytinu. Er óhætt að segja að Geir hafi fengið nóg af lyklum og fylgihlutum við að taka við húsbóndavaldinu á Rauðarárstígnum. Þaðan fór Geir á sinn gamla vinnustað og afhenti Árna lyklavöldin þar. Eitthvað þótti fólki það fátæklegri skipti, enda bara einn lykill um að ræða. Var skondið þegar að Geir tók fram með gleðisvip að þetta væri nú fátæklegt þarna í fjármálaráðuneytinu. Þaðan fór svo nýr fjármálaráðherra yfir í sjávarútvegsráðuneytið og afhenti eftirmanni sínum, Einari Kristni, völdin þar. Vakti Einar reyndar athygli á því að kippan að ráðuneytinu væri merkt Slysavarnarfélaginu og fannst honum það skondið mjög. En svona gekk rúnturinn á milli ráðuneytanna í miðbænum. Mikil þáttaskil fylgdu þessum tilfærslum og breytingum öllum. Eftir lyklaskiptin hafði einn litríkasti stjórnmálamaður landsins seinustu áratugina yfirgefið ríkisstjórn landsins eftir langan og mjög farsælan feril.

Í gærkvöldi var Davíð svo gestur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í Kastljósinu. Var farið þar víða yfir og um margt rætt. Var það virkilega áhugavert spjall. Hafði ég gaman af að horfa á þetta viðtal. Þar var Davíð algjörlega í essinu sínu: fyndinn, rólegur og með skarpa sýn á þjóðmálin, eins og ávallt. Er enginn vafi á því að Davíð er fremsti leiðtogi Sjálfstæðisflokksins. Gríðarmikið skarð er við brotthvarf hans að mínu mati. Í mínum huga er hann fremsti stjórnmálamaður 20. aldarinnar. Valdaskeið hans er enda gríðarlega öflugur tími og hann leiddi það tímabil af miklum krafti og var öflugur forystumaður þjóðar og stærsta flokks landsins á löngu tímabili, farsælu tímabili í sögu íslensku þjóðarinnar. Stjórnmálasagan mun meta hann að mínu mati mjög glæsilega. Þegar hann fer er eftir mikið skarð en í brotthvarfi hans felast þó mikil tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Tækifærin eru fólgin í því að standa vörð um arfleifð Davíðs Oddssonar í stjórnmálum og tryggja að flokkurinn okkar verði áfram jafnsterkur og kraftmikill og hann var í þann eina og hálfa áratug sem Davíð leiddi hann. Nú er það þeirra sem taka við völdunum innan flokksins að tryggja að flokknum farnist vel á komandi árum. Tryggja að við náum að stýra þjóðarskútunni af krafti við breyttar forsendur. Breytingum fylgja ný tækifæri - svo er í þessu tilfelli sem öðrum.

Mikilvægt er að Sjálfstæðisflokkurinn sé samhentur. Þetta á ekki síður við um ungliðahreyfingu flokksins. Þetta hef ég haft alla tíð að markmiði og er tilbúinn til að vinna með öllum þeim sem vilja styrkja og efla Sjálfstæðisflokkinn. Við eigum að vinna saman að mikilvægum verkefnum - við sem erum í þessum flokki og höfum valið okkur þar pólitískt heimili eigum að tryggja að okkur farnist vel. Það gerum við fyrst og fremst með því að styrkja flokkinn til komandi verkefna - tveggja kosninga á næstu árum. Að því mun ég vinna, nú sem ávallt áður. Í gær sendi stjórn Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri, skeyti til Davíðs Oddssonar formanns Sjálfstæðisflokksins, og þakkaði honum forystu sína af hálfu flokks og þjóðar á undanförnum áratugum. Þótti okkur rétt að kveðja Davíð með þessum hætti og vildum ennfremur þakka honum persónulega í nafni okkar og félagsins fyrir farsæla forystu við þau þáttaskil að hann lætur af ráðherraembætti og forystu í Sjálfstæðisflokknum.

Bjarni Benediktsson

Geir H. Haarde utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur beðist lausnar úr stjórnarskrárnefnd forsætisráðherra, sem skipuð var í byrjun ársins. Var hann varaformaður nefndarinnar og hafði verið mjög áberandi í störfum hennar undanfarna mánuði. Nú þegar Geir er orðinn forystumaður Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn og tekur bráðlega við formennsku flokksins er rétt af honum að fela öðrum verk sín í nefndinni. Í stað Geirs hefur verið skipaður í nefndina Bjarni Benediktsson formaður allsherjarnefndar Alþingis og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Auk Bjarna sitja í nefndinni þau Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra, sem er formaður, Birgir Ármannsson, Guðjón A. Kristjánsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jónína Bjartmarz, Steingrímur J. Sigfússon, Þorsteinn Pálsson og Össur Skarphéðinsson. Eins og fram hefur komið er miðað að því að endurskoðun stjórnarskrárinnar, sem nefndin vinni að, verði einkum bundin við fyrsta, annan og fimmta kafla stjórnarskrárinnar og þau ákvæði í öðrum köflum hennar sem tengjast sérstaklega ákvæðum þessara þriggja kafla. Stefnt hefur verið að því að frumvarp til breytinga á stjórnarskrá liggi fyrir í síðasta lagi í byrjun ársins 2007 og verði samþykkt fyrir þingkosningar síðar sama ár.

Sigmundur Ernir Rúnarsson fréttastjóriLogi Bergmann Eiðsson

Það er óhætt að segja að mikil tíðindi séu að eiga sér stað á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Brátt munu fréttamiðlar 365 breytast með tilkomu Fréttavaktarinnar, fyrstu íslensku fréttastöðvarinnar. Verður sent út þar samfellt í um tuttugu klukkutíma á dag fréttum og fréttatengdu efni. Með nýrri stöð og öðrum áherslum í fréttastefnu og útsendingum á fréttum þarf meiri mannskap. Það kom mörgum á óvart í gær að heyra af því að Logi Bergmann Eiðsson varafréttastjóri Sjónvarpsins, hefði verið ráðinn einn af aðalfréttalesurum 365, bæði á Stöð 2 og Fréttavaktinni. Er honum ennfremur ætlað að stjórna fréttatengdum þáttum á næstunni hjá fyrirtækinu. Kom þetta mörgum að óvörum einkum í ljósi þess að í síðustu viku var tilkynnt að Logi Bergmann myndi ritstýra nýjum dægurmálaþætti Sjónvarpsins, Opið hús, sem hefur göngu sína þann 10. október nk. og mun leysa Kastljósið, Ópið og Mósaík af hólmi. Í dag var svo tilkynnt að Þórhallur Gunnarsson, sem var umsjónarmaður Íslands í dag á Stöð 2, stýri dægurmálaþætti Sjónvarpsins. Í dag var svo ennfremur tilkynnt að Þórir Guðmundsson hefði verið ráðinn varafréttastjóri Stöðvar 2, en hann var fréttamaður Stöðvar 2 í áratug, 1986-1996. Nóg af breytingum á fjölmiðlamarkaði semsagt.

Angela Lansbury í hlutverki Jessicu Fletcher

Eflaust muna allir vel eftir Jessicu Fletcher, sakamálarithöfundinum í Cabot Cove í Maine, sem bæði rannsakaði sjálf morðmál og skrifaði um þau með listilegum hætti. Hún var aðalsögupersóna ógleymanlegs sakamálaþáttar sem bar heitið Murder, She Wrote. Þátturinn naut gríðarlegra vinsælda og gekk samfellt í bandarísku sjónvarpi í rúman áratug, árin 1984-1996. Jessica var túlkuð með stórfenglegum hætti af bresku leikkonunni Angelu Lansbury. Ég var mikill aðdáandi þessa þáttar og missti aldrei þátt úr. Þetta var að mínu mati einn besti sakamálaþáttur í bandarísku sjónvarpi hin seinni ár og mjög áhugaverður. Hann átti enda sína tryggu aðdáendur um allan heim. Þeir voru margir hér heima á Íslandi sem með honum fylgdust. Þættirnir um Jessicu fylgdu manni í mörg ár. Á ég þónokkurn fjölda af þáttunum og horfi stundum á þá, rétt eins og þættina um Matlock, sem ég minntist á um daginn. Þetta voru bestu sakamálaþættir síns tíma. Þeir verða aldrei úreldir eða lélegir. Í gærkvöldi fór ég í geymsluna eftir að hafa rifjað upp stundirnar með Matlock og horfði á nokkra þætti af Morðgátu, eins og þættirnir hétu hér heima á Íslandi. Var það mjög gaman - vægast sagt. Þessir þættir verða ekki síðri með árunum - klassík í bandarískri sjónvarpssögu.

Blair séð í skondnu ljósi

Í gær hélt Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Verkamannaflokksins, ræðu á flokksþingi Verkamannaflokksins. Áttu margir von á að Blair myndi þar tilgreina hvenær hann myndi láta af leiðtogaembætti og hætta í stjórnmálum. Fyrir liggur að hann ætlar ekki að gefa kost á sér í þingkosningunum eftir fimm ár en hefur ekki sagt heldur neitt um hvenær hann hættir nákvæmlega. Ræðan sem margir töldu að yrði uppgjör og tímasetning fyrir tilkynningu um að hætta varð að öflugri og beittri stefnuræðu næstu ára. Ræðan var allavega ekki með vott af svanasöng hjá Blair. Mikið hefur verið rætt um hvenær að Gordon Brown fjármálaráðherra Bretlands, muni taka við af Blair en greinilegt er að það gerist ekki strax. Skopmyndateiknararnir hjá Guardian voru ekki lengi að sjá spaugilegu hliðina á ræðunni, eins og sést hér að ofan.

Saga dagsins
1988 Ríkisstjórn undir forsæti Steingríms Hermannssonar tók við völdum - var fyrsta vinstristjórnin
í sögu landsins sem mynduð var án þingkosninga. Stjórn Steingríms sat með breytingum allt til 1991.
1994 Bílaferjan Estonia ferst á Eystrasalti - 854 manns fórust með ferjunni, flestir Svíar. Þetta var mannskæðasta sjóslys frá því í seinni heimsstyrjöldinni. Þeir sem fórust liggja í kaldri gröf í flaki skipsins, en öll ríki við Eystrasaltið ákváðu að ferjan skyldi algjörlega friðuð og ekki hreyft við því.
2000 Heimsókn hins umdeilda stjórnmálamanns Ariel Sharon í hina helgu Al-Aqsa mosku, leiðir til mikilla óeirða milli Palestínumanna og Ísraela. Sharon varð forsætisráðherra Ísraels í janúar 2001.
2000 Pierre Elliot Trudeau fyrrum forsætisráðherra Kanada, deyr í Toronto, áttræður að aldri. Trudeau var einn fremsti stjórnmálamaður Kanada og var forsætisráðherra 1968-1979 og 1980-1984.
2003 Óskarsverðlaunaleikstjórinn Elia Kazan deyr í New York, 94 ára að aldri. Kazan var einn af umdeildustu leikstjórum 20. aldarinnar og hlaut hann tvívegis óskarsverðlaun fyrir leikstjórn: fyrir Gentleman's Agreement og On the Waterfront. Hann hlaut heiðursóskar fyrir ævistarf sitt 1999.

Snjallyrðið
Stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn,
eru gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er hann grét í fyrsta sinn.

Honum fannst ekkert af öllu
yndi sér veita né ró
og allt vera hégómi og heimska
á himni, jörð og sjó.

En gleðitár Guðs, sem hann felldi,
er grét hann í fyrsta sinn,
eru stjörnurnar, sem við sjáum
sindra um himininn.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Stjörnurnar)

Ein af ljóðaperlum Davíðs frá Fagraskógi - virkilega fallegt ljóð.

27 september 2005

Davíð lætur af ráðherraembætti -
þáttaskil í Sjálfstæðisflokknum


Davíð Oddsson

Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, lét í dag af ráðherraembætti á ríkisráðsfundi á Bessastöðum. Jafnframt lét Davíð af þingmennsku í dag. Er hann yfirgaf Bessastaði á fjórða tímanum í dag var lokið merkum ferli Davíðs sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Hægt er að fullyrða að nýtt pólitískt landslag blasi við nú þegar að Davíð lætur af ráðherraembætti. Hann hefur enda seinustu áratugina verið miðpunktur íslenskra stjórnmála. Davíð hefur setið í ríkisstjórn frá 30. apríl 1991. Hann var forsætisráðherra samfellt í þrettán ár, allt til 15. september 2004 og hefur síðan setið sem utanríkisráðherra í ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar formanns Framsóknarflokksins, en flokkarnir hafa unnið saman í ríkisstjórn frá vorinu 1995. Davíð mun láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi hans eftir rúman hálfan mánuð. Með þessum þáttaskilum sem áttu sér stað í dag lýkur þriggja áratuga löngum stjórnmálaferli Davíðs Oddssonar. Mikil þáttaskil eru fólgin í því að hann láti af ráðherraembætti. Hann setið í ríkisstjórn samfellt í tæpan einn og hálfan áratug og verið forystumaður ríkisstjórnar af hálfu flokks síns allan þann tíma. Hann hefur ennfremur þann einstaka árangur í íslenskri stjórnmálasögu að baki að hafa setið samfellt í embættum borgarstjóra og ráðherra í 23 ár.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í rúm 70 ár verið í fararbroddi íslenskra stjórnmála. Það hefur verið gæfa hans að valist hafa til forystustarfa hæfir og frambærilegir menn. Margir ákváðu að styðja flokkinn á árum áður vegna forystuhæfileika t.d. Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar, og flokkurinn varð stórveldi í íslenskum stjórnmálum vegna forystu þeirra í flokknum. Þessir menn voru þekktir fyrir yfirburðaleiðtogahæfileika, mælsku sína og víðsýni í íslenskri pólitík. Nú, þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur samfellt setið í ríkisstjórn í 14 ár er von að spurt sé - hver er lykillinn að velgengni Sjálfstæðisflokksins í landsmálapólitík? Svarið er í mínum huga einfalt. Davíð Oddsson hefur með miklum leiðtogahæfileikum tryggt að flokkurinn er í forystu íslenskra stjórnmála. Hann hefur allt frá sigri sínum í borgarstjórnarkosningunum 1982 verið einn af helstu forystumönnum flokksins og verið í fararbroddi innan hans. Hann leiddi flokkinn til glæsilegra kosningasigra og forystu í landsmálum í upphafi tíunda áratugarins og hefur verið risi í íslenskum stjórnmálum síðan og leitt íslensk stjórnmál. Tíundi áratugurinn var tími Davíðs og sögubækur framtíðarinnar munu staðfesta það. Hann leiddi miklar breytingar á íslensku samfélagi og markaði stór spor í íslenska stjórnmálasögu.

Ef einhver stjórnmálamaður á seinustu áratugum hefur haft sjötta skilningarvitið í pólitík er það Davíð. Hann hefur með mælsku sinni, hressilegum skoðunum og forystuhæfileikum sínum tryggt forystu flokksins í landsmálunum. Undir hans leiðsögn hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei verið sterkari. Staða Sjálfstæðisflokksins nú er mjög athyglisverð, pólitískt séð, enda er einsdæmi að einn flokkur stjórni landinu í jafnlangan tíma með setu í ríkisstjórn með sama leiðtoganum við stjórnvölinn. Davíð hefur verið þekktur fyrir að vera áberandi. Hann hefur óhikað tjáð skoðanir sínar og verið óhræddur við að tala tæpitungulaust. Það hefur í senn verið helsti styrkleiki og helsta gæfumerki Sjálfstæðisflokksins að hafa átt svo glæsilegan og áberandi leiðtoga - sannkallan skipstjóra sem sagt hefur til verka og notið virðingar innan flokks og utan vegna starfa sinna. Ég gekk í Sjálfstæðisflokkinn sumarið 1993. Síðan hafa liðið tólf ár. Löngu fyrir þann tíma hafði ég þó mótað mér pólitískan áhuga og hreifst af sjálfstæðisstefnunni. Við ákvörðunina um að ganga í flokkinn hafði líka sitt að segja hver leiddi flokkinn. Ég hreifst af forystu Davíðs Oddssonar - hreifst af krafti hans sem stjórnmálamanns og ekki síður styrkleika hans við forystu Sjálfstæðisflokksins í gegnum árin.

Davíð er einstakur stjórnmálamaður, einn öflugasti stjórnmálamaður í stjórnmálasögu landsins. Við sem höfum alist upp við forystu Davíðs og unnið í Sjálfstæðisflokknum til fjölda ára undir forystu hans erum honum mjög þakklát fyrir störf hans og forystu. Það verða mikil þáttaskil nú þegar stjórnmálaferli hans lýkur. Íslenskt samfélag gjörbreyttist í þrettán ára forsætisráðherratíð Davíðs Oddssonar. Til sögunnar komu ný tækifæri - ný sóknarfæri hér á Íslandi. Það er til marks um hversu farsæll Davíð hefur verið að hann hefur samfellt setið í 23 ár sem borgarstjóri og ráðherra. Hann hefur notið stuðnings kjósenda og haft traust þeirra í gegnum öll verkefni þessara ára og pólitísku forystuna sem hann hefur veitt. Við þessi miklu þáttaskil vil ég fyrir mitt leyti þakka Davíð fyrir verk hans í þágu okkar og flokksins okkar. Hann getur farið af stjórnmálasviðinu hnarreistur - hans ævistarf í stjórnmálum er glæsilegt. Ég óska honum góðs gengis á nýjum vettvangi.

Takk Davíð!

Geir H. Haarde utanríkisráðherra

Geir H. Haarde varaformaður Sjálfstæðisflokksins, tók við embætti utanríkisráðherra af Davíð Oddssyni á ríkisráðsfundinum á Bessastöðum í dag. Geir hefur gefið kost á sér til formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi í október og er alveg ljóst að hann mun taka við forystu flokksins af Davíð á landsfundi. Geir er mjög reyndur stjórnmálamaður. Hann hefur setið á þingi frá árinu 1987 og hefur aðeins Halldór Blöndal forseti Alþingis, setið lengur í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Geir hefur verið varaformaður flokksins í sex ár, en hann var kjörinn varaformaður með yfirburðum á landsfundi flokksins í aðdraganda þingkosninganna árið 1999, og hafði verið fjármálaráðherra, lengur en nokkur annar í íslenskri stjórnmálasögu, frá 16. apríl 1998, eða í rúm sjö ár er hann lét af því embætti í dag. Nú hefur Geir semsagt tekið við embætti utanríkisráðherra og tekið við nýjum verkefnum eftir farsælan feril í fjármálaráðuneytinu. Verður fróðlegt að fylgjast með Geir í nýju hlutverki í íslenskum stjórnmálum, nú þegar hann tekur við utanríkismálunum og fljótlega við forystu Sjálfstæðisflokksins. Ég vil óska Geir góðs í því sem við tekur eftir að hann tekur við formennsku flokksins og vona að honum muni ganga vel í því stóra verkefni sem óneitanlega bíður hans er hann tekur við forystu Sjálfstæðisflokksins af farsælasta foringja okkar flokksmanna, Davíð Oddssyni.

Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra

Einar K. Guðfinnsson alþingismaður og fyrrum þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, tók við embætti sjávarútvegsráðherra af Árna M. Mathiesen í dag. Einar Kristinn er mjög reyndur stjórnmálamaður og hefur verið lengi í stjórnmálum. Hann var kjörinn á þing í kosningunum árið 1991 og hefur setið þar síðan, til ársins 2003 fyrir Vestfjarðakjördæmi og síðan fyrir Norðvesturkjördæmi. Hann sat sem formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins í tvö ár, frá vorinu 2003 til gærdagsins. Hann var formaður samgöngunefndar Alþingis 1995-1999, formaður sjávarútvegsnefndar 1999-2003 og formaður efnahags- og viðskiptanefndar í nokkra mánuði árið 2003 og hefur setið í fjölda þingnefnda. Einar Kristinn hefur verið áberandi í forystusveit Sjálfstæðisflokksins til fjölda ára og notið mikils trausts í störfum sínum. Það er tímabært að hann taki sæti í ríkisstjórn og er viðeigandi að hann gegni sjávarútvegsráðuneytinu, vegna þekkingar sinnar á málaflokknum. Það eru vissulega þáttaskil að Vestfirðingur taki við ráðuneytinu en það hefur ekki gerst síðan að Matthías Bjarnason gegndi embættinu á áttunda áratugnum. Ég vil nota tækifærið og óska Einari góðs í störfum sínum í ráðuneytinu.

Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra

Árni M. Mathiesen tók í dag við embætti fjármálaráðherra af Geir H. Haarde utanríkisráðherra. Árni hefur verið á þingi til fjölda ára. Hann sat á þingi fyrir Reykjaneskjördæmi árin 1991-2003 og frá þeim tíma fyrir Suðvesturkjördæmi. Hann hefur verið leiðtogi Sjálfstæðisflokksins á kragasvæðinu frá árinu 1999, en þá vann hann spennandi prófkjör flokksins í hinu gamla Reykjaneskjördæmi. Er hann sonur Matthíasar Á. Mathiesen fyrrum ráðherra og þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Var Matthías fjármálaráðherra í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar árin 1974-1978. 27 árum eftir að Matthías lætur af embætti fjármálaráðherra tekur því sonur hans við embættinu. Eru þeir fyrstu feðgarnir sem gegna embætti fjármálaráðherra. Verður fróðlegt að fylgjast með Árna í störfum sínum í ráðuneytinu. Í næstu viku er komið að fyrsta lykilverkefni hans í embætti, en hann mun þá leggja fram fjárlagafrumvarp ársins 2006 og mæla fyrir því á þingi. Ég vil nota tækifærið og óska Árna til hamingju með fjármálaráðherrastólinn og óska honum heilla í verkum sínum á nýjum vettvangi. Það verður athyglisvert að fylgjast með honum í nýju hlutverki við að kynna fjárlögin í næstu viku.

Arnbjörg Sveinsdóttir þingflokksformaður

Á þingflokksfundi í Valhöll í gær var Arnbjörg Sveinsdóttir alþingismaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, kjörin formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins í stað Einars K. Guðfinnssonar sjávarútvegsráðherra, sem gegnt hefur formennsku í þingflokknum frá vorinu 2003. Arnbjörg hefur setið á þingi í áratug. Hún var alþingismaður Austurlandskjördæmis árin 1995-2003 og hefur setið á þingi fyrir hið nýja Norðausturkjördæmi frá 1. janúar 2004. Arnbjörg er mjög vinnusöm og hefur unnið af krafti, verið í fjölda nefnda og leitt fjölda verkefna af hálfu flokksins þann áratug sem hún hefur setið á þingi. Abba nýtur mikils trausts innan flokksins og meðal þingmanna í þingflokknum. Það sannast með þessu vali. Ég fagna því að henni sé treyst fyrir formennsku í þingflokknum okkar. Hún á það svo sannarlega skilið. Abba er heilsteypt og traust kona sem ég hef unnið með í nokkurn tíma hér í kjördæminu. Fagna ég mjög því að hún leiði þingflokkinn næstu árin. Óska ég henni innilega til hamingju með þetta.

Saga dagsins
1968 Söngleikurinn Hárið frumsýndur í London - varð einn af vinsælustu söngleikjum aldarinnar.
1981 Sr. Pétur Sigurgeirsson, 62 ára sóknarprestur á Akureyri og vígslubiskup á Hólum, kjörinn biskup Íslands. Pétur hlaut aðeins einu atkvæði fleira í biskupskjöri en sr. Ólafur Skúlason. Pétur gegndi embætti biskups allt til ársins 1989, en þá var Ólafur Skúlason kjörinn eftirmaður hans sem biskup.
1996 Talibanar ná fullri stjórn í Kabúl, höfuðborg Afganistans, og hengdu Mohammad Najibullah fyrrum forseta landsins, og samverkamenn - stjórn Talibana var svo felld af Bandaríkjamönnum 2001.
1998 16 ára viðburðaríkum valdaferli Helmut Kohl sem kanslara Þýskalands lýkur formlega, er Gerhard Schröder tekur við embætti kanslara í Þýskalandi. Kristilegi demókrataflokkurinn tapaði í þingkosningum fyrir Sósíaldemókrataflokki Schröders. Kohl hætti í kjölfarið þátttöku í stjórnmálum.
1999 Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, datt af hestbaki og axlarbrotnaði þegar hann var í útreiðartúr með vinkonu sinni, Dorrit Moussaieff - þau giftust á sextugsafmæli hans, 14. maí 2003.

Snjallyrðið
Þegar raunir þjaka mig
þróttur andans dvínar.
Þegar ég á aðeins þig,
einn með sorgir mínar,
gef mér kærleik - gef mér trú,
gef mér skilning hér og nú.
Ljúfi Drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni.
Láttu ætíð ljós frá þér,
ljóma í sálu minni.
Gísli Gíslason frá Uppsölum í Selárdal (1907-1986) (Lífsins kærleikur)

Fallegt ljóð eftir einbúann Gísla frá Uppsölum sem varð landsfrægur þegar að Ómar Ragnarsson gerði sjónvarpsþátt um hann á níunda áratugnum. Ljóð frá hjartanu - innstu rót tilverunnar.

25 september 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um kjördæmisþing okkar sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi, sem haldið var í Mývatnssveit um helgina. Á kjördæmisþinginu fluttu þingmenn Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, þau Halldór Blöndal forseti Alþingis, og Arnbjörg Sveinsdóttir varaformaður þingflokksins, yfirgripsmiklar og ítarlegar ræður. Gunnar Ragnars lét á kjördæmisþinginu af formennsku í kjördæmisráðinu. Hann var síðasti formaður kjördæmisráðsins í Norðurlandskjördæmi eystra og fyrsti formaður í kjördæmisráðinu í hinu nýja Norðausturkjördæmi allt frá árinu 2001. Í stað Gunnars var Guðmundur Skarphéðinsson á Siglufirði kjörinn formaður kjördæmisráðsins. Guðmundur var síðasti formaður kjördæmisráðsins í Norðurlandskjördæmi vestra og hefur verið gjaldkeri stjórnar kjördæmisráðsins í Norðausturkjördæmi frá stofnun þess árið 2001. Á kjördæmisþinginu stofnuðum við ungliðar í Norðausturkjördæmi kjördæmisfélag okkar. Var ég kjörinn fyrsti formaður þess. Framundan eru þar mörg mikilvæg verkefni, eins og ég minnti á í ræðu sem ég flutti á kjördæmisþinginu.

- í öðru lagi fjalla ég um málefni umsóknar Íslands í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Ég lít svo á að þetta mál sé komið á miklar villigötur - og var það orðið illa strandað og vandræðalegt fyrir. Möguleikar okkar á sætinu minnka sífellt og málið er að mjög litlu leyti heillandi. Kosningabaráttunni fylgir geypilegur kostnaður við baráttuna og ekki síður þegar og ef sætinu er náð (sem sífellt minni líkur eru á að komi til). Ég get ekki annað en tjáð andstöðu mína við málið og ber fram þá ósk að Sjálfstæðisflokkurinn muni beita sér í þá átt að horft verði í aðrar áttir og hætt verði við þessa umsókn með formlegum hætti. Við eigum að horfa í aðrar áttir - og eyða milljarði af peningum okkar í eitthvað þarfara en lobbýisma og flottræfilshátt í auglýsingabransa.

- í þriðja lagi fjalla ég um góða stöðu okkar sjálfstæðismanna í borginni, í kjölfar nýrrar skoðanakönnunar. Mælist flokkurinn þar með rúmlega 56% fylgi. Er þetta í fyrsta skipti í einn og hálfan áratug sem Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur meira en 55% atkvæða í könnun Gallups á fylgi flokkanna í borginni. Ef þetta yrðu úrslit kosninga yrðu þetta fjórðu bestu kosningaúrslit Sjálfstæðisflokksins í sögu hans. Aðeins árin 1958, 1974 og 1990 hefur flokkurinn hlotið meira en 55% fylgi. Það blandast engum hugur um það sem lítur á þessa könnun að vatnaskil eru að verða í borgarmálunum.


Kjördæmisþing að Mývatni

Halldór, Arnbjörg og Kristján Þór

Kjördæmisþing Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi var haldið í Skjólbrekku í Mývatnssveit um helgina. Voru þar saman komnir fulltrúar sjálfstæðisfélaga allt frá Siglufirði austur á Djúpavog. Fundarstjóri var Hrafnkell A. Jónsson formaður fulltrúaráðs flokksins á Fljótsdalshéraði og var Anna Blöndal stjórnarmaður í fulltrúaráðinu hér á Akureyri, fundarritari. Í stjórn kjördæmisráðs voru kjörin Guðmundur Skarphéðinsson, Gunnar Ragnars, Jónas Þór Jóhannsson, Jóhanna H. Ragnarsdóttir, Jón Helgi Björnsson, Maríanna Jóhannsdóttir og Árni Helgason. Var Guðmundur kjörinn formaður í stað Gunnars Ragnars sem áfram verður í stjórn. Var ég endurkjörinn til setu í varastjórn kjördæmisráðsins, en ég tók þar sæti á kjördæmisþinginu fyrir tæpu ári. Mun ég því verða virkur í flokksstarfinu á vettvangi kjördæmisins á næstunni, eins og verið hefur. Helgin á Mývatni var mjög gagnleg og góð, alltaf er gaman að hitta pólitíska samherja sína úr kjördæminu, sérstaklega Austfirðingana sem maður hittir of sjaldan til að ræða málin við. Á laugardagskvöldinu borðuðum við saman á Hótel Seli og áttum glaða og góða stund undir öruggri veislustjórn Halldórs Blöndals forseta Alþingis.

Heiðursgestur okkar var Kjartan Gunnarsson framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Flutti hann ræðu á kjördæmisþinginu og talaði um þau verkefni sem framundan eru í flokksstarfinu. Jafnframt fjallaði hann um mál málanna á þessum degi sem hann kom á okkar fund: Baugsmálið og birtingu tölvupósta í Fréttablaðinu og umfjöllun um tengd málefni. Var mjög ánægjulegt fyrir okkur að fá Kjartan Gunnarsson til okkar á kjördæmisþingið og heyra í honum um það sem framundan er. Var mjög gaman að ræða við hann og fara yfir stöðu mála hvað varðar flokksstarfið og tengd málefni. Eins og öllum er kunnugt mun Davíð Oddsson formaður Sjálfstæðisflokksins, láta af ráðherraembætti og þingmennsku á þriðjudag. Hann hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs í formannsstól Sjálfstæðisflokksins á landsfundi eftir þrjár vikur. Á fundinum fjölluðu ræðumenn um feril Davíðs og verk hans í stjórnmálum. Er við hæfi að við minnumst verka hans í þágu flokksins við þau þáttaskil að hann hættir í stjórnmálum. Það er alltaf gaman að hittast og styrkja böndin og efna til kynna við nýtt fólk í flokksstarfinu. Þetta kjördæmisþing var eins og öll hin fyrri að því leyti.

Á kjördæmisþinginu flutti ég ávarp og fór yfir þau mál sem ég taldi mikilvægast að fara yfir. Gerði ég í upphafi að umfjöllunarefni að þáttaskilin í flokknum mörkuðu mikil tímamót en í þeim fælust viss tækifæri til að efla flokkinn og sækja fram á nýjum forsendum. Minntist ég á það að framundan væru tvær kosningar – mikilvægt væri að þær myndu vinnast vel og sameinaðar af krafti af okkar hálfu. Tilkynnti ég í ræðu minni um þá ákvörðun formanna ungliðafélaga Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi að stofna ungliðahreyfingu flokksins í kjördæminu. Er það mikilvægt verkefni – það skiptir lykilmáli að efla tengslin milli svæðanna í kjördæminu og vinna af miklum krafti í öllu flokksstarfinu. Sóknarfærin liggja að sjálfsögðu í því að virkja ungt fólk til verka og hafa vettvang til að vinna saman á kjördæmavísu. Var ég kjörinn fyrsti formaður ungliðahreyfingar flokksins í Norðausturkjördæmi. Með mér í stjórn sitja formenn annarra ungliðafélaga í kjördæminu og stjórnarmenn kjördæmisins í Sambandi ungra sjálfstæðismanna. Verður Gunnar Ragnar Jónsson formaður Hávarrs í S-Múlasýslu, varaformaður stjórnarinnar, Fjóla Margrét Hrafnkelsdóttir formaður Lagarins á Fljótsdalshéraði, er gjaldkeri, og Inga Hrefna Sveinbjarnardóttir formaður Óðins á Seyðisfirði, var valin ritari.

Hlakkar mér mjög til að vinna með þeim og öðrum sem sæti eiga í stjórn í þeim verkefnum sem framundan eru í starfinu. Það skiptir okkur mjög miklu máli að hafa þennan vettvang til verka og geta þar unnið saman, talað saman og sinna þeim lykilmálum sem við teljum mikilvægt að leggja áherslu á. Fann ég á fundinum hversu fólk var ánægt með þessa ákvörðun okkar forystufólks ungliðanna í Norðausturkjördæmi. Næg verkefni eru framundan – kraftmikil vinna sem ég vil taka þátt í og við öll. Við viljum efla heildina okkar og teljum okkur sýna öðrum flokksmönnum gott fordæmi með því að taka upp öflugt samstarf og fara í þau verkefni sem blasa við. Rúmlega eitt og hálft ár eru til þingkosninga í mesta lagi – kosið verður væntanlega í maímánuði 2007. Við erum til í slaginn – viljum vinna af krafti og teljum mikilvægt að taka saman höndum. Stofnun þessa félags er okkar leið til að segja flokksmönnum, ekki bara hér í kjördæminu, heldur um allt land að ungliðahreyfingin skipti máli. Hún verði að vera virk og kraftmikil og umfram allt frjór vettvangur öflugs starfs í Sjálfstæðisflokknum á komandi árum – sem ávallt áður í 75 ára sögu Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Áttum við mjög góða kvöldstund svo eftir málsverðinn. Í dag er góðvinur minn, Gunnar Ragnar Jónsson formaður Hávarrs, tvítugur og héldum við vel upp á það á hótelinu í gærkvöldi. Var gaman að ræða saman eftir matinn við Gunnar Ragnar, Arnbjörgu, eiginmann hennar Garðar Rúnar Sigurgeirsson, og góðvinkonu mína Guðlaugu Sigurðardóttur, sem hefur verið virk í flokksstarfinu hér á Akureyri til fjölda ára. Vægt er til orða tekið að veðrið hafi verið kalt á þessum haustdegi að Mývatni. Ekki var neitt svosem að færðinni austur í Mývatnssveit. Hægt að fara Víkurskarðið þá og allt að mestu leyti ágætt. Meðan að fundurinn stóð kom snjóbylur og kalsaveður. Var því gott að geta bara gist að Hótel Seli og haft það gott þar um kvöldið. Er haldið var svo af stað í gærmorgun var kominn vænn snjór þarna fyrir austan.

Gekk brösuglega fyrir okkur Gunnar Ragnar að komast aftur til Akureyrar. Vorum við í samfloti með Öbbu, Garðari Rúnari og Gullu á leiðinni til baka. Víkurskarðið var þá orðið ófært og fara varð fyrir Dalsmynnið, eins skemmtilegt og það er, eða hitt þó heldur. Nú er leitt að Vaðlaheiðargöngin séu ekki komin til sögunnar - en þau eru komin á kortið sem betur fer og verða brátt að veruleika. En það gekk vel að komast heim, þó seinlegt væri. Merkilegt að það sé bara 25. september og komin þessi kuldatíð. En í heildina var helgin hin allra besta.

Snjallyrðið
Hver dagur lífs míns langur er,
en loksins þegar kvölda fer
ég kem hér inn.
Og hver einn smæsti hlutur hér
er helgidómur sem með þér,
ég keypti eitt sinn.

Þinn andi býr í öllu hér
og um þig talar hlutur hver
sitt þögla mál.
Blái stóllinn bekknum hjá
og blómið gluggasyllunni á
og brotin skál.

Þín mynd við mér brosir,
þó burtu sért þú.
Ó svo björt er þín minning:
hún lýsir mér nú.
Að sumri okkar samleið þraut
og sólin skein er hvarfstu á braut,
en samt varð kalt.

Svo þokast áfram árin löng,
en alltaf man ég gamlan söng
um ást og trú.
Iðunn Steinsdóttir rithöfundur (Myndin af þér)

Hugljúft ljóð - lagið við ljóðið varð ódauðlegt í túlkun Vilhjálms Vilhjálmssonar.

23 september 2005

Punktar dagsins
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins

Ef marka má nýja skoðanakönnun Gallups hlyti Sjálfstæðisflokkurinn 56,1% atkvæða og 9 borgarfulltrúa kjörna ef kosið væri til borgarstjórnar nú. Er þetta í fyrsta skipti í einn og hálfan áratug sem Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur meira en 55% atkvæða í könnun Gallups á fylgi flokkanna í borginni. Ef þetta yrðu úrslit kosninga yrðu þetta fjórðu bestu kosningaúrslit Sjálfstæðisflokksins í sögu hans. Aðeins árin 1958, 1974 og 1990 hefur flokkurinn hlotið meira en 55% fylgi. Stærsti kosningasigur Sjálfstæðisflokksins í borgarmálum var fyrir fimmtán árum er Davíð Oddsson leiddi flokkinn sem borgarstjóri í sínum þriðju kosningum til afgerandi sigurs, er hann hlaut rúm 60% atkvæða og tíu borgarfulltrúa kjörna. Það blandast engum hugur um það sem lítur á þessa könnun að vatnaskil eru að verða í borgarmálunum. Vinstrimeirihlutinn í borgarstjórn er enda samkvæmt þessum tölum kolfallinn og víðsfjarri því að eiga möguleika á að halda sínu, með sex borgarfulltrúa inni. Samfylkingin fengi 27,8% og 4 borgarfulltrúa og VG hefur 11,4% og 2 borgarfulltrúa. Lífakkeri hins steindauða R-lista, Framsóknarflokkurinn, er heillum horfinn með fyrrum heillagrip R-listans, Alfreð Þorsteinsson í forystu og mælist með tæp þrjú prósent. Frjálslyndir hafa tæp 2%. Hvorki Framsóknarflokkurinn né Frjálslyndir fengju kjörinn borgarfulltrúa.

Þessi könnun er nokkuð öflug - 1.270 borgarbúar í úrtakinu og svarhlutfall rúm 60% Aðeins tæp 10% neituðu að svara, 21,5% voru óákveðin. Var könnunin kynnt fyrst á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. Þar voru mætt til að ræða könnunina, þau Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri í Reykjavík og borgarfulltrúi Samfylkingarinnar. Vilhjálmur Þ. var skiljanlega mjög ánægður með tölurnar og sagðist þakklátur Reykvíkingum fyrir stuðninginn sem fram kæmi í könnuninni. Greinilegt var að borgarstjórinn var verulega fúl með tölurnar þarna í morgunsárið og átti mjög erfitt með að leyna gremju sinni. Það er svosem skiljanlegt að hún sé fúl með þá stöðu sem komin er upp, og mælist í hverri könnuninni á eftir annarri. Var hún með hinar og þessar fýlubombur á lofti vegna stöðunnar. Er ekki fjarri því að hún neiti að horfast í augu við þá einföldu staðreynd málsins að borgarbúar séu búnir að fá einfaldlega nóg af stjórn vinstriaflanna sem unnu saman í rúman áratug undir merkjum R-listans, sem nú hefur liðið undir lok. Fólk vill breytingar - uppstokkun á stöðu mála. Það er ekkert undrunarefni þegar litið er á "afrek" valdaferils R-listans. Það blandast allavega engum hugur sem sér þessa könnun að borgarbúar eru að kalla á breytingar við stjórn borgarinnar.

Merkilegast af öllu er að heyra komment þeirra sem leitt hafa flokkana sem myndað hafa R-listann. Þau hafa jafnan verið glaðhlakkaleg en eru vandræðaleg nú. Kostulegastur er Alfreð Þorsteinsson sem sagði varðandi könnunina að kosningabaráttan væri ekki hafin að fullu. Þetta er vandræðalegt komment - enda er baráttan um borgina þegar hafin og prófkjör framundan hjá VG og Sjálfstæðisflokknum. Þeir sem segja að slagurinn sé ekki hafinn eru þeir sem þora ekki að hefja slaginn væntanlega. Verkin eftir R-listann eru nú dæmd eftir tólf ára valdaferil í þessari skoðanakönnun sem mælir stöðuna og landslagið nú alveg afdráttarlaust. Borgarbúar hafa fengið nóg af vinstristjórninni í borginni og vilja skipta um forystu. Það undrast fáir, það þýðir ekki fyrir vinstriöflin að flýja R-listann til að reyna að halda völdum. Það stoðar lítið. Forysta R-listans í þrjú kjörtímabil skilur eftir sig næg verkefni og fjölda úrlausnarefna, sem brýnt er að takast á við. Þeir sem kynna sér lykilmálefni borgarinnar sjá ókláruð verkefni - áskoranir um að gera betur og taka af skarið. Gott dæmi um það eru skipulagsmálin. En þessi könnun sýnir okkur þáttaskil í borgarmálunum - nýtt landslag. Nú er brýnt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vinna af krafti - og vinna þessar kosningar með miklum glæsibrag.

Forrest Gump

Ein af mínum uppáhaldsmyndum er óskarsverðlaunamyndin Forrest Gump. Horfði ég á hana í gærkvöldi mér til gamans. Einstök og hugljúf mynd sem er ein af bestu kvikmyndum tíunda áratugarins að mínu mati - á sér ljúfar minningar í huga mér. Hún hlaut sex óskarsverðlaun árið 1994, þ.á.m. sem besta kvikmynd ársins. Tom Hanks hlaut sinn annan óskar fyrir túlkun sína á söguhetjunni. Frammistaða Hanks í hlutverki Forrests er einstök í þessari rómuðu kvikmynd leikstjórans Roberts Zemeckis, en hún hlaut metaðsókn og orkaði dýpra á áhorfendur en nokkur önnur kvikmynd á fyrri hluta áratugarins. Tónlist Alan Silvestri í myndinni er unaðslega falleg. Forrest Gump lifir á miklum umbrotatímum sem umbreyta lífi hans; úr bækluðum drengstaula í ruðningsstjörnu, úr hetju í Víetnam í rækjujöfur, frá heiðrunarathöfn forseta Bandaríkjanna í Hvíta húsinu í faðm Jennyar, stúlkunnar sem hann elskar. Forrest er holdgervingur tiltekins tímabils 20. aldarinnar; sakleysingi á reiki meðal þjóðar sem er að glata sakleysi sínu. Í hjarta sínu skynjar hann það sem er takmarkaðri greind hans um megn. Siðgæðisáttaviti hans bendir ætíð í rétta átt. Sigrar Forrests eru okkur öllum innblástur. Forrest Gump er tvímælalaust í hópi lykilmynda kvikmyndasögu seinustu áratuga. Sagan af Forrest Gump og ævi hans er einstök - hana verða allir að sjá.

Andy Griffith í hlutverk Ben Matlock

Eflaust muna allir vel eftir Ben Matlock, lögfræðingnum sérvitra í blágráu jakkafötunum í Atlanta í Georgíu-fylki í Bandaríkjunum. Hann var aðalsögupersóna ógleymanlegs sakamálaþáttar sem bar einfaldlega heitið Matlock. Þátturinn naut gríðarlegra vinsælda og gekk samfellt í bandarísku sjónvarpi í áratug, árin 1986-1995. Ég var mikill aðdáandi þessa þáttar og missti aldrei þátt úr. Þetta var að mínu mati einn besti sakamálaþáttur í bandarísku sjónvarpi hin seinni ár og mjög áhugaverður. Hann átti enda sína tryggu aðdáendur um allan heim. Þeir voru margir hér heima á Íslandi sem með honum fylgdust. Þættirnir um Matlock fylgdu manni í mörg ár. Á ég fjölda af þáttunum og horfi stundum á þá. Þeir verða aldrei úreldir eða lélegir. Með hlutverk Matlocks fór leikarinn Andy Griffith. Gæddi hann karakterinn alveg mögnuðu lífi - fór á kostum í hlutverkinu. Á miðvikudagsmorgun fjallaði Akureyringurinn Helgi Már Barðason ritstjóri vefritsins akureyri.net, um þættina í þætti sínum Pipar og salt, og lék tónlist tengda Andy Griffith og þáttunum hans. Vakti það upp vissar minningar og ég dró gamla Matlock-þætti fram úr geymslunni og rifjaði upp þessa merkilegu þætti. Var það mjög gaman - vægast sagt. Þessir þættir verða ekki síðri með árunum - klassík í bandarískri sjónvarpssögu.

Sjálfstæðisflokkurinn

Í dag er ár liðið síðan ég tók við formennsku í Verði, félagi ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Það hefur gengið vel á þessu ári - og höfum við unnið vel saman í þeim stjórnum sem ég hef leitt þetta árið. Verkefnin eru næg framundan, brátt hefst formlegur undirbúningur sveitarstjórnarkosninganna hér. Það fer allt á fullt að loknum sameiningarkosningum að fara í þau mál. Verkefnið sem er framundan er stofnun kjördæmisfélags ungliða Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi. Þau verða stofnuð á kjördæmisþingi Sjálfstæðisflokksins í Mývatnssveit á morgun. Höfum við formenn ungliðafélaganna í kjördæminu ákveðið að stefna að stofnun þessa félags - með því fáum við öflugan og góðan vettvang til samstarfs á vegum kjördæmastarfsins í aðdraganda tveggja kosninga, bæði til sveitarstjórna og Alþingis. Hlakka ég til samstarfsins við ungliða um allt kjördæmið og góðs samstarfs í þeim verkefnum sem mestu skipta hér.

Dagskrá kjördæmisþings Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi - 24. september 2005

Úrslit þýsku kosninganna séð í skondnu ljósi

Þjóðverjar gengu að kjörborðinu á sunnudag. Niðurstaðan varð pattstaða þar sem ekkert augljóst stjórnarmynstur blasir við og báðir leiðtogar stóru flokkanna, Merkel og Schröder, gerðu tilkall til kanslarastólsins. Pólitísk kreppa er í Þýskalandi eftir kosningarnar. Skopmyndateiknarar Guardian voru ekki lengi að sjá spaugilegu hliðina á því.

Saga dagsins
1241 Snorri Sturluson var veginn í Reykholti í Borgarfirði, 63 ára gamall. Snorri var þá goðorðs- og lögsögumaður og var valdamikill á Sturlungaöld. Hann varð einn af virtustu rithöfundum þjóðarinnar.
1943 Alþingi var afhent áskorun frá 270 manns um að slíta ekki konungssambandi við Danmörku að óbreyttum aðstæðum (stríðinu). Ekki var orðið við áskorunum og lýðveldið Ísland stofnað ári síðar.
1952 Leikarinn Charles Chaplin snýr aftur til Bretlands, eftir tveggja áratuga dvöl í Bandaríkjunum.
1973 Juan Peron snýr aftur til Argentínu eftir 20 ára útlegð, varð á ný forseti landsins. Peron lést tæpu ári síðar og tók ekkja hans, Isabel Peron, við embætti hans, henni var steypt af stóli 1976.
1994 Minnismerki var afhjúpað formlega á Öxnadalsheiði í tilefni þess að Halldór Blöndal þáverandi samgönguráðherra, vígði síðasta malbikaða hlutann á þjóðveginum á milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Snjallyrðið
Um undrageim í himinveldi háu
nú hverfur sól og kveður jarðar glaum.
Á fegra landi gróa blómin bláu
í bjartri dögg við lífsins helgan straum.
Þar dvelur mey hjá dimmu fossa tali
og drauma vekur purpurans í blæ
og norðurljósið hylur helga sali,
þar hnígur sólin aldrei niður í sæ.

Þar rísa bjartar hallir sem ei hrynja
og hreimur sætur fyllir bogagöng
en langt í fjarska foldar þrumur drynja
með fimbulbassa undir helgum söng.
Og gullinn strengur gígju veldur hljóði
og glitrar títt um eilíft sumarkvöld,
þar roðnar aldrei sverð af banablóði,
þar byggir gyðjan mín sín himintjöld.
Benedikt Gröndal (1826-1907) (Gígjan)

Fallegt ljóð - tært og sætt í gegn.

21 september 2005

Punktar dagsins
Davíð Oddsson utanríkisráðherra

Davíð Oddsson utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York í gærkvöldi. Er þetta í síðasta skipti sem Davíð kemur fyrir allsherjarþingið og flytur þar ræðu, en hann hættir eins og flestir vita þátttöku í stjórnmálum nú í haust. Lætur hann af embætti utanríkisráðherra á þriðjudag og hættir formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi um miðjan næsta mánuð. Í ræðu sinni fór Davíð yfir fjölda mála. Tók hann mun vægar til orða hvað varðar málefni umsóknar Íslands um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna en Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, gerði fyrir tæpri viku er hann ávarpaði allsherjarþingið. Kom fram í máli Davíðs að Ísland hefði sýnt áhuga á þátttöku í Öryggisráðinu árin 2009-2010 en nefndi ekki framboðið beint eða lagði áherslu á það. Er það mikið ánægjuefni að Davíð hafi verið varfærnari en Halldór í ræðu sinni í New York. Davíð hefur seinustu daga óhikað tjáð andstöðu við umsókn okkar, en ekki sagst hafa talið rétt að taka ákvörðun um það enda sé hann að hætta þátttöku í stjórnmálum. Er það mitt mat að Davíð hefði átt að taka ákvörðunina strax í vor, enda þá þegar vitað að málið væri komið í verulegar ógöngur og séð fram á andstöðu við málið innan stjórnarflokkanna, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokksins.

Tjáði hann reyndar efasemdarraddir í vor þegar að hann flutti þinginu skýrslu sína um utanríkismál og var orðinn mjög efins um framboðið undir lok ráðherraferilsins. Í ræðu sinni lýsti Davíð yfir vonbrigðum með að ekki hefði náðst samstaða um fjölgun ríkja í öryggisráðinu og umfangsmikla endurreisn SÞ, en mjög hefur hallað á hana sem stofnun seinustu árin vegna hneykslismála og fjárhagsvandræða. Var Davíð ekki að hika við að tjá áhyggjur sínar um að engin niðurstaða stæði eftir vatnið. Kom fram í máli hans að skjalið sem samþykkt var í lok fundar hafi verið mjög útvatnað og sagði Davíð að þrátt fyrir að flest gildi sem fram komi í stofnsáttmálanum séu staðfest í lokaskjalinu þá væri það skoðun íslenskra stjórnvalda að mannréttindum og ábyrgð ríkja, eða leiðtoga þeirra, gagnvart borgurum sínum hafi ekki verið gerð nægilega góð skil. Hann sagði íslensk stjórnvöld telja alþjóðasamfélagið bera ábyrgð gagnvart ríkjum sem bregðast borgurum sínum, ríki þar sem framin eru mannréttindabrot á borgurum eða þjóðarmorð. Sagði Davíð að Öryggisráðið og aðrar stofnanir hafi þá lykilskyldu umfram allt að bregðast við slíkum brotum gegn borgurum.

Í ræðu Davíðs kom fram að íslensk stjórnvöld styðji stofnun lýðræðissjóðs Sameinuðu þjóðanna og muni leggja í hann fé. Davíð lýsti einnig yfir stuðningi Íslands við endurbætur á mannréttindaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. Segja má að ræðan hafi verið eitt síðasta embættisverk Davíðs sem utanríkisráðherra og forystumanns í stjórnmálum, en eins og fyrr segir lýkur ráðherraferli Davíðs í næstu viku og þátttöku hans í stjórnmálum lýkur brátt. Mikil þáttaskil fylgja brotthvarfi hans úr stjórnmálum - hinsvegar verður lítil breyting á utanríkisstefnu þjóðarinnar með nýjum utanríkisráðherra.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra

Greinilegt er á tíðindum síðustu daga að staða Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra, hefur veikst verulega innan síns eigin flokks. Kemur þetta vel fram í fréttaskýringu í Fréttablaðinu á mánudag. Innsti kjarni stuðningsmanna flokksins finnst Halldór hafa veikst og hafi lítið samráð við þingflokk og forystu í stórmálum. Kristallast þessi óánægja vel í máli málanna þessa dagana í pólitíkinni hér heima: umsókn Íslands um sæti í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna árin 2009-2010. Það blandast engum hugur um það eftir atburði seinustu daga að deilt er um málið innan Framsóknarflokksins. Það hefur komið vel fram seinustu daga. Ef marka má heimildarmenn Fréttablaðsins þykir þeim að Halldór eigi að víkja af forystu flokksins og þar þurfi að stokka upp. Koma þessar efasemdarraddir um forystu Halldórs engum á óvart. Á því ári sem hann hefur setið í forsæti ríkisstjórnar Íslands hefur hann sífellt veikst sem forystumaður Framsóknarflokksins. Flest virðist hafa gengið Halldóri Ásgrímssyni í óhag sem forsætisráðherra, á því sem margir höfðu áður talið að myndi verða mesti hápunktur stjórnmálaferils hans. Flokkurinn hefur gengið í gegnum hvert áfallið á þessu síðastliðna ári: hann mælist ekki vel í skoðanakönnunum og persónulegt fylgi við Halldór er í sögulegu lágmarki hvað varðar vinsældir forsætisráðherra Íslands.

Best kom veik staða Halldórs fram við lok flokksþings Framsóknarflokksins í mars er forysta flokksins var kjörin. Þá hlaut Halldór rúm 80% atkvæða, um 16% minna fylgi en á síðasta flokksþingi fyrir það. Segir það eflaust margt um stöðu Halldórs að hann hlaut lakari kosningu í embætti flokksformanns eftir að hann tók við embætti forsætisráðherra, en sem utanríkisráðherra, er hann var meira erlendis og fjarri innra starfinu beint. Þetta þótti mjög athyglisverð niðurstaða. Við blasir að ástandið í Framsóknarflokknum er eldfimt. Raunveruleg átök um völd og áhrif munu væntanlega verða á næsta flokksþingi, sem haldið verður á kosningaári, á árinu 2007. Hinn brothætti Framsóknarflokkur á því væntanlega erfiða tíma framundan hvað varðar þessi mál. Átökin þar virðast rétt að hefjast. Fyrir liggur að átakalínurnar eru víða og flokkurinn horfir brothættur fram á veginn til þess uppgjörs sem verður fyrir lok kjörtímabilsins um stefnu og áherslur flokksins. Svo verður fróðlegt að sjá hvort samstarf flokkanna breytist, nú er Davíð Oddsson hættir þátttöku í stjórnmálum. Framsóknarflokkurinn og Halldór eru allavega á vissum þáttaskilum, nú þegar hann hefur setið í forsæti ríkisstjórnar Íslands í nákvæmlega ár.

Verður fróðlegt að fylgjast með stjórnmálaferli Halldórs á næstu árum og fylgjast þá einkum með því hvort hann muni leiða flokkinn framyfir næstu þingkosningar, eða víkja af pólitíska sviðinu á kjörtímabilinu eins og Davíð Oddsson. Ef marka má heimildarmenn Fréttablaðsins (sem virðast jafnvel koma úr innsta hring) telja þeir að Halldór eigi að víkja fyrir kosningar og kjósa eigi nýja forystu vel fyrir alþingiskosningarnar 2007. Eru þetta merkileg ummæli - og til marks um veikari stöðu Halldórs í forystu flokksins.

Jóhannes Jónsson

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í gær frá dómi ákærum í svokölluðu Baugsmáli vegna galla á málatilbúnaði ákæruvaldsins. Eins og við er að búast voru verjendur ánægðir með niðurstöðuna en forsvarsmenn ákæruvaldsins lýstu því yfir að úrskurðurinn yrði kærður til Hæstaréttar. Úrskurður héraðsdóms byggir m.a. á því að ekki sé nægilega skilgreint hvernig sakborningar eiga að hafa brotið af sér, hvernig þeir eiga að hafa auðgast á brotum og hugsanlega valdið öðrum tjóni. Lýst sé ýmsum peningafærslum og ráðstöfunum sakborninga en þær þurfi í sjálfu sér ekki að vera refsiverðar. Ákæruvaldið hefði þurft að lýsa með skýrara hætti hvernig sakborningar eiga að hafa dregið sér fé eða slegið eign sinni á það. Margar aðrar athugasemdir eru gerðar við málatilbúnað ákæruvaldsins og varða þær 4 af 6 sakborningum. Bent er á að ákærðu verði að fá að vita hvað þeim sé gefið að sök til að geta varið sig og dómari verði sömuleiðis að vita um hvað málið snúist svo hann geti lagt á það dóm. Þessi niðurstaða er mikill áfellisdómur yfir ákæruvaldinu og kemur sem mikið högg á það eftir að rannsókn hefur staðið í nokkur ár og miklu til kostað til að rannsaka málið. Þetta er auðvitað áfall fyrir þá sem lögðu málið fram - því verður ekki neitað.

Ekki er hægt að segja að niðurstaðan komi algjörlega á óvart. Dómendur höfðu fyrir nokkru gert alvarlegar athugasemdir við 18 af 40 ákæruliðum málsins. Niðurstaðan sem varð ljós í gær er með þeim hætti að verulegur hluti ákærunnar og atriða tengdum henni sé svo gallaður að ekki verði komist hjá því að vísa málinu í heild frá dómi. Hæstiréttur getur fellt úrskurð Héraðsdóms úr gildi og sagt dómnum að taka málið til efnismeðferðar, jafnvel að hluta til, það fer eftir kröfugerð ákæruvaldsins. Það verður merkilegt að sjá niðurstöðu málsins. Standi þessi dómur er ekki séð hvernig litið verði á það öðruvísi en sem rothögg á embætti Ríkislögreglustjóra. Standi þessi úrskurður þar er alveg ljóst að menn geta ekki sætt sig við að forystumenn hjá Ríkislögreglustjóra sitji áfram í embættum sínum. Svo einfalt er það bara. Áfellisdómurinn yrði svo mikill að ekki yrði framhjá honum gengið með æðstu forystumenn embættisins þar. Það er þó auðvitað réttast að niðurstöðu Hæstaréttar sé beðið. Það er reyndar svo að t.d. Össur Skarphéðinsson er farinn á taugum í málinu ef marka má kostuleg skrif og vill ekki bíða lokaniðurstöðu. Það er merkilegt að fylgjast með skrifum hans. Niðurstaðan kemur í Hæstarétti - fyrr ekki.

Elín Margrét Hallgrímsdóttir

Í dag birtist grein í Morgunblaðinu eftir vinkonu mína, Elínu Margréti Hallgrímsdóttur, en við höfum til fjölda ára starfað saman í flokksstarfinu hér á Akureyri. Þar skrifar Ella Magga um málefni Reykjavíkurflugvallar, sem hefur verið aðalmálið í fréttum og pólitískri umræðu í Reykjavík seinustu vikur og verður sennilega framyfir borgarstjórnarkosningarnar á næsta ári. Er ég mjög sammála skrifum hennar og mati á málinu og hvet fólk til að lesa grein hennar, sem birtist ennfremur í dag á Íslendingi, vef flokksins hér á Akureyri. Þar segir t.d.: "Eins og umræðan um flugvöllinn hefur verið virðist sem reykvíkingar hafi gefið það frá sér að Reykjavík verði áfram höfuðborg landsins þar sem nálægð flugvallarins við opinberar þjónustustofnanir landsmanna veitir nauðsynlegt öryggi og sparar dýrmætan tíma og orku fólks. Flutningur flugvallarins úr Vatnsmýrinni er ekki einagrað mál heldur órjúfanlegt umræðu um hlutverk Reykjavíkur sem höfuðborgar landsins og opinbera stjórnsýslu þess sem nánast öll er í Reykjavík. En vissulega má hugsa sér breytingar á því."

Kristinn H. Gunnarsson

Seinustu daga hefur verið mikil umræða um merkilegan pistil eftir Kristin H. Gunnarsson alþingismann Framsóknarflokksins. Í pistlinum greinir Kristinn H. með nokkuð athyglisverðum hætti fylgissveiflur Framsóknarflokksins og beitir til þess svokölluðum kynjasjónarmiðum. Kristinn H. hefur ekki verið ófeiminn að gagnrýna forystu Framsóknarflokksins á þessu kjörtímabili og minnt nokkuð á sig. Eftir að hann missti þingflokksformennsku flokksins sumarið 2003 hefur hann verið nokkuð óþægur ljár í þúfu fyrir forystu flokksins og frægt varð er hann var tekinn með öllu út úr nefndum flokksins á þingi fyrir ári. Hann var svo síðar settur aftur í nefndir er líða tók á veturinn - sem var leið forystunnar til að semja frið við órólegu deildina í flokknum. Í pistlinum segir Kristinn að flokkurinn sé að missa fótfestu sína meðal kvenna og rekur það með merkilegum hætti. Bendi lesendum á þennan pistil - hann er nokkuð merkileg lesning í ljósi skrifanna um forsætisráðherrann hér ofar.

Saga dagsins
1918 Fyrsta konan fékk ökuskírteini, Áslaug Þorláksdóttir - þá höfðu um 80 karlar fengið skírteini.
1937 Bókin Hobbitinn eftir J.R.R. Tolkien kemur út - í kjölfarið á því kom Hringadróttinssaga út.
1974 Leikarinn Walter Brennan lést, 80 ára að aldri - hann hlaut þrenn óskarsverðlaun á ferli sínum.
1998 Myndbandsupptaka af vitnisburði Bill Clinton um samband sitt við Monicu Lewinsky, sýnd.
2000 Örn Arnarson varð í fjórða sæti í 200 metra baksundi á Ólympíuleikunum í Sydney í Ástralíu.

Snjallyrðið
Í dag eru allir svanir í sárum,
söngurinn breyttur í þagnarmál,
héla á steinum, blóð á bárum,
banvænt eitur í hverri skál.
Grasið er sölnað og ilmur enginn,
allir bátar settir í naust.
Að sævardjúpi er sólin gengin,
sumarið liðið og komið haust.

Í dag eru tár í allra augum,
allir með grátt og hélað hár,
tryggðir feigar, brestir í baugum,
barmur jarðar eitt opið sár.
Af liminu blöðin fölnuð falla,
fjúk í lofti og veðragnýr.
Skuggarnir vefjast um allt og alla.
Angistin heltekur menn og dýr.

Í dag er söngvarinn dauðahljóður,
í djúpið hrunin hver skýjaborg.
Enginn á föður, enginn móður,
enginn neitt - nema þögla sorg.
Hver von er drukknuð í brimi og bárum,
hver bátur settur og lokuð naust.
Í dag eru allir svanir í sárum,
sumarið liðið og komið haust.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Haust)

Ljóð með tilfinningu og sál - ein af ljóðaperlum Davíðs sem manna best orðaði sannar tilfinningar.

20 september 2005

Punktar dagsins
Angela MerkelGerhard Schröder

Það leikur enginn vafi á því eftir þingkosningarnar í Þýskalandi á sunnudag að gríðarleg pattstaða er komin upp í pólitíkinni þar. Hvorugri valdablokkinni tókst að ná hreinum meirihluta atkvæða og stjórn jafnaðarmanna og græningja sem setið hefur frá árinu 1998 er fallin. Óhætt er að segja að úrslit kosninganna feli í sér mestu óvissustöðu í þýskum stjórnmálum í marga áratugi. Þrátt fyrir gott gengi í skoðanakönnunum undanfarnar vikur og mánuði mistókst hægrimönnum undir forystu dr. Angelu Merkel leiðtoga CDU, að vinna þann mikla kosningasigur sem talinn var í sjónmáli. Það blandast engum hugur um það að það voru gríðarleg vonbrigði fyrir Merkel og hægrimenn að ná ekki forystunni með afgerandi hætti, eftir gott gengi seinustu vikurnar. Úrslitin eru viss ósigur fyrir hægriblokkina - því verður vart neitað. Hinsvegar hefur Merkel sterkari stöðu en aðrir flokksleiðtogar eftir kosningarnar. Hún leiðir nú stærsta flokkinn í þýska þinginu, þann flokk sem flest atkvæði hlaut í kosningunum í dag. Gerhard Schröder kanslari, var brosmildur er úrslitin lágu fyrir og var ekkert að sýna neina minnimáttarkennd. Lýsti hann yfir með glott á vör að andstæðingunum hefði mistekist það verkefni sitt að koma sér frá völdum, þeir hefðu einsett sér að taka völdin og fella stjórnina en þeir hefðu ekki haft erindi sem erfiði. Þeir hafi ekki hlotið umboð almennings.

Það er vissulega rétt hjá Schröder að hægrimönnum mistókst að vinna þann kosningasigur sem þeim var nauðsynlegur til að taka völdin með trompi. Hinsvegar eru hægrimenn í betri stöðu en kratarnir til að taka við eftir þessar kosningar. Það blandast engum hugur um það að Schröder tapaði þessum kosningum, þó vissulega hafi honum tekist á lokasprettinum að hljóta betri úrslit en spáð hafði verið. Stjórn græningja og jafnaðarmanna sem mynduð var eftir kosningasigur vinstriaflanna árið 1998 og var endurmynduð eftir nauman sigur þeirra árið 2002 er enda fallin. Það er í hróplegu ósamræmi við úrslitin að Schröder ríki áfram eins og ekkert hafi gerst. Það verður enda ekki séð svo auðveldlega hvernig hann ætlar sér að sitja áfram við völd í Þýskalandi. Óvissuþátturinn hvað varðar kanslarann er auðvitað hvort að honum tekst að mynda aðra stjórn undir sínu forsæti með samstarfi við aðra flokka. Þar er ekki um marga að ræða. Helst eru það frjálslyndir demókratar og Vinstriflokkurinn. Báðir flokkarnir hafa með öllu hafnað samstarfi við Schröder á hans skilmálum. Ekki þarf að undrast að samstarf vinstriflokksmanna og krata sé útilokað snarlega. Flokkurinn er enda leiddur af Oskari Lafontaine fyrrum flokksleiðtoga kratanna og kanslaraefni þeirra árið 1990.

Schröder og Lafontaine voru leiðtogatvíeyki kratanna í kosningunum 1998 og tókst Jafnaðarmannaflokknum að vinna þær kosningar með Schröder sem kanslaraefni en Lafontaine sem leiðtoga. Hann varð fjármálaráðherra í vinstristjórn Schröders eftir kosningarnar. Sambúð þeirra var þó skammlíf. Ári síðar sagði Lafontaine af sér ráðherratigninni og hætti sem flokksleiðtogi - eftir rokna rimmu við kanslarann og harðvítug valdaátök bakvið tjöldin. Lafontaine fór síðar úr flokknum og hefur nú tekist að stimpla sig inn með nýja flokknum og vakti að nýju á sér athygli. Þeir sem þekkja til samskipta Lafontaine og Schröders vissu allan tímann að þeir gætu ekki myndað stjórn saman. Schröder hefur enda jafnan séð svart á seinustu árum er Lafontaine er annarsvegar og sagði margoft í kosningabaráttunni að samstarf milli þeirra og hvað þá flokkanna væri ekki í stöðunni. En það er von að spurt sé nú - hver vann og hver fær að stjórna landinu? Svarið er eins og fyrr segir mjög óljós. Segja má að aðeins tvennt sé raunhæft. Fyrri kosturinn er samstjórn kristilegra demókrata, græningja og frjálslyndra demókrata (sem unnu sinn stærsta kosningasigur í þessum kosningum með um 10% fylgi). Þetta hefur þótt ólíklegt mynstur og hafa græningjar tekið fálega í hann - en hann er samt enn til staðar.

Seinni kosturinn er svo auðvitað stóra samsteypa (grosse koalition) stjórn kristilegra og krata. Það virkar rökréttast og eðlilegast í stöðunni. En þetta er ekki svo einfalt - bæði Schröder og Merkel gera tilkall til kanslaraembættisins og vilja ekki una hinu að hljóta hnossið. Það gæti því hæglega komið þarna upp mikið þrátefli. Verði engin stjórn komin til sögunnar eftir þrjár kosningar um kanslara í þinginu og tilraunir við minnihlutastjórn verður að kjósa aftur. Væntanlega gæti það verið lausnin úr þessu þrátefli sem við blasir, ef ekkert mun ganga. Þetta er döpur staða í Þýskalandi sem við blasir. Það er enda alveg ljóst eftir þessar kosningar að það er mikilvægt að mynda sterka og samhenta stjórn í Þýskalandi. Það eru mikil vonbrigði að hægrimönnum hafi ekki tekist að mynda slíka stjórn. Það þarf að taka til hendinni og fara í þau verkefni sem blasa við eftir sjö ára vinstristjórn. Mikilvægt er að kraftur sé í nýrri stjórn. Án slíks afls er framundan mikill glundroði á atvinnumarkaði, gjaldþrot og uppsagnir, algjört skuldafen og jafnvel gjaldþrot ríkiskassans. Angela Merkel talaði af krafti í kosningabaráttunni um svikin loforð vinstristjórnarinnar. Það blasir enda við að stjórn Schröders hefur algjörlega mistekist að stjórna af krafti og eftir valdatíð hennar blasa við eintóm verkefni og það sem meira er svikin loforð.

En hvernig vinna menn þessi verk af krafti í þeirri stöðu sem uppi er? Það er von að stórt sé spurt. Hver verður kanslari Þýskalands á þessum brothættu tímum í þýskum stjórnmálum - fáir vita svarið enda vilja báðir flokksleiðtogar stóru flokkanna fá hnossið. Hinsvegar blasir við viss naflaskoðun hjá báðum flokkunum enda mistókst báðum leiðtogunum að ná til kjósenda og fá skýrt umboð þeirra til að leiða þjóðina. Þar er lykilvandinn í stöðunni - það blasir við. Gríðarleg pattstaða er komin upp í þýskri pólitík – sem verður merkilegt að fylgjast með hvernig verði leyst úr á hinu pólitíska sviði.

Hópurinn á bakvið Everybody Loves Raymondi

Emmy-sjónvarpsverðlaunin voru afhend í Shrine-Auditorium í Los Angeles aðfararnótt sunnudags. Með þeim er verðlaunað helsta sjónvarpsefni í Bandaríkjunum sl. ár. Flestum að óvörum kom bandaríski gamanþátturinn Everybody Loves Raymond á óvart og hlaut verðlaunin sem besti gamanþátturinn. Þátturinn lauk göngu sinni eftir níu farsæl ár í vor og áttu fáir von á að hann myndi ná að sigra öfluga keppinauta, á borð við t.d. Desperate Housewifes og Arrested Development sem hafa hlotið mun meira umtal og athygli fjölmiðla seinustu mánuðina. En er á hólminn kom sló Ray þeim algjörlega við. Enda urðu margir hissa í salnum er úrslitin voru tilkynnt. Þetta er mikið gleðiefni, enda hef ég verið mikill unnandi þáttana um Ray Barone og fjölskyldu hans til fjölda ára. Ekki laust við að maður muni sakna þeirra - algjört eðalsjónvarpsefni. Sjónvarpsþátturinn Lost hlaut verðlaunin sem besta dramaþáttaröðin. Kemur það fáum á óvart - að mínu mati er Lost með betri dramaþáttum í sjónvarpi hin seinni ár. Stórfenglegir og spennandi þættir - gríðarlega vel gerðir. Er mikill unnandi þeirra og hef ekki misst einn einasta þátt úr. Mörgum að algjörum óvörum kom sjónvarpsmyndin Warm Springs (sem fjallar um Franklin D. Roosevelt forseta Bandaríkjanna og ævi hans) á óvart og vann verðlaunin sem besta sjónvarpsmyndin og sló við t.d. The Life and Death of Peter Sellers.

Fyrir leik í sjónvarpsmyndum hlutu verðlaunin þau Paul Newman, Geoffrey Rush, S. Epatha Merkerson og Jane Alexander. Verðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki í dramaþáttum hlutu Patricia Arquette fyrir Medium og James Spader fyrir Boston Legal. Verðlaunin fyrir aukaleik í dramaþáttum hlutu William Shatner fyrir Boston Legal og Blythe Danner fyrir Huff. Fyrir besta leik í aðalhlutverki í gamanþáttum hlutu verðlaunin þau Felicity Huffman fyrir Desperate Housewifes og Tony Shalhoub fyrir Monk. Fyrir besta leik í aukahlutverki í gamanþáttum hlutu verðlaunin þau Brad Garrett og Doris Roberts fyrir Everybody Loves Raymond. The Amazing Race var svo valinn besti raunveruleikasjónvarpsþátturinn, þriðja árið í röð. Hápunktur kvöldsins var þegar að fréttahaukarnir Peter Jennings, Dan Rather og Tom Brokaw voru heiðraðir fyrir framlag sitt til fréttamennsku í gegnum tíðina, en þeir voru aðalfréttaþulir á ABC, CBS og NBC til fjölda ára. Á síðastliðnu ári hafa þeir allir horfið á skjánum. Fluttu Brokaw og Rather flotta þakkarræðu og minntust þar Jennings, sem lést fyrr á þessu ári úr krabbameini, 67 ára að aldri. Samkvæmt venju var þetta flott verðlaunahátíð og gaman að fylgjast með glaumnum og glysinu í Hollywood.

Ásta Möller

Í næstu viku tekur Ásta Möller sæti á Alþingi í stað Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins. Verður Ásta 10. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis norður. Ásta tók fyrst sæti á Alþingi eftir alþingiskosningarnar árið 1999 og sat á þingi allt það kjörtímabil. Hún náði ekki kjöri í alþingiskosningunum 2003. Hún hefur tekið nokkrum sinnum sæti á þingi á kjörtímabilinu, enda fyrsti varamaður flokksins í RN. lengst í veikindaforföllum Davíðs sumarið 2004 og þingveturinn 2004-2005 er Davíð var að jafna sig eftir veikindin. Ásta hefur verið áberandi talsmaður flokksins í heilbrigðismálum, enda hjúkrunarfræðingur að mennt og á að baki langan feril við kennslu og hjúkrun. Hún var formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 1994-1999. Ásta var kjörin formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna fyrr á þessu ári. Hún er fjórtánda konan sem gegnir þar formennsku. Verður áhugavert að fylgjast með störfum Ástu á þingi á næstu árum. Hef ég á seinustu árum fylgst vel með pólitískum verkum Ástu og fagna því mjög að hún fari aftur á þing, enda glæsilegur fulltrúi flokksins í mörgum lykilmálum sem flokkurinn þarf að fókusera sig vel á, á komandi árum. Ég óska henni góðs gengis í störfum sínum á þingi.

Bessi Bjarnason (1930-2005)

Bessi Bjarnason leikari, var jarðsunginn í dag. Hann lést í síðustu viku, 75 ára að aldri. Með honum er fallinn í valinn einn besti leikari Íslendinga á 20. öld. Hann setti sterkan svip á íslenskt leikhúslíf og var áberandi í auglýsingum, sjónvarpsmyndum og kvikmyndum á löngum leikferli og var heiðursfélagi í Félagi leikara. Bessi fæddist í Reykjavík 5. september 1930. Hann lauk prófi frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1952 og hóf störf við leikhúsið það ár. Bessi var fastráðinn við Þjóðleikhúsið allan sinn leikferil, árin 1952-1990, en hann lét þar af störfum árið 2000. Eftirlifandi eiginkona Bessa er Margrét Guðmundsdóttir leikkona. Þau giftust eftir að þau léku saman í hinum stórfenglega gamanleik Á sama tíma að ári, á áttunda áratugnum. Við leiðarlok er Bessi Bjarnason kvaddur með söknuði. Hann var í senn ógleymanlegur leikari og sá besti á sviði gamanleiks á seinnihluta tuttugustu aldarinnar. Sannkallaður meistari sem túlkaði stórbrotna karaktera með óviðjafnanlegum hætti. Hans verður minnst fyrir ógleymanlegan hlátur og fyrir að skemmta mörgum kynslóðum Íslendinga með sjarma sínum og yndisleika. Guð blessi minningu þessa mikla heiðursmanns.

Sigrún Björk Jakobsdóttir

Kynningarferli vegna sameiningarkosninganna hér við Eyjafjörð eftir tæpar þrjár vikur er formlega hafið. Fyrsti kynningarfundur sameiningarnefndarinnar var á Siglufirði í gærkvöldi. Framundan eru svo fjöldi funda í firðinum. Sá síðasti verður hér á Akureyri að kvöldi 4. október nk. Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akureyri og formaður sameiningarnefndar, var í löngu viðtali á Aksjón í gærkvöldi og kynnti málið. Í gærmorgun voru svo Sigrún Björk og Hólmgeir Karlsson oddviti í Eyjafjarðarsveit, gestir Kristjáns Sigurjónssonar í ítarlegu viðtali á Morgunvakt Ríkisútvarpsins. Bendi ég lesendum á það viðtal og ennfremur á heimasíðu sameiningarnefndar. Svo hefur Sigrún Björk skrifað greinar um málið seinustu daga í blöðin og vefrit hér í firðinum. Framundan er ítarlegt kynningarferli sem lýkur með kosningunni þann 8. október nk.

Saga dagsins
1519 Portúgalski landkönnuðurinn Ferdinand Magellan leggur af stað í langa ferð sína um heiminn.
1900 Ofsaveður gekk yfir landið - meira en 30 manns fórust í veðrinu, þar af drukknuðu 18 manns á Arnarfirði. Kirkjurnar á Urðum og Upsum í Svarfaðardal fuku af grunnum sínum og brotnuðu í spón.
1946 Fyrsta kvikmyndahátíðin í Cannes er haldin - kvikmyndahátíðir eru haldnar þar á hverju ári.
1979 Flóttamenn frá Víetnam, alls 34, komu til landsins - stærsti hópur útlendinga sem hingað kom.
1995 Ný brú, yfir Jökulsá á Dal, var formlega tekin í notkun. Hún er 125 metra löng og 40 metra há.

Snjallyrðið
Þó jörðin sé frosin og fokið í gömul skjól,
þá fylgir þeim gæfa, sem treysta á ástina og vorið.
Með einum kossi má kveikja nýja lífsins sól.
Eitt fagurt kærleiksorð getur sálir til himins borið.
Hin innsta lífsins þrá getur eld til guðanna sótt.
Ein auðmjúk bæn getur leyst hinn hlekkjaða fanga.
Svö fögnum við þá - og fljúgum þangað í nótt,
þar sem frelsið ríkir, og sígrænir skógar anga.

Á hvítum vængjum fljúgum við frjáls og ein,
og fram undan blika skógar og draumaborgir.
Í útsæ loftsins laugum við okkur hrein.
Í logandi eldi brennum við okkar sorgir.
Við fljúgum þangað, sem friðlausir eiga skjól.
Þar fagnar okkur heilagur griðastaður.
Í veröld austan við mána og sunnan við sól
á söngvarinn skjól - þar er hann frjáls maður.

Til óskalandsins fljúgum við saman frjáls og ein.
Þar fáum við öllu jarðnesku böli að gleyma.
Á vegi þínum á jörð er steinn við stein.
Í stjörnuborgum söngvanna áttu heima.
Þú elskar ljóðin, lifir í anda hans.
Ég lofsyng nafn þitt, helga þér veröld mína.
Mín vígða brúður, drottning míns draumalands.
Í drottins nafni krýp ég við fætur þína.

Með þig í faðminum flýg ég burt í nótt.
Nú finn ég gleðinnar töfra um hjartað streyma.
Að elska er að hafa eld til guðanna sótt
og opnað þeirra fegurstu sólarheima.
Þó jörðin sé frosin og fokið í hin gömlu skjól,
þá fylgir þeim gæfa, sem treysta á ástina og vorið.
Með einum kossi má kveikja nýja lífsins sól.
Eitt kærleiksorð getur sálir til himins borið.
Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi (1895-1964) (Við fljúgum þangað)

Þetta er svo innilega fallegt ljóð - ein af perlum meistara ljóðanna orða frá Fagraskógi.