Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 apríl 2006

Óborganleg kímni Lemmon og Wilder

Jack Lemmon og Shirley MacLaine í The Apartment

Bandaríski gamanleikarinn Jack Lemmon var að mínu mati einn besti leikari 20. aldarinnar í bandarískum hágæðakvikmyndum. Lemmon var rómaður fyrir túlkun sína í mörgum af bestu kvikmyndum 20. aldarinnar - þekktur fyrir að vera jafnvígur á bæði gamansamar og dramatískar túlkanir á svipmiklum karakterum. Öllum er kunn góð samvinna Lemmons og Walter Matthau í um tíu gamanmyndum - þar sem þeir léku oft á tíðum ógleymanlega karaktera sem þoldu ekki hvorn annan en gátu þó án hvors annars verið í raun. Bestir voru þeir að mínu mati í Odd Couple og Grumpy Old Men myndunum - þær eru algjörlega ómótstæðilegar og passa alltaf við. Matthau og Lemmon áttu vel saman því þeir voru báðir frábærir gamanleikarar í túlkun og þurftu vart annað en að tala við hvorn annan til að vera fyndnir. Þeir voru náttúrutalentar í gamanleik.

Samstarf Billy Wilder og Jack Lemmon var rómað. Út úr því kom ein besta gamanmynd 20. aldarinnar, Some Like it Hot, gerð árið 1959. Í þeirri mynd fara Lemmon og Tony Curtis algjörlega á kostum í hlutverkum Jerry og Joe, tveggja tónlistarmanna í San Francisco sem verða vitni að morði og reyna að sleppa undan mafíunni. Eina leiðin til þess að halda lífi og sleppa er sú að klæða sig í kvenmannsföt og þykjast vera í kvennahljómsveit. Kostuleg atburðarás - ógleymanleg kímni. Þetta er einstök gamanmynd, ein sú besta sinnar gerðar. Einstök skemmtun - í senn eitt það besta sem Billy Wilder gerði og túlkun Lemmons er svo fyndin að jafnvel mestu þunglyndisjálkarnir fara að skellihlæja. Lemmon og Wilder voru miklir vinir og unnu mjög vel saman. Lítil perla sem þeir gerðu saman er Avanti frá árinu 1972. Þó að myndin sé í raun alltof löng og sumpart neistann vanti er þetta frábær mynd og þar njóta hæfileikar Lemmons sín vel.

Önnur ógleymanleg mynd sem þeir Lemmon og Wilder unnu saman að er kvikmyndin The Apartment. Þar er að finna marga flottustu brandara kvikmyndasögunnar og óborganlega takta Lemmons. The Apartment er óborganleg og háklassísk sjöföld óskarsverðlaunamynd sem stendur enn í dag fyrir sínu og gott betur en það. Í henni segir af ungum starfsmanni stórfyrirtækis sem lánar yfirmönnum sínum íbúðina sína til að þeir geti skemmt sér með hjákonum sínum. En þegar okkar maður áttar sig á því stelpan hans er ein þeirra líst honum ekki feiknavel á blikuna, og reynir að hætta við allt saman, en það er hægar sagt en gert. Íbúðin hlaut mikla hylli á sínum tíma og var valin besta kvikmynd ársins 1960 en orðið samt sem áður sögulega séð minna fræg en Some Like it Hot. Myndin er þó sannkallaður gullmoli í kvikmyndasögunni og enn í dag stórfyndin og hefur ekkert látið á sjá. Wilder kallaði hana eitt sinn gullmolann sinn, enda hlaut hann leikstjóraóskarinn fyrir hana og mat hana mikils.

Lemmon er alveg frábær í túlkun sinni á minnimáttarmanninum (sem hann túlkaði ansi oft) C.C. Baxter, dyggum starfsmanni sem gerir yfirmönnum sínum lífið skemmtilegra, en á sinn kostnað. Shirley MacLaine er ennfremur upp á sitt allra besta í hlutverki Fran Kubelik, draumadísinnar hans Baxters, án þess að vita nokkuð af því að hann elskar hana út af lífinu. Ennfremur fara á kostum leikararnir Fred MacMurray, Ray Walston, Jack Kruschen og Eddie Adams, en þeir fengu allir afnot af lyklinum að íbúð Baxters. Handritið er sannarlega hreinasta perla, sérstaklega í kaldhæðnislegri lýsingu sinni á fyrirtækjamóralnum og einkar afvegaleiddu siðferði. Upphafsatriði myndarinnar er stórfenglegt, en þá þusar Baxter upp ýmsum tölfræðilegum upplýsingum sem hann hefur takið saman, enda er hann starfsmaður tölfræðilegs fyrirtækis í New York. Lokaatriðið er einnig einkar eftirminnilegt.

The Apartment er stórfengleg gamanmynd sem alltaf á vel við. Þessa mynd er alltaf gaman að sjá, þegar að maður vill hárfína blöndu af háði og alvöru. Keypti ég mér myndina á DVD nýlega og naut þess að sjá hana í betri gæðum og með ómótstæðilegu aukaefni. Þessa mynd hef ég átt alveg síðan að ég var unglingur - tók hana upp á Stöð 2 fyrir eitthvað um 16 árum og hef margoft notið hennar. Það var engu líkt að sjá hana aftur í fullum gæðum. Vilji menn blöndu af gamni og alvöru - flottum bröndurum og dramatík í og með er þetta myndin. Billy Wilder var einn af bestu kvikmyndagerðarmönnum sögunnar og Lemmon var engum líkur sem leikari. The Apartment er eðall fyrir áhugamenn um kvikmyndir.

Billy Wilder er einn af mínum uppáhaldsleikstjórum. Snilli hans sem leikstjóra og handritshöfundar var rómuð og frá honum komu margar af bestu kvikmyndum í sögu kvikmyndalistarinnar. Sumarið 2003 skrifaði ég ítarlegan pistil um hann á kvikmyndir.com. Þar fer ég yfir ævi hans og flottan leikstjórapistil í ítarlegu máli.

Umfjöllun um The Apartment - snjallyrði úr myndinni