Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 apríl 2006

Spartacus

Kirk Douglas í hlutverki Spartacus

Í kvöld verður sannkallað eðalbíó í Sjónvarpinu. Þá sýnir RÚV stórmynd leikstjórans Stanley Kubrick, Spartacus, frá árinu 1960. Hún fjallar um þrælinn uppreisnargjarna Thracian Spartacus, sem er seldur til skylmingaþjálfarans Lentulus Batiatus. Eftir nokkurra vikna þjálfun leiðir Spartacus uppreisn þrælanna gegn Batiatus og hefur sigur. Er undan ægivaldi hans er vikið halda þrælarnir áfram í uppreisnaranda gegn skylmingaþrælunum almennt. Myndin er stútfull af öllu því besta sem til staðar var í kvikmyndagerð síns tíma. Kvikmyndataka, leikur, klipping og leikstjórn: allt hvoru öðru betra.

Myndin skartaði mörgum af helstu stórleikurum aldarinnar, Kirk Douglas er ógleymanlegur í hlutverki Spartacus og er hans helst minnst fyrir leik sinn í myndinni og túlkun sína. Að mínu mati er þetta besta kvikmyndahlutverk Douglas. Hann var aldrei öflugri en í þessu hlutverki. Sir Peter Ustinov hlaut óskarinn fyrir hlutverk sitt sem Batiatus, enda um að ræða hreint magnaða túlkun. Sir Laurence Olivier, Tony Curtis, Jean Simmons og Charles Laughton eru öll stórfengleg í myndinni. Venju samkvæmt er Olivier skemmtilega kvikindislegur, að þessu sinni sem Marcus Crassus. Olivier var einn af bestu leikurum kvikmyndasögunnar að mínu mati (sem minnir mig á að ég verð að fara að sjá Marathon Man aftur fljótlega)

Spartacus hlaut fern óskarsverðlaun: fyrir leikara í aukahlutverki, listræna leikstjórn, búningahönnun og kvikmyndatöku. Kvikmyndatökumaðurinn Russell Metty gerði aldrei betur á sínum ferli, en athygli vekur að hann vann þar eftir skipunum Kubricks, en kaldhæðnislegt er að hann fékk ekki sínu framgengt við mótun kvikmyndatökunnar og voru miklar deilur þeirra á milli alla vinnsluferli myndarinnar. Kvikmyndatakan er einhver sú besta á gullaldarárum Hollywood - fallegur liturinn naut sín og hver rammi í myndinni verður sem besta listaverk. Sérstaklega finnst mér flott myndataka Metty takast vel í hinu eftirminnilega lokaatriði.

Að mínu mati var Stanley Kubrick einn af bestu kvikmyndagerðarmönnum 20. aldarinnar. Hann var óhræddur við að fara nýjar leiðir og var djarfur í sinni listgrein. Hann fór ótroðnar slóðir og þorði að búa til nýja stíla og feta nýjar leiðir. Fyrir það er hans helst minnst að mínu mati. Kubrick markaði spor í kvikmyndasöguna sem aldrei munu fyrnast og skapaði meistaraverk sem munu lifa með heimsbyggðinni um eilífð. Hann var einn þeirra sem fengu heila kynslóð til að dýrka kvikmyndir og kvikmyndagerð. Ég fjallaði um feril hans í ítarlegum leikstjórapistli á kvikmyndir.com vorið 2004.

Ég hvet alla til að horfa á RÚV klukkan hálftólf í kvöld og sjá stórmyndina Spartacus. Sannir kvikmyndaunnendur verða vart sviknir af þeirri kvikmyndaveislu.