Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

14 apríl 2006

Tónlistarveisla á föstudeginum langa

Wolfgang Amadeus Mozart

Þann 27. janúar sl. voru 250 ár liðin frá fæðingu Wolfgangs Amadeus Mozarts - meistara hinna fögru tóna í klassískri tónlist. Þessa var minnst með veglegri tónlistardagskrá sem sýnt var frá í Ríkissjónvarpinu helgina 26. og 27. janúar með veglegri dagskrá. Því miður hafði ég ekki tækifæri til að fylgjast með þá, enda önnum kafinn í fjölda verkefna þá. Leitt var að missa af dagskránni og skrifaði ég á þennan vef á þeim tíma með þeim hætti að vonandi yrði þessari tónlistarveislu gerð góð skil með flottri samantekt á vegum RÚV síðar meir.

Eftir hádegið í dag settist ég niður fyrir framan sjónvarpið og naut þess að horfa í Ríkissjónvarpinu á upptöku frá hátíðartónleikum sem haldnir voru í Berlín afmælisdag Mozarts. Þar var sannkölluð tónlistarveisla og leikin nokkur af fegurstu tónverkum meistara Mozarts. Þar mátti heyra hinn fræga Fiðlukonsert hans nr. 5, aríu Súsönnu úr Brúðkaupi Fígarós, píanókonsert Elvíru (nr. 23), Flautu- og hörpukonsertinn, forleik úr Clemenza di Tito, Serenöðu nr. 13, Píanósónötu nr. 11, forleikinn í Brúðkaupi Fígarós og síðast en ekki síst sinfóníu nr. 40 (sem er auðvitað algjör perla og unaðsljúf).

Meðal þeirra sem komu fram voru Staatskapelle Berlin undir stjórn Daniels Barenboim, Thomas Quasthoff, Nikolaj Znaider og Sylvia Schwartz. Sannkallaðir snillingar á sínu sviði. Ég hef alla tíð notið klassískrar tónlistar. Ekkert hentar betur að hlusta á er maður þarf að slaka vel á og þegar að skrifa þarf fína pistla og koma góðum hlutum til skila hentar vel að setja unaðsljúfa tóna klassískrar tónlistar á fóninn. Það jafnast á við hið allra besta rauðvín.

Mozart var einstakt tónskáld - sem heillar fólk um allan heim með fögrum tónverkum sínum sama hætti nú og hann gerði í lifanda lífi. Það var sannkölluð unun að hlusta á þessa tónleika í dag og ég vil þakka RÚV fyrir að færa okkur aðdáendum klassískrar tónlistar þessa tónlistarveislu heim í stofu til okkar á föstudeginum langa.