Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 apríl 2006

Ný könnun á Akureyri - borgarafundur á NFS

Akureyri

Í kvöld fór ég á veitingahúsið Strikið, betur þekktur sem gamli og góði Fiðlarinn, hér í miðbæ Akureyrar á borgarafund NFS vegna komandi sveitarstjórnarkosninga. 39 dagar eru nú þar til við göngum að kjörborðinu og veljum fulltrúa okkar í bæjarstjórn Akureyrar næsta kjörtímabilið og tökum afstöðu til framboðanna sem í boði eru. Á borgarafundinum var auk forystumanna framboðanna mætt ýmislegt lykilfólk tengt framboðunum fimm sem þegar liggja fyrir. Eftirvænting ríkti enda tilkynnt um niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir NFS á fylgi framboðanna fimm sem þegar liggja fyrir. Aðeins hafði ein skoðanakönnun birst á fylgi framboðanna á árinu er kom að þessari og því var spenna í loftinu eftir að sjá nýja mælingu og stærra úrtak en í fyrri könnun. Var mjög athyglisvert að heyra niðurstöður könnunarinnar.

Úrtakið í könnuninni er 800 manns og svarhlutfallið er 68%. Skv. könnuninni er meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks fallinn en naumlega þó. Við í Sjálfstæðisflokknum bætum við okkur nákvæmlega prósenti frá kosningunum 2002 - mælumst með 36,5% fylgi og höldum okkar fjórum mönnum inni. Fylgi Framsóknarflokksins minnkar verulega og mælist nú 14,3% og hefur fallið úr 24,1% úr kosningunum 2002 - flokkurinn hefur aðeins einn bæjarfulltrúa í könnuninni og tapar tveim. Samfylkingin bætir við sig nokkru fylgi og mælist með 22,2% en fékk 13,9% síðast - er með 3 bæjarfulltrúa í könnuninni en fékk einn kjörinn árið 2002. VG bætir við sig nokkru fylgi - mælist með 18,4% en fékk 8,7% í kosningunum 2002 og bætir við sig manni, fengi 2 núna. Listi fólksins missir verulegt fylgi - mælist með 7,9% nú en fékk 17,8 árið 2002 og missir annan mann sinn.

Þessi könnun er að mæla mjög svipað landslag og var í könnun RHA fyrr í mánuðinum. Stærsta breytingin er sú að styrkleikahlutföll VG og Samfylkingarinnar breytist örlítið. Samfylkingin mælist með þrjá og VG tvo - öfugt við fyrrnefnda könnun. Enn vekur mikla athygli fylgishrun Framsóknarflokksins á Akureyri - einu af lykilvígi flokksins á landsbyggðinni. Löngum mældist flokkurinn hér með fjóra til fimm bæjarfulltrúa. Tólf ár eru liðin síðan að flokkurinn vann afgerandi sigur og fékk fimm menn kjörna og Jakob Björnsson þáv. leiðtogi flokksins, varð bæjarstjóri. Fjórum árum seinna klauf Oddur Helgi, bæjarfulltrúi flokksins, sig frá Framsókn og stofnaði Lista fólksins. Fékk Framsókn þrjá menn kjörna bæði 1998 og 2002. Það er merkilegt að sjá mælinguna á Framsókn tvær kannanir í röð og greinilegt áfall þeirra. Er staða mála þeim væntanlega mikið áfall.

Staða Sjálfstæðisflokksins mælist mjög góð. Flokkurinn hefur leitt bæjarmálin samfellt í átta ár og Kristján Þór hefur verið bæjarstjóri allan þann tíma. Nýleg könnun staðfesti að hans staða er sterk og flokkurinn heldur öflugur í þessar kosningar og nýtur stuðnings bæjarbúa. Það er gott að finna þessa góðu mælingu. Það er greinilegt að Sjálfstæðisflokkurinn nýtur sannmælis vegna góðrar stöðu bæjarins en athygli vekur hversu illa Framsókn verður úti almennt um allt land, ekki bara hér. VG er að bæta nokkru við sig undir forystu Baldvins og Samfylkingin réttir úr kútnum undir forystu Hermanns. Listi fólksins er í mikilli niðursveiflu og virðist vera að tapa fyrir það að hafa ekkert frumkvæði sýnt á kjörtímabilinu. L-listinn hefur enga einustu tillögu lagt fram sjálft á tímabilinu og ævinlega setið hjá og maldað neikvætt í móinn og bókað sérálit með hjásetu svo eftir hefur verið tekið.

Á borgarafundinum ræddu Kristján Þór, Jói Bjarna, Baldvin Sig, Hermann T. og Víðir Ben um stöðu bæjarmálanna og niðurstöður könnunarinnar. Var þar birt ítarleg samantekt Glúms Baldvinssonar á stöðu bæjarins og sannast þar vel sterk og góð staða Akureyrarbæjar. Enda sást það vel á umræðunum að minnihlutaöflin hafa engin alvöru skotfæri á meirihlutann og gagnrýni þeirra hljómaði sem og hin holasta tóma tunna. Fannst mér þetta felast best í því að leiðtogi VG fannst allt hér mjög slæmt og ekkert hefði verið gert en sú gagnrýni hljómar ótrúverðug eftir umfjöllun Glúms. Heilt yfir fannst mér þetta litlausar umræður og upp úr stóð sterk staða Sjálfstæðisflokksins og meirihlutans, enda voru minnihlutaleiðtogarnir mjög bitlausir og gátu mjög fátt sem ekkert bent á sem aflaga hefði farið. Í heildina voru þetta litlausar umræður

Í heildina var þetta lífleg og góð kvöldstund á Strikinu og áhugavert að fylgjast með umræðunum og spjalla við góða félaga eftir fundinn. Sérstaklega ánægjulegt að hitta Helga frænda, sem var að vinna auðvitað í þessari góðu umfjöllun NFS. Það sem helst stendur eftir kvöldið er málefnasnauður minnihluti - sérstaklega er athyglisvert að sjá endalausar rugltillögur vinstri græna, sem virðast ekki alveg í takt við raunveruleikann. Í kvöld fékk ég reyndar gott komment frá einum vini mínum sem hingað er nýfluttur og sagðist aðspurður um fundinn hafa séð á þessum umræðufundi að minnihlutinn væri litlaus með öllu og Kristján Þór verið eini afgerandi leiðtoginn. Sá sagði með brosi á vör að bæjarpólitíkin væri skrautleg og nefndi undarleg komment Baldvins í því samhengi.

Annars er þessi könnun auðvitað eins og allar aðrar vísbendingar um stöðu mála. Annars er kosningabaráttan nú að fara af stað af krafti - verður snörp og öflug eins og ávallt. Við blasir hressilegur lokasprettur í kosningabaráttunni næstu fimm vikurnar. Það verður fjör hér næstu 39 dagana.