Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

23 maí 2006

Afdráttarlaus yfirlýsing Kristjáns Þórs

Kristján Þór Júlíusson

Í Kastljósi Sjónvarpsins í gærkvöldi spurði stjórnandi þáttarins Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóra ítrekað hvort hann ætlaði að gegna starfi bæjarstjóra á Akureyri næstu fjögur árin, ef Sjálfstæðisflokkurinn fengi stuðning kjósenda til að ráða því hver gegndi því embætti. Hann svaraði því afdráttarlaust játandi og sagði m.a.: "Ef ég verð bæjarstjóri á Akureyri þá verð ég ekki á þingi. Hvað er svona flókið við þetta?" Og ennfremur: "Nei, ég er ekki að hugsa um þingið. Ég er að stefna á það að vera bæjarstjóri á Akureyri næstu fjögur árin, punktur."

Svo mörg voru þau orð og enginn þarf að velkjast í vafa eftir þessa afdráttarlausu yfirlýsingu bæjarstjórans. Hér á eftir fer orðrétt útskrift úr þessum hluta Kastljóssins frá því í gærkvöld.

Eyrún þáttastjórnandi:
"Kristján ég ætla að byrja á þér og viðbrögðum við þessari könnun en samkvæmt henni þá er meirihlutinn fallinn. Eru þetta ekki skýr skilaboð frá Akureyringum að þeir vilji breytingar?"

Kristján Þór Júlíusson:
"Það er nokkuð ljóst að ef þetta gengur eftir þá er í spilunum nýr meirihluti og þá væntanlega nýr meirihluti til vinstri eins og kom fram hjá G. Pétri hér áðan sem samanstendur þá væntanlega af Samfylkingu, Vinstri grænum og þá Lista fólksins. Þetta eru mjög afdráttarlausar niðurstöður ef þetta gengur eftir."

Eyrún þáttastjórnandi:
"Það er eitt mál sem hefur verið mikið til umræðu og það ert þú, bæjarstjóri. Þú ert með miklu meira fylgi heldur en flokkurinn, það eru 45% Akureyringa sem vilja þig sem bæjarstjóra en Sjálfstæðisflokkurinn er með 30% fylgi. Nú veit ég ekki hver skýringin á þessu er en eitt af því sem verið hefur til umræðu er líka það að þú sért að fara að setjast á þing og sért því ekki í þessari kosningabaráttu af heilum hug. Ætlar þú þér að setjast á þing?"

Kristján Þór Júlíusson:
"Ég hef heyrt þessa umræðu sem hefur mikið komið frá fjölmiðlamönnum sem hafa verið að velta sér upp á þessu og haldið úti þáttum um þetta. Það er nú margt sem þeim hefur tekist að afreka, búa til fuglaflensu og tölvuvandann árið 2000 og svo framvegis. Það er ekkert hæft í þessu. Ég hef sagt það allan tímann að ég sé að fara í bæjarstjórnarkosningar. Það er alveg ljóst miðað við þessa könnun að þá erum við að takast á við það að Sjálfstæðismenn og þeir sem vilja sjá mig sem bæjarstjóra á Akureyri ætli að styðja Sjálfstæðismenn í kosningunum á laugardaginn og það eru alveg hreinar línur á því að ef Akureyringar sýna það með afgerandi hætti, að þeir vilji mig sem bæjarstjóra á Akureyri, þá kjósa þeir Sjálfstæðisflokkinn og að sjálfsögðu ætla ég ekki að bregðast því trausti fremur en ég hef gert síðastliðin átta ár."

Eyrún þáttastjórnandi:
"En er útilokað, svo við fáum þetta á hreint, að þú ætlir að taka sæti á Alþingi?"

Kristján Þór Júlíusson:
"Ef það gengur eftir að ég verð bæjarstjóri á Akureyri eftir kosningar, eins og ég hef margsagt að ég ætli að gera og Akureyringar styðji mig til þess verks, þá hef ég aldrei skorast undan því verki að vinna mína vinnu fyrir Akureyringa alla og ég vona svo sannarlega að það gangi eftir."

Eyrún þáttastjórnandi:
"En þú svarar ekki spurningunni."

Kristján Þór Júlíusson:
"Ef ég verð bæjarstjóri á Akureyri þá verð ég ekki á þingi. Hvað er svona flókið við þetta?"

Eyrún þáttastjórnandi:
"En nú lítur út fyrir að meirihlutinn sé að falla, ef þú verður ekki bæjarstjóri ætlar þú þá að bjóða þig fram í Alþingiskosningum?"

Kristján Þór Júlíusson:
"Ef ég verð ekki bæjarstjóri. Meginverkefni okkar Sjálfstæðismanna er að koma okkar áherslum inn í bæjarstjórn Akureyrar og fá að leiða þetta ágæta sveitarfélag áfram undir okkar forustu og ég stefni á og vil verða bæjarstjóri á Akureyri næstu fjögur árin, það er einfalt mál."

Eyrún þáttastjórnandi:
"Svo þú ert ekkert að hugsa um þingkosningar."

Kristján Þór Júlíusson:
"Nei, ég er ekki að hugsa um þingið. Ég er að stefna á það að vera bæjarstjóri á Akureyri næstu fjögur árin, punktur."