Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

22 maí 2004

BessastaðirHeitast í umræðunni
Framboðsfrestur til embættis forseta Íslenska lýðveldisins rann út á miðnætti. Þá höfðu þrír einstaklingar tilkynnt um framboð til embættisins: Ástþór Magnússon, Baldur Ágústsson og Ólafur Ragnar Grímsson núverandi forseti Íslands. Fjórði aðilinn er tilkynnt hafði um framboð, Snorri Ásmundsson, hætti við framboð sitt í vikunni. Farið var yfir framboðin á fundi í dómsmálaráðuneytinu í morgun og staðfest þar formlega að þessir þrír frambjóðendur hefðu skilað inn gildum fjölda meðmælenda til að vera kjörgengir. Forsetakosningar munu fara fram laugardaginn 26. júní nk. Lengi hef ég verið þeirrar skoðunar að forsetaembættið sé með öllu óþarft, minnti ég á þá afstöðu mína í tveim pistlum í febrúar sl, annarsvegar á frelsi.is og heimasíðu minni, samhliða umræðunni um heimastjórnarafmælið og ákvörðun forseta að vera í Aspen á þeim tímamótum í sögu þjóðarinnar. Að mínu mati á að leggja niður forsetaembættið, enda eru raunverulegar embættisskyldur forsetans einkum formlegs eðlis og gætu í raun verið í höndum forsætisráðherra eða forseta Alþingis. Að því sögðu tel ég rétt að taka afstöðu til forsetaefnanna núna. Ég tel á þessum tímapunkti, engan þeirra vera þess verðan að gegna þessu tilgangslausa embætti og mun skila auðu í kosningunum 26. júní, að öllu óbreyttu. Ég mun þar kjósa með því að þessi stóll sé óþarfur eins og komið er málum.

FréttablaðiðEngum hefur dulist seinustu vikur hvernig fréttamiðlum Norðurljósa hefur skefjalaust verið beitt í þeim tilgangi einum að hafa áhrif á almenningsálitið vegna eins máls, þess máls sem mest hefur verið rætt í samfélaginu. Eitt besta dæmi þessarar áróðursmennsku fjölmiðlanna birtist í Fréttablaðinu í morgun í skoðanakönnun þar sem stendur stórum stöfum á forsíðu: "Stjórnin aldrei óvinsælli". Er þar vísað til skoðanakönnunar sem Fréttablaðið mun hafa staðið fyrir á undanförnum dögum. Kemur þar fram að stjórnarflokkarnir njóta minna fylgis til samans en Samfylkingin ein. Þegar rýnt er í tölur um úrtak könnunarinnar og fleira því tengt kemur fram að 800 manns hafi verið í úrtakinu um fylgi flokkanna en 51,5% þeirra hafi tekið afstöðu. Semsagt hafi annarhver aðili í úrtakinu ekki gefið upp afstöðu sína, þarna er því byggt á skoðun 400 einstaklinga. Mjög merkilegt. En hvað varðar almennt niðurstöður kannana Fréttablaðsins, þá kemur ekkert á óvart með þær, enda hafa fjórir fjölmiðlar verið með mjög einhliða umfjöllun um þetta mál og allt að því áróður sem á ekkert skylt við málefnalega umfjöllun. Það sannast þarna hvernig þrjár fréttastofur undir einni stjórn hafa áhrif á almenningsálitið og geta komið skoðunum eigenda sinna á framfæri. Frjáls og óháð fjölmiðlun, sem þau hafa haft að leiðarljósi, hefur vikið á undanförnum vikum fyrir einkahagsmunum eigenda Norðurljósa og starfsmanna fyrirtækisins. Spyrja mætti, er það virkilega rétt og ásættanlegt? Nauðsyn laga um eignarhald fjölmiðla verður sífellt ljósara.

Vef-ÞjóðviljinnGreinaskrif
Að venju eru alltaf góð skrif í Vef-Þjóðviljanum. Í fyrradag fjalla þeir um nýlegan dóm Hæstaréttar í málverkafölsunarmálinu og flétta það við önnur mál og færir svo rök fyrir afhverju fjallað er svo um málið. Orðrétt segir: "Jú það er nú vegna þess að til er fólk sem telur að nýlega hafi verið sýnt fram á að dómsmálaráðherra hafi „brotið lög“ þar sem umboðsmanni alþingis þyki sem hann hefði átt að kanna tiltekið atriði - kunnáttu annarra umsækjenda á tilteknu réttarsviði og mat dómara hæstaréttar á henni - áður en hann skipaði mann í starf. Þetta álit umboðsmanns þykir einhverjum sýna að ráðherrann hafi hvorki meira né minna en „brotið lög“ en því fer hins vegar fjarri. Það væri engu fráleitara að heimta afsagnir héraðsdómaranna sem „dæmdu menn í fangelsi eftir ónothæfum gögnum“ en að æpa það að dómsmálaráðherra hafi „brotið lög“ við það að eftir á þyki umboðsmanni alþingis að henn hefði átt að ganga ýtarlegar úr skugga um tiltekið atriði. Í raun liggur nær að taka dómarana og ríkissaksóknara fyrir - þar er þó hæstaréttardómur sem liggur fyrir, hvað sem mönnum finnst um hann, en ekki aðeins álit eins manns eða einnar stjórnsýslunefndar. Og ef einhver heldur að skoðanir Vefþjóðviljans á gildi álita umboðsmanns alþingis tengist á nokkurn hátt nýlegum álitum hans, svo sem í "Falun Gong málinu" eða áliti hans um nýlega skipun hæstaréttardómara, þá er það misskilningur."

American IdolIdol
Vika er þangað til næsta poppstjarna Bandaríkjanna verður valin í símakosningu í American Idol. Í þættinum í gær voru aðeins eftir þrír þátttakendur: Diana DeGarmo, Fantasia Barrino og Jasmine Trias. Greinilegt er á öllu að gríðarlegur skóli er að taka þátt í þessari keppni, jafnast á við margra ára söngnám, enda reynir hálfsárs þátttaka í slíkum þáttum mjög á keppendur. Um þær þrjár sem sungu í gærkvöldi er hægt að segja að allar hafa bætt sig verulega á þessu tímabili. Stóðu sig allar vel í gærkvöldi, enda kemst enginn svona langt í slíkri keppni nema hafa eitthvað gott fram að færa. Það þótti sýnt frá upphafi að Jasmine myndi falla úr keppni og fór það svo. Þrátt fyrir góða frammistöðu stenst hún ekki hinum tveim snúninginn. Það verða því Diana og Fantasia sem keppa til úrslita að viku liðinni í Kodak leikhúsinu í Hollywood.

Dagurinn í dag
1133 Sæmundur fróði lést, 77 ára gamall - hann bjó í Odda á Rangárvöllum
1339 Mikill jarðskjálfti á Suðurlandi - eignatjón varð mikið og nokkrir létust í kjölfarið
1921 Fyrstu hljómsveitartónleikarnir haldnir hérlendis - tímamót í íslensku tónlistarlífi
1982 Sjálfstæðisflokkurinn endurheimtir meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur eftir fjögur ár í minnihluta - Davíð Oddsson varð borgarstjóri og sat til 1991 - misstu meirihlutann árið 1994
2004 Felipe krónprins Spánar, giftist sjónvarpskonunni Leticiu Ortiz í Madrid

Snjallyrði dagsins
Never tell people how to do things. Tell them what to do, and they will surprise you with their ingenuity.
George S. Patton hershöfðingi (1885-1945)