Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

18 maí 2004

AlþingiHeitast í umræðunni
Samkomulag náðist í gær milli ríkisstjórnarflokkanna um að gera tvær breytingar á fjölmiðlafrumvarpinu. Formenn stjórnarflokkanna: Davíð Oddsson forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, sömdu sín á milli um breytingar sem voru síðar um daginn ræddar í þingflokkunum. Nú munu stjórnarliðar í allsherjarnefnd fara yfir og móta endanlegar tillögur í samræmi við samþykkt þingflokkanna. Breytingarnar snerta tvö atriði, engin breyting verður á því hvað markaðsráðandi fyrirtæki mega eiga. Annarsvegar er um að ræða breytingu á því að fyrirtæki mega eiga allt að 35% í því í stað 25% áður. Hinsvegar felst breytingin í því að núverandi útvarpsleyfum verði leyft að renna út, og engar breytingar verði fyrr en að tveim árum liðnum er lögin taka gildi. Að mínu mati eru þessar breytingar mjög til góða og gera það að verkum að hægt er að mínu mati að styðja flest sem í frumvarpinu stendur, það er mun heilsteyptara að þessu loknu. Enn er þó ekki tekið á málum RÚV, sem eru mikil vonbrigði og ég hef fjallað um áður og látið í ljósi skoðanir mínar á því. Í gær áttu forseti og forsætisráðherra saman langan fund á Bessastöðum, þar sem þeir ræddu þetta mál og fóru yfir fleti þess. Búist er við að þriðja umræða um frumvarpið hefjist seinnipart vikunnar og muni standa einhverja daga.

Jón Ólafsson og Ingibjörg SólrúnUndanfarna daga hefur verið deilt mjög um bréf sem Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, las upp á þingfundi á laugardag að beiðni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur varaþingmanns, sem nú situr tímabundið á þingi í veikindaforföllum eins þingmanns flokksins. Bréfið birti Björn svo í síðasta helgarpistli sínum. Tölvupósturinn var ritaður árið 2002 af Þresti Emilssyni sem var kosningastjóri Samfylkingarinnar í þingkosningunum 2003 og er nú fréttamaður á Fréttablaðinu. Bréfið var ritað Stefáni Jóni Hafstein formanni framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar og var einnig sent Birni. Í bréfinu kemur fram að Björgvin G. Sigurðsson, hafi upplýst bréfritara um að Jón Ólafsson, hafi veitt umtalsverðum fjármunum til Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, sem þá var borgarstjóri R-listans. Er Ingibjörg hafnaði þessum skrifum og sagði þau rugl sagði Þröstur: "Mér finnst afar undarlegt að þetta komi upp núna þar sem bréfið er yfir þriggja ára gamalt, en mest er ég undrandi á viðbrögðum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur - þau verður hún að hafa við sína samvisku - ef hún hefur þá einhverja." Nú tveim dögum síðar hefur Þröstur sagt allt efni bréfsins rugl og biðst afsökunar. Hvað gerðist á þessum tveim dögum?

Sonia GandhiSonia Gandhi leiðtogi Indverska Kongressflokksins, hefur tilkynnt að hún hafi hafnað því að taka sæti sem forsætisráðherra Indlands. Í kjölfar kosningasigurs flokksins í þingkosningunum í apríl og maí hafði verið talið öruggt að hún tæki við embættinu og fetaði með því í fótspor tengdamóður sinnar, Indiru Gandhi og eiginmanns síns, Rajiv Gandhi sem voru bæði forsætisráðherrar landsins. Þau féllu bæði fyrir morðingjahendi, er almennt talið að börn Soniu vilji ekki að hún taki við embættinu, enda myndu öfgamenn vilja hana feiga ef hún yrði forsætisráðherra, líkt og var með föður þeirra og ömmu. Það að hún er ekki indversk, heldur af ítölskum ættum hefur valdið óánægju í landinu og margir ekki getað hugsað sér hana sem æðsta valdamann þjóðarinnar. Ákvörðun frú Gandhi kom mjög óvænt. Allt þar til í dag þótti öruggt að hún tæki við embættinu og eru stuðningsmenn hennar flestir æfir, enda hafi þeir verið að kjósa hana til valda. Líklegast er nú talið að náinn pólitískur samstarfsmaður Rajiv Gandhi, Manmohan Singh, verði næsti forsætisráðherra Indlands.

Heiðrún Lind MarteinsdóttirSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Heiðrún Lind um málefni RÚV. Á það vel við, nokkrum dögum eftir skrif mín um þetta mál, enda erum við alveg sammála um RÚV og viljum bæði að þar verði stokkað upp. Í pistlinum segir Heiðrún: "Á þingi því sem nú er að renna sitt skeið lá fyrir frumvarp um breytingar á rekstrarformi Ríkisútvarpsins. Greinarhöfundur finnur sig tilneyddan til að taka mál þetta upp vegna undrunar yfir því skilningsleysi sem hlutafélagavæðing RÚV hefur mætt á Alþingi. Þó flestir hafi áttað sig á mikilvægi samkeppni virðast enn einhverjir vaða í þeirri villu að ríkisútvarp skuli ekki lúta lögmálum markaðarins – án þess væri menning okkar Íslendinga fótum troðin af fyrirtækjum sem vilja færa okkur útvarps- og sjónvarpsefni sem fólk vill horfa eða hlusta á! En hvað er það við útvarpsrekstur sem fær stjórnmálamenn til að vilja niðurnjörva starfsemina með reglum, lögum, boðum og bönnum? Þeir sem fylgjandi eru reglusetningu hafa aðallega nefnt tvennt máli sínu til stuðnings. Í fyrsta lagi hefur verið bent á að úrvarpsrásir eru takmörkuð auðlind og fyrirhafnarmikið er að hefja starfsemi á þessu sviði. Í annan stað hefur það verið látið í veðri vaka að gæði og fjölbreytileiki væri ekki tryggt nema með fyrir tilstilli ríkisrekins fjölmiðils. Bæði þessi rök má hrekja og lagasetning til verndar Ríkisútvarpinu hefur án vafa mun fleiri slæma kosti en góða." Góður pistill sem ég hvet alla til að lesa.

John MajorBækur
Undanfarna daga hef ég verið að lesa ævisögu John Major fyrrum forsætisráðherra Bretlands og leiðtoga breska Íhaldsflokksins. Í bókinni fer Major yfir stjórnmálaferil sinn. Major var fyrst kjörinn á breska þingið fyrir Huntingdon hérað árið 1979. Í þeim kosningum vann flokkurinn sögulegan kosningasigur undir forystu Margaret Thatcher, og komst til valda eftir fimm ár í stjórnarandstöðu. Eftir þingkosningarnar 1983 varð hann aðstoðarráðherra í stjórnum frú Thatchers og forystumaður í þingflokknum. Í kjölfar kosninganna 1987 varð Major viðskiptaráðherra Bretlands. Árið 1989 varð Major utanríkisráðherra og tók skömmu fyrir lok þess árs við embætti fjármálaráðherra, og var þarmeð orðinn einn valdamesti ráðherra flokksins. Frú Thatcher neyddist til að víkja af valdastóli í nóvember 1990 eftir innbyrðis valdaerjur og gaf Major kost á sér í leiðtogaslag flokksins. Hann var kjörinn eftirmaður hennar í leiðtogakjöri þann 27. nóvember 1990. Hann tók við embætti sem forsætisráðherra Bretlands sólarhring síðar. Hann vann sigur í þingkosningunum 1992, þvert á allar spár. Árið 1995 réðst hann að andstæðingum sínum innan flokksins og efndi til leiðtogakjörs sem hann vann. Hann beið ósigur í þingkosningunum 1997 fyrir Verkamannaflokknum og vék þá jafnframt af leiðtogastóli flokksins, hafði þá setið á valdastóli tæp 7 ár. Hann lét af þingmennsku í kosningunum 2001. Hvet alla til að lesa þessa góðu bók.

Dagurinn í dag
1804 Napoleon Bonaparte skipaður keisari í Frakklandi af franska þinginu
1920 Jóhannes Páll II páfi fæðist - hann tók við páfatign 1978 og hafa aðeins þrír setið lengur
1933 Franklin Delano Roosevelt forseti Bandaríkjanna, undirritar New Deal samninginn
1985 Dagur ljóðsins haldinn hátíðlegur í fyrsta skipti að hálfu Rithöfundasambandsins
2000 Nýtt hafrannsóknaskip, Árni Friðriksson, kom til landsins - það var smíðað í Chile

Snjallyrði dagsins
If you haven't found something strange during the day, it hasn't been much of a day.
John A. Wheeler