Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

17 maí 2004

Davíð Oddsson forsætisráðherraHeitast í umræðunni
Viðtal fréttastofu Sjónvarps við Davíð Oddsson forsætisráðherra, á föstudagskvöld, hefur komið af stað miklum umræðum um hvort forseti Íslands sé vanhæfur til að neita fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar um samþykki. Í dag ritar Davíð, ítarlega grein í Morgunblaðið, þar sem hann gerir grein fyrir sjónarmiðum sínum um mögulegt synjunarvald forseta Íslands. Þar kemur fram að hann telur að ekki sé stafur fyrir þeirri túlkun, sem stundum sé haldið fram, að sú staðreynd að forseti Íslands sé þjóðkjörinn hljóti að færa honum frekara vald en stjórnarskráin mælir fyrir um. Að hans mati leiki enginn vafi á því að ráðherra beri stjórnskipulega ábyrgð sé tillaga hans staðfest þar komi engin vanhæfissjónarmið til álita um forsetann. Skiptir þá engu þótt forseti hafi fyrr eða síðar tjáð sig um málið eða hvort málið snerti stöðu hans eða persónulega afkomu svo sem lög um afnám skattfrelsis forseta. Forsætisráðherra bendir á skiptar skoðanir fræðimanna um synjunarvald forseta. Ef sá skýringarkostur væri réttur að hann hefði slíkt vald vakni upp alvarlegar spurningar um vanhæfi forsetans. Orðrétt segir: "..og jafnvel þótt hinir virtustu sérfræðingar eftir góða athugun kæmust að hinni sérkennilegu niðurstöðu, að mínu mati, að hin nánu tengsl og þó hinir ríku hagsmunir sem liggja ótvírætt fyrir sköpuðu ekki vanhæfi að lögum, myndu þau eftir sem áður að öllu öðru leyti gera synjun forseta og ákvörðun hans að virða ekki vilja Alþingis afar tortryggilega svo ekki sé meira sagt. Því er óhætt að segja að vildu menn nú í fyrsta sinn láta reyna á og vekja hinn dauða bókstaf upp hefðu þeir valið sér til þess eitthvert óheppilegasta mál sem þeir gætu fundið.” Forseti og forsætisráðherra áttu saman klukkustundarlangan fund á Bessastöðum í morgun.

Indira Gandhi, Sonia Gandhi og Rajiv GandhiStjórnarmyndun á Indlandi lauk formlega í gær er Kongressflokkurinn og smærri vinstriflokkar náðu samkomulagi um stjórnarsáttmála samsteypustjórnar flokkanna. Sonia Gandhi verðandi forsætisráðherra, og ríkisstjórn hennar mun taka við völdum á miðvikudag. Úrslit þingkosninganna hafa vakið reiði meðal hindúa og strangtrúaðra í landinu, í ljósi þess að forsætisráðherrann verðandi er ekki af indverskum ættum, en eins og kunnugt er Sonia ítölsk og ekkja Rajiv Gandhi fyrrum forsætisráðherra. Talsmenn fyrrum stjórnarflokka á borð við Janata flokkinn hafa tilkynnt að þeir muni ekki vera viðstaddir embættistöku hinnar nýju stjórnar. Eini embættismaður fráfarandi stjórnar sem verður viðstaddur er Atal Behari Vajpayee fráfarandi forsætisráðherra. Vinstrisveiflan sem varð í kosningunum varð mun stærri en nokkurn hafði órað fyrir, samkvæmt lokatölum hlaut vinstriblokkin um 60 þingsætum meira en hægriblokkin og stjórnarflokkarnir töpuðu um 100 þingmönnum. Almennt er þó búist við að hveitibrauðsdagar nýju stjórnarinnar verði stuttir. En með stjórnarskiptum kemst Nehru-Gandhi ættin aftur til valda og þetta rótgróna ættarveldi tekur aftur við forystu í stjórnmálum landsins.

Ezzedine SalimEzzedine Salim forseti framkvæmdaráðs Íraks, lét lífið ásamt nokkrum öðrum mönnum, er bílsprengja sprakk fyrir utan höfuðstöðvar bandaríska hernámsliðsins í Bagdad í morgun. Áður óþekkt samtök, er nefna sig Arabíska andspyrnuhreyfingin, hafa lýst á hendur sér ábyrgð á sprengjuárásinni, kemur fram í yfirlýsingu frá samtökunum að þau muni halda ótrauð áfram heilögu stríði þar til bæði Palestína og Írak hafi verið frelsuð. Embættismenn út um allan heim hafa í morgun fordæmt harðlega drápið á Salim. Áætlað var að valdaskipti verði í Írak 30. júní nk. og muni þá heimamenn taka við stjórn landsins. Sama dag mun Bandaríkjastjórn jafnframt alla embættismenn einræðisstjórnar Baath-flokksins sem eru í varðhaldi þeirra, þ.á.m. Saddam Hussein fyrrum forseti landsins. Ekki er vitað með vissu hvort þessi tíðindi muni breyta einhverju um þá dagsetningu.

HeimdallurSvona er frelsið í dag
Í pistli dagsins á frelsinu fjallar Páll um vörugjöld og segir orðrétt: "Vörugjöld eru undarlegt fyrirbæri sem margir rugla eðlilega saman við tolla. Saman eru þessar tekjulindir ríkisins oft kallaðar aðflutningsgjöld ásamt öðrum sköttum og gjöldum reyndar þar sem innheimta þeirra fer fram í tolli við innflutning. Munurinn á tollum og vörugjöldum hins vegar er sá að vörugjöld eru líka innheimt af innlendri framleiðslu. Í flestum tilfellum er þó ekki um að ræða neina innlenda framleiðslu á þeim vörum sem bera vörugjöld og því verður þetta í raun að nokkurs konar tolli sem lagður er á vörur sem framleiddar eru erlendis og fluttar til landsins. Málið er hins vegar að innheimta má vörugjöld þrátt fyrir að vara sé flutt frá öðru landi innan evrópska efnahagssvæðisins þar sem samkvæmt lögum ætti að innheimta þau af innlendri framleiðslu þó hún sé ekki til staðar. Í flestum tilfellum mætti hins vegar ekki innheimta tolla samkvæmt EES samningnum þar sem þá væri verið að mismuna innlendum og erlendum varningi." Bendi ennfremur á umfjöllun um góða grein Benedikts Jóhannessonar. Að lokum er bent á nýjan bol SUS.

Vef-ÞjóðviljinnGreinaskrif
Í góðri grein á Vef-Þjóðviljanum í dag er fjallað um bréfið sem dómsmálaráðherra las upp á þingi á laugardag og fjallar um fjármál R-listans og Samfylkingarinnar. Orðrétt segir: "Samfylkingin fer núna í kringum eigin reglur um að birta allar fjárhæðir sem eru 500.000 krónur eða hærri með því að þiggja aðeins styrki sem eru innan við þá fjárhæð, til dæmis 499.999 krónur. En þrátt fyrir að í lögum væri kveðið á um að birta ætti allar upplýsingar um styrki þá væri engin leið að koma í veg fyrir það að þeir stjórnmálamenn eða stjórnmálaflokkar sem vilja leyna stuðningi láti styrkja aðra, til dæmis frambjóðanda til borgarstjóra. Þar sem bréfritari starfar nú á Fréttablaðinu ættu að vera hæg heimatökin fyrir blaðið að fletta ofan af þessu máli, en blaðið hefur sýnt fjármálum flokkanna talsverðan áhuga. Vefþjóðviljinn telur þó ólíklegt að því verði slegið upp á næstunni á forsíðu blaðsins að talsmaður Samfylkingarinnar, sem nú situr á þingi fyrir flokkinn, þiggi "umtalsverða fjármuni" frá fyrirtækjum eða fjársterkum einstaklingum." Virkilega góð grein sem ég hvet alla til að lesa, sem og vefinn dag hvern.

Dagurinn í dag
1724 Mývatnseldar hefjast - stóðu í alls 5 ár. Í þeim varð til gígurinn Víti í Kröflu
1814 Noregur fær stjórnarskrá - 17. maí hefur síðan verið þjóðhátíðardagur landsins
1841 Tómas Sæmundsson prestur, lést 33 ára gamall - hann var einn Fjölnismanna
1995 Jacques Chirac tekur við forsetaembætti í Frakklandi - var endurkjörinn árið 2002
1997 Alþingi samþykkir ný lögræðislög - sjálfræðisaldur hækkar úr 16 árum í 18

Snjallyrði dagsins
There is no monument dedicated to the memory of a committee.
Lester J. Pourciau