Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 desember 2004

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Að þessu sinni fjalla ég um umræðuna um skattamálin við lok þinghalds, en Alþingi fór rausnarlegt 6 vikna jólaleyfi á föstudagskvöld. Áberandi er að sjá vinnubrögð stjórnarandstöðunnar í þinginu einkum hvað varðar skattalækkunartillögurnar og frumvarpið. Fer ég í pistlinum yfir kostuleg vandræði Samfylkingarinnar hvað varðar umræðuna um skattaloforðin 2003 og tal formannsins um símastrákinn margfræga. Um helgina upplýstu Samtök vöru og þjónustu að hafi verið Jóhann Ársælsson alþingismaður, sem hafi svarað spurningum samtakanna um breytingar á virðisaukaskattskerfinu í mars 2003 fyrir hönd Samfylkingarinnar. Jóhann Ársælsson sem hefur verið kynntur sem postuli af hálfu Samfylkingarinnar í sjávarútvegsmálum (eða allavega spilað sig mjög þannig) og einn helsti talsmaður flokksins í þeim stóra málaflokki og er leiðtogi Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi var því flokkaður sem símastrákur af formanni flokksins! Endar þetta með þeim hætti að einn leiðtoga flokksins á landsvísu er sá sem gaf svörin en ekki einhver símastrákur á kosningaskrifstofu eins og haldið hafði verið fram, augljóslega til að reyna að drepa málinu á dreif með þessum líka stórglæsilega hætti.

Málið springur allt framan í flokkinn þegar Samtökin einfaldlega sjá sóma sinn í því að gefa upp hver veitti svörin sem um er rætt. Auðvitað var þetta enginn símastrákur án umboðs og maður af götunni sem er spurður slíkra spurninga sem málsvari flokks. Jóhann var í mars 2003 varaformaður þingflokks Samfylkingarinnar og leiðtogi flokksins í einu af kjördæmunum 6 og því með status eins af talsmönnum flokksins auðvitað. Einfaldara getur það vart orðið. Enn er rætt um Íraksmálið í miðpunkti umræðu í þingsölum og tengd málefni. Fjalla ég í pistlinum um einn anga þess máls, söfnun hinnar svokölluðu Þjóðarhreyfingar og pistil sem ég skrifaði um það mál í vikunni og hefur víða verið til umræðu. Að lokum fjalla ég um auka aðalfund í Verði í gær. Flutti ég þar í upphafi skýrslu stjórnar og fór yfir þar í stuttu máli hvað gerst hefði hjá félaginu frá því að ég tók þar við formennsku í september og hvaða verkefni blöstu við á nýju ári. Á fundinum voru samþykktar lagabreytingar þess efnis að fjölga stjórnarmönnum í félaginu. Jafnframt var stjórnmálaályktun Varðar kynnt og hún rædd. Var ég endurkjörinn til formennsku í félaginu. Með mér í stjórn verða Bergur Þorri Benjamínsson, Henrik Cornelisson, Júlíus Kristjánsson, Sigurgeir Valsson, Sindri Alexandersson og Sindri Guðjónsson. Í varastjórn eru Atli Hafþórsson, Jóna Jónsdóttir og María H. Marinósdóttir. Í lok fundarins flutti Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri, ræðu, og fór yfir það sem helst er um að vera í bæjarmálunum hér á Akureyri og það sem gerst hefur að undanförnu í pólitíkinni. Að því loknu svaraði hann spurningum fundarmanna.

Dagurinn í dag
1904 Rafljós voru kveikt á Íslandi í fyrsta skipti - rafmagnið kom frá rafstöð sem var í Hafnarfirði
1987 Hótel Ísland var formlega tekið í notkun - var þá einn af stærstu veitingastöðum landsins
1998 Örn Arnarson varð Evrópumeistari í 200 metra baksundi - hann endurtók leikinn 1999 og 2000
2000 Hæstiréttur Bandaríkjanna kvað upp dóm í máli sem Al Gore varaforseti Bandaríkjanna, hafði höfðað til að reyna að fá atkvæði í Flórída-fylki endurtalin í kosningunum 7. nóvember 2000. Gore tapaði málinu og viðurkenndi formlega ósigur sinn í kosningum innan við sólarhring síðar. Gore fékk örlítið fleiri atkvæði á landsvísu í forsetakosningunum en tapaði hinsvegar í kjörmannasamkundunni
2003 Jean Chretien lætur af embætti sem forsætisráðherra Kanada - hann sat í embættinu í rúman áratug og vann sigur í þrem kosningum. Eftirmaður hans í embætti forsætisráðherra varð Paul Martin

Snjallyrði dagsins
Niðar foss í djúpum dal
dimmum fram úr hamrasal
þar sem bláu blómin dreyma -
heyrðu, daggardropi skær,
dvöl hjá blómi var þér kær
þegar gullnir geislar streyma -
svo er ástar yndisró,
öll þar gleðiveröld hló,
hvítir svanir syngja,
leikur bæði líf og sál,
leikur tunga, hjarta, rödd og mál,
allt er fagurt eins og stál,
álfaskarar ástarklukkum hringja
Benedikt Gröndal (1826-1907) (Sæla)