Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 desember 2004

Bernard KerikHeitast í umræðunni
Bernard Kerik sem valinn hafði verið af George W. Bush forseta Bandaríkjanna, sem ráðherra heimavarnarmála í stað Tom Ridge, tilkynnti á laugardag að hann væri hættur við að taka við embættinu, aðeins tæpri viku eftir að hann hafði verið tilnefndur til starfans. Tók hann þessa ákvörðun eftir að flett var ofan af því að hann hafði farið á svig við bæði skatta- og innflytjendalög vegna ráðningar barnfóstru. Þykir um mikinn álitshnekki að ræða fyrir forsetann og nánustu samstarfsmenn hans og ekki síður Kerik sjálfan að svo hafi farið. Greinilegt er að ekki hefur verið nægilega könnuð fortíð hans og málefni tengd honum áður en valið var kynnt. Þarf forsetinn nú að hefja málið allt frá grunni og leita að nýju ráðherraefni. Kerik var lögreglustjóri í New York þegar hryðjuverkaárásirnar voru gerðar á World Trade Center 11. september 2001. Vann hann traust og virðingu þjóðarinnar með framgöngu sinni í embættinu í kjölfarið. Hafði hann að undanförnu starfað í Írak þar sem hann vann m.a. að því að endurskipuleggja lögreglusveitir. Kerik hefur gegnt herþjónustu, starfað í fíkniefnalögreglunni og er með svartabeltið í tae kwondo.

Kerik gaf út ævisögu sína fyrir nokkrum árum, lýsir hann þar uppvexti sínum í Newark í New Jersey. Þar kemur fram að foreldrar hans skildu þegar hann var 3 ára og móðir hans, sem var áfengissjúklingur og vændiskona, var myrt þegar hann var 4 ára. Er þetta ekki í fyrsta skipti sem ráðherraefni í Bandaríkjunum verður að víkja vegna málefna ólöglegra innflytjenda sem viðkomandi hafa í þjónustu sinni. Árið 1993 neyddist Zoë Baird til að hætta við að þiggja embætti dómsmálaráðherra í stjórn Bill Clinton, eftir að kom í ljós að hún hafði ólöglega innflytjendur frá Perú í vinnu sem fóstru og bílstjóra. Var málið tengt Baird nefnt Nannygate. Varð Janet Reno dómsmálaráðherra, í staðinn. Árið 2000 tilnefndi Bush forseti, Lindu Chavez sem vinnumálaráðherra. Varð hún að hætta við að þiggja embættið er í ljós kom að hún hafði í vinnu eldabusku sem var ólöglegur innflytjandi frá Guatemala og varð Elaine Chao ráðherra í stað hennar. Samskipti Bush forseta, og Rudy Giuliani fyrrum borgarstjóra í New York, voru sögð í fjölmiðlum hafa skaðast af málum Keriks, enda hafði Giuliani mælt með honum við forsetann. Bað hann forsetann formlega afsökunar á að hafa komið nafni hans í umræðuna og í samræðum við forsetann. Var fljótt brugðist við og héldu borgarstjórinn fyrrverandi og kona hans strax til Washington og fóru á góðgerðarjólatónleika í borginni í gærkvöldi með forsetahjónunum til að sýna fram á að samskipti þeirra væru enn traust og öflug, en Giuliani var mjög áberandi í kosningabaráttu forsetans og lagði honum mikið lið. Ljóst er að Giuliani á mikið undir því að halda góðum tengslum við forsetann, enda talið nánast öruggt að hann fari í forsetaframboð árið 2008.

Augusto PinochetDómari í Chile ákvað í dag að Augusto Pinochet fyrrum einræðisherra landsins, skuli verða stefnt vegna morða og mannrána sem áttu sér stað sér stað í stjórnartíð hans í landinu, frá valdaráni hersins í september 1973 til þess að hann vék af valdastóli árið 1990, einkum þegar hinni illræmdu Kondór-áætlun var framfylgt í Chile og í fleiri löndum í Suður-Ameríku. Dómarinn, Juan Guzman Tapia, tilkynnti ennfremur að Pinochet, sem er um nírætt, skyldi verða haldið í stofufangelsi þar til réttarhöld fari fram í málum hans. Var því hnekkt eftir að lögfræðingar einræðisherrans fyrrverandi áfrýju úrskurði dómarans. Engu að síður er atburðarás dagsins mjög söguleg, enda hefur þess lengi verið beðið að einræðisherrann fyrrverandi myndi þurfa að svara til saka fyrir illvirki sín. Á þeim tveim áratugum sem hann var leiðtogi herstjórnarinnar og hersins í Chile létu stjórnvöld drepa um 3.000 pólitíska andstæðinga sína, samkvæmt opinberum tölum frá Chile.

Fyrrnefnd Kondór-áætlun var leynilegt samkomulag milli herstjórnanna í Argentínu, Bólivíu, Brasilíu, Chile, Paragvæ og Úrúgvæ. Í samkomulaginu fólst að ríkin hefðu með sér samvinnu í að leita elta uppi andstæðinga og losa sig við lík þeirra í öðrum löndum. Pinochet er nú formlega stefnt vegna mannrána og morða á að minnsta kosti 9 af þessum mönnum sem voru myrtir í valdatíð hans, en lík þeirra hafa aldrei fundist. Pinochet hefur hingað til tekist að komast hjá réttarhöldum vegna málanna, með því að segjast heilsuveill. Næst því komst hann þó þegar hann var hnepptur í stofufangelsi af breskum yfirvöldum er hann var staddur í Bretlandi haustið 1998. Munaði þá aðeins hársbreidd að hann þyrfti að svara til saka. Með því að þykjast vera (sagður vera það af læknum) langt leiddur af sjúkdómi var honum sleppt seint á árinu 1999. Frægt varð að Pinochet var keyrður í hjólastól í flugvélina á flugvelli í London. Er hann sneri aftur til Santiago, höfuðborgar Chile, labbaði hann niður landganginn og gekk óstuddur að bíl sem þar beið hans. Þetta var allt kostulegt á að horfa á sínum tíma og leitt að hann var ekki leiddur fyrir rétt þá. En nú er semsagt komið að því.

Jamie Foxx í hlutverki Ray CharlesTilnefningar til Golden Globe 2005
Í dag var tilkynnt um tilnefningar til Golden Globe verðlaunanna, sem verða afhent 16. janúar 2005, í 62. skiptið. Golden Globe eru verðlaun sem erlendir blaðamenn í Hollywood veita ár hvert og þykja gefa góðar vísbendingar um Óskarinn, sem er afhentur í febrúarlok. Kvikmyndin Sideways hlaut flestar tilnefningar, sjö alls, þrjár fyrir leik, fyrir leikstjórn, auk þess sem hún var tilnefnd sem besta grín- eða söngvamyndin. Leikarinn Jamie Foxx komst heldur betur á spjöld sögunnar þegar hann varð fyrstur allra leikara til að hljóta þrjár tilnefningar til verðlaunanna á sama árinu; tvær fyrir leik í kvikmyndunum Ray og Collateral og eina fyrir leik í sjónvarpsmyndinni Redemption. Kvikmyndin The Aviator, sem er ævisaga leikstjórans Howards Hughes, hlaut sex tilnefningar, t.d. sem besta dramatíska myndin, fyrir leik Leonardo DiCaprio og Cate Blanchett og einnig fyrir leikstjórn Martin Scorsese.

Aðrar myndir sem tilnefndar voru sem besta dramatíska myndin voru Closer, Finding Neverland, Hotel Rwanda, Kinsey og Million Dollar Baby. Auk Sideways voru eftirtaldar myndir tilnefndar sem besta gaman- eða söngvamyndin: Eternal Sunshine of the Spotless Mind, The Incredibles, The Phantom of the Opera og Ray (sem fjallar um ævi söngvarans Ray Charles sem lést í júní). Auk DiCaprio voru tilnefndir sem besti dramatíski leikarinn þeir Javier Berdem fyrir The Sea Inside, Don Cheadle í Hotel Rwanda, Johnny Depp í Finding Neverland og Liam Neeson í Kinsey. Tilnefndar sem leikkona í dramatískri mynd voru Scarlett Johansson fyrir A Love Song for Bobby Long, Nicole Kidman í Birth, Imelda Staunton í Vera Drake, Hilary Swank í Million Dollar Baby og Uma Thurman í Kill Bill - Vol. 2. Bendir flest til þess að verðlaunaafhendingin verði jafnari nú en fyrir ári en þá var þriðji og seinasti hluti Hringadróttinssögu áberandi sem sigurvegari. Verður fróðlegt að fylgjast með afhendingu Gullhnattarins eftir mánuð, en eins og venjulega mun ég fylgjast, sem allmikill kvikmyndaáhugamaður, vel með þessu.

Húmorinn
Former New York Police Commissioner Bernard Kerik, who was President Bush's nominee to be the next Homeland Security chief, abruptly withdrew his name from the nomination on Friday. So President Bush stubbornly insists on going back to his original choice: Superman!
Amy Poehler

John Kerry announced today that he will go to Iraq next month. I guess he heard they are having presidential elections
Jay Leno

Áhugavert efni
Helgarpistill Björns Bjarnasonar
Ef - pistill Arnljóts Bjarka Bergssonar
Er keisarinn ekki í fötum? - pistill Hauks Þórs Haukssonar
R-listinn stefnir í ranga átt - pistill Kristins Más Ársælssonar
Um bók Matthíasar Johannessen fv. ritstjóra - pistill Vef-Þjóðviljans

Scott Peterson dæmdur til dauða
Traian Basescu kjörinn forseti Rúmeníu
Bush leitar að nýjum öryggismálaráðherra
Fernando Poe fv. forsetaefni á Filippseyjum, látinn
Fróðleg umfjöllun um það hvernig heilinn meðtekur andlit

Dagurinn í dag
1922 Hannes Hafstein ráðherra, lést, 61 árs að aldri - hann var fyrsti ráðherra Íslands við upphaf heimastjórnar og tók við embætti 1. febrúar 1904 og sat til 1909 og var aftur ráðherra 1912-1914. Hann var áður sýslumaður á Ísafirði og einnig öflugt skáld og orti t.d. ljóðin Sprettur (Ég berst á fáki fráum) og Stormur. Minnisvarði um Hannes var afhjúpaður við Stjórnarráðshúsið í Reykjavík 1931
1947 Björgunarafrekið við Látrabjarg - 12 mönnum var bjargað við mjög erfiðar aðstæður af breska togaranum Dhoon, sem strandaði við bjargið. Óskar Gíslason gerði merka kvikmynd um þetta afrek
1981 Herstjórnin í Póllandi setti herlög í landinu og handtók flesta leiðtoga stjórnarandstöðunnar
1992 Orgel Hallgrímskirkju í Reykjavík var vígt - það er stærsta hljóðfæri á Íslandi: 17 metrar á hæð, vegur 25 tonn og í því eru 5.200 pípur. Kostnaður við smíði orgelsins nam tæpum 100 milljónum króna
2000 Al Gore varaforseti Bandaríkjanna, viðurkennir formlega ósigur sinn í forsetakosningunum 2000, fyrir George W. Bush ríkisstjóra í Texas. Deilt var um sigur Bush í 36 daga, enda munaði litlu á honum og Gore í Flórída fylki. Gore óskaði Bush til hamingju með sigur í upphafi en dró það til baka þegar ljóst varð hversu naumt var á milli þeirra í fylkinu. Munaði aðeins nokkur hundruð atkvæðum að lokum. Það naumt varð að úrslit fengust ekki strax og handtelja varð atkvæði í nokkrum sýslum fylkisins. Leiddi það til dómsmála til að fá fleiri atkvæði endurtalin. Gore fékk örlítið fleiri atkvæði á landsvísu í forsetakosningunum en tapaði hinsvegar í kjörmannasamkundunni. Að lokum fór svo að hæstiréttur staðfesti sigur forsetans í fylkinu og Gore viðurkenndi því ósigur sinn eftir lagaflækjurnar

Snjallyrði dagsins
Ég elska þig, stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðstyrkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.

Þú skefur burt fannir af foldu og hól,
þú feykir burt skýjum frá ylbjartri sól,
og neistann upp blæs þú og bálar upp loga
og bryddir með glitskrúði úthöf og loga.

Þú þenur út seglin og byrðingin ber
og birtandi, andhreinn um jörðina fer;
þú loftilla, dáðlausa lognmollu hrekur
og lífsanda starfandi hvarvetna vekur.

Og þegar þú sigrandi um foldina fer,
þá finn ég að þrótturinn eflist í mér.
ég elska þig, kraftur, sem öldurnar reisir,
ég elska þig máttur, sem þokuna leysir.
Hannes Hafstein ráðherra (1861-1922) (Stormur)