Karl prins af Wales, ríkisarfi Bretlands, og Camilla Parker Bowles unnusta hans, gengu í hjónaband í dag. Þau voru gefin saman með borgaralegum hætti við látlausa athöfn í Guildhall-ráðhúsinu í Windsor um ellefuleytið í morgun. Upphaflega átti athöfnin að fara fram í gær, en henni var frestað um sólarhring vegna útfarar Jóhannesar Páls páfa II. Aðeins um 30 manns voru viðstaddir athöfnina sem stóð í 20 mínútur. Að því loknu héldu þau í St. George kapellu við Windsor-kastala og hlutu þar blessun George Carey erkibiskups, og þar með bresku biskupakirkjunnar. Sem ríkisarfi Bretlands mun Karl að lokum verða verndari biskupakirkjunnar. Foreldrar prinsins, Elísabet II Englandsdrottning og Filippus hertogi af Edinborg, voru ekki viðstödd brúðkaupið. Er það sögulegt, enda ekki gerst í 142 ár að breskur konungur eða drottning á lífi hafi ekki verið viðstödd brúðkaup barna sinna. Taldi drottningin ekki sæma sér að vera viðstödd borgaralega giftingu, þar sem hún er verndari kirkjunnar. Hefur þessi ákvörðun orðið umdeild og vakið mikla athygli, enda neyðarlegt fyrir prinsinn að foreldrar hans hafi ekki verið viðstödd hina formlegu giftingarathöfn.
Foreldrar prinsins, systkini hans og nánasta fjölskylda var hinsvegar viðstödd athöfnina í St. George kapellu. Hefur flest gengið á afturfótunum við skipulagningu athafnarinnar. Hvert áfallið rak annað við undirbúninginn og var talað opinberlega um mjög áberandi PR-mistök, sem hafi átt fáa sína líka á seinni árum, þó saga konungsfjölskyldunnar seinustu 15 árin sé vissulega nærri því að vera ein samfelld sorgarsaga. Gott dæmi um það er að í upphafi átti athöfnin að fara fram í kapellunni. Þótti það merki um að athöfnin ætti að fá vissan viðhafnarbrag, þó auðvitað væri um borgaralega giftingu að ræða. Var fyrst því gert ráð fyrir að drottningin mætti og flestallir í nánustu fjölskyldu brúðhjónanna. En þá kom babb í bátinn. Í ljós kom að lög heimiluðu ekki að athöfnin færi fram utan skrifstofu borgardómara, nema þá að slíkt gengi yfir alla landsmenn. Slíkt gat auðvitað ekki orðið. Því breyttist allt planið og formlegheitin við athöfnina minnkuðu enn. Ljóst er að drottningin taldi ekki viðeigandi að vera viðstödd slíka athöfn í ráðhúsinu. Slíkt má eflaust flokka undir snobb að hætti aristókratanna. Óneitanlega er þetta allt mjög hlægilegt og vekur upp allnokkrar spurningar.
Með giftingu Karls og Camillu lýkur áralöngum vangaveltum um samband þeirra og eðli þess. Þrátt fyrir að prinsinn og Camilla gangi loks í hjónaband þýðir það þó ekki að hún verði Englandsdrottning eða taki stöðu sem slík, þegar og ef hann verður konungur Englands. Hlýtur hún nú titilinn: hennar konunglega hátign, hertogaynjan af Cornwall. Verði hann konungur tekur hún prinsessutitil og hlýtur formlegan titil sem hennar konunglega hátign, eiginkona konungs (Princess Consort). Allt var þetta mjög viðkvæmt mál og mikið samkomulagsatriði. Fyrir liggur að kirkjuyfirvöld og foreldrar prinsins hafi samþykkt ráðahaginn, en með því skilyrði að Camilla hlyti aldrei drottningartign eða sömu stöðu og móðir prinsins. Stóð Elísabet drottning, lengi í vegi þess að þau myndu giftast og tók aldrei í mál að hún hlyti stöðu drottningar. Camilla og Karl eru bæði fráskilin. Þjóðhöfðingi Bretlands er verndari kirkjunnar og því málið mjög erfitt í vöfum fyrir hana að samþykkja ráðahaginn. Eðli sambands Karls og Camillu hefur lengi verið fjölmiðlamatur og umdeilt meðal Breta hvernig taka eigi því. Hafa þau verið sundur og saman í rúma þrjá áratugi og lengi verið tekist á um ástir þeirra.
Sambandi Karls og Camillu er umfram allt kennt um að draumahjónaband Karls og Díönu prinsessu af Wales, leið undir lok. Þau giftust með miklum viðhafnarbrag 29. júlí 1981 og var það almennt kallað brúðkaup 20. aldarinnar. Brestir komu fljótt í draumahjónabandið vegna þess að Karl og Camilla héldu áfram sambandi sínu. Karl og Díana skildu að borði og sæng árið 1992 og hlutu lögskilnað 1996. Díana prinsessa, lést í bílslysi 31. ágúst 1997. Í kjölfarið fóru Karl og Camilla að vera saman opinberlega og Camilla flutti til Karls árið 2002 í Clarence House. Tæknilega er Camilla nú orðin prinsessan af Wales, enda gift prinsinum af Wales. Hún hefur þó ekki í hyggju að taka þann titil upp, af skiljanlegum ástæðum og til að virða minningu Díönu, sem nýtur mikilla vinsælda og virðingar bresks almennings. Enn er biturleiki í garð Karls vegna þess hvernig fór fyrir Díönu og hefur það sett mark sitt á umræðu seinasta áratugar varðandi sambandið við Camillu. En nú hefur samband þeirra hlotið formlega staðfestingu og þau eru gengin í hjónaband. Verður fróðlegt að fylgjast með bresku krúnunni og örlögum hennar, er þessar fornu turtildúfur hafa nú játast hvoru öðru.
Saga dagsins
1869 Kristján Jónsson Fjallaskáld lést, 26 ára gamall - þekktasta kvæði hans er Yfir kaldan eyðisand
1962 Ítalska leikkonan Sophia Loren hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Cesiru í kvikmyndinni Two Women (La Ciociara) - Loren er ein glæsilegasta kona sögunnar og hefur alla tíð verið rómuð fyrir þokka sinn. Einnig ein svipmesta leikkona 20. aldarinnar og hefur átt litríkan og glæsilegan leikferil
1979 Leikararnir Jane Fonda og Jon Voight hlutu óskarinn fyrir túlkun sína á Sally Hyde og Lucas Martin í kvikmyndinni Coming Home. Myndin var mikil ádeila á hið langvinna og bitra Víetnamsstríð og þótti vera mjög umdeild. Ekki síður var umdeild barátta aðalleikaranna á opinberum vettvangi gegn stríðinu. Sérstaklega var Fonda öflug í að tjá andstöðu sína á stjórnvöldum meðan á stríðinu stóð. Fonda hlaut áður óskarinn árið 1971 fyrir leik sinn í myndinni Klute og var eitt helsta kyntákn sinnar kynslóðar og átti glæsilegan leikferil. Voight fór á kostum í mörgum litríkum hlutverkum á ferlinum
1984 Leikararnir Shirley MacLaine og Jack Nicholson hlutu óskarinn fyrir glæsilega túlkun á Auroru Greenway og Garrett Breedlove í myndinni Terms of Endearment - voru þetta önnur óskarsverðlaun Nicholson, en hann hlaut verðlaunin 1975 fyrir leik sinn í One Flew Over the Cuckoo's Nest og aftur 1997 fyrir leik sinn í As Good as it Gets. Hann hefur verið tilnefndur til óskarsverðlauna tólf sinnum, oftar en nokkur karlleikari. Nicholson og MacLaine eru bæði með betri leikurum sinnar kynslóðar
2003 24 ára einræðisferli ríkisstjórnar Saddams Husseins í Írak lýkur formlega - stjórnin féll í beinni útsendingu fréttamiðla af gangi Íraksstríðsins. Almenningur í Írak gladdist yfir falli einræðisaflanna og felldu ásamt bandaríska hernum risavaxna styttu af Saddam sem stóð á miðju Firdos-torgi í Bagdad
Snjallyrðið
A good marriage would be between a blind wife and a deaf husband.
Honore de Balzac rithöfundur (1799-1850)
<< Heim