Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

08 apríl 2005

Jóhannes Páll páfi II
1920-2005


Loftmynd af Péturstorginu í Róm er útför Jóhannesar Páls páfa II fór fram - 8. apríl 2005

Jóhannes Páll páfi II var jarðsunginn við hátíðlega athöfn á Péturstorginu í morgun. Fullyrða má að útför páfa sé fjölmennasta útför sem haldin hefur verið í mannkynssögunni. Talið er að 5-6 milljónir manna hafi verið viðstaddir útförina á Péturstorginu og verið í Róm á þessum merka degi. Útförin var sýnd í beinni útsendingu um allan heim, ekki aðeins í ríkjum kristinna manna, heldur einnig í ríkjum múslíma og gyðinga, t.d. í Egyptalandi og Ísrael. Ljóst má vera að þessi einstaka kveðjuathöfn hafi fangað athygli flestra íbúa heimsins og að hundruð milljóna manna um heim allan hafi fylgst með henni. Áður en athöfnin hófst var formleg kistulagning inni í Péturskirkjunni. Sú athöfn var lokuð og aðeins fyrir kardinálana og nánustu vini páfans og starfsfólk á embættisferli hans. Eduardo Martinez Somalo kardínáli, sem nú fer með daglega stjórn mála í Vatíkaninu og gegnir því embætti camerlengo þar til nýr páfi hefur verið kjörinn, huldi andlit páfa með hvítu silkiklæði við athöfnina og dreypti vígðu vatni á líkið. Áður en kistunni var lokað var pyngju með öllum myntum og orðum páfadóms Jóhannesar Páls II seinustu 27 ár lögð við fætur hans.

Kista páfa var mjög einföld í sniðum. Einföld viðarkista án alls íburðar og látlaus að sjá. Kistan var með upphleyptu krossmarki og stafnum M sem táknar Maríu Guðsmóður. Kistan var borin inn á Péturstorgið og lögð þar á teppi framan við altari og bók með guðspjöllunum var lögð ofan á kistuna. Yfirumsjón með útförinni og sálumessu til minningar um ævi og störf páfa hafði Joseph Ratzinger kardináli. Útförin var þrískipt og stóð hún í tæpa þrjá tíma. Fór sjálf sálumessan fram á mörgum tungumálum. Páfi lagði alla tíð mikla áherslu á ferli sínum að tala til sem flestra þjóða og fólks þar með tungumáli þeirra. Hann flutti blessunarorð á rúmlega 60 tungumálum við stórathafnir á ferli sínum í embættinu. Athöfnin sjálf fór fram eftir ákvörðunum páfa sjálfs sem hafði skipulagt athöfnina og uppbyggingu hennar mjög nákvæmlega á löngu tímabili. Farið er eftir fyrirmælum sem hann skrifaði árið 1998, og skildi eftir samhliða erfðaskrá sinni. Blandað var saman fornum og nýjum siðum kaþólskrar trúar og voru hlutar sálumessunnar bæði frá 13. öld og allt fram til þeirrar 19. Sálumessan var sungin að stærstum hluta á latínu, sem er opinbert tungumál kaþólsku kirkjunnar, en fór einnig fram á ýmsum nútímamálum.

Útför Jóhannesar Páls páfa II

Ratzinger flutti sérlega áhrifamikla og glæsilega minningarræðu um páfa. Sagði hann þar að páfi hefði verið prestur allt til hinstu stundar og hefði á löngum ferli sínum axlað ofurmannlegar byrðar. Ratzinger sagði að allir trúaðir menn væru daprir er kæmi nú að kveðjustund, en um leið fullir gleði og vonar og þakklát fyrir þjónustu páfans. Rödd hans brast er hann minntist þess er páfi kom fram í næstsíðasta skipti opinberlega á páskadag er hann blessaði mannfjöldann á Péturstorgi. Gat hann þá ekki tjáð sig en var staðráðinn í að heimsbyggðin finndi fyrir nærveru sinni og gæti skynjað pínu sína og dvínandi mátt. Sagði Ratzinger orðrétt um það: "None of us can ever forget how in the last Easter Sunday of his life, the Holy Father, marked by suffering, came once more to the window of the Apostolic palace and one last time gave his blessing urbi et orbi. We can be sure that our beloved Pope is standing today at the window of the Father's house, that he sees us and blesses us." Mjög sérstakt var að sjá að almenningur klappaði margoft meðan á útförinni stóð. Það er hefðbundinn ítalskur siður að klappa til að sýna virðingu, er það frábrugðið íslenskum sið við kveðjuathöfn en mjög athyglisverður.

Fjöldi þjóðarleiðtoga og forystumanna á alþjóðavettvangi voru við útförina. Meðal þeirra voru George W. Bush forseti Bandaríkjanna, Alexander Kwasniewski forseti Póllands, Tony Blair forsætisráðherra Bretlands, Karl Bretaprins, Karl Gústaf Svíakonungur, Juan Carlos Spánarkonungur, Margrét Danadrottning, Jacques Chirac forseti Frakklands, Gerhard Schröder kanslari Þýskalands, Kofi Annan framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Bashar Assad forseti Sýrlands, Moshe Katsav forseti Ísraels, Albert Belgíukonungur, Luiz Inacio Lula da Silva forseti Brasilíu, Anders Fogh Rasmussen forsætisráðherra, Jose Manuel Barroso forseti ESB, Mohammad Khatami forseti Írans, Bertie Ahern forsætisráðherra Írlands, Abdullah Jórdaníukonungur, Vicente Fox forseti Mexíkó, Gloria Arroyo forseti Filippseyja, Göran Persson forsætisráðherra Svíþjóðar, Kjell Magne Bondevik forsætisráðherra Noregs, Viktor Yushchenko forseti Úkraínu og Robert Mugabe forseti Zimbabwe, svo fáir séu aðeins nefndir af lista þeirra sem mættu. Var mjög merkilegt að sjá Bush, Mugabe og Khatami mætta á sama staðinn. Sérstaka athygli vakti þegar Assad og Katsav tókust tvisvar í hendur við athöfnina og þegar Katsav heilsaði Khatami. Fulltrúi Íslands við útförina var Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra.

Gröf Jóhannesar Páls II í grafhvelfingu Péturskirkjunnar

Að athöfninni lokinni var kista páfa flutt inn í Péturskirkjuna. Var hún flutt í grafhvelfinguna undir basiliku kirkjunnar. Var kistan sett ofan í aðra kistu úr málmi, sem var svo aftur sett í eikarkistu, og loks grafin undir marmarahellu í grafhvelfingunni. Var páfi lagður til hinstu hvílu í grafreit þar sem lík Jóhannesar páfa XXIII var jarðsett árið 1963. Var kista hans þar til ársins 2001 er hún var flutt til geymslu í kirkjunni sjálfri. Tók athöfnin í grafhvelfingunni um 20 mínútur og var hún ekki sýnd opinberlega en ljósmyndir af greftrunarathöfninni voru gerðar opinberar síðdegis í dag. Merkilegum tíma í sögu kaþólsku kirkjunnar er lokið. Trúarleiðtogi til tæplega þriggja áratuga hefur verið kvaddur og nýr kafli í sögu kirkjunnar hefst brátt með nýjum páfa. Tekur nú við tímabil sem ber nafnið Novemdialis, 9 daga formlegt sorgartímabil, sem markast af því að á hverjum degi er haldin hátíðarmessa í Péturskirkju. Eftir að Novemdialis er lokið er komið að stærsta verkefninu sem fylgir andláti páfa, því að velja formlega eftirmann hans. Kjörmannasamkunda kardinála mun koma saman þann 18. apríl nk. Hafa 117 kardinálar kjörrétt þar.

Jóhannes Páll II páfi hefur nú kvatt og heimsbyggðin hefur sýnt honum virðingu seinustu daga og minnst hans og verka hans með hlýhug. Jóhannes Páll II var sannkallaður áhrifamaður á samtíð sína og alla framtíð, bæði kristinnar trúar og þess embættis sem hann gegndi af trúmennsku og mikilli samviskusemi í þrjá áratugi og sýndi ótrúlegan styrk sérstaklega seinustu árin, er hann barðist við veikindi og sífellt minni þrótt til starfa. Hann réði ekki yfir herstyrk eða vopnavaldi en vald hans og áhrif var öflugra en það allt til samans, hann vann á grundvelli trúar og var einlægur fulltrúi þess sem kristin trú byggir á. Áhrif hans við að tjá þann boðskap var sterkari en allt mannlegt. Hann var allt til hinstu stundar ötull og öflugur talsmaður Guðs. Hann markaði skref í sögu mannkyns sem gleymast ekki að mínu mati. Eftirmanns hans bíður ekki auðvelt verkefni að taka við embættinu, nú þegar hann hefur kvatt.

Jóhannes Páll páfi II (1920-2005)
Jóhannes Páll II páfi kvaddur - pistill SFS
Minningarvefur um Jóhannes Pál II páfa
Jóhannes Páll II páfi (1920-2005)



Ömmusystir mín, Hugrún Stefánsdóttir, lést í gær. Ég vil að leiðarlokum þakka henni allt það sem hún gerði fyrir mig og fjölskyldu mína. Ástúð hennar og umhyggja fyrir öllum ættingjum sínum verður seint fullþökkuð. Minning hennar mun lifa.

Við biðjum góðan Guð að launa
gæðin öll og þína tryggð
ástkær minning þín mun ávallt lifa
aldrei gleymsku hjúpi skyggð.

Falin sértu frelsaranum
frjáls í náðarörmum hans
hljótir þú um eilífð alla
ástargjafir kærleikans.
SFS



Saga dagsins
1963 Gregory Peck hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á lögfræðingnum Atticus Finch í úrvalsmyndinni To Kill a Mockingbird. Peck var einn besti leikari sinnar kynslóðar og átti litríkan og glæsilegan feril og túlkaði fjölda svipmikilla og ógleymanlegra karaktera í frábærum kvikmyndum. Hann lést í júní 2003
1973 Spænski listmálarinn Pablo Picasso, fremsti málari 20. aldarinnar, lést á heimili sínu í Cannes
1989 Jóhannes Jónsson opnaði fyrstu Bónusverslunina við Skútuvog í Reykjavík - markaði upphaf verslunarrisans Baugs sem varð myndaður eftir að Jóhannes eignaðist verslunarfyrirtækið Hagkaup
1994 Bandaríski rokksöngvarinn Kurt Cobain í Nirvana, svipti sig lífi - Cobain var þá 27 ára að aldri
2005 Jóhannes Páll páfi II jarðsunginn í Róm - varð fjölmennasta útför í sögu mannkyns. Tæplega 200 þjóðarleiðtogar og forystumenn á alþjóðavettvangi vottuðu páfa virðingu sína með nærveru sinni þar

Snjallyrðið
I come as a pilgrim of love, of truth and of hope.
Jóhannes Páll páfi II trúarleiðtogi kaþólskra (1920-2005)