Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

05 apríl 2005

Tony BlairHeitast í umræðunni
Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Verkamannaflokksins, gekk í morgun á fund Elísabetar Englandsdrottningar í Buckingham-höll. Á fundi þeirra fór Blair fram á það við drottningu að hún myndi rjúfa þing og boða til þingkosninga fimmtudaginn 5. maí nk. Féllst hún á þá beiðni forsætisráðherrans. Tilkynnti Blair formlega um ákvörðun drottningar á blaðamannafundi við Downingstræti 10, embættisbústað forsætisráðherrans, er hann kom frá höllinni eftir samtal sitt og drottningar. Kynnti hann þar meginlínur kosninganna af sinni hálfu. Það sem helst kom fram í máli hans var að helsta markmið flokksins og af sinni hálfu á næsta kjörtímabili yrði að festa í sessi öflugt efnahagslíf og stöðugleika og tryggja fjárfestingar í opinberri þjónustu. Sagði hann að mikið væri í húfi í þessum kosningum, en nú væru örlög sín í höndum kjósenda. Það væri nú þeirra að meta verk sín í embætti og fella dóm yfir þeim, hvort honum og flokknum skyldi falin forysta áfram, líkt og í tveim seinustu kosningum.

Hefð er fyrir því í Bretlandi að kosningar fari fram á fimmtudegi í byrjun maímánaðar. Kosningabarátta flokkanna er þegar hafin af krafti. Kjörtímabil breska þingsins er 5 ár. Jafnan er þó kosið ári fyrir lok kjörtímabilsins, fer það þó oftast eftir því hversu örugg stjórnarforystan telur sig um sigur. Margaret Thatcher lét t.d. aldrei líða lengra en fjögur ár milli kosninga, en hún fór í gegnum þrennar kosningar: 1979. 1983 og 1987, og vann þær allar. Eftirmaður hennar, John Major lét líða fimm ár á milli kosninga í þau tvö skipti sem hann leiddi flokk sinn í kosningum: 1992 og 1997, þær fyrri vann hann þvert á allar kosningaspár en tapaði þeim seinni stórt fyrir Verkamannaflokknum. Í þeim kosningum komst Blair til valda eftir 18 ára valdaeyðimörk krata í Bretlandi. Með því að ljá Verkamannaflokknum mildari blæ og færa hann inn á miðjuna tókst honum að leiða flokkinn til valda. Blair hélt velli í kosningunum 2001 með svipaðri stefnu og náði að halda nokkurnveginn sínu. Frá þeim tíma hafa Blair og flokkurinn gengið í gegnum hvern öldusjóinn á eftir öðrum.

Deilur um Íraksmálið og innri valdabarátta innan Verkamannaflokksins hafa veikt mjög stöðu forsætisráðherrans og flokksins. Ljóst er að mun minni munur mun verða með stærstu flokkunum í þessum kosningum og langt í frá öruggt að Blair hljóti sigur í þriðju kosningunum í röð, líkt og Margaret Thatcher einni hefur tekist til þessa í breskri stjórnmálasögu. Ef marka má skoðanakannanir hefur Verkamannaflokkurinn meira fylgi en Íhaldsflokkurinn. Seinustu vikur hefur bilið þó minnkað mjög og að óbreyttu stefnir í spennandi kosningar. Það hefur aldrei gerst í sögu Verkamannaflokksins að hann sitji við völd lengur en tvö kjörtímabil. Blair stendur á krossgötum á ferli sínum. Aldrei hefur óánægja verið meiri með stjórn hans á landinu og flokknum en núna. Harkaleg valdabarátta stendur milli Blair og Gordon Brown bakvið tjöldin og óánægjan kraumar undir niðri. Er þar um að kenna að því er fjölmiðlar fullyrða svik þess fyrrnefnda á samkomulagi þeirra fyrir áratug um að hann drægi sig í hlé til að hleypa Brown í forsætisráðuneytið. Lengi hefur orðrómur verið á kreiki um að Brown hafi ekki gefið kost á sér í leiðtogakjöri Verkamannaflokksins 1994 en stutt Blair, vegna þess að þeir hefðu samið um að Blair yrði leiðtogi flokksins en myndi víkja úr stólnum fyrir Brown þegar hann hefði setið í 7-8 ár.

Eins og allir vita eru nú liðin 8 ár síðan Blair tók við völdum og Brown er orðinn langeygður í biðinni eftir stólnum og hefur viljað seinasta árið að valdaskiptunum kæmi, sem hefði verið lofað samkvæmt þessu. Var málið farið að skaða flokkinn, og sömdu þeir frið fyrir aukaþing flokksins í febrúar til að halda andlitinu út í frá og auka sigurlíkur flokksins. Munu þeir orðið vart talast við nema í gegnum talsmenn sína og starfsmenn í ráðuneytum. Er þeim þó báðum ljóst að slíðri þeir ekki sverðin muni flokkurinn eiga minni líkur á endurkjöri í kosningunum. Þeir séu því sammála um það að stuðla að endurkjöri flokksins en flokkspólitískir andstæðingar nái ekki að notfæra sér sundrungu milli þeirra og jafnvel vinna því kosningarnar. Það er einmitt þetta sem breskir stjórnmálaspekúlantar spá að sé líklegasta ástæða þess að Verkamannaflokkurinn gæti tapað: óeiningin verði þeim fjötur um fót. Ef marka má kannanir er staðan tvísýn og gæti því orðið naumt á mununum. Sem dæmi má nefna nýjustu könnun Daily Telegraph þar sem munar þrem prósentum og í Guardian munar nú bara einu prósenti. Verður fróðlegt að sjá hvað muni gerast á næstunni í þessu máli, en það er ljóst að kosningarnar verða þær mest spennandi frá árinu 1992, þegar litlu sem engu munaði að flokkarnir yrðu hnífjafnir.

RÚVÞað er samdóma álit fólks að Markúsi Erni Antonssyni útvarpsstjóra, hafi tekist með glæsibrag að ljúka deilum um fréttastofu útvarps og um ráðningu yfirmanns þar með þeirri ákvörðun sinni að ráða Óðin Jónsson fréttamann, til starfans á sunnudag. Með því náði hann að slá öll vopn úr höndum andstæðinga sinna og tókst algjörlega að snúa málinu sér í vil. Er það ánægjuefni að deilur um þessi mál séu nú að baki. Er mikilvægt að allir hlutaðeigandi horfi nú fram á veginn og líti í aðrar áttir. Í dag kom svo útvarpsráð saman til fundar og fór yfir málið og lyktir þess. Greinilegt er að útvarpsstjóri hefur tekið ákvörðun um ráðningu Óðins án samráðs við útvarpsráð. Er það ekki óeðlilegt, enda hafði útvarpsráð áður fjallað um umsóknirnar og lögbundið hlutverk þeirra í ferlinu því að baki. Vakti mesta athygli þar bókun fulltrúa Samfylkingarinnar í ráðinu. Þar segir að ráðning Óðins sé í samræmi við afstöðu þeirra á síðasta fundi þar sem þeir hafi lýst þeirri skoðun að velja bæri fréttastjóra úr hópi þeirra fimm umsækjenda sem Bogi Ágústsson mælti með.

Þessi bókun fulltrúa Samfylkingarinnar er í einu orði sagt rugl, hún heldur engu vatni. Fyrir það fyrsta treystu fulltrúar þessa flokks á seinasta fundi sér ekki til þess að mæla með neinum af fimmmenningunum sem leiddi til þess að Auðun Georg Ólafsson hlaut aðeins einn atkvæði í útvarpsráði. Samfylkingin er ekki trúverðug í þessu máli og vinnubrögð fulltrúa flokksins í ráðinu alveg stórundarleg. Þeim bar skylda til að tjá skoðun sína á því hver væri hæfastur umsækjenda og ætti að taka við stöðunni á þeim tímapunkti. Bókun þeirra í gær er í engu samræmi við álit þeirra þegar málið fór fyrir ráðið. Tvískinnungur þeirra í málinu er algjör. Ef þeim var alvara með því að álit Boga skipti máli áttu þeir að velja úr hópnum einn þeirra fimmmenninganna sem þau töldu hæfastan. Það þýðir ekkert fyrir Samfylkingarfulltrúana að tala með þessum hætti en með þeim hætti afhjúpa þau þó tvískinnung sinn augljóslega. Samfylkingin hefur í ráðinu oft áður tekið þátt í þessu ferli og valið fulltrúa og kosið þá. Eitthvað varð til þess að svo varð ekki nú. Er það kannski ástæðan eins og DV heldur fram að Eiríkur Bergmann Einarsson hafi nauðað í Ingvari Sverrissyni um að kjósa Auðun Georg, stórvin sinn. Þessu heldur Illugi Jökulsson nú fram líka í langri grein. Eitthvað er það, enda er afstaða Samfylkingarfulltrúanna ein tækifærismennska í gegn.

Punktar dagsins
Jóhannes Páll páfi II liggur á viðhafnarbörum í St. Péturskirkju

Lík Jóhannesar Páls páfa II var í gær flutt með mikilli viðhöfn úr Postulahöllinni í Péturskirkjuna. Þar mun það hvíla fram á föstudag en þá verður páfi lagður til hinstu hvíldar í hvelfingu undir kirkjunni við hlið annarra páfa. Tólf menn báru líkbörurnar út um bronshliðið og út á Péturstorgið. Við hlið þeim gengu svissnesku varðliðarnir í sínum skrautlegu búningum og lá reykelsisilmur yfir öllu. Áður en athöfnin hófst, fór Eduardo Martinez Somalo kardináli, sem nú fer með stjórn innri málefna kirkjunnar, með bæn og blessaði lík páfa með vígðu vatni. Var þetta mjög merkileg stund og athyglisvert að fylgjast með henni, en ég sá hluta hennar í beinni netútsendingu BBC. Skömmu eftir athöfnina var kirkjan opnuð almenningi og þeim leyft að fara að viðhafnarbörunum og votta páfa virðingu sína. Var þá þegar komin löng röð af fólki sem beið og jókst röðin sífellt eftir því sem leið á daginn. Seinnipartinn í dag höfðu um hálf milljón manns þegar farið í kirkjuna, en kirkjan verður opin 21 tíma á dag fram að útförinni. Búist er við að um 200 þjóðarleiðtogar verði við útförina og því um að ræða einn merkasta atburð samtímasögunnar. Ákveðið hefur verið að páfi verði jarðsettur í hvelfingunni í St. Péturskirkju, þar sem Jóhannes páfi XXIII var grafinn við andlát sitt árið 1963.

Deiglan

Norræna ráðherranefndin og Norðurlandaráð, héldu á föstudag fund hér í Deiglunni á Akureyri í samvinnu við Norrænu upplýsingaskrifstofuna á Akureyri. Var þar fjallað um þróun íslenska velferðarkerfisins. Komst ég því miður ekki á fundinn vegna anna, en á sama tíma héldum við ungir sjálfstæðismenn fund á Café Karólínu. Á fundinum fluttu Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi, Rannveig Guðmundsdóttir alþingismaður og forseti Norðurlandaráðs, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarfulltrúi og verðandi alþingismaður, erindi um málið. Hitti ég Sigrúnu að fundinum loknum í miðbænum og ræddum við um niðurstöður fundarins og ræðurnar sem fluttar voru. Var fundurinn vel sóttur og gagnlegur að sögn Sigrúnar. Margar áleitnar spurningar koma eflaust fram. Til dæmis: munu Íslendingar kjósa að halla sér í æ meira mæli að bandaríska velferðarmódelinu eða halda í það norræna? Hver er raunveruleg staða íslenska velferðarkerfisins? Af hverju eru fleiri konur en karlar undir fátækramörkum? Hvernig er hlúð að barnafjölskyldum? Einstæðum foreldrum? Börnum með sérþarfir? Áhugaverður fundur, hefði reynt að fara á hann hefði öðruvísi staðið á. Allavega, gagnlegur fundur og mikilvægt umfjöllunarefni og greinilegt að fólk hefur áhuga á umræðuefninu.

Síminn

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, kynnti á þingi í gær um samkomulag stjórnarflokkanna vegna væntanlegrar sölu Símans. Ríkið á 98,8% hlut í Símanum nú. Samkvæmt yfirlýsingunni á að selja hann allan fyrir lok júlímánaðar í einu lagi til eins hóps kjölfestufjárfesta. Salan mun þó verða háð ýmsum skilyrðum. Skilyrðin eru eftirfarandi: í fyrsta lagi að enginn einn einstakur aðili, skyldir eða tengdir aðilar, má eignast stærri hlut en sem nemur 45%, beint eða óbeint, fram að skráningu félagsins í Kauphöll. Í öðru lagi að tiltekinn hluti keyptra hlutabréfa og ekki minna en 30% af heildarhlutafé félagsins verði af hálfu kaupanda boðinn almenningi og öðrum fjárfestum til kaups fyrir árslok 2007, og sala á hlutum í félaginu til annarra eigi sér ekki stað fyrr en að lokinni sölu. Í þriðja lagi er að Síminn verði skráður á aðallista Kauphallar að uppfylltum skilyrðum hennar. Í fjórða og síðasta lagi að kjölfestufjárfestir fari ekki með eignaraðild, beina eða óbeina, í fyrirtækjum í samkeppni við Símann. Er ánægjulegt að ákveðið hafi verið að selja Símann og hann verði seldur í einu lagi eins og áður hafði verið ákveðið. Hinsvegar eru að mínu mati undarlegir skilmálarnir sem settir eru og seint hægt að segja að allir séu þeir gáfulegir. En mikilvægast er að fyrirtækið verður selt eins og að hafði verið stefnt.

The Sixth Sense

Var nóg að gera í gærkvöldi. Fór á þrjá fundi frá kl. 17:00 allt fram til 22:00. Það var því ekki komið heim fyrr en á ellefta tímanum. Er heim kom var því tekið því rólega: poppað og horft á góða mynd. Leit á hina stórfenglegu The Sixth Sense með Bruce Willis og Haley Joel Osment. Myndin segir frá virtum barnasálfræðingi, Malcolm Crowe, sem hefur tekið að sér að hjálpa átta ára gömlum strák, Cole Sear, að vinna bug á ótta sínum, en hann er gæddur þeim yfirskilvitlega hæfileika að geta séð hina dauðu og talað við þá. Málið er Malcolm einkar hugleikið því nokkrum árum fyrr hafði hann glímt við svipaðan vanda sem annar drengur átti við að stríða, en mistekist við að leysa. Við tekur flétta sem erfitt er að lýsa í orðum. Það er enginn vafi á því að The Sixth Sense er ein af eftirminnilegustu kvikmyndum tíunda áratugarins. Þar vinnur allt saman til að skapa hina frábæru kvikmynd; góð leikstjórn, frábært handrit, góð myndataka og síðast en ekki síst frábær leikur. Bruce Willis sýnir einn af allra bestu leiktilbrigðum ferils síns sem sálfræðingurinn Malcolm Crowe, Toni Collette er stórkostleg í hlutverki móðurinnar Lynn Sear, en senuþjófur myndarinnar er hiklaust Haley Joel Osment sem er í einu orði sagt stórfenglegur í hlutverki Cole, stráksins sem hefur skyggnigáfuna. Frábær mynd.

Saga dagsins
1940 Hægri umferð var samþykkt á Alþingi - vegna hernáms Breta varð ekki af því, enda voru þeir vanir vinstri umferð. Það var loks á sjöunda áratugnum sem þetta varð að veruleika. Árið 1967 var samþykkt á þingi að breyta lögunum og 26. maí 1968 var formlega fært úr vinstri umferð yfir í hægri
1955 Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins, tilkynnti um afsögn sína úr embætti - hann hafði þá verið leiðtogi flokksins frá 1940 og forsætisráðherra tvívegis: 1940-1945 og frá 1951. Hann leiddi Bretland í gegnum seinni heimsstyrjöldina og hafði verið ötull talsmaður bandamanna í stríðinu gegn mætti nasista og Hitlers. Churchill var þá rúmlega áttræður, enginn hefur orðið eldri sem forsætisráðherra Bretlands. Churchill andaðist í janúar 1965
1958 Ásgrímur Jónsson listmálari, lést, 82 ára að aldri - hann var brautryðjandi nútímamyndlistar á Íslandi og hélt fyrstu málverkasýningu sína árið 1903. Ásgrímur varð einn fremsti málari aldarinnar
1965 Leikkonan Julie Andrews hlaut óskarinn fyrir glæsilega túlkun sína á barnfóstrunni hnyttnu Mary Poppins - hún hlaut verðlaunin aftur ári síðar fyrir stórfenglega túlkun sína á hinni söngelsku nunnu Mariu í The Sound of Music. Dame Julie er ein af allra fremstu leikkonum Breta á 20. öld og hefur verið rómuð fyrir glæsilegan leik sinn, bæði á leiksviði og í kvikmyndum og næma túlkun sína
1971 Söngleikurinn Hárið var frumsýndur í Glaumbæ og vakti bæði hrifningu og deilur. Sýningin varð gríðarlega vinsæl og vakti athygli. Hárið var sett upp aftur í misjöfnum útfærslum árin 1994 og 2004

Snjallyrðið
It's the friends you can call up at 4 a.m. that matter.
Marlene Dietrich leikkona (1901-1992)