Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

06 apríl 2005

Brekkuskóli
Íbúaþing um skólamál í Brekkuskóla

Í dag var haldið opið íbúaþing hér á Akureyri um skólamál. Var um að ræða stefnuþing þar sem til umræðu voru drög að skólastefnu Akureyrarbæjar. Þingið fór fram í nýjum sal Brekkuskóla, en nýbygging skólans var tekin í notkun fyrir nokkrum mánuðum. Skólanefnd Akureyrarbæjar boðaði til þingsins alla íbúa bæjarins sem hefðu áhuga á að kynna sér fyrirliggjandi drög að skólastefnunni, hefðu áhuga á að taka þátt í umræðu um málin og hafa með því áhrif á endanlega gerð skólastefnunnar. Drög að skólastefnunni voru kynnt formlega á vef Akureyrarbæjar nokkru fyrir páska og gafst því þeim sem áhuga hefðu tækifæri til að tjá sig um málin og fara yfir skoðanir sínar á stefnunni og ræða þau atriði sem þyrfti að fara yfir og áhugavert væri að leita umræðu um. Gátu því áhugasamir litið á drögin, mótað skoðanir sínar til málsins og undirbúið sig fyrir hið opna þing. Þessi vinna og drög eru áhugaverð og var mjög gaman að taka þátt í þessu ferli.

Vel var mætt á íbúaþingið, enda eru skólamálin, og verða ávallt, stór og víðfeðmur málaflokkur sem skiptir alla máli. Skólamálin eru hjarta og sál hvers sveitarfélags - það gildir ekkert annað um Akureyri en önnur sveitarfélög. Hér í bænum eru sjö grunnskólar: Brekkuskóli, Giljaskóli, Glerárskóli, Hlíðarskóli, Lundarskóli, Oddeyrarskóli og Síðuskóli. Á Akureyri eru tólf leikskólar: Naustatjörn, Iðavöllur, Lundarsel, Flúðir, Síðusel, Holtakot, Pálmholt, Sunnuból, Krógaból, Klappir, Kiðagil og Tröllaborgir. Framundan er bygging nýs leikskóla við Helgamagrastræti sem opna á, á næsta ári og nýs grunnskóla í Naustahverfi, Naustaskóla, sem verður byggður á næsta kjörtímabili bæjarstjórnar. Það er því öflugt skólalífið hér og getum við Akureyringar verið stoltir af skólamálum okkar og skóladeildinni okkar sem vinnur gott starf undir forystu Gunnars Gíslasonar. Hér, rétt eins og í flestum sveitarfélögum, eru skólamálin stór hluti málefna sveitarfélagsins, málaflokkur sem alltaf þarf að vinna að og hlúa að til að hann sé í forystusessi.

Íbúaþingið var góður vettvangur til þess að vinna saman hér að því að efla skólamálin, fá mat fólks á stöðu mála og heyra skoðanir fólks á drögunum að skólastefnunni og fá punkta inn í þá vinnu. Jón Kr. Sólnes formaður skólanefndar, setti íbúaþingið með ræðu þar sem hann kynnti helstu áhersluatriði skólastefnunnar. Kynnt var yfirlit yfir athugasemdir sem borist höfðu til skóladeildar bæjarins fyrir 1. apríl. Þeir sem skiluðu tillögur mæltu að því loknu fyrir þeim og fóru yfir það sem þeir höfðu um skólastefnuna að segja. Komu margar mjög spennandi tillögur og var fróðlegt að heyra gerð grein fyrir þeim og farið yfir mat viðkomandi á málum, fá mat þess á stöðunni og hvað mætti betur fara og eða hvað vantaði jafnvel inn í drögin. Allt hið besta mál og notaleg skoðanaskipti og pælingar um málin sem áttu sér stað. Mikil umræða varð um tillögurnar sem kynntar voru og farið yfir skólamálin með víðfeðmum hætti og gagnlegum. Leitast var við að fá afstöðu um hverja einstaka breytingartillögu og því var um að ræða opið og skemmtilegt starf sem skilaði sér mjög vel.

Þessi dagur í Brekkuskóla var því góður og gagnlegur, skemmtileg skoðanaskipti og fín umræða sem varð um þennan mikilvæga málaflokk okkar. Það sem helst stendur eftir íbúaþingið er að álit bæjarbúa sem bera hag skólamála hér fyrir brjósti mættu til að hafa skoðun á málum og leggja fram sitt mat á þeim. Er þetta íbúaþingsferli til marks um það að skóladeild og skólanefnd bæjarins er annt um að hinn almenni bæjarbúi hafi sitt að segja um málin, enda sjálfsagt að svo sé í ljósi þess að skólamálin koma okkur öllum við. Þetta er málaflokkur sem er eins og fyrr segir hjarta og sál hvers sveitarfélags. Menntun og námsferill barnanna er grunnur í lífið og ný skólastefna leggur grunn að því að Akureyri verði í öndvegi sveitarfélaga í skólamálum. Er það markmið sem við öll vinnum saman að og þeir sem mættu á íbúaþingið lögðu sitt af mörkum til að vinna þann grunn sem til þarf. Í skólamálum sem öðrum býður Akureyri upp á öll lífsins gæði.

Saga dagsins
1941 Lengsti þorskurinn veiðist á Íslandsmiðum, 181 sm. langur - hann veiddist á línu í Miðnessjó
1959 Breski leikarinn Sir David Niven hlaut óskarinn fyrir túlkun sína á Major Pollock í kvikmyndinni Separate Tables - Niven var einn besti leikari Breta á 20. öld og þekktur fyrir glæsilega túlkun sína á svipmiklum breskum hefðarmönnum og litríkum karakterum. Hann lést úr hrörnunarsjúkdómi 1983
1979 Úthlutað var fyrsta sinni úr Kvikmyndasjóði - hæstu styrkir voru veittir til kvikmyndanna Land og synir, Óðal feðranna og Veiðiferðin. Þessar myndir urðu fyrstu kvikmyndir íslenska kvikmyndavorsins
1996 Fyrsta apótekið var opnað eftir að frelsi var aukið í lyfsölu. Þetta var Apótek Suðurnesja. Fimm dögum síðar var Lyfja í Reykjavík opnuð og síðan komu margar lyfjaverslanir í kjölfarið á næstu árum
2000 Vatnseyrardómurinn - meirihluti Hæstaréttar dæmdi útgerð Vatneyrar til að greiða sektir fyrir að hafa farið til veiða án aflaheimildar. Héraðsdómur Vestfjarðar hafði í árslok 1999 sýknað útgerðina

Snjallyrðið
For to be free is not merely to cast off one's chains, but to live in a way that respects and enhances the freedom of others.
Nelson Mandela forseti S-Afríku (1918)