Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 apríl 2005

Stefán Friðrik StefánssonSunnudagspistillinn
Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:

- í fyrsta lagi fjalla ég um útför Jóhannesar Páls páfa II sem fram fór á föstudag. Áhrif páfa á alþjóðavettvangi hefur birst vel seinustu vikuna, allt frá andláti hans. Náði það hápunkti á þessum fagra apríldegi í Róm er hann var kvaddur. Staða Jóhannesar Páls II páfa sem friðarpostula og öflugs trúarleiðtoga var staðfest með því að fjöldi þjóðarleiðtoga og forystumanna á alþjóðavettvangi komu til útfararinnar og vottuðu með því honum virðingu sína. Útför páfa staðfesti að friðarboðskapur er sá boðskapur sem heldur merki fólks hæst á lofti. Mér fannst merkilegt að lesa erfðaskrá páfa sem birt var um miðja vikuna. Þar eru íhuganir páfa um lífið og tilveruna, trúartilganginn og skyldur sínar. Þar er ekki verið skv. venjulegum erfðaskrám að útdeila veraldlegum eigum eða dauðum hlutum sem hafa í raun engan tilgang þegar kemur að innsta kjarna tilverunnar. Páfi lét ekki eftir sig veraldlegar eigur og lifði íburðarlitlu lífi. Hann var fulltrúi trúar og friðarbaráttu í verkum sínum. Það sést vel í íhugunum hans í erfðaskránni. Það fyrsta og síðasta sem hafði tilgang í huga hans var trúin, það að vera málsvari kaþólsku kirkjunnar og vera öflugur leiðtogi hennar. Þessi gildi hafði hann í huga allt til loka.

- í öðru lagi fjalla ég um sífellt harðnandi formannsslag í Samfylkingunni. 40 dagar eru þar til landsfundur Samfylkingarinnar hefst. Bráðlega hefst svo formlega póstkosning um formannsembætti flokksins þar sem valið stendur á milli Össurar Skarphéðinssonar núverandi formanns, og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur varaformanns. Hefur blasað við nú nokkurn tíma að formannskosningin verði vettvangur átaka og láta í innsta hring á sama vettvangi, markað af fjölskyldu- og vinaslag sem ekki á sér mörg fordæmi í íslenskum stjórnmálum. Össur hefur eflst seinustu daga, hefur opnað kosningaskrifstofu tengda kjörinu og fer fram af krafti á vef sínum og talar um það sem er að gerast. Á vef Ingibjargar Sólrúnar er hátrúarleg og háfleyg persónuleg stemmning allsráðandi. Greinilegt er að skjallið og oflofið um ISG eru farin að virka öðruvísi á almenning. Enda er það svo að of mikið skjall getur endað sem háð. Fer ég yfir slaginn, sem að mínu mati snýst mun frekar um persónur en gallhörð málefni.

- í þriðja lagi fjalla ég um niðurstöður nefndar menntamálaráðherra um eignarhald á fjölmiðlum, en söguleg og þverpólitísk sátt náðist um niðurstöðuna. Er það mjög ánægjulegt og gleðiefni að hægt hafi verið að samtvinna áherslur og skoðanir á þessu mikilvæga málefni og lægja hinar gríðarlegu öldur í málinu. Nú, eins og áður, er ég þeirrar skoðunar að setja verði grunnreglur um fjölmiðla en ítreka sem fyrr andstöðu mína við að RÚV sé undanskilið slíkri allsherjar úttekt og standi svo eftir með einhver fríspil. Slíkt er ólíðandi.

Punktar dagsins
Dorrit Moussaieff og Ólafur Ragnar Grímsson

Á morgun koma forsetahjónin, Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff, til Akureyrar og Eyjafjarðarsveitar í opinbera heimsókn sem stendur til miðvikudags. Forsetinn heimsótti Eyjafjörð einn vorið 1999 en kom þá ekki í opinbera heimsókn til Akureyrar og hefur ekki fyrr farið í heimsókn til bæjarins í forsetatíð sinni. Ákveðið að hann myndi gera sér sérferð til bæjarins þegar að því kæmi. Nú er sú stund runnin upp. Forsetahjónin koma til Akureyrarflugvallar kl. 8.30 í fyrramálið. Munu þau heimsækja margar stofnanir og fyrirtæki hér í bænum á morgun og á þriðjudag. Á morgun verður opið málþing á vegum Háskólans á Akureyri og Akureyrarbæjar undir yfirskriftinni: Menntun og nýsköpun - byggðastefna nýrrar aldar. Fer málþingið fram í húsnæði HA að Borgum og hefst kl. 14:30. Forsetinn mun flytja þar ræðu ásamt fleirum. Annað kvöld verður samkoma með fjölbreyttri dagskrá í Íþróttahöllinni. Þar verður hátíðardagskrá og munu bæjarstjóri og forsetinn flytja þar ávörp. Á miðvikudag verða forsetahjónin í opinberri heimsókn í Eyjafjarðarsveit. Á morgun verða forsetahjónin í Verkmenntaskólanum, leikskólanum Iðavöllum, í Oddeyrarskóla, dvalarheimilinu Hlíð, Borgum, Minjasafninu, handverksmiðstöðinni Punktinum og Listasafninu. Það er því spennandi dagskrá framundan og ánægjulegt að kynna forsetahjónunum öll lífsins gæði okkar hér á Akureyri.

Howard og Blair séð með augum skopteiknara

25 dagar eru nú til þingkosninga í Bretlandi. Mikill hasar er hlaupinn í kosningabaráttuna og eru leiðtogar flokkanna á fleygiferð um landið, hitta kjósendur og kynna stefnu sína og skoðanir. Það er í mörg horn að líta þessa dagana hjá þeim Michael Howard, Tony Blair og Charles Kennedy. Skoðanakannanir sýna að mjög mjótt er á mununum milli stærstu flokkanna og hvert atkvæði gæti skipt máli. Stefnir í jöfnustu kosningar á Bretlandseyjum frá árinu 1992 þegar John Major og Neil Kinnock börðust hatrammlega í jafnri baráttu, sem Major vann, þvert á allar skoðanakannanir. Í ítarlegum pistli á vef Heimdallar á föstudag fór ég yfir kosningabaráttuna í Bretlandi: þar rakti ég átakalínur breskra stjórnmála seinustu ár og baráttumálin. Stefnir flest í að innflytjenda- og velferðarmál verði aðalmál kosninganna að þessu sinni. Hefur íhaldsmönnum tekist með miklum krafti að leiða kosningaumræðuna og taka taktísku punktana vel á sitt band. Er það mjög öflugri kosningabaráttu að þakka og vel stjórnaðri. Ekki kætir það Blair og kratana að vita að flokkurinn hefur nær alltaf, nema þá 1997, veikst eftir því sem nær kjördegi hefur dregið. Verður fróðlegt að sjá hvað muni gerast á næstunni í þessu máli, en það er ljóst að kosningarnar verða þær mest spennandi frá árinu 1992, þegar litlu sem engu munaði að flokkarnir yrðu hnífjafnir. Snörp og kappsöm barátta er framundan næstu vikurnar, fram að kjördeginum 5. maí nk.

Cheers (Staupasteinn)

Skjár 1 hefur undanfarnar vikur rifjað upp fyrir okkur kynnin af hinum stórkostlegu gamanþáttum Cheers sem eru með skemmtilegustu gamanþáttum í bandarísku sjónvarpi seinustu áratugina. Þættirnir gengu undir nafninu Staupasteinn, í þýðingu Guðna Kolbeinssonar, þegar þeir voru sýndir á miðvikudagskvöldum hjá Ríkissjónvarpinu hér í denn, sællar minningar. Cheers voru með langlífustu gamanþáttum í bandarísku sjónvarpi, en þeir gengu sleitulaust í heil 11 ár, eða frá 1982-1993. Leikhópurinn samanstóð af t.d. Ted Danson, Shelley Long, Kirstie Alley (sem kom inn í þættina við brotthvarf Long 1987), Nicholas Colasanto (er fór á kostum sem Coach fyrstu þrjú árin, en hann lést snögglega 1985), Rhea Perlman, John Ratzenberger, Woody Harrelson, George Wendt og Kelsey Grammer. Grammer fór á kostum í hlutverki sálfræðingsins Frasier Crane frá 1984, en fór svo í eigin þátt 1993 og var með þá allt til 2004, eða í heil 11 ár. Grammer lék því Frasier samfleytt í tvo áratugi. Voru Cheers þættir sem ég hafði gaman af til fjölda ára og horfði á, enda alveg magnaður húmor í þeim. Það er sönn ánægja að horfa á þættina, nú frá byrjun og horfa á þátt eftir þátt í seríu eftir seríu, öll 11 árin. Skjár 1 á þakkir skildar fyrir þetta framtak.

Sigrún Björk Jakobsdóttir

Í gestapistli á vef mínum fjallar Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarfulltrúi og formaður menningarmálanefndar Akureyrarbæjar um jafnréttismál. Fer hún yfir áleitnar spurningar tengdar málaflokknum og spyr sig að því á hvaða leið jafnréttisbaráttan sé í upphafi 21. aldarinnar. Í pistlinum segir svo: "Konur eru jafnhæfar körlum til að takast á við stjórnunarstörf og þær hafa að þar að auki aðrar skoðanir og önnur sjónarmið heldur en karlar og spyrja annarrra spurninga. Um þetta verður ekki deilt. Fyrirtæki hafa nefnt sem ástæður, fyrir fæð kvenna í stjórnum þeirra, að það sé erfitt að finna konur til að taka þessi verkefni að sér, hinsvegar sáum við í fyrra tilboð eða auglýsingu frá sterkum konum innan Háskólans í Reykjavík sem buðu sig fram til starfa. En þessi vilji HR kvenna skiptir engu máli - hlutföllin í fyrirtækjum í úrvalsvísitölunni breyttust ekki ? þetta voru bara krúttlegar konur að ybba gogg." Athyglisverðar pælingar hjá Sigrúnu um jafnréttismál sem ég hvet lesendur til að líta á.

Saga dagsins
1886 Magnús Stephensen skipaður landshöfðingi - sat allt þar til heimastjórn tók við hér árið 1904
1940 Alþingi samþykkti að fela ríkisstjórn landsins formlega meðferð konungsvalds í kjölfar innrásar Þjóðverja inn í Danmörku - mánuði síðar hernámu Bretar svo Ísland. Segja má að konungssambandi Íslands og Danmerkur hafi lokið formlega með þessari ákvörðun, enda var íslenskt lýðveldi stofnað formlega árið 1944, fyrir stríðslok. Ísland stóð því í fyrsta skipti í margar aldir, í raun á eigin fótum
1972 Leikararnir Ben Johnson og Cloris Leachman hlutu óskarinn fyrir túlkun sína á Sam the Lion og Ruth Popper í kvikmyndinni The Last Picture Show. Lágstemmd og glæsileg túlkun þeirra í þessari mynd var hátindur leikferla þeirra beggja. Myndin varð gríðarlega vinsæl og hafði mjög mikil áhrif á kvikmyndagerð og menningu áttunda áratugarins og var meðal seinustu stórmynda Hollywood sem gerð var í svarthvítu. Segja má að hún hafi verið táknmynd endaloka gamallar kvikmyndamenningar
1979 Ólafslög samþykkt formlega á Alþingi - lögin fjölluðu um stjórn efnahagsmála og voru mjög umdeild, enda var ekki full samstaða um þau í ríkisstjórn. Lögin voru kennd við Ólaf Jóhannesson forsætisráðherra. Stjórnin lifði af deilurnar, en sprakk með hvelli vegna annarra mála haustið 1979
1998 Sögulegir friðarsamningar er kenndir voru við föstudaginn langa voru undirritaðir á N-Írlandi

Snjallyrðið
A people that values its privileges above its principles soon loses both.
Dwight D. Eisenhower forseti Bandaríkjanna (1890-1969)