Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

07 maí 2005

Akureyri í öndvegi - niðurstöður

Akureyri

Niðurstöður í hugmyndasamkeppninni Akureyri í öndvegi voru kynntar við hátíðlega athöfn í Hólum, sal Menntaskólans á Akureyri í dag. Segja má með sanni að þetta verkefni hafi í senn verið bæði einstaklega vel heppnað og ekki síður vakið okkur hér í bænum og utanaðkomandi aðila til lífsins varðandi endurskipulagningu hjarta bæjarins okkar, miðbæjarins, og bæði fætt af sér farsælar vangaveltur og nauðsynlegar. Það er mat mitt að íbúaþingið hér á Akureyri, þann 18. september 2004, sem varð upphafspunktur þessa verkefnis, hafi verið mjög þarft. Þar fór fram umræða um skipulagsmál í víðum skilningi. Fólk fékk þar tækifæri til að mæta, tjá sig og koma með eigin punkta inn í umræðuna og leggja til sitt framlag. Það er íbúalýðræði í nærmynd, við hér getum verið stolt af því að vera upphafsfólk svona vinnuferlis og hafa tekið frumkvæðið hér á Akureyri. Það verður ekki af okkur tekið, það er alveg ljóst. Svona vinnuferli við mótun sveitarfélags og hjarta þess á sér engin fordæmi hérlendis.

Er mjög ánægjulegt hvernig nokkrir athafnamenn í bænum undir forystu Ragnars Sverrissonar kaupmanns í JMJ, tóku höndum saman í því markmiði að efla bæinn og stigu það skref að stofna með sér hópinn sem varð prímus mótor þessa verkefnis og leiddu ferlið upp fyrsta hjallann. Þeir komu hugmyndinni áleiðis og réttu bæjarbúum kyndilinn á íbúaþinginu og leyfðu fólki þar að koma og taka til máls: eiga hugmyndir og frumkvæði í að tjá sig. Fólk fékk að tjá sig og þeirra mat og áherslur komu til skila. Niðurstöður þingsins voru mjög skýrar og bæjarbúar voru í raun mjög samhentir í því að tjá sig um hvernig þeir vilja hafa miðbæinn og nágrannasvæði hans. Hef ég aldrei farið leynt með aðdáun mína á þessu ferli. Með íbúaþinginu gafst nefnilega mér og okkur öllum hér, fólki í öllum flokkum og með hinar ólíkustu skoðanir á málefnunum, hið gullna tækifæri að koma að ferlinu, tjá skoðanir sínar og hugmyndir um blómlegri og kraftmeiri miðbæ.

Íbúaþingið var öflugt og þar komu saman vel yfir þúsund manns, til að ræða málin, skiptast á hugmyndum og eiga góða stund saman og vinna af krafti að þessu mikla framfaramáli. Stemmningin var engu lík og fólk staðráðið í að vinna vel. Þar var spennandi starf unnið og gagnlegt, gaman var að móta miðbæinn okkar og framtíð okkar sem höfum fylgt Akureyri frá upphafi og viljum eyða ævinni hér og gera bæinn sem bestan fyrir samferðarmenn okkar og þau sem bæinn munu erfa í fyllingu tímans. Niðurstöðurnar voru svo nýttar til að skilgreina forsendur í alþjóðlegri hugmyndasamkeppni sem haldin var í kjölfarið. Í samkeppnina bárust rúmlega 150 tillögur, vítt og frá um heiminn. Alls komu tillögur frá 39 löndum alheimsins, sem er til marks um að þessi framkvæmd vakti athygli. Seinustu vikur hefur dómnefnd undir forystu Kristjáns Þórs Júlíussonar bæjarstjóra, verið að störfum og kynnt sér tillögurnar og metið þær.

Akureyri

Komu svo margar tillögur og tók vinnan við að meta tillögurnar það mikinn tíma að því var frestað um tvær vikur að tilkynna um niðurstöður. Upphaflega átti verkefninu að ljúka á sumardaginn fyrsta og kynning þá að fara fram á niðurstöðum. En í dag var loks komið að stóru stundinni í Hólum. Í upphafi fundarins ávarpaði Andri Teitsson forstjóri KEA, og kynnti samkeppnina og meginpunkta hennar og aðstandenda þessa verkefnis. Að því loknu tók Kristján Þór Júlíusson bæjarstjóri og formaður dómnefndar, til máls og kynnti meginniðurstöður dómnefndar og þá punkta sem hún hefði sett sér og tekið til umfjöllunar og grunnniðurstöðu er valið var á milli tillagnanna. Að því loknu kynntu þrír dómnefndarmanna: Pétur H. Ármannsson arkitekt, Hlín Sverrisdóttir skipulagsfræðingur, og Árni Ólafsson arkitekt, þær tillögur sem verðlaunaðar voru og fóru ítarlega yfir þrjú efstu sætin og ennfremur þær tillögur sem valdar voru með sem athyglisverðar og voru verðlaunaðar fyrir hugmyndaauðgi og snjalla framsetningu.

Það var tillaga skoska arkitektsins Graeme Massie frá Edinborg í Skotlandi sem hlaut fyrstu verðlaunin í samkeppninni. Hlaut hann 3,3 milljónir króna í verðlaun fyrir hugmynd sína. Í öðru sæti varð hugmynd Juliusz Dudniczek, Magdalena Kalinowska, Karolina Salska og Ewu Wielinska frá Póllandi. Hlutu þau í verðlaun 2,5 milljónir króna. Í þriðja sæti urðu tvær hugmyndir, annarsvegar frá Arno Lederer, Jórunni Ragnarsdóttur og Marc Oei í Stuttgart í Þýskalandi og hinsvegar frá Rose Bonner, Paul Fox, og David Jameson í Dublin í Írlandi. Hlutu þau hálfa milljón að launum og skiptu með sér vinningsfé þriðja sætisins. Ennfremur voru keyptar tvær tillögur, annarsvegar frá tveim ungum arkitektum frá Serbíu - Svartfjallalandi, Novi Sad og Jan Pazitnai og hinsvegar tillaga Birkis Einarssonar landslagsarkitekts. Tillögurnar voru keyptar á 360 þúsund krónur hvor. Ennfremur voru veittar viðurkenningar fyrir tólf tillögur að auki.

Við lok athafnarinnar afhenti Ragnar Sverrisson forystumaður verkefnisins, Kristjáni Þór það formlega og niðurstöður þess til úrvinnslu á vettvangi Akureyrarbæjar. Tilkynnti Kristján Þór við það tilefni að hann hefði nú skipað þriggja manna nefnd á vegum bæjarins til að vinna að frekari úrvinnslu tillagnanna og hvernig mætti vinna að því að nota punkta úr þeim öllum til að vinna með á komandi árum við meginvinnslu miðbæjarins. Það er því ljóst að verkefninu lýkur ekki með orðunum einum saman og þessum grunnpunktum sem verðlaunaðir hafa verið, heldur mun verkefnið vinnast áfram á vettvangi bæjarstjórnarmeirihlutans sem hefur í hyggju að vinna með málið lengra. Eins og fram kemur í málefnasamningi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Akureyrar, kjörtímabilið 2002-2006, skal unnið að uppbyggingu á miðbæjarsvæðinu, með það að markmiði að miðbærinn verði í framtíðinni sem ávallt áður miðpunktur mannlífs í bænum. Markmið þeirra sem standa að íbúaþinginu og hinsvegar meirihluta bæjarstjórnar, fer því mjög vel saman.

Loftmynd af Akureyri

Að loknum fundinum að Hólum voru hugmyndirnar kynntar ítarlega í Glerárgötu 26. Þar hafa allar hugmyndirnar verið settar upp til sýnis og getur fólk farið þangað, skoðað þær og metið þær á eigin forsendum. Var mjög gaman að fara þangað og skoða þetta og fara yfir málið eftir að hafa heyrt fyrri kynningu dómnefndar og forsvarsmanna verkefnisins upp í Menntaskóla áður. Varð ég alveg heillaður af vinningshugmyndinni. Hún er í einu orði sagt stórfengleg. Er þó líka allt í senn djörf, hugmyndarík og spontant sett fram. En samt svo heillandi að það er ekki annað hægt en kolfalla fyrir henni. Meginniðurstaðan sem fram kemur í vinnslupunktum skotans Massie er að hann gerir ráð fyrir að til sögunnar komi síki sem muni liggja allt frá Pollinum og upp í gegnum miðbæinn, allt að Skátagilinu. Margir fróðlegir punktar voru í tillögum hans sem ég algjörlega heillaðist af. Mjög góðar hugmyndir og flott úrvinnsla úr góðum pælingum. Ræddi ég heillengi við hann niðrí Glerárgötu og var það fróðlegt og gott spjall.

Nú þegar Raggi og félagar hans sem störtuðu þessu glæsilega og nauðsynlega verkefni hafa skilað af sér kyndlinum til Stjána er mér efst í huga hamingjuóskir til þeirra með vel unnið verk. Raggi má eiga það að hann er maður framkvæmda og drífur hugmyndirnar áfram, stundum af of miklum hraða og látum en í þessu verkefni á hann stuðning minn allan og hefur haft og hann á mikið hrós skilið í dag er hann skilar af sér kyndlinum. En nú er mikilvægt að þetta verkefni verði ekki bara hugmyndin ein og vangavelta. Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum á komandi misserum og takast á við það að stokka upp bæinn okkar eftir þessum lifandi og frjóu hugmyndum og láta það gerast að takast á við það að skapa draumamiðbæinn sem við viljum fá. Módelið að honum má í raun finna í öllum hugmyndunum sem voru verðlaunaðar í dag. Með því að spinna kosti allra tillagnanna erum við komin með draumamódelið okkar.

Það er alltaf jákvætt að láta almenning ráða og fá í hendur valdið til að tjá sig og segja álit sitt. Það höfum við hér á Akureyri séð í þessu verkefni og segja má með sanni að við getum verið stolt í dag. Með því að fara í Glerárgötuna má sjá margar lifandi hugmyndir sem vekja athygli. Þar eru góðir punktar fyrir okkur til að vinna úr og skapar ekki síður enn meiri umræðu um skipulagsmálin. Grunnpunkturinn eftir þetta langa og lýðræðislega ferli er að við getum verið stolt. En nú er komið að því að takast á við verkefnið að skapa hugmyndirnar og láta hugmyndirnar verða að veruleika. Það er næsta verkefni, ekki vafi á því að það er það stærsta. En í senn er það bæði ánægjulegt og jákvætt verkefni sem tekur nú við. Svona á að gera það - og það sem meira er að við höfum sýnt hvernig aðrir eiga að vinna í skipulagsmálum.

Akureyri

Ætli væri ekki nær fyrir R-listann að taka upp svona vinnuferli í stað bútasaumsins síns sem er í fréttum þessa dagana. Ég sá í dag að Dagur B. Eggertsson formaður skipulagsnefndar borgarinnar, var viðstaddur fundinn og sá sýninguna seinnipartinn. Er ekki tímabært fyrir þig, Dagur minn, að taka upp svona íbúalýðræði? Eða er hinn fársjúki R-listi ekki til í það? En grunnur málsins er þessi: við höfum sett jákvætt og gott frumkvæði fyrir aðra til að vinna úr í skipulagsmálum sínum - við getum verið stolt af okkur fyrir það. Einfalt mál! Ég vil að lokum hvetja alla til að fara í Glerárgötu, skoða tillögurnar og dæma þær fyrir sig og ekki síður fara svo heim og ræða við ættingja og vini og móta eigin skipulagstillögur til að ræða um. Höldum umræðunni áfram!

Saga dagsins
1197 Lönguhlíðarbrenna - bæjarbruni að Lönguhlíð í Hörgárdal (þar er nú Skriða). Þar létust 6 menn
1940 Ríkisráð Íslands heldur sinn fyrsta fund - lagasetningar staðfestar hérlendis þar í fyrsta sinni
1945 Þjóðverjar undirrita formlega uppgjöf sína - seinni heimsstyrjöldinni lauk með því, stóð í 6 ár
1978 Jarðgöngin á Oddsskarði vígð formlega - urðu samgöngubót fyrir Austfirðinga en úreltust fljótt
1995 Jacques Chirac borgarstjóri í Parísarborg og fyrrum forsætisráðherra Frakklands, kjörinn forseti Frakklands - hann tók við forsetaembætti af François Mitterrand sem setið hafði á valdastóli í 14 ár

Afi minn, Guðmundur Sigurbjörn Guðmundsson frá Siglufirði, sem nú er til heimilis á Hornafirði, er 85 ára í dag. Ég vil senda honum innilegar hamingjuóskir hér í dag. Afi er einn þeirra manna sem er þekktur fyrir kjarnmiklar sögur og sagnagáfu og oftar en ekki hef ég dáðst að því þegar hann hefur sagt mér frá skíðaferli sínum, en hann var til fjölda ára einn helsti skíðamaður landsins og keppti á tveim ólympíuleikum. Það er við hæfi að senda þessum einstaka manni góðar kveðjur hér í dag.

Snjallyrðið
What is success? I think it is a mixture of having a flair for the thing that you are doing; knowing that it is not enough, that you have got to have hard work and a certain sense of purpose.
Margaret Thatcher forsætisráðherra Bretlands (1925)