Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

13 maí 2005

Jóhannes Páll II (1920-2005)Heitast í umræðunni
Benedikt XVI páfi tilkynnti í morgun að brátt hæfist ferlið sem leiða muni til þess að forveri hans, Jóhannes Páll II yrði tekinn í tölu blessaðra. Það er fyrsta skrefið í áttina að því að hann verði tekinn í dýrlingatölu. Páfi getur veitt undanþágu þess efnis að ferlið hefjist, en allajafna verða að líða að minnsta kosti fimm ár frá láti viðkomandi aðila til að hann geti verið tekinn í heilagra manna tölu. Allt frá því að Jóhannes Páll II lést þann 2. apríl hafa raddir verið háværar um að hann yrði tekinn í dýrlingatölu og mikið verið þrýst á að það yrði gert. Við útför hans þann 8. apríl sl. krafðist almenningur þess með spjöldum og með því að kalla upphátt dýrlingsheiti að hann yrði tekinn í tölu heilagra. Eins og vel kom fram í sunnudagspistli mínum þann 10. apríl er ég þeirrar skoðunar að taka eigi páfann í tölu heilagra. Það var það merkilegasta við páfann að hann var öflugri en bæði embætti hans og boðskapurinn sem hann tjáði. Það geislaði af honum og hann var litríkur og öflugur fulltrúi trúarinnar á páfastóli. Þess vegna verður hans og verka hans ávallt minnst.

Við hæfi var að tilkynnt væri á þessum degi að þetta ferli myndi hefjast og ákvörðun um það liggi fyrir. Í dag eru 24 ár liðin frá því reynt var að ráða Jóhannes Pál II af dögum á Péturstorginu. Litlu munaði að páfaferli hans lyki þá. Hann var skotinn fjórum skotum og barðist fyrir lífi sínu í skurðaðgerð á sjúkrahúsi í Róm í rúma tíu tíma. Það var tyrkneskur múslimi, Mehmet Ali Agca, sem skaut hann. Náði hann heilsu aftur og vakti mikla athygli er hann fór til tilræðismanns síns í fangelsið og fyrirgaf honum. Það er að mínu mati rökrétt að hann verði tekinn í heilagra manna tölu. Fáir trúarleiðtogar sögunnar hafa haft meiri áhrif á gang sögunnar og samtíma sinn en hann. Aðeins tveir sátu lengur á páfastóli en hann: St. Peter og Pius IX. Jóhannes Páll páfi II var litríkur páfi og markaði stór spor í sögu kirkjunnar. Hann fór í 104 opinberar heimsóknir og heimsótti 129 lönd. Samkvæmt upplýsingum frá Vatíkaninu eyddi hann 822 dögum embættisferils síns, eða 2 árum og 3 mánuðum, í ferðir utan Vatíkansins. Hann flutti 20.000 ræður og ávörp og veitti rúmlega 1.000 áheyrnir í Vatíkaninu sem 17 milljónir og 800.000 manns sóttu. Hann átti fundi með 1.600 stjórnmálaleiðtogum, þar af 776 þjóðarleiðtogum. Hann gaf út fleiri yfirlýsingar og tilskipanir innan kirkjunnar en áður hefur þekkst og tók alls 482 menn í dýrlingatölu sem er meira en allir forverar hans höfðu gert í 400 ár. Það er því enginn vafi á því í mínum huga miðað við þennan feril og áhrifamátt hans í sögu seinustu áratuga, sérstaklega við að berja niður kommúnismann, að hann eigi að taka í dýrlingatölu.

Ingibjörg Sólrún og ÖssurVika er nú í landsfund Samfylkingarinnar. Að morgni laugardagsins 21. maí verður ljóst hver verður formaður flokksins næstu tvö árin. Póstkosningu um formennskuna milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Össurar Skarphéðinssonar lýkur í næstu viku. Eins og vel hefur sést seinustu vikurnar hefur verið mikil ólga og læti í slagnum. Hann tók nokkuð nýja og óvænta stefnu í þessari viku er starfsmanni við kosninguna var sagt upp vegna þess að hún hefur verið sökuð um brot á vinnureglum við meðferð á félagaskrá. Er um að ræða Söndru Franks varaþingmann Samfylkingarinnar og formann Samfylkingarfélagsins á Álftanesi, sem ráðin hafði verið í vinnu tímabundið fyrir formannskjörið. Hefur hún nú kært flokkinn til Persónuverndar fyrir brot á friðhelgi sinni með því að opna tölvupóst sinn. Mun hún hafa sent félagaskrána heim til sín svo hún gæti unnið með hana í starfi sínu að heiman.

Mun umræða um mögulega misnotkun á félagaskrá hafa hafist eftir að stuðningsmenn Ingibjargar Sólrúnar gerðu athugasemdir í kjölfar þess að þeir hafi fengið sendar auglýsingar í síma og tölvupósti frá kosningaskrifstofu Össurar. Sérstaklega hefur verið í umræðunni sú staðreynd að Helga Jónsdóttir borgarritari, sem hefur alla tíð verið í Framsóknarflokknum og var lengi í starfi þar og var lengi náin samstarfskona forvera núverandi formanns flokksins og dóttir fyrrum þingmanns hans, gekk í flokkinn til að styðja Ingibjörgu Sólrúnu. Hefur það verið upplýst og komið fram í fjölmiðlum eftir þetta. Mun ólga hafa komið upp innan stuðningsmannasveitar Ingibjargar í ljósi þess að Helga fékk senda auglýsingu frá starfsstöð Össurar og boð um að mæta í pylsupartí. Leiddi þetta til umræðu um leka úr flokksskrá sem varð til þess að Söndru var sagt upp. En já, þetta er dýrt pylsuboð fyrir marga í Samfó greinilega, eða eru það kannski framsóknarkonur? Segja má að uppsögn Söndru og það að póstur hennar var lesinn komi nokkuð skondið, eins og ein vinkona mín benti á, í ljósi þess að Samfylkingin gagnrýndi það ákvæði fjarskiptalaganna þar sem lögreglu er heimilt að fá upplýsingar um hver sé á bak við tiltekna ip-tölu án dómsúrskurðar.

Gott og vel, en á sama tíma og Samfylkingin gagnrýnir þetta ákvæði þá er hún með nefið ofan í tölvupósti starfsmanns síns og les póstinn án þess að starfsmanninum sé gerð grein fyrir því fyrr en eftir á. Nefndi nokkur orðið tvískinnungur? Eða er Samfylkingin eitthvað heilagri í heild sinni en gagnrýni hennar á aðra?

Punktar dagsins
Halldór Blöndal

Halldór Blöndal stjórnaði þingfundi við þinglok á miðvikudagskvöldið. Eins og ég sagði frá í gær bendir flest til þess að þetta hafi verið seinasti þingfundurinn undir farsælli stjórn Halldórs. Eins og fram kom ennfremur í gær hugnast mér ekki þau skipti sem framundan eru í haust og ákveðin voru í raun fyrir tveim árum. En það verður að koma í ljós hvort breytingar verða á í þessum efnum í haust, er nær dregur. Ég vil að Halldór sitji áfram í þessu embætti. Allt frá því að ég fór að taka þátt í flokksstarfinu hér fyrir norðan fyrir rúmum áratug hef ég þekkt Halldór og metið mikils forystu hans í stjórnmálum. Halldór er mjög litríkur karakter og hefur leitt flokkinn hér af krafti í tvo áratugi. Það hefur verið mikilvæg leiðsögn og farsæl sem hann hefur veitt okkur hér. Hann hefur unnið vel fyrir fólkið hér í kjördæminu, það er staðreynd sem ég vona að muni aldrei gleymast síðar meir, þó árin líði. Hans framlag hér hefur skipt sköpum og við getum verið stolt af forystu hans í stjórnmálum.

Ég hef í raun alltaf dáðst af þekkingu hans á öllum þáttum tengdum kjördæminu. Hann er ótrúlega minnugur, hafsjór af fróðleik. Halldór er mikill öðlingur, vissulega oft á tíðum nokkuð íhaldssamur að sumra mati og fastheldinn á hefðir og venjur. Tel ég það mjög af hinu góða, t.d. tel ég að hann hafi stýrt þinginu af krafti og staðið vörð um það í gegnum þykkt og þunnt. Sérstaklega taldi ég varnarræðu hans eftir aðför forseta landsins að því í fyrra mjög öfluga og góða. Þá gengu sumir þingmenn úr sal því þeir þoldu ekki varnarræðu forseta fyrir þingið. Það hefur sannað sig að sú ræða var kraftmikil og öflug, flutt af manni sem var annt um þingið og ekki síður virðingarstöðu þess. Bendi á tengla á þá ræðu og aðra sem hann flutti í júlí 2004 hér neðar. Þá ritaði ég ítarlegan pistil til að tjá mig um það mál. Í gær ritaði Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar, pistil á vef sinn um Halldór við þinglokin. Þar skrifar hann um mat sitt á Halldóri. Það eru merkileg skrif og athyglisverðar lýsingar, skemmtileg skrif í raun, sem ég bendi á hér með.

Til varnar virðingu Alþingis - 25. júlí 2004
Til varnar virðingu Alþingis - 1. október 2004


Hildur Vala

Hildur Vala Einarsdóttir hefur heillað íslensku þjóðina algjörlega upp úr skónum á nokkrum mánuðum, algjörlega unnið hug og hjörtu landsmanna. Hún vann Idol - stjörnuleit með glæsibrag í marsmánuði, sté aldrei feilspor í keppninni og var án nokkurs vafa allan tímann sú sem var fremst allra keppandanna. Segja má að hún hafi sífellt náð meiri frama seinustu vikurnar, eftir sigurinn í keppninni. Hún tók tímabundið við stöðu Ragnhildar Gísladóttur sem söngkonu vinsælustu hljómsveitar allra landsmanna, Stuðmönnum, og hefur staðið sig vel á þeim vettvangi og sannað getu sína. Svo blasir við núna að á skömmum tíma hefur henni tekist að verða sá tónlistarmaður landsins sem hefur selt flest lög á tónlist.is frá upphafi. Þetta er glæsilegur árangur miðað við hennar stutta feril. Á þriðjudag gaf hún út fyrstu plötu sína sem ber nafn hennar og hefur fagmannlega ásýnd. Á henni eru tólf lög, róleg og notaleg lög.

Keypti ég mér plötuna í gær og hlustaði vel á hana, enda hafði ég ákveðið fyrir margt löngu að kaupa mér plötu hennar þegar hún kæmi út. Hildur Vala er á ljúfu nótunum á plötunni. Þar tekur hún falleg lög sem falla vel að flauelsmjúkri rödd hennar. Sérstaklega fannst mér hún ná miklum hæðum með flutningi sínum á hinu fallega lagi Bítlanna, smellinum ódauðlega For No One, og ennfremur Songbird, Dark End of the Street og Sálarlaginu fallega, Í fylgsnum hjartans. Best er hún þó í upphafslagi plötunnar, lagi hinnar kanadísku Joni Mitchell, Both Sides Now, lag sem ég hef alltaf hrifist mjög að. Ekki má svo gleyma hinu fallega lagi Stefáns Hilmarssonar, Líf, sem hún söng svo glæsilega í úrslitum Idolsins í mars. Hinsvegar saknaði ég Trúbrotssmellsins Án þín, sem hún söng einnig í keppninni og skil ég hreinlega ekki að það skuli vanta. En í heildina er þetta ljúf og notaleg plata sem sýnir okkur að ný stjarna er fædd. Glæsileg plata - flott söngkona.

Benedikt XVI páfi

Tæpur mánuður er nú liðinn síðan að nýr páfi, Benedikt XVI, var kjörinn til forystu í rómversk - kaþólsku kirkjunni. Leikur enginn vafi á því að hann mun feta sömu slóð til forystu á páfastóli og hinn vinsæli forveri hans. Þessa dagana er páfinn að koma sér vel fyrir í íbúðinni sem fylgir embættinu og er á efstu hæð Postulahallarinnar í Páfagarði. Í þeirri byggingu eru skrifstofur embættisins og heimili þess sem gegnir embættinu. Ekki þurfti páfi að fara langt til að flytja en hann bjó áður hinu megin við Péturstorgið, enda var hann leiðtogi æðstaráðs Vatíkansins áður en hann var kjörinn páfi. Í skrifum á vef BBC er að finna lýsingar á flutningi hans í íbúð páfa. Þar kemur fram að hann hafi flutt með sér nýjungar í vistarverur páfaembættisins. Hann flutti nefnilega með sér vandað píanó sitt og ketti sína, en fram til þessa hafa dýr verið að mestu bönnuð í Postulahöllinni. Páfi er þekktur fyrir að vera píanisti og sest oft við flygilinn og leikur þar fögur tónverk meistara klassískrar tónlistar og er sérstaklega mjög annt um verk þeirra snillinga, Mozart og Bach. Píanó páfa er nú komið í herbergið þar sem páfi ávarpar við gluggann til mannfjöldans sem er á Péturstorginu. Verða herbergi íbúðar páfa endurinnréttuð í sumar að fullu, en á meðan mun páfi dveljast í sumaraðsetri embættisins að Castelgandolfo á Ítalíu. Eins og fyrr segir tekur páfi með sér ketti sína í Postulahöllina. Mun hann vera fyrsti páfinn sem er með gæludýr frá nítjándu öld.

Davíð Stefánsson frá Fagraskógi

Á þessu ári eru 110 ár liðin frá fæðingu Davíðs Stefánssonar skálds frá Fagraskógi í Eyjafirði. Hefur þeirra tímamóta verið minnst með ýmsum hætti á árinu. Í afmælisvikunni í janúar var haldið málþing til minningar um hann í Ketilhúsinu og ennfremur hátíðartónleikar með Karlakór Akureyrar - Geysi í Glerárkirkju, þar sem sungin voru lög við ljóð Davíðs. Í gærkvöldi var haldin kvöldvaka honum til heiðurs í Ketilhúsinu. Þar flutti Samkór Svarfdæla mjög fjölbreytilega dagskrá í tali og tónum. Voru þar lífleg og góð söngatriði og ennfremur fluttir þættir úr ævi skáldsins og frá ferli hans. Kórinn tók þar fjölda laga og var um skemmtilega og góða dagskrá að ræða. Var þar flutt nýtt lag Guðmundar Árnasonar við ljóð Davíðs, Hrafnamóðir. Davíðsvakan var samstarfsverkefni menningarmálanefndar Akureyrar og Samkórs Svarfdæla. Var um að ræða góðan menningarviðburð, til heiðurs skáldinu okkar Eyfirðinga, Davíð frá Fagraskógi.

Saga dagsins
1776 Gefin var út konungleg tilskipun um póstferðir á Íslandi - fyrsta ferðin var farin í febrúar 1782
1888 Brasilía afnemur þrælahald með öllu - markaði mikil þáttaskil í mannréttindamálum í landinu
1894 Ásgeir Ásgeirsson fæddist í Kóranesi að Mýrum. Ásgeir var einn af helstu stjórnmálamönnum landsins áður en hann varð forseti Íslands, sat sem þingmaður í þrjá áratugi og var forsætisráðherra 1932-1934. Ásgeir var ennfremur forseti sameinaðs Alþingis og bankastjóri Útvegsbanka. Hann var forseti Íslands 1952-1968 og naut mikillar hylli landsmanna. Ásgeir lést þann 15. september 1972
1966 Undirritaðir voru samningar um kaup ríkisins á Skaftafelli í Öræfum - varð með því þjóðgarður
1981 Jóhannesi Páli II páfa, sýnt banatilræði er hann blessaði mannfjöldann á Péturstorginu - var skotinn fjórum sinnum en slapp naumlega lifandi frá árásinni. Jóhannes Páll II sat á páfastóli í tæp 27 ár, frá októbermánuði 1978, til dánardags, 2. apríl 2005, og markaði hann sér sess sem friðarpostuli

Snjallyrðið
Rows and flows of angel hair
And ice cream castles in the air
And feather canyons everywhere
I've looked at clouds that way.

But now they only block the sun
They rain and they snow on everyone
So many things I would have done
But clouds got in my way.

Oh but now old friends they're acting strange
And they shake their heads
And they tell me that I've changed
Well something's lost but something's gained
In living every day.

I've looked at life from both sides now
From win and lose and still somehow
It's life's illusions I recall
I really don't know life at all
Joni Mitchell söngkona og textahöfundur (1943) (Both Sides Now)