Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

10 maí 2005

SiglufjörðurHeitast í umræðunni
Samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins sem birt er í blaðinu í dag eru 69,7% landsmanna á móti gerð Héðinsfjarðarganga, milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Svo virðist vera sem að meirihluti sé á móti göngunum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Satt best að segja koma þessar niðurstöður mér ekki á nokkurn hátt á óvart. Ég bjóst í raun við svona niðurstöðu. Það hefur nefnilega verið svo að með ólíkindum hefur verið að fylgjast með þeirri einhliða og ótrúlegu neikvæðu umræðu sem verið hefur uppi um þetta mál að nær öllu leyti. Nefna má hana aðför að okkur hér. Mjög hvimleitt hefur verið að sjá vinnubrögð og talsmáta fólks sem tjáð hefur andstöðu gegn þessum samgöngubótum og að því er virðist samgönguframkvæmdum almennt á landsbyggðinni. Sem Eyfirðingi hefur mér hreinlega blöskrað þær köldu kveðjur sem við hér á svæðinu, og þá sérstaklega Siglfirðingar, höfum fengið yfir okkur í umræðunni um þessi mál.

Einkennist sá talsmáti og vinnubrögð af undarlegum efnistökum viðkomandi aðila. Það hef ég þó séð vel er ég hef fengið viðbrögð andstæðinganna við netskrifum mínum um þessa framkvæmd að þeir sem hæst tala gegn framkvæmdinni hafa ekki kynnt sér stöðu mála. Oftast nær er það svo að fólkið sem hæst talar hefur ekki farið á staðina eða varla vit á því hver grunnur þess og tilverunnar á svæðinu sé. Það er afskaplega hvimleitt að takast á við svona úrtölulið að mínu mati. En það er nauðsynlegt, enda skiptir þessi framkvæmd okkur máli hér. Ég hef fundið það vel eftir skrif mín á netinu og á öðrum stöðum að fólk sem talaði gegn göngunum og skrifum mínum hafði engin rök á bak við sig í málinu nema þá það að þetta væri dýrt. Samgöngur, góðar samgöngur, eru alltaf dýrar. Það er vissulega alveg rétt. En þær verða að koma til eigi að haldast blómleg byggð í landinu. Það geta jú ekki allir landsmenn búið á höfuðborgarsvæðinu og alið manninn þar á sama blettinum.

En góðar samgöngur opna möguleika, efla svæðin. Göng um Héðinsfjörð eflir mitt heimasvæði sem heild. Í dag lagði svo Gunnar Birgisson fram á þingi sérsniðna samgönguáætlun sína og hafði uppi framsögu um hana. Eins og ég hef áður sagt hér hef ég megna skömm á tækifærismennsku og vinnubrögðum Gunnars í þessu máli að undanförnu. Það er varla hægt orðið að líta á hann sem pólitískan samherja eftir þá aðför sem hann hefur nú uppi gegn okkur hér og þessu stóra máli, máli sem í senn er grunnmál hvað varðar innkomu Siglufjarðar í Norðausturkjördæmi og því að tengja bæinn við Eyjafjörð. Ég hef enga trú á því að hann nái ósvinnu sinni í gegn. Ég legg allt mitt traust á að forystumenn Sjálfstæðisflokksins séu það heilir er kemur að umræðu í þinginu og lokaafgreiðslu um samgönguáætlun ráðherra að standa við loforðin sem okkur voru gefin hér fyrir tveim árum. Ég neita að trúa því fyrr en ég tek á að vegið verði að byggðunum hér með þeim hætti sem mælst er til með sólómennsku þingmannsins að sunnan. Við hér fyrir norðan viljum að orð standi og verði meira en orðin tóm. Viljum að kosningaloforðin verði efnd - einfaldara verður það ekki!

Sigurður Kári KristjánssonÍ gær fór fram umræða á þingi um Evrópumál. Þá beindi Sigurður Kári Kristjánsson alþingismaður, fyrirspurn til Davíðs Oddssonar utanríkisráðherra, um það hversu mörg prósent heildarfjölda Evrópusambandsreglugerða hefðu fylgt með EES-samningnum. Í svari sínu sagði Davíð að skv. athugun skrifstofu EFTA í Brussel að 6,5% af heildarfjölda Evrópusambandsreglugerða undanfarinn áratug hefðu verið tekin inn í EES-samninginn. Með þessu er auðvitað sýnt fram á að það sé algjörlega úr lausu lofti gripið að halda því fram að Íslendingar þurfi að taka upp allar gerðir ESB án þess að geta haft áhrif á þær. Þessi svör koma sem merkileg andstæða við allt tal stuðningsmanna ESB-aðildar, um að Íslendingar innleiði 80% af öllu regluverki Evrópusambandsins inn í íslenskt kerfi.

Þetta hafa þingmenn t.d. Samfylkingarinnar haldið fram til fjölda ára og vissir fræðimenn af þeirra hálfu hafa leikið sig frjálsa og óháða við að tjá þessa skoðun. Nú kemur svo ljóslifandi í ljós að þetta er langt í frá rétt og menn eru að fara með staðleysur sem halda þessu fram sem gert hefur verið. Tölurnar tala sínu máli mjög greinilega. Þetta fólk hefur sagt hvert ofan í annað að betra væri að ganga bara í Evrópusambandið til að geta haft áhrif þar. Með þessu er því auðvitað komið í ljós að þessi áróður er aðeins blekking og Íslendingar væru ekki að stimpla gerðir ESB í þeim mæli, sem haldið hefði verið fram á Alþingi eða í samfélaginu af ESB-sinnum. Segja má að þessi svör séu upplýsandi og gagnlegt að fá þær fram í dagsljósið með þessum hætti. Þetta eru mjög merkilegar upplýsingar sem þarna liggja fyrir.

Með þessu hrynur algjörlega til grunna tal sumra "spekinganna" um að löggjafarstarf í EES-löndunum væri að mestu ljósritun af gerðum og ákvörðunum ESB. Var kostulegt að hlusta á Björgvin G. Sigurðsson í umræðu gærdagsins. Hann sagði þar að gott væri að fá þetta fram en engu að síður ættum við nú að sækja um aðild, svona af því bara að það er kannski bara svo flott og skemmtilegt. Það eru engin rök á bakvið aðildarhjal ESB-sinnanna lengur. Nú þegar þessari "röksemd" hefur verið hnekkt fækkar óneitanlega hinum fögru skjallorðarullum um þetta reglugerðafarganasamband sem ESB er. Undir lok umræðunnar í gær átti Sigurður Kári ummæli dagsins. Hann sagði þessi fleygu og góðu orð: "Þetta eru mikil tíðindi og um leið og ég þakka hæstvirtum utanríkisráðherra fyrir svarið þá held ég að það sýni svo ekki verði um villst að röksemdir þeirra, sem telja að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið, eru jafnvel vitlausari en hugmyndin sjálf". Svo sannarlega orð að sönnu hjá Sigga Kára.

Punktar dagsins
Björn Bjarnason dómsmálaráðherra

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, kom til Akureyrar í dag og kynnti þar hugmyndir sínar um að efla löggæsluna almennt hér í bænum. Gera tillögur Björns sem hann kynnti hér í dag ráð fyrir því að lögreglumönnum á Akureyri verði fjölgað um fjóra. Jafnframt er gert ráð fyrir því að samhliða þessu muni fjórir sérsveitarmenn í lögregluliðinu þar verða leystir undan föstum vöktum. Með þessu er löggæsla hér á Akureyri og Norðausturlandi öllu efld til muna. Samhliða þessari ákvörðun hefur verið tilkynnt að athafnasvæði sérsveitarmannanna muni ekki verða bundið við umdæmi sýslumannsins á Akureyri, en þeir starfa undir hans stjórn. Er þeim ætlað að sinna verkefnum þar sem helst er talin nauðsyn til hverju sinni. Í því mun felast t.d. það að sinna verkefnum í tengslum við stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi, aðgerðir gegn fíkniefnasölum og handrukkurum á Norður- og Austurlandi og annarri skipulagðri glæpastarfsemi ásamt almennri löggæslu. Þessi ákvörðun er mjög mikið gleðiefni og er nauðsynleg í ljósi frétta um vaxandi eiturlyfja- og ofbeldisvanda hér í bænum og á starfsvæði lögreglunnar. Á því verður að taka með markvissum hætti og efla starf lögreglunnar og styrkja stoðir hennar. Með þessari ákvörðun er dómsmálaráðherra að taka mynduglega á málum og ber að lofa mjög þessa ákvörðun hans sem styrkir mjög lögregluna hér almennt. Gleðileg ákvörðun fyrir okkur hér á Akureyri.

George W. Bush í Georgíu

George W. Bush varð í gær fyrsti forseti Bandaríkjanna sem kemur í opinbera heimsókn til Georgíu. Þessi heimsókn Bush til hins forna Sovétlýðveldis markar þau þáttaskil að vestræn samvinna milli Bandaríkjanna og Georgíu eru orðin staðreynd. Bush og stjórn hans studdi mjög við bakið á lýðræðisþróuninni í landinu, sem átt hefur sér stað seinustu árin. Hann studdi mjög valdaskiptin í landinu í nóvember 2003 er Eduard Shevardnadze, sem setið hafði á forsetastóli þar frá 1992, var steypt af stóli í friðsælli uppreisn, sem jafnan hefur verið kölluð Rósabyltingin vegna rólegheitanna sem fylgdu henni, sem leiddi til valdatöku Mikhail Saakashvili. Með nærveru sinni var því Bush að lýsa yfir stuðningi við verk nýju stjórnarinnar. Bush var fagnað mjög er hann kom til landsins og fékk notalegar og jákvæðar móttökur. Hann ávarpaði mannfjölda við útiskemmtun í höfuðborginni Tbilisi. Þar kom vel fram að hann teldi Georgíu vera gott dæmi um að von væri um umbætur í Mið-Austurlöndum. Kom fram að Bandaríkin hefðu verið, og yrðu svo lengi sem umbætur sér þar stað, bandamaður Georgíu. Hefur Saakashvili nú óskað eftir Jalta ráðstefnu, 60 árum eftir hina sögulegu ráðstefnu þar, þar sem bandalag nýrra evrópskra lýðræðisríkja kæmi saman og gerði upp fortíðina. Segja má að Bush hafi sjaldnar verið betur tekið á erlendum vettvangi á ferli sínum en í þessari för til Georgíu.

Paul Martin

Verulega er nú farið að syrta í álinn fyrir Paul Martin forsætisráðherra Kanada, og minnihlutastjórn hans. Vofir nú yfir henni vantrauststillaga stjórnarandstöðunnar í kjölfar þess að upplýst var um spillingu sem upplýst var í Frjálslynda flokknum, flokki Martin, sem stjórnað hefur landinu allt frá árinu 1993. Peningaþvætti og fjárspilling er meðal þeirra þátta sem Frjálslyndi flokkurinn hefur verið sakaður um. Martin hét því nýlega í sjónvarpsávarpi að allir í flokknum, einnig hann, myndu gangast undir rannsókn. Almenningur í Kanada virðist hafa misst alla trú á forystu flokksins og þeir sem hafa trúað honum, þrátt fyrir umræðuna, hafa misst trúna á forystu Martin, eftir að sannanir voru nýlega afhjúpaðar um tengsl flokksins vegna spillingarmálanna. Martin er sérlega tengdur málinu enda var hann fjármálaráðherra þegar spillingin á að hafa átt sér stað árið 2002. Í kosningunum í fyrra munaði hársbreidd að stjórnin félli en Martin hefur ríkt síðan í minnihlutastjórn, sem hefur verið varin vantrausti af smærri flokkum. Nú er staðan orðin þannig að þeir eru orðnir tvístígandi og stjórnin riðar til falls. Skv. könnunum er stjórnin með sögulegt lágmarksfylgi og persónufylgi Martin er hrunið. Hann reynir því allt nú til að forðast kosningar, en við blasir að ef vantraust verði lagt fram falli stjórnin, enda ekki með meirihluta.

Gregory Peck í To Kill a Mockingbird

Í gærkvöldi var góður fundur hjá okkur um jafnréttismál og farið einnig yfir forvarnar- og fjölskyldumál. Góður og gagnlegur fundur og fínt spjall. Er heim kom á ellefta tímanum horfði ég, enn einu sinni, á kvikmyndina To Kill a Mockingbird. Enn í dag hrífur leikarinn Gregory Peck áhorfendur í óskarsverðlaunahlutverki sínu sem lögmaðurinn Atticus Finch í þessu meistaraverki frá árinu 1962. Þetta er glæsilega sögð saga um hugrekki, hugsjón og persónulega sannfæringu lögmanns sem tekur að sér málsvörn blökkumanns sem ákærður er fyrir að hafa misþyrmt hvítri konu í smábæ í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Í myndinni, sem byggð er á verðlaunaskáldsögu Harpers Lee frá árinu 1960, leikur Brock Peters, verkamanninn Tom Robinson, hinn meinta glæpamann. Í fyrstu lítur út fyrir að málsvörn hans sé með öllu vonlaus enda eru fordómar samfélagsins réttlætinu yfirsterkara. En Atticus trúir statt og stöðugt á sakleysi skjólstæðings síns og er tilbúinn að leggja allt í sölurnar til að sanna mál sitt um leið og hann þarf að vernda fjölskyldu sína fyrir andstæðingum sínum. Háklassískt meistaraverk - heilsteypt saga um mannréttindi, lífsvirðingu og síðast en ekki síst réttlæti.

Saga dagsins
1940 Hernámsdagurinn - Bretar hernema Ísland. Mest voru um 25.000 breskir hermenn hérlendis - Bandaríkjamenn tóku ári síðar við hlutverki Breta og hafa allt frá því séð um varnarhlutverk landsins
1940 Sir Winston Churchill tekur við embætti sem forsætisráðherra Bretlands - hann leiddi Breta í gegnum seinni heimsstyrjöldina en féll af valdastóli 1945. Varð aftur forsætisráðherra á tímabilinu 1951-1955 er hann hætti þátttöku í stjórnmálum, þá áttræður að aldri. Churchill lést í janúar 1965
1981 François Mitterrand kjörinn forseti Frakklands. Hann sigraði Valéry Giscard d'Estaing sitjandi forseta, í kosningum. Mitterrand sat á forsetastóli í 14 ár. Hann lést úr krabbameini í janúar 1996
1994 Nelson Mandela verður forseti S-Afríku - stjórn Afríska þjóðarráðsins tók þá einnig við völdum. Mandela sat á forsetastóli í S-Afríku allt til ársins 1999. Eftirmaður hans á valdastóli var Thabo Mbeki
2000 Haraldur Örn Ólafsson nær fyrstur Íslendinga á Norðurpólinn - kl. var 21:28 að kvöldi þegar Haraldur hringdi heim til Íslands til að tilkynna að hann hefði náð á leiðarenda. Fyrstur ræddi Davíð Oddsson þáv. forsætisráðherra, við Harald. Fyrstu orð Haraldar í samtalinu: Ég er á toppi tilverunnar!

Snjallyrðið
A politician needs the ability to foretell what is going to happen tomorrow, next week, next month, and next year. And to have the ability afterwards to explain why it didn't happen.
Sir Winston Churchill forsætisráðherra Bretlands (1874-1965)