Í sunnudagspistli í dag fjalla ég um þrjú fréttamál vikunnar:
- í fyrsta lagi fjalla ég um stöðuna í breskum stjórnmálum eftir sögulegan kosningasigur Verkamannaflokksins á fimmtudag. Segja má að kosningasigurinn hafi komið til þrátt fyrir tilvist Tony Blair en ekki vegna hans eins og í fyrri tveim kosningum. Úrslit kosninganna leiða til breytinga, bæði hvað varðar forystu flokksins og ásýnd hans á næstunni. Með þrengri aðstöðu Blair til að stjórna landinu í ljósi naumari meirihluta í þinginu og þess að vinstrihlið flokksins hafi meiri völd til að setja hann í spennitreyju í erfiðum málum blasir við að vinstrihliðin verði meira áberandi á Verkamannaflokknum næstu árin, seinustu ár Blair á valdastóli. Það er ljóst að sá sem leiðir Verkamannaflokkinn á þessu kjörtímabili verður að vera maður málamiðlana, geta sætt ólík sjónarmið og farið bil beggja í bæði stefnumótun og stjórnmálaforystu. Þessa týpu sjáum við klárlega í fjármálaráðherranum Gordon Brown. Ekki er Blair við fyrstu sýn þessi týpa sem getur haldið af krafti saman um ólíkar hliðar þingflokks sem hefur bæði naumari þingmeirihluta og er margbrotinn. Nú, í fyrsta skipti, í átta ára valdatíð þessa flokks reynir á hvernig hann geti tekist á við innri ólgu.
- í öðru lagi fjalla ég um sérsniðna samgönguáætlun Gunnars Birgissonar alþingismanns, sem hann hefur nú lagt fram á Alþingi. Lítur hún út sem sólóleikur að sunnan í augum okkar úti á landi. Það er mikið umhugsunarefni að maður sem tekur um næstu mánaðarmót við bæjarstjórastarfinu í Kópavogi skuli líta á samkomulag, sem gert var á milli ríkisins og sveitarfélaganna við utanverðan Eyjafjörð árið 2003, hvorki vera pappírsins virði né skipta máli að neinu leyti. Ég leyfi mér að efast um að hann eigi marga stuðningsmenn í röðum sveitarstjórnarmanna í þessu máli. Hvernig sem ég lít á málið get ég ekki séð annað en að þetta mál allt snerti samskipti ríkis og sveitarfélaga. Það er algjörlega á hreinu. Ég hef áður lýst yfir andstöðu við hugmyndir Gunnars í þessa átt og hika ekki við, nú þegar tillagan er komin fram og hefur verið kynnt af honum í fjölmiðlum seinustu daga, að ítreka fyrri afstöðu og það af krafti.
- í þriðja lagi fjalla ég um niðurstöður í hugmyndasamkeppninni Akureyri í öndvegi sem voru kynntar við hátíðlega athöfn í gær. Það er mat mitt að íbúaþingið hér á Akureyri, þann 18. september 2004, sem varð upphafspunktur þessa verkefnis, hafi verið mjög þarft og leitt af sér heilsteypt og gott ferli fyrir okkur öll hér í bænum. Marka niðurstöður hugmyndasamkeppninnar farsælan grunn að því að það að skapa draumamiðbæinn sem við viljum fá. Módelið að honum má í raun finna í öllum hugmyndunum sem voru verðlaunaðar. Með því að spinna saman kosti allra tillagnanna erum við komin með draumamódelið okkar að glæsilegum miðbæ.
Eftir að hafa leitt Verkamannaflokkinn til sigurs í bresku þingkosningunum á fimmtudag og tryggt sér forystu í ríkisstjórn landsins þriðja kjörtímabilið í röð fór Tony Blair forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Verkamannaflokksins, að morgni föstudags á fund Elísabetar II Englandsdrottningar, og þáði umboð hennar til að mynda ríkisstjórn í landinu. Að fundi þeirra loknum ávarpaði Blair fréttamenn við embættisbústað sinn að Downingstræti 10. Í ræðu sinni við það tilefni sagðist hann hafa hlustað á bresku þjóðina og dregið lærdóm af úrslitum þingkosninganna, sem leiddu til þess að meirihluti flokksins rýrnaði mjög verulega. Sagði hann verkefni framundan markast af mikilvægi þess að bregðast við kröfum bresku þjóðarinnar um áframhaldandi efnahagslegan stöðugleika, bætt menntakerfi, bætta heilbrigðisþjónustu og aðra opinbera þjónustu. Svaraði hann ekki spurningum fréttamanna en sat fyrir ásamt fjölskyldu sinni við myndatöku fyrir utan embættisbústaðinn, en sama dag fagnaði hann 52 ára afmæli sínu. Síðdegis á föstudag stokkaði hann svo upp stjórn sína. Litlar breytingar eru á meginráðherraskipan en athygli vekur að David Blunkett, sem neyddist til þess að segja af sér embætti innanríkisráðherra í desember í fyrra vegna hneykslismáls, snýr aftur í stjórnina sem atvinnu- og lífeyrismálaráðherra. Þá verður John Reid varnarmálaráðherra í stað Geoff Hoon sem er lækkaður í tign og verður forseti breska þingsins.
Michael Howard boðaði á föstudag afsögn sína sem leiðtogi breska Íhaldsflokksins. Sagðist hann vera of gamall til að leiða flokkinn í næstu þingkosningum og telja mikilvægt að fram færi leiðtogakjör fyrr en síðar svo eftirmaður hans geti undirbúið flokkinn fyrir þær kosningar. Sagðist hann myndu sitja í leiðtogastólnum þar til flokkurinn hefur ákveðið hvenær og hvernig nýr leiðtogi verði kjörinn. Nefndi hann þar mikilvægi þess að fyrirkomulag leiðtogavalsins yrði breytt, en það hefur vakið deilur seinustu ár. Að mínu mati hefur Howard staðið sig vel í því verkefni að sameina flokkinn til verka. Hann er eins og ég sagði í umfjöllun minni um kosningarnar á föstudag samhentari nú en lengi og menn eru sameinaðir í að vinna saman sem ein heild. Hinsvegar vantar verulega á að hugmyndafræðilega heildin sé heil og menn hafa helst misreiknað sig í því að hafa ekki öfluga framtíðarsýn að boða. Það verður verkefni næsta leiðtoga að taka við keflinu og halda verkinu áfram. En þáttur Howard í þessu verkefni að efla flokkinn til framtíðar og verkefna á komandi árum hefur verið ómetanlegt. En það verður annars leiðtoga að leiða ferlið vonandi á sigurbraut í næstu kosningum. Vonandi verða íhaldsmenn heppnir í vali á skipstjóra, þeim eina rétta sem þeir verða að öðlast til að geta öðlast fyrri mátt og styrk.
Í dag eru 60 ár liðin frá því að herir Þjóðverja gáfust formlega upp og þriðja ríkið samdi frið við Bandamenn. Stríðinu í Evrópu var lokið - að baki var sex ára langt stríð sem hafði áhrif á alla heimsbyggðina og markaði sár í líf margra sem aldrei gréru að fullu. Löngum hildarleik var lokið og fögnuður var mikill um allan heim á þessum degi. Íslendingar fögnuðu þessu eins og allir aðrir, enda höfðu landmenn mátt þola nokkrar þrengingar og fjöldi íslenskra sjómanna hafði farist í átökunum árin á undan. Á friðardaginn flutti Sveinn Björnsson forseti Íslands, ávarp frá svölum Alþingishússins. Við sama tilefni, á sama stað, flutti Ólafur Thors forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, eftirminnilega ræðu, sem varð ein af minnisstæðustu ræðum stjórnmálaferils hans og er enn í minnum höfð fyrir glæsilega túlkun Ólafs. Í Dómkirkjunni var haldin hátíðarguðþjónusta þar sem Sigurgeir Sigurðsson biskup, (faðir hr. Péturs Sigurgeirssonar, síðar biskups) flutti predikun. Lúðrar skipa voru þeyttir og í gleðivímu slepptu margir fram af sér beislinu, ekki síst breskir sjóliðar sem voru í höfn. Dagsins var því einnig minnst vegna óláta sem brutust út í Reykjavík. Til áfloga kom milli hermanna og bæjarbúa og þurfti lögreglan að grípa í taumana. Um allan heim í dag er þessara tímamóta sem áttu sér stað á þessum degi fyrir sex áratugum minnst og hetjanna sem féllu í valinn í þessum grimmdarlega hildarleik er minnst með virðingu.
Ég fór austur um síðustu helgi. Þá var mér færður að gjöf geisladiskur með lögum eftir móðurbróður minn, Þorvald Friðriksson á Eskifirði. Valdi frændi var alla tíð mjög virkur í félagsmálum á Eskifirði, rétt eins og öll börn hans, og einkum þeim þáttum sem tengdust tónlistinni. 13 ára gamall fór hann að leika á harmonikku og gerði það til æviloka, en hann lést í október 1996. Valdi spilaði mjög oft á dansleikjum víða um Austurland, allt frá Álftafirði til Norðfjarðar. Hann var alltaf tilbúinn að leggja lið og draga fram nikkuna þegar á þurfti að halda, hvort sem var á böllum eða við önnur tækifæri. Valdi var einnig góður söngmaður, hann samdi fjölmörg lög, bæði dans- og sönglög. Öll eiga lögin það sameiginlegt að hitta beint í hjartastað. Var við útför hans frumflutt síðasta lagið sem hann gerði, Englar drottins vaki. Var mjög mikilvægt að gefa út diskinn til að skemmta fólki með góðum lögum Valda og til að varðveita þau. Frændi minn, Ellert Borgar Þorvaldsson skólastjóri í Reykjavík og sonur Valda, syngur öll lögin á disknum. Diskurinn er þó fyrst og fremst gefinn út til að minnast heiðursmannsins Valda á Eskifirði. Það er við hæfi að hans sé minnst með því að tryggja að falleg lög hans verði ávallt aðgengileg.
Saga dagsins
1860 Kötlugos hófst af krafti - næst gaus 58 árum síðar, árið 1918. Ekki hefur gosið frá þeim tíma
1894 Eimskipið Á. Ásgeirsson kom til landsins - varð fyrsta vélknúna skipið er var í eigu Íslendinga
1945 Sex ára langri heimsstyrjöld lýkur - friði var fagnað mjög um allan heim með alheimsfriðardegi
1978 David Berkowitz játar að hafa myrt sex manns í New York sumarið 1977 - meðan að hann lék lausum hala gekk hann undir nafninu Son of Sam. Var hann síðar dæmdur í sexfalt lífstíðarfangelsi
1984 Sovétríkin tilkynnir að það muni ekki taka þátt í Ólympíuleikum í Los Angeles í Bandaríkjunum
Snjallyrðið
Frá því sögur hófust hefur ekki nokkur fregn fært jafnmörgum mönnum í senn jafnmikla gleði sem þessi fagnarboðskapur er í einni svipan hefur flogið um allar byggðir víðrar veraldar. Friður í Evrópu! Ekkert nema friður á jörðu var mikilvægara.
Ólafur Thors forsætisráðherra (1892-1964) - ræða á friðardeginum 1945
<< Heim