Eldhúsdagsumræður voru á Alþingi í gærkvöldi. Vegna ferðar minnar til Austurlands í dag og á morgun gefst mér ekki tími fyrr en að því loknu að fjalla um umræðurnar. Í umræðunum flutti Arnbjörg Sveinsdóttir varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins hér í Norðausturkjördæmi, öfluga og góða ræðu. Ég birti ræðu Arnbjargar á heimasíðu minni í dag og ennfremur hér. Ég mun fjalla ítarlega um umræðurnar er heim kemur frá Egilsstöðum.
Jákvæð forysta - kraftmikil verkefni
"Í lýðræðislegu samfélagi skiptum við okkur í stjórnmálaflokka. Við skiptum okkur í stjórnmálaflokka m.a. með tilliti til skattamála. Þegar við horfum til starfa þessa vetrar hljótum við að vera sammála um það að þar rísa hæst þær ákvarðanir sem teknar voru um skattalækkanir. Þau verk eru meðal þess ánægjulegasta sem ég hef tekið þátt í. Hér er um hápólitískt mál að ræða, skattalækkanir eru það sem við sjálfstæðismenn höfum gert að stefnu okkar. Þegar sterk forusta Sjálfstæðisflokksins hefur leitt til þess að efnahagsmál og ríkisfjármál eru með þeim hætti sem nú er, er lag til að lækka skatta.
Við höfum stækkað þjóðarkökuna svo að svigrúm var til að ráðast í það verk. Tekjuskattur og erfðafjárskattur lækkaður, sérstakur tekjuskattur og eignarskattur aflagður, jaðarskattar þar með stórlækkaðir. Hækkun barnabóta, hækkun persónuafsláttar og skattleysismarka. Nefnd stjórnarflokka vinnur að lækkun matarskatts. Hvaða afleiðingar hafa þessar ákvarðanir fyrir íbúa landsins? Að meðaltali 4,5% hækkun ráðstöfunartekna allra heimila í landinu, reyndar mun meiri hækkun hjá barnafólki og fólki með lágar eða millitekjur, allt upp í 12% hækkun ráðstöfunartekna.
Hér er einnig um mikinn ávinning að ræða hjá eldra fólki sem bar þungann af öllum eignarskattinum. Nú er eignarskatturinn endanlega lagður af og kemur vonandi aldrei aftur. Hér er enn fremur um mikinn ávinning að ræða hjá námsmönnum. Endurgreiðsluhlutfall námslána frá LÍN var lækkað um 1% sem hefur mikil áhrif á hag námsmanna. Allt eru þetta heildstæðar aðgerðir til að bæta hag almennings í landinu. Þetta er hægt að gera án þess að gengið sé á þjónustu velferðarþjóðfélags okkar.
Takið eftir: Hrakspár stjórnarandstöðunnar hafa ekki gengið eftir, hrakspár um að ríkissjóður og efnahagslífið þyldu ekki þessar ráðstafanir, þvert á móti. Að undanförnu hefur verið unnið að verkefni um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem felur í sér verkefnaflutning til sveitarfélaga, sameiningu sveitarfélaga og skoðun á tekjum þeirra. Tekjustofnanefnd skilaði af sér tillögum sem samþykktar hafa verið hjá ríkisstjórn og stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Tillögurnar gera ráð fyrir 9,5 milljarða ávinningi fyrir sveitarfélögin í landinu á næstu þremur árum og 1,5 milljarða varanlegum ávinningi. Var í tillögunum sérstaklega litið til þeirra sveitarfélaga sem veikar standa.
Hér er um mikilvægt mál að ræða og mun hafa grundvallarþýðingu fyrir sveitarstjórnarstigið í landinu. Þegar horft er að öðru leyti til byggðamála má segja að flestar þær ákvarðanir sem teknar eru af landstjórninni hafi áhrif á landsbyggðina. Svoleiðis á það líka að vera. Við sjáum stórstígar breytingar í samfélaginu á Austurlandi í kjölfar ákvarðana og framkvæmda við virkjun og stóriðju á Austurlandi, ekki einungis við framkvæmdir tengdar virkjun eða stóriðju, heldur einnig framkvæmdir og uppbyggingu í skólakerfinu, heilsugæslunni, samgöngum og ótal fleiru. Því hljótum við öll að fagna, hver svo sem afstaða okkar er að öðru leyti til framkvæmda af þessu tagi.
Á þessu ári verða tekin í notkun jarðgöng á Austurlandi sem gera Miðausturland að sterku atvinnusvæði. Fáskrúðsfjarðargöng munu eiga eftir að hafa grundvallarþýðingu í byggðaþróun á Austurlandi. Jarðgöng í gegnum Almannaskarð er mikið framfaraspor í samgöngumálum okkar Íslendinga. Erfiður farartálmi er horfinn af hringveginum og einnig er ljóst að af umhverfisástæðum hefði aldrei náðst sátt um að fara aðra leið.
Næst verður ráðist í Héðinsfjarðargöng sem boðin verða út í haust. Þau göng hafa verið dregin inn í umræðuna að undanförnu með undarlegum hætti. Héðinsfjarðargöngum er ætlað að styrkja byggð við utanverðan Eyjafjörð. Einungis 10 mínútna akstur verður á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Göngin munu hafa þá grundvallarþýðingu að atvinnusvæði verður sameinað. Þjónusta ýmiss konar sem rekin er á báðum stöðum mun verða sameinuð og þar með efld. Sparnaður verður í fjárfestingum, t.d. í skóla- og íþróttamannvirkjum.
Það er auðvelt í pólitísku dægurþrasi að gera eina framkvæmd að skotspæni, og íbúa þeirra svæða sem fjærst liggja höfuðborginni en það er langt frá því að vera stórmannlegt. Athafnasamir sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi hafa unnið að hugmyndum um Vaðlaheiðargöng. Ekki munu líða mörg ár þangað til við sjáum til upphafs framkvæmda þar. Ýmis verkefni bíða einnig á Vestfjörðum og á Austfjörðum. Ég fjölyrði hér um jarðgangaframkvæmdir sökum þess að slíkar framkvæmdir hafa grundvallarþýðingu fyrir þær byggðir sem næst liggja en ekki síður fyrir samgöngukerfið í landinu í heild.
Framfarir fylgja framkvæmdum. Við Íslendingar hljótum alltaf að vera á verði um það hvernig við eigum að nýta auðlindir okkar. Það liggur fyrir að á Norðurlandi eru miklar orkuauðlindir sem á næstu árum verða teknar ákvarðanir um hvernig eigi að nýta. Það þýðir að það er eins gott að á Alþingi verði stjórnarmeirihluti sem getur tekið ákvarðanir í því efni. Stjórnarandstaðan hér á þingi, vinstri vængurinn, stjórnarandstaða jafnsundurþykk sjálfri sér og raun ber vitni, er ekki það afl sem gæti staðið hér í framfaramálum af því tagi.
Hagur fjölskyldna og fyrirtækja hefur verið bestur þegar Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið í stafni - svo verður áfram."
Þingstörfum mun ljúka í dag. Í dag var samgönguáætlun samgönguráðherrans samþykkt og breytingartillögum Gunnars Birgissonar við hana var vísað frá. Það hefur sannað sig vel og innilega seinustu daga að Gunnar var landlaus í þessu máli. Það gat enginn skrifað upp á tillögur hans né stutt þær áfram, ef frá er talin vinkona hans úr Kópavogi úr Samfylkingunni. Það er ánægjuefni fyrir okkur að sólómennska Gunnars náði ekki fram að ganga og menn geta litið í aðrar áttir. En eftir stendur vissulega enn í mínum huga hvernig Gunnar hefur komið fram. Segja má að sú framkoma verði geymd en ekki gleymd okkur hér í Norðausturkjördæmi.
Saga dagsins
1921 Vökulögin samþykkt á þingi - höfðu gríðarleg áhrif til hins betra fyrir sjómenn
1955 Kópavogur fær kaupstaðarréttindi - þá bjuggu þar 3.000 manns en nú tæp 30.000
1971 The Daily Sketch, elsta dagblað Bretlands, stofnað 1909, kemur út hinsta sinni
1981 Reggae söngvarinn heimsfrægi Bob Marley, deyr úr krabbameini, 36 ára að aldri
1985 50 knattspyrnuáhugamenn láta lífið er eldur kviknar á leik í Bradford á Englandi
Snjallyrðið
The one thing sure about politics is that what goes up comes down and what goes down often comes up.
Richard Nixon forseti Bandaríkjanna (1913-1994)
<< Heim