Pælingar Stefáns Friðriks Stefánssonar

Honum er ekkert mannlegt óviðkomandi - frelsið er yndislegt!

12 maí 2005

Halldór Blöndal forseti AlþingisHeitast í umræðunni
Á tólfta tímanum í gærkvöldi las Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra, upp forsetabréf um að fundum Alþingis yrði frestað til loka septembermánuðar. Fram kom við starfslok þingsins að þessu sinni að 101 lög og 19 þingsályktunartillögur hafi verið samþykktar á þessum þingvetri, sem var hinn 131. í röðinni. Fjöldi afgreiddra mála er nokkru minni en venja er til, enda um lítið átakaþing að ræða í raun. Seinasta starfsdag þingsins voru mál á færibandi í gegnum þingið og mikill hraði var á afgreiðslu og umfjöllun um stórmál þingvorsins. Meðal þeirra mála sem voru samþykkt á síðasta fundi þingsins voru ný samkeppnislög og fjarskiptalög. Hraðinn var mikill undir lokin og var fjöldi mála afgreiddur með leifturhraða. Spyrja má sig að því hvort fyrirkomulag starfa þingsins sé ekki orðið úrelt. Að mínu mati á að lengja starfstíma þingsins. Það eigi að koma saman undir lok ágúst eða byrjun september og starfa fram í júní, hið minnsta. Segja má að núverandi starfskerfi þingsins sé mjög gamaldags og í takt við liðna tíma. Því á að mínu mati því að breyta og hafa þingið lengur að störfum og koma í veg fyrir svona flýtivinnslu á málum í gegnum þingferlið. Tel ég að breyta eigi vinnuferlinu fyrir lok þessa kjörtímabils og lengja því starfstímann.

Halldór Blöndal forseti Alþingis, stýrði sennilega sínum síðasta þingfundi í gærkvöldi. Flest bendir til þess að hann muni láta af forsetaembættinu við upphaf næsta þingvetrar, þann 1. október. Við þinglok í gærkvöldi færðu þingmenn, bæði stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðunnar, honum kveðjur og þingmenn risu úr sætum til heiðurs Halldóri áður en þinghaldi lauk. Halldór hefur setið á þingi samfellt frá árinu 1979 og er sá í þingflokki Sjálfstæðisflokksins sem lengst hefur setið á þingi og er elstur þeirra sem sitja á þingi. Segja má að Halldór hafi í raun verið tengdur þingstörfunum með einum eða öðrum hætti allt frá árinu 1961. Hans reynsla er því mjög mikil. Halldór var lengi þingfréttamaður, svo starfsmaður þingflokksins og síðar varaþingmaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hefur hann setið á þingi af hálfu flokksins í Norðurlandskjördæmi eystra 1979-2003 og frá þeim tíma fyrir hið nýja Norðausturkjördæmi. Halldór var landbúnaðarráðherra 1991-1995 og samgönguráðherra 1991-1999 er hann varð forseti þingsins. Hefur Halldór stjórnað þinginu af krafti og unnið vel, bæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn í heild sinni og umbjóðendur sína í þeim kjördæmum sem hann hefur starfað í. En samkvæmt ákvörðun þingflokks Sjálfstæðisflokksins frá maímánuði 2003 er stefnt að því að Sólveig Pétursdóttir taki við forsetaembættinu í haust. Fer ég ekki leynt með þá skoðun mína að ég tel það ekki góða ákvörðun að hann láti af forsetaembættinu í haust. Ég hefði talið mestan sóma að því fyrir þingið og flokkinn auðvitað að hann hefði setið til loka kjörtímabilsins. Er í raun ekki endanlega ljóst hvort kemur til forsetaskiptanna og tel ég réttast að af þeim verði ekki.

Gunnar Örn ÖrlygssonGunnar Örn Örlygsson alþingismaður, sagði sig í gær úr Frjálslynda flokknum og vék ennfremur úr þingflokki hans. Í gærkvöldi var formlega tilkynnt að hann myndi ganga í þingflokk Sjálfstæðisflokksins og samþykkti þingflokkurinn beiðni hans um að ganga í þingflokkinn og honum fagnað með lófaklappi þingmanna á fundinum er Gunnar sat þar sinn fyrsta þingflokksfund. Í dag mun Gunnar formlega ganga í flokkinn og hefja störf fyrir hann. Gunnar Örn var áður í Sjálfstæðisflokknum en gekk í Frjálslynda flokkinn í aðdraganda þingkosninganna 2003 og leiddi lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Náði hann kjöri í kosningunum og hefur setið þar af hálfu flokksins til þessara þáttaskila hjá honum. Eins og vel hefur komið fram seinustu vikur og mánuði hefur samstarf Gunnars við forystumenn flokks síns jafnt og þétt versnað og honum hefur mislíkað vinstriáherslur Frjálslynda flokksins. Gaf hann kost á sér til varaformennsku á seinasta landsþingi flokksins og hefur eftir tap þar blasað við að leiðir myndu skilja með honum og flokki hans.

Ég fagna því mjög að Gunnar Örn hefur gengið til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Það er auðvitað hans fyrir hvaða flokk hann vill vinna. Ef hann vill vinna í takt við stefnu flokksins og þær hugsjónir sem hann stendur fyrir fagna ég nýjum liðsmanni. Það er ekkert nema jákvætt. Gunnar er auðvitað ekki á þingi í umboði kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Það var Frjálslyndi flokkurinn sem bauð hann fram á sínum tíma og lýsti yfir stuðningi við hann og fortíð hans og allt sem því tengdi og gerði það líka eftir kosningar. Ekki ætla ég að dæma verk hans fyrir aðra, nú er hann kominn í annan flokk vegna þess að hann telur sig greinilega ósáttan við megingrunn þess flokks sem hann var í. Ég þekki ekki alla sögu hans í Frjálslynda flokknum og hann verður að eiga við sig hvernig hann skilur við fyrrum samherja þar, en ég skil vel að hann vilji ekki vinna þar lengur. En það verður svo að ráðast hvernig hann vinnur á nýjum vettvangi innan þingsins og hvernig hann vinnur fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Hinsvegar er það svo að Gunnar verður ef hann ætlar í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn að leita umboðs flokksmanna og vinna í þeirra nafni. En fyrir það fyrsta er það svo að ég fagna öllum sem vilja vinna fyrir Sjálfstæðisflokkinn og vilja vinna á grunni sjálfstæðisstefnunnar. Ég hef enga trú á öðru en að samstarf þingflokks Sjálfstæðisflokksins og Gunnars muni ganga vel.

Eldhúsdagur á Alþingi

Alþingi Íslendinga

Þingstörfum er lokið á Alþingi Íslendinga á þessu löggjafarþingi. Mál hafa verið á færibandi í gegnum þingið og mikill hraði verið á afgreiðslu og umfjöllun um stórmál þingvorsins. Á þriðjudagskvöld var komið að hinum árlegu eldhúsdagsumræðum í þinginu. Þar gerðu þingmenn upp veturinn og þau málefni sem hæst standa. Segja má að umræðurnar hafi lítið nýtt boðað í umræðuna og menn voru að mestu í þeim meginpunktum sem verið hafa í umræðunni. Engar kosningar eru framundan og því er rólegt yfir stjórnmálaheiminum og stefnir í rólegt pólitískt sumar, allavega miðað við hið seinasta. Mikið var rætt um þau tímamót að sex áratugir eru frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar og margir fjölluðu um samgöngumál í ljósi kostulegrar sólóbreytingartillögu eins þingmanns stjórnarflokkanna. Munurinn á efnistökum stjórnarsinna og stjórnarandstæðinga voru sem dag og nótt. Stjórnarliðum varð tíðrætt um góðærið í samfélaginu, stækkandi þjóðarköku í eldhúsi Íslendinga og mikla velsæld almennings en stjórnarandstaðan klifaði á að hér væri misskipting gæða, algjört ráðherraræði ríkjandi, skortur á mannréttindum. Það var því mislit umfjöllunin í umræðunni og menn ekki alveg sammála um meginpunkta tilverunnar.

Fyrstur í umræðunum talaði Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar. Meginstefið hans var að ríkisstjórnin færi illa með völd sín. Hann fullyrti að stofnunum væri lokað vegna geðþóttaákvarðana ráðherra og forystumanna í stjórnmálum og ráðherraræði væri þar ríkjandi yfir. Nefndi hann í þessu samhengi Þjóðhagsstofnun, Mannréttindaskrifstofuna og sagði að nú stæði yfir aðför að Samkeppnisstofnun. Fór hann mikinn er hann fjallaði um stjórnarflokkanna og greinilegt að formannsslagurinn í Samfylkingunni var Össuri ofarlega í huga er hann talaði af miklum innlifunarkrafti. Reyndar má segja að umfjöllun Össurar um ráðherraræði og það að lagðar séu niður stofnanir hljómi nokkuð ankanalega er litið er á það sem Siv Friðleifsdóttir nefndi í umræðunni er Veiðistjóraembættið var flutt hingað norður til Akureyrar í umhverfisráðherratíð Össurar. Ganga þar sögur um að ráðherraræði Össurar hafi flutt stofnunina norður og verið um það rituð löng grein í Moggann fyrir skemmstu. Ekki ætla ég að dæma þau skrif en þau koma sér ekki vel í því samhengi sem Össur nefnir í ræðu sinni.

Alþingi

Að mínu mati fór Bjarni Benediktsson alveg á kostum í ræðu sinni síðar um kvöldið. Þar talaði hann að mestu blaðlaust og af innlifun um málefnin sem skipta máli og kom með ferska og góða innsýn í hugsjónapólitík þá sem Sjálfstæðisflokkurinn á að leggja enn meiri rækt við. Hafði ég mjög gaman af því að hlusta á Bjarna og þann boðskap sem hann hafði fram að færa. Það er varla vafi á því í mínum huga að Bjarni hefur styrkst mjög allt frá því að hann kom inn á þing fyrir tveim árum. Þá voru deilur um að setja hann í fimmta sæti í kraganum og ekki allir á eitt sáttir. Sú gagnrýni hefur þagnað og eftir stendur að Bjarni hefur eflst mjög. Hann sannaði sig í fjölmiðlamálinu í fyrra og hefur verið öflugur í störfum sínum. Segja má að hann hafi vaxið mjög af verkum sínum og forystu í mikilvægum málum. Ræða hans í gær var kjarnmikil, bæði í flutningi sem innihaldi. Þar kom fram viss meginpunktur í stefnumótun sem ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn muni nota vel á næstu árum í að tjá hægristefnu til komandi ára. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, flutti ennfremur mjög góða ræðu og fór yfir góða og gagnlega punkta í henni.

Skrautlegt var að hlusta á Ögmund Jónasson. Svartagallsglamrið var þar algjörlega allsráðandi. Það var helst á honum að skilja að hér væri allt að fara fjandans til og eymdin væri máluð á alla veggi. Það er með algjörum ólíkindum að hlusta á svona Svarta Pétra tala út og suður um málin með svört gleraugu á augunum, sem ekkert sést út úr. Var hann á sama grunni í umræðunum og í eldhúsdagsumræðunum fyrir ári. Þá sem nú kepptist hann og aðrir þingmenn flokksins við að níða niður allt það góða sem komið hefur með væntanlegum virkjunarframkvæmdum við Kárahnjúka með endalausu svartagallsrausi. Ögmundur sá reyndar ástæðu fyrir ári til að hvetja fólk til að reisa álverinu og virkjuninni níðstangir sem víðast og herða á neikvæðum ummælum gegn framkvæmdunum og uppbyggingunni fyrir austan. Það er merkilegt að einn þingmannanna sem talaði í umræðunum er málsvari kjördæmis Austfirðinga, en málflutningurinn kemur ekki á óvart. Hann hefur oft heyrst vel en undarlegt er að hert sé á honum þegar jákvæð staða mála blasir við. Einu lífslexíur vinstri grænna eru úr sér gengnar kommaþulur sem engir aðrir vilja kannast við í dag.

Alþingi

Í ræðu sinni fór Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, vel yfir stöðu mála og gerði gott grín að vinstri grænum. Hann sagðist hafa saknað eins orðs í ræðu Ögmundar er hann vék talinu að seinni heimsstyrjöldinni - hann hefði ekki heyrt hann nota orðið Stalín þegar saga stríðsins var rakin af Ögmundi. Góður punktur hjá Guðna, enda hefur frægðarsól Stalíns fölnað hratt seinustu hálfu öldina. Guðni sagði vinstri græna tala eins og álfa út úr hól, sagðist hann halda að þeir gerðu það að mestu að gamni sínu. Sagði Guðni að þjóðarkakan í eldhúsi Íslendinga hefði stækkað á þeim áratug sem ríkisstjórn stjórnarflokkanna hefur setið. Guðni taldi Framsóknarflokkinn ennfremur þurft að þola ómaklega gagnrýni, slægð, róg og illmælgi í fjölmiðlum og frá andstæðingum sínum. Guðni mælti af krafti og gerði gott grín að andstæðingunum og sagði með hæðnisglott á vör að flokkur sinn væri enn með sitt nafn og kennitölu og hefði ekki þurft að fleygja hvoru tveggja í skyni vinsældastjórnmála. Engum blandaðist hugur hvert þessu var beint. Arnbjörg Sveinsdóttir flutti góða ræðu, sem ég hef áður fjallað um hér á vefnum og er hún nú aðgengileg á heimasíðu minni.

Segja má að þessar umræður hafi verið líflausar að mestu og ekki rismiklar í eðli sínu. En það er vissulega alltaf gaman af góðum pólitískum skoðanaskiptum og heyra áherslumuninn á ræðumönnum. Að þessu sinni var hann mjög mikill - annaðhvort væri allt á réttri leið eða allt að fara hins verra til. Það var ekkert millibil. Eflaust eru tvær sýnir sem blasa við ræðumönnum, en í mínum huga leikur enginn vafi á að þjóðfélagið stefnir rétta átt og við höfum það mjög gott. Staða ríkisins er góð og það er góðæri í samfélaginu. Sú svarta mynd sem stjórnarandstaðan málaði í umræðunum er ekki raunsæ er á heildarmyndina er litið. Vissulega er alltaf svo að eymdin og volæðið er mikil þegar fólk er í stjórnarandstöðu en hefur aðra mynd af tilverunni sem það vill skapa á eigin forsendum. En vissulega hefur löng seta í stjórnarandstöðu undarleg áhrif, jafnvel á hið mætasta fólk. En við getum með sanni sagt að við séum á réttri leið. Myndin er ekki eins svört og sumir vilja vera láta. En eldhúsdagsumræðan var alveg ágæt og fínt að fylgjast með henni, venju samkvæmt.

Saga dagsins
1882 Íslenskar konur fengu ótvíræðan en þó í raun takmarkaðan kosningarétt til sveitarstjórnakjörs
1935 Golf var leikið í fyrsta skipti á Íslandi er sex holu golfvöllur var vígður í Laugardal í Reykjavík
1937 George VI Englandskonungur krýndur - hann sat á valdastóli í tæp sextán ár, árin 1936-1952
1949 Sovétríkin aflétta að fullu vega- og flugbanni sem gilt hafði til Berlínar - það hafði gilt í rúmt ár
1994 John Smith leiðtogi breska Verkamannaflokksins, deyr úr hjartaslagi í London, 55 ára að aldri - hann hafði leitt flokkinn í 2 ár. Fráfall hans kom snöggt og var reiðarslag fyrir flokkinn og þjóðina, en búist hafði verið við því að hann myndi leiða kratana til sigurs í næstu kosningum og talið öruggt að hann yrði næsti forsætisráðherra. Eftirmaður hans varð Tony Blair og leiddi hann flokkinn til sigurs

Snjallyrðið
True love never dies with the death of those we love if the love is really true. It lives beyond the existence of live. It never slips really away. The matter of the heart does not fade away with the passing.
Mahatma Gandhi frelsishetja Indverja (1869-1948)